Miðsúla og Syðsta súla í Botnssúlum á sumardaginn fyrsta
Thu, Apr 20
|Botnssúlur
Hrikalega flott ganga á svipmestu tvær Botnssúlurnar um kyngimagnaðan fjallsal upp frekar brattar leiðir með stórkoslegu útsýni nær og fjær. Syðsta súla er fjölfarin og hæst Botnssúlnanna en Miðsúla er sjaldfarin og því einstakt tækifæri til að ganga á hana ef færi leyfir för.
Dagsetning og tími
Apr 20, 2023, 8:00 AM – 6:00 PM
Botnssúlur, Botnssúlur, 806, Iceland
Nánari upplýsingar
Uppfært 19. apríl 2023 kl. 20:00:
Skráðir eru 11 manns: Agnar, Aníta, Fanney, Jaana, Johan?, Gulla, Sigga Lár., Steinar R., Sturla gestur?, Tinna + Örn þjálfari.
Nýjustu tilkynningar:
*Fólksbílafært en betra að vera á hærri bílum síðasta kaflann inn eftir.
Verð:
Kr. 7.000 kr. fyrir klúbbmeðlimi sem mættu í tindferð síðustu 2 mánuði eða ef bæði hjón/par/vinir mæta.
Kr. 10.000 kr. fyrir klúbbmeðlimi ef ofangreindur afsláttur gildir ekki.
Kr. 13.000 kr. fyrir gesti sem vilja prófa göngu með klúbbnum.
Greitt beint inn á reikning Toppfara ehf: 0114-26-58100. Kt: 581007-2210 eða með símgreiðslu á kreditkorti:
Örn í síma: 899-8185 og Bára í 867-4000 og tölvupóst orn-bokari(hjá)simnet.is eða baraket(hjá)simnet.is.
Mjög mikilvægt er að skrifa í skýringu hvaða ferð er verið að greiða, nóg að setja nokkra stafi í nafni fjallsins svo skiljist.
Skráning og skilmálar:
Skráning eingöngu gild með greiðslu. Þeir sem eiga inneign meldi það inn eða sendið okkur skilaboð / póst.
Athugið að við viljum helst alltaf endurgreiða við afboðun þó það sé með stuttum fyrirvara, en þó er ferð ekki endurgreidd við afboðun ef uppselt er í ferðina og fólki var vísað frá sem vildi skrá sig eða ef fáir voru skráðir og ferð hefði verið aflýst vegna ónógrar þátttöku.
Veðurspár:
Sjá www.vedur.is Skoðið staðaspár og veðurþáttaspár til að fá betri yfirsýn yfir vind, úrkomu og hita á svæðinu. Textaspá er réttari en myndaspá. www.belgingur.is er stundum nákvæmari. Sjá norska veðurspávefinn þar sem hægt er að skoða langtímaspá, helgarspá og klukkutímaspár, en taka þarf með í reikninginn að um fjallllendi er að ræða þar sem önnur lögmál gilda en á láglendi og oft er hæðartala á þessum vef röng: Yr - Seljalandsfoss - Long term forecast
Leiðsögn:
Þjálfarar.
Brottför:
Kl. 8:00 á slaginu frá Össur, Grjóthálsi 5.
Heimkoma:
Um kl. 18:00.
Aksturslengd:
Um 1 klst. Fólksbílafært en betra að vera á hærri bílum síðasta kaflann inn eftir.
Akstursleiðarlýsing:
Ekið um Vesturlandsveg gegnum Mosfellsbæ og svo beygt til hægri inn Þingvallaveg og stuttu áður en komið er að þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum er beygt til vinstri Uxahryggjaleið og hún ekin þar til beygt er inn afleggjarann merktur Svartagil og hann ekinn á möl og hugsanlega í aurbleytu að fjallsrótum þar sem árbleyta gæti flækt akstur og betra að vera á hærri bílum.
Hæð:
Um 1.124 m.
Hækkun:
Um 1.144 m miðað við 172 m upphafshæð en fer endanlega eftir leiðarvali, veðri, færð og hópi.
Göngulengd:
Um 14+ km en fer endanlega eftir leiðarvali, veðri, færð og hópi. .
Göngutími:
Um 7 - 8 klst. en fer endanlega eftir leiðarvali, veðri, færð og hópi.
Gönguleiðin:
Gengið aflíðandi, grýtta leið í mosa og gróðri upp klettahjalla og svo í hliðarhalla meðfram Syðstu súlu og inn í dalinn þar sem tindar dagsins gnæfa yfir tignarlegir að sjá. Farið upp öxlina á Syðstu súlu upp á hæsta tind og til baka sömu leið og niður í skarðið og yfir á Miðsúlu þar sem færið ræður för en eingöngu er hægt að fara upp hana ef skaflar eru mjúkir og mótanlegir til að marka spor í þar sem brattinn er mikill. Búast þarf því við að færið leyfi ekki uppgöngu allla leið á þennan tind en hlýindin síðustu vikur lofa góðu með að færið sé í lagi. Allra efst þarf að klöngrast svolítið í klettum og þar reynir á öryggi og yfirvegun í klöngri og þeir sem vilja geta sleppt þeim hluta og beðið neðar. Uppi á Miðsúlu er einstakt að standa með svakalegu útsýni í allar áttir og fara þarf varlega þar sem bratt er niður á öllum hliðum. Farið svo um dalinn til baka og sömu ljúfu leið í bílana undir Syðstu súlu.
Erfiðleikastig:
Um 3 af 6 eða fært öllum í ágætis gönguformi fyrir frekar krefjandi dagsgöngu með heilmiklu brölti upp góðar brekkur á Syðstu súlu en nokkuð brattari á kafla efst upp á Miðsúlu þar sem gæta þarf varúðar og fylgja leið fararstjóra.
Búnaður:
Alltaf skal taka með sér vatns- og vindheldar buxur og jakka, hlýtt höfuðfat, ullar- og belgvettlinga, ullarföt innst, góða gönguskó með ökklastuðningi, kjarngott nesti og 1-2 L af vökva eftir vegalengd og tímalengd ferðar. Höfuðljós og keðjurbroddar eru nauðsynlegur búnaður allra að vetri til og aðstæður gætu krafist notkun jöklabúnaðar og ísaxar sem er nauðsynlegur búnaður allra sem vilja almennt ganga á fjöll að vetri til.
Tryggingar:
Þátttakendur eru ekki tryggðir í göngunum og er bent á tryggingarfélögin í þessu sambandi. Toppfarar ehf tryggir hvorki þátttakendur né farangur þeirra. Þátttakendur ferðast á eigin ábyrgð og eru því hvattir til að kanna með eigin tryggingar.