top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Flekkudalur Esju... níu tinda hringleið sunnudaginn 25. apríl 2021...

Updated: May 26, 2021

Nónbunga... Paradísarhnúkur... Skálartindur... Eilífsklettur... Hátindur... Laufskörð... Seltindur... Esjuhorn... Sandsfjall...

Níu tinda hringleið um Flekkudal Esjunnar að norðan... Nónbunga, Paradísarhnúkur, Skálartindur, Eilífsklettur, Hátindur, Laufskörð, Seltindur, Esjuhorn og loks Sandsfjall...


...í þoku uppi en þó opnuðust aðeins glefsur svo kyngimagnað útsýnið niður í Eilífsdal að vestan, Grafardal að norðan og Eyjadal að vestan sögðu okkur hversu tignarlegur og víðfeðmur fjallgarður Esjunnar er...


... alls 22,0 km á 9:04 klst upp í 919 m hæð á næst hæsta tindi Esjunnar, Hátindi með alls 1.212 m hækkun (röng hækkunartala í fyrri ferð)...


... hörkuferð sem gaf mikið fyrir Vatnaleiðina 53 km á einum degi/nóttu, Vestari Hnapp í Öræfajökli og aðrar krefjandi göngur framundan í vor og sumar... en fyrst og fremst mjög gefandi samvera með dásamlegum göngufélögum... þið eruð langbest !


Sem sárabót fyrir Tindfjallajökul laug 24. apríl var ákveðið að fara skárri daginn þessa helgi hringleið um Flekkudalinn í norðanverðri Esju... hér hægra megin með Miðfjallið í miðið... Nónbungu, Paradísarhnúk svo ofar vinstra megin á kambinum og Skálartind hægra megin á honum... og loks Sandsfjallið vinstra megin...

Lengra til vinstri er svo Möðruvallaháls og Trana sem varða austari hluta Eyjadals í Esju en þann dal höfum við aldrei hringað og ætlum að gera á næsta ári þar sem fara þarf þá um Laufskörðin...

Meðalfellsvatn kyrrlátt og fallegt þennan morgun... veðrið var ágætt þennan dag en þó síðra en spáin sagði til um... allavega uppi í fjöllunum sem er reyndar ekki alltaf að marka...

Fengum leyfi til að leggja bílunum á hringvegi við bæinn Flekkudal... þar sem við lögðum af stað gangandi kl. 8:55 á sunnudegi...


Nónbunga er þétt hækkun upp og það var sumarfæri í hlýjindunum... í þessum brekkum snerum við einu sinni við og Dóra ökklabraut sig í klöngrinu hér...


Það árið fórum við svo aðra tilraun þessa hringleið og uppskárum alveg hreint magnaðan dag á Esjunni... sem var ætlunin að endurtaka núna árið 2021... en tókst ekki alveg...


Sterkur og einbeittur hópur á ferð... sem er að æfa fyrir krefjandi göngur næstu vikurnar... meðal annars Vestari Hnapp í Öræfajökli viku síðar... sem varð enn flottari en við nokkurn tíma þorðum að vona...



Útsýnið niður að bænum Flekkudal... takk fyrir að leyfa okkur að leggja bílunum á slóðunum þínum frú Guðný :-)

Nónbunga mældist 492 m há... hér að klára hana upp...


Frábær mæting á sunnudegi... 23 manns...


Sumarið að slást við veturinn... þetta er allt að koma...


Nesti við Paradísarhnúk sem sást ekkert... þjálfarar syrgðu það mikið og vonuðu að það myndi opnast á útsýnið...


Og það var eins og við manninn mælt... allt opnaðist í lok nestispásunnar...


Allt að gerast hér...


... og við flykktust fram á brúnir Paradísarhnúks... sem mældist 803 m hár...


Örn, Rakel, Ólafur Vignir, Ragnheiður, Sandra, Haukur, Linda, Marta, Jaana, Tinna, Anna Sigga, Silla, Helga Rún, Beta, Þorleifur, Oddný, Gulla, Bjarni, Vilhjálmur, Elísa, , Jóhanna D., Kristbjörg, Kolbeinn og Bára tók mynd.


Þriðji tindur leiðarinnar er Skálartindur sem er hinum megin á múlanum... ofan við Eilífsdal...


Við mældum hann 800 m háan og nutum útsýnissins niður í Eilífsdalinn og skoðuðum vel leiðina sem meistari Hjölli hefur gert eilífa í klúbbnum... inn allan dalinn og upp mjög brattar, grýttar hlíðarnar... okkur fannst ótrúlegt að hópurinn skyldi vera búinn að fara þessa leið nánast óslitið á þriðjudagskveldi yfir hásumarið... afreksganga að kveldi til og mikil veisla...



Helga Rún og Marta Rut á brúnum Skálartinds...


Áfram héldum við upp á meginland Esjunnar... þar sem leynist tindur sem skagar ágætlega upp úr landslaginu og er nafnlaus en við skírðum Eilífsklett á sínum tíma í könnunarleiðangri fyrir mörgum árum... sá eini af öllum 9 tindum dagsins sem á sér ekki nafn á kortum... það var ekki okkur að kenna að við værum að ganga á svona marga tinda þennan dag :-)


Brúnirnar ofan við Skálartind...


Tignarlegt útsýnið þegar það gafst... en því miður gengum við fljótlega úr þessu upp í þokuna sem létti ekki fyrr en reyndar á Laufskörðum sem var ótrúlega kærkomið...


Eilífsklettur... sést ekki vel hér brekkan í kringum hann... hann mældum við 916 m háan... og áðum hér í rólegheitunum...


Það var undarlega stutt yfir meginland Esjunnar fram á suðurbrúnirnar og áleiðis á Hátind... vorum bara komin strax þangað... en þarna var þoka og þessi kyngimagnaða leið naut sín ekki sem var mikið miður... þjálfarar voru handvissir um að hér myndi skyggnið koma...


Langar brekkur og klettabelti neðan beggja vegna og vert að fara varlega... hér varð banaslys árið 2013 í ferð Fjallavina á Hátind í erfiðu veðri og engu skyggni... við finnum ennþá til með Þórði og Fríðu sem leiða þann hóp og getum rétt gert okkur í hugarlund hvernig spor þeirra voru eftir þennan sorglega atburð...


Skrifað í gestabókina og vonast til að skyggnið myndi opnast...

Hátindur mældist 919 m hár.

Marta, Vilhjálmur, Kristbjörg, Elísa, Kolbeinn, Rakel, Ragnheiður, Ólafur Vignir, Helga Rún, Sandra, Beta, Gulla, Oddný og Þorleifur.

Anna Sigga, Jóhanna D., Tinna, Silla, Haukur, Örn, Bjarni, Linda, Jaana og Bára tók mynd.

Batman var eini hundur ferðarinnar.


Sama leið til baka af Hátindi þar sem við vorum á hringleið og vorum bara hálfnuð...


Stuttu frá Hátindi mættum við V&V sem voru á leið á sama tind en ekki á sömu hringleið og við... margir þekktust innan hópa og Einar Skúla bað menn að virða 2ja metra regluna en það var ekki alveg orðið við því... við hin tókum undir þetta þar sem það hefði verið meiriháttar mál að þurfa að senda báða hópa í sóttkví ef eitthvað hefði komið upp á... en það var ekkert hlustað :-) :-) ... jæja... sem betur fer gerðist ekkert...

Gaman að hitta þau... vonandi fengu þau eitthvað skyggni á niðurleið...


Við tók mjög löng leið frá Hátindi að Laufskörðum...

... lengsta leiðin í raun þennan dag... og öll í þoku... en fara þarf stóran sveig kringum Grafardal sem hefði verið svo magnað að sjá niður um... og horfa á Hátind tignarlega gnæfa yfir dalnum... og Laufskörðin nálgast tindótt og hvöss...


En... því var ekki alveg að skipta... snjófæri... svo svellað... pollar... og loks mosi og grjót... minnsta snjófær sem við höfum verið í á meginlandi Esjunnar enda best að vera á þvælingi þarna uppi með snjó yfir öllu þessu grýti...


Fegurðin í þokunni var samt þarna...


Nú nálguðust Laufskörðin... og það fór að sjást niður hlíðarnar að sunnan...


Laufskörð... skörð milli þriggja tinda... og við vorum stödd á þeim vestasta... magnaður staður... næst förum við um þau og hringum Eyjadal... en færið var ekki spennandi þennan dag... svell yfir öllum stígnum... við ákváðum að fara þau ekki en ætluðum að skjótast yfir og til baka ef færið hefði leyft það...


Þennan vestasta tind Laufskarða mældum við 752 m háan... þetta var ekki hola eins og kona nokkur kallaði svo á fasbókinni... líklega orðin þreytt á þreytt á þessari endalausa tindatalningu okkar... en það er ein leið til að skrásetja þessar göngur... og við yppum bara öxlum og brosum... það er miklu skemmtilegra... :-)

... alltaf jafn áhrifamikill staður sem við berum mikla virðingu fyrir og fáum aldrei nóg af...


Hér var nestistími tvö... í sömu viðleitni og á Paradísarhnúk að vona að útsýnið myndi opnast... og það gerði það þótt ótrúlegt sé ! ... í báðum nestistímunum okkar takk fyrir !... allt í einu sáum við niður Eyjadal og Grafardal... það var magnað og erfitt að borða þegar allt opnaðist svona fallega...


Sýnin frá skörðunum og yfir á meginlandi Esjunnar... djúpir litir...


Laufskörðin nær og Móskarðahnúkar fjær...


Jaana var gestur í göngunni en fékk pláss í klúbbinn í vikunni á eftir... einn af mjög góðum ljósmyndurum hópsins... sterkur og vanur göngumaður... frábær viðbót við hópinn...


Ragnheiður, Beta, Tinna og Rakel... með Grafardalinn fyrir neðan... og Mosó stuttu þar frá...


Elísa, Bjarni, Kolbeinn og Batman með innri hluta Grafardals loksins sjáanlegan...


Eyjadalur... sem skiptist innst í Norðurárdal að austan og Suðurárdal að vestan með Hólatungu á milli...


Við áttum ennþá þrjá tinda eftir... best að halda áfram vel nærð og full af náttúruorku eftir allt þetta útsýni...


Takk fyrir okkur Laufskörð...


Móskarðahnúkarnir... þeir lyftu sér aldrei algerlega úr skýjunum... en næstum því...


Seltindur og Esjuhorn voru næst... sjást hér sitt hvor múlinn sem er tindur neðan frá séð...


Seltindur hér útbreiddur... við vorum rétt undir skýjabreiðunni... svo fallegt...


Heilmiklar vegalengdir á þessum kafla en útsýnið gaf mikið...


Móskörðin skýlaus en hæsti tindur þeirra enn hulinn skýjum... Laufskörðin lengst hægra megin... Pétur heitinn Þorleifsson fjallamaður mikill vildi alltaf meina að Móskarðahnúkar ættu að vísa í skörðin í fleirtölu..."Móskarð_A"... og við höfum fylgt þeirri ábendingu hans þar sem skörðin eru nokkur en ekki einn (Móskarð-S) - eins og Laufskörðin eru í fleirtölu... enda eru Móskarðahnúkarnir 2, 3, 4 eða 5 talsins eftir því hvað menn vilja telja þessa hnúka...


Trana... honum megin Eyjadals... milli hennar og Möðruvallahálss er mjög flottur hryggur sem ber nöfnin Fremrahögg og Heimrahögg... við þurfum að fara að rifja upp leiðina þarna um...


Hópurinn með Laufskörðin í baksýn...


Þriðja hópmynd dagsins... á Seltindi... sjöunda tindin dagsins af níu... í 679 m hæð... við þurfum að fara hér upp á þriðjudagskveldi fljótlega...


Þokan kom yfir á kaflanum frá Seltindi að Esjuhorni sem við höfðum horft á fyrr um daginn...


Talsvert ark á milli þessarra múla...


Þjálfarar tóku smá beygju til að ná sjálfri brúninni á Esjuhorninu svo við værum pottþétt lögleg... Esjuhorn mældist 720 m hátt...


Og þá var ekkert eftir nema Sandsfjallið blessaða niður í bílana...


Smám saman opnaðist útsýnið eftir því sem neðar dró... svo var reyndar spáð léttskýjuðu þegar liði fram á seinnipart dags... og það rættist...


Sandsfjallið mældist 520 m hátt...


Heilmikið landslag leynist á Sandsfjalli... við litum niður á húsið hennar Siggu og Heimis sem voru því miður að heiman þessa helgi...

... en Sandsfjallið er vinafjallið hennar Siggu #vinafjalliðmitt og hún er búin að fara alls kyns ferðir á það og prófa nýjar leiðir... mjög flott hjá henni...


Jaana, Ragnheiður, Marta, Sandra og Rakel... eðalkonur sem virkilega notalegt og gefandi er að ganga með... allar komið inn í klúbbinn á þessu eða síðasta ári...


Dásamlegt að ganga niður í skyggni... hér stóð Sandra sig eins og herforingi... en hún hafði dottið í mosagrjótinu ofar á Sandsfjalli og þjálfara fannst eins og hún hefði meitt sig illa... en hún bar sig vel og vildi alls ekki láta taka bakpokann... en þjálfara grunaði rifbeinsbrot... sem reyndist rétt... hún var tvíbrotin þegar hún leitaði læknis daginn eftir... og missti því af Vestari Hnapp og Tindfjallajökli... grátlegt... en fjöllin bíða og fara ekkert elsku Sandra mín...


Þrjár nýjar riddarapeysur í safnið... Haukur, Linda og Anna Sigga...


Yndisstund í kyrrðinni eftir þokuna uppi... Meðalfellsvatn og bærinn Flekkudalur og bílarnir okkar þarna fyrir neðan... við vorum ekkert að flýta okkur heim þó það væri sunnudagur...


Síðasta kaflann fóru menn mishratt en við blöðruðum svo mikið aftast að við fórum aðeins aðra leið ofan við byggðina en það kom ekkert að sök...


Alls 22,0 km á 9:04 - 9:21 klst. upp í 919 m hæð með alls 1.117 m hækkun úr 69 upphafshæð...


Komið skínandi fallegt veður... kannski var það allan daginn hér niðri... og við uppi í þokunni...

Þetta var erfiðari ganga en Vestari Hnappur í Öræfajökli sem var helgina á eftir og þjálfarar reyndu eins og þeir gátu til að fá fleiri með þar sem mikið var um afboðanir... og það reyndist rétt... jöklaferðin var léttari en þessi magnaði Esjudagur !


Takk fyrir okkur Sandsfjall... Flekkudalur og allir þínir tindar... Guðný í Flekkudal og allir sem mættu... meiri eljan í hópnum að fara helgi eftir helgi í erfiðar fjallgöngur...


Fyrri slóð okkar um Flekkudal svipaða leið:




187 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page