Bláfjallahryggurinn allur frá syðsta tagli að Vífisfelli um Bláfjallahorn, Hákoll og Bláfjallahnúka.
Updated: Feb 4, 2022
Tindferð 238 laugardaginn 29. janúar 2022.

Það viðraði sérlega vel síðasta laugardag janúarmánaðar og því bauð Örninn upp á aukagöngu þann dag... og þó fáir skráðu sig til leiks... var ekki hægt annað en leggja í hann enda von á sól... stuttur akstur og leiðin frekar létt yfirferðar þó löng væri...

Gengið var frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum allra syðst... þar sem gönguskíðasvæðið er og lyfturnar í Suðurgili... þetta leið fallega út... skíðamennirnir ekki mættir... við vorum ein á svæðinu...

Keðjubroddafæri frá byrjun upp fyrstu brekkuna...

Óskaplega fallegt yfir að líta göngusvæði Ullar...

... og yfir svigskíðasvæðið allt...

Þetta var einn af þessum dögum... þar sem morguninn er roðinn gulli frá fyrstu sólargeislum dagsins...

Töfrandi birta sem næst aldrei almennilega á mynd... en gleymist aldrei þeim sem upplifa... hér uppi var fimbulkuldi... -8 gráður í Bláfjallaskála en -15 í vindkælingu... og það var smá vindkæling þarna uppi í golunni...

Dagrenning á fjöllum... jafnast á við ansi margar heilsumeðferðir...

Uppi á Bláfjallahrygg gefur að líta útsýni til bæði austurs yfir Suðurlandið til Vestmannaeyja... og á jöklana þrjá... og til vesturs yfir höfuðborgina...

Kerlingarhnúkur og félagar nær... Geitafell og félagar fjær...

Sérkennilegt að vera gangandi á sjálfu skíðasvæðinu... gaman...

Höfuðborgin í fjarska...

Leiðin framundan... eftir þessum hrygg... alla leið á Vífilsfell...

Við gengum meðfram skíðabrautinni frá stólalyftunni...

... framhjá lyftunum...

Roðinn að gyllast og lýsast...

Ótrúleg fegurð... sama dýrðin og þegar við gengum fyrst þessa leið árið 2014 í svipuðu veðri...
http://www.toppfarar.is/tindur103_blafjallahryggur_080214.htm

Brátt var við skíðasvæðið að baki...

... og framunda greið leið eftir Bláfjallahryggnum öllum... sjá Vífilsfellið með sinn sérkennandi koll fjær vinstra megin...

Hekla þarna lengst... og Tindfjallajökull... og Eyjafjallajökull...

Vestmannaeyjar... Geitafell... Kerlingarhnúkur... tökum hann á þriðjudegi fljótlega !

Fámennt en afskaplega góðmennt... allir mættir til að njóta og upplifa...
Jaana, Þórkatla, Sigurbjörg, Bjarni, Fanney, Siggi, Linda, Sigrún Bjarna og Silla en Örn mætti einn þar sem Bára var að vinna þessa helgi... og Batman var eini hundurinn...

Þessi hópmynd er sannarlega gullfalleg...

Brátt tók bleiki liturinn við af þeim rauða...

Kuldinn beit... en auðvelt að ganga sér til hita...

Jæja... sólin mætt... hún kom upp kl. 10:14...

Sjá skíðasvæðið að baki og Kerlingarhnúk vinstra megin...

Allt varð gult af sólinni á kafla...

... og eldrautt á kafla líka...

Magnaðir litir sem lögðust á allt landslagið...

Sólin var svo með þetta... hvílík dýrð !

Fínasta færi... harðfenni og greiðfært leið...

Gleðin var einkennandi fyrir daginn... allir svo þakklátir fyrir að upplifa svona dag eftir sérlega illviðrasaman janúarmánuð...

Flókinn fjallgarður og margt að gerast...

Nestispása í kuldanum en sólinni...

Draumadalir... Bláfjallahnúkar og loks Vífilsfell...

Batman þoldi kuldann ágætlega... en var ansi lúinn í lok dags...

Færið sést vel hér... sem betur fer var nægur snjór... þetta er ekki mjög spennandi leið nema hvít af snjó...

Myndefnið var endalaust í þessari einstöku birtu...

Sjá frosið færið...

Drottning og Stóra Kóngsfell...

Spáð var frekar lítilli sól og alskýjuðu frá hádegi... það rættist ekki og var mun sólríkara en við áttum von á...

Norðurendi Bláfjallahryggjarins framundan hægra megin... Vífilsfellið dökkt vinstra megin við miðja mynd...

Hlý og falleg mynd af deginum...

Yndislegt að ganga og spjalla og gleyma sér alveg í augnablikinu á fjöllum...

Frábærir félagar... innihaldsríkar samræður... gefandi samskipti... forréttindi...

Jú... við vildum klára út í norðurenda áður en við snerum yfir á Bláfjallahnúka.. það þýddi smá til baka aftur... Ólafsskarðshnúkar og Sauðadalahnúkar taka við af Bláfjallahrygg... með Jósepsdalinn þarna niðri...

Hópmynd við enda Bláfjallahryggjar... áður en snúið var niður í Draumadali í átt að Bláfjallahnúkum...

Jey ! Þetta er geggjaður dagur !

Örn valdi aðeins betri leið niður í Draumadali en síðast... aðeins sunnar í minni bratta...

Ísaxarbremsuleikur og broddatilraunir...

Komin niður í Draumadali... hér er sérstakt andrúmsloft... eins og maður sé lengst uppi á hálendi fjarri öllu... fjöllin á Þingvöllum í fjarskanum...

Draumadalir... fallegt...

Haldið greiðlega áfram... kuldinn hélt okkur við efnið...

Draumadalir eru ofan við Jósepsdal að sunnan...

Litið til baka eftir Bláfjallahryggnum öllum...

Framundan voru þessir hryggir Bláfjallahnúka og Vífilsfells og baksviðs þess...
