Aflýst ! Baula um páskana á fimmtudag, skírdag = veisla !
Fri, Apr 07
|#Föstudagsfjallgöngur
Einstök ganga á eitt sérstakasta fjall landsins sem allir verða að upplifa ! Einföld leið en heilmikið brölt í grýttum brekkum sem gleymast aldrei þeim sem upplifa og toga suma alltaf aftur... en suma aldrei aftur !
Dagsetning og tími
Apr 07, 2023, 8:00 AM – 6:00 PM
#Föstudagsfjallgöngur, Baula, 311, Iceland
Nánari upplýsingar
Uppfært 5. apríl 2023 - AFLÝST VEGNA DRÆMRAR MÆTINGAR 5/4 KL. 16:00 !
Skráðir eru 4 manns: Agnar, Jaana, Linda, Þórkatla + Örn.
Nýjustu tilkynningar:
*Keðjubroddar, jöklabroddar og ísexi nauðsynlegur búnaður, mikil hlýindi og rigning síðustu daga gætu hafa minnkað mikið snjómagnið á Baulu og mýkt skaflana efst en þeir gætu vel verið harðir efst og því nauðsynlegt að taka jöklabroddana og ísexina með. Örn fer yfir notkun þessa búnaðar ef við þurfum að setja hann á okkur. Best að lesa hér til að skerpa á notkuninni og best er að nota þennan búnað nokkrum sinnum á hverju ári því þá verður hann manni tamur og auðveldur í notkun en broddar eru vel þeginn búnaður í gegnum harða skafla og þá skal ekki hræðast né hika við að nota. Við munum nota þá aftur á Botna-skyrtunnu, á Eystri Hnappi og hugsanlega fleiri ferðum á snævi þakin fjöll í vor áður en sumarið mætir: https://www.fjallgongur.is/vetrarfjallamennska
*Staðfest brottför út frá veðurspá, eina góða veðrið um páskana er á skírdag; logn, hlýtt og þurrt með örlítilli úrkomu undir hádegi í stuttan tíma og svo kemur mikil úrkoma og vaxandi vindur um 16 sem mun ríkja alla páskana, en þá erum við að lenda við bílana og leggja af stað heim. Mikill vindur og úrkoma er alla hina páskadagana.
*4/4: Veðurspáin er mjög slæm á föstudag og laugardag en mun betri á fimmtudag, skírdag og eins gæti sunnudagur, páskadagur komið til greina en minna að marka spána það langt fram í tímann. Það stefnir því í göngu á fimmtudag eins og staðan er núna á þriðjudegi, en við ætlum að meta veðurspána fram á miðvikudagsmorgun áður en við tökum ákvörðun og til vara eru þá hinir dagarnir ef betur rætist úr veðurspá... ekta páskar... eltingaleikur lmeð logandi ljósi að einum góðum veðurdegi alla fimm dagana :-) :-) :-)
*Stefnum á föstudaginn langa en allir dagar um páska eru til vara eftir veðurspá; skírdagur, laug, páskadagur og annar í páskum. Metum veðurspá fram á miðvikudagsmorgun eða lengur inn í páskana eftir því hvert spáin leiðir okkur.
*Enginn fb-viðburður er um þessa ferð, allar umræður fara fram á lokaða fb-hóp Toppfara en tilkynning um ferðina fer inn á fb-hópinn.
#Föstudagsfjallgöngur" og ef einhver utan Toppfara vill koma með sendum við viðkomandi allar tilkynningar fram að brottför.
Verð:
Kr. 7.000 kr. fyrir klúbbmeðlimi sem mættu í tindferð síðustu 2 mánuði eða ef bæði hjón/par/vinir mæta.
Kr. 10.000 kr. fyrir klúbbmeðlimi ef ofangreindur afsláttur gildir ekki.
Kr. 13.000 kr. fyrir gesti sem vilja prófa göngu með klúbbnum.
Greitt beint inn á reikning Toppfara ehf: 0114-26-58100. Kt: 581007-2210 eða með símgreiðslu á kreditkorti:
Örn í síma: 899-8185 og Bára í 867-4000 og tölvupóst orn-bokari(hjá)simnet.is eða baraket(hjá)simnet.is.
