top of page

Folaldatindur, Stapatindur og Móhálsatindar kringum folaldadali frá Vigdísarvöllum.

Æfing nr. 718 þriðjudaginn 23. ágúst 2022.


Þriðjudagskvöldið 21. apríl 2020 fórum við tilraunakennda leið upp á Sveifluhálsinn frá Vigdísarvöllum þar sem ætlunin var að ganga á Fíflavallafjall en bílfærið leyfði okkur ekki að keyra lengra en að þessu skarði sem hér er í Móhálsinum langa... og þjálfarar ákváðu að gera það eina sem var í stöðunni þarna... ganga inn í þokuna og vona að við gætum komist á einhverja tinda á Sveifluhálsinum... frekