top of page
  • Facebook
  • Instagram
  • YouTube
  • Twitter

Flúið upp á Helgafell í Hafnarfirði

Æfing nr. 837 þriðjudaginn 4. febrúar 2025


Það viðraði ekki fyrir Geirmundartind í Akrafjalli þennan fyrsta þriðjudag í febrúar og því var æfingin færð eftir vandlega yfirlegu á Fjallið eina og Sandfell við Vigdísarvallaveg á Reykjanesi... en þegar þangað var komið var skollinn á agalegur éljagangur sem gekk reglulega yfir þennan dag svo vart var hægt að fara úr úr bílnum og þar sem von var á myrkri ákváðum við að snúa frá fjallsrótum og færa okkur yfir á Helgafell í Hafnarfirði þar sem þó eru þekktar slóðir sem við vorum tilbúin til að fara um í myrkri og snjóhríð á sama tíma...


Þegar þangað var komið var veðrið náttúrulega til friðs... og Fjallið eina vinkaði hæðnislega til okkar handan við hraunbreiðuna í suðri... en við ákváðum að eyða ekki orkunni í svekkelsi og örkuðum á Helgafellið krossandi fingur... því það var ekki spennandi að fara upp á þetta fjall í svona éljagangi sem gekk reglulega yfir...


Skemmst frá því að segja... þá var fínasta veður alla leið upp á tind... jú, smá skafrenningur og vindur efst og uppi á tindinum... en ekki svona öskrandi bylur þegar élin koma yfir... og við fengum gullfallega göngu út úr þessu... og þegar niður var komið á lágsléttuna yfir hraunbreiðuna að Kaldárseli... þá skall á éljagangur svo við sáum bókstaflega ekkert framundan og fundum þá fyrir feginleik að vera komin niður af fjalli...


Gps-tækið hjá Erni varð rafmagnslaust í kuldanum en það virkaði vel hjá Báru sem rak lestina... en Örn ákváð að sjá hvort Batman rataði í gegnum kófið og myrkrið... og hann gerði það... við eltum hundinn og sá fór rétta leið svo skeikaði aðeins um nokkra metra... en girðingin lóðsaði okkur svo inn síðasta kaflann að Kaldárseli og þaðan er leiðin aldeilis greið á breiðum stíg alla leið í bílana...


Geggjuð æfing upp á 6,0 km á 1:58 klst. upp í 345 m hæð með alls 332 m hækkun úr 93 m upphafshæð.


Ljósmyndir úr göngunni hér fyrir neðan og nafnalisti undir hópmyndinni:










Mættir voru alls 9 manns en Ása sneri við á sléttunni þar sem henni leið ekki vel enda nýstigin upp úr flensu og það var ansi mikill asi á okkur gegn veðrinu...


Örn, Linda, Siggi, Þorleifur, Aníta, Inga og Sighvatur en Bára tók mynd og Batman og Myrra voru með í för :-)












Ótrúlega fallegt kvöld... í raun ekkert síðra en norðurljósagangan á Langahrygg á Esju fyrir viku síðan... hvert þriðjudagskveldið á fætur öðru í vetur svo falleg og gefandi og góð þjálfun gegn veðri og brekkum og mótbyr á allan máta... Áfram við !


Hver lægðir rekur aðra þessa dagana... engin tindferð ennþá að baki á árinu sem er óvenjulegt... en það viðrar vel á laugardaginn næsta... við verðum að taka göngu þá... ef við ætlum í allar þessar mergjuðu ferðir í vor og sumar... þá er eins gott að fara að æfa !

Comments


bottom of page