Mjög mikilvægt er að skrifa í skýringu hvaða ferð er verið að greiða, nóg að setja nokkra stafi í nafni fjallsins svo skiljist.
Skráning og skilmálar:
Skráning eingöngu gild með greiðslu. Þeir sem eiga inneign meldi það inn eða sendið okkur skilaboð / póst.
Athugið að við viljum helst alltaf endurgreiða við afboðun þó það sé með stuttum fyrirvara, en þó er ferð ekki endurgreidd við afboðun ef uppselt er í ferðina og fólki var vísað frá sem vildi skrá sig eða ef fáir voru skráðir og ferð hefði verið aflýst vegna ónógrar þátttöku.
Veðurspár:
Sjá www.vedur.is Skoðið staðaspár og veðurþáttaspár til að fá betri yfirsýn yfir vind, úrkomu og hita á svæðinu. Textaspá er réttari en myndaspá. www.belgingur.is er stundum nákvæmari. Sjá norska veðurspávefinn þar sem hægt er að skoða langtímaspá, helgarspá og klukkutímaspár, en taka þarf með í reikninginn að um fjallllendi er að ræða þar sem önnur lögmál gilda en á láglendi og oft er hæðartala á þessum vef röng.
Leiðsögn:
Örn (Bára er að vinna um páskana).
Brottför:
Kl. 8:00 á slaginu frá Össur, Grjóthálsi 5.
Heimkoma:
Um kl. 18 - 19:00
Aksturslengd:
Um 1,5 klst. Fólksbílafært.
Akstursleiðarlýsing:
Ekið um Vesturlandsveg, stutt stopp í Olís Borgarnesi og ekið áfram Vesturlandsveg inn að Norðurárdal þar sem beygt er til vinstri inn þjóðveg F60 í átt að Bröttubrekku en stuttu áður er bílum lagt og gengið af stað austan við Bjarnardalsá.
Hæð:
Um 947 m.
Hækkun:
Um 942 m miðað við x m upphafshæð en fer endanlega eftir leiðarvali, veðri, færð og hópi.
Göngulengd:
Um 9,5 - 10 km en fer endanlega eftir leiðarvali, veðri, færð og hópi. .
Göngutími:
Um 6,5 - 7 klst. en fer endanlega eftir leiðarvali, veðri, færð og hópi.
Gönguleiðin:
Gengið grýtta aflíðandi leið að fjallinu sem ekki er hægt að taka augun af og fljótlega þegar að fjallinu er komið hefst brölt í grýttum brekkum sem eru brattar en vel færar alla leið upp á tind. Grjótið getur verið laust í sér og á hreyfingu nema snjór eða frost bindi það saman. Ef snjór er í fjallinu eru jöklabroddar og ísexi nauðsynlegur búnaður, sjá þegar nær dregur ferð hvernig færið er og best að gera ráð fyrir þessum búnaði í þessa ferð þar sem snjór er oft efst í fjallinu fram á sumar.
Erfiðleikastig:
Um 3 af 6 eða fært öllum í ágætis gönguformi fyrir frekar stutta vegalengd en drjúga dagsgöngu með heilmiklu brölti í grýttum brekkum sem eiga varla sinn líka á Íslandi enda er Baula í algerum sérflokki hvað yfirferð og landslag varðar.
Búnaður:
Alltaf skal taka með sér vatns- og vindheldar buxur og jakka, hlýtt höfuðfat, ullar- og belgvettlinga, ullarföt innst, góða gönguskó með ökklastuðningi, kjarngott nesti og 1-2 L af vökva eftir vegalengd og tímalengd ferðar. Höfuðljós og keðjurbroddar eru nauðsynlegur búnaður allra að vetri til og aðstæður gætu krafist notkun jöklabúnaðar og ísaxar sem er nauðsynlegur búnaður allra sem vilja almennt ganga á fjöll að vetri til.
Tryggingar:
Þátttakendur eru ekki tryggðir í göngunum og er bent á tryggingarfélögin í þessu sambandi. Toppfarar ehf tryggir hvorki þátttakendur né farangur þeirra. Þátttakendur ferðast á eigin ábyrgð og eru því hvattir til að kanna með eigin tryggingar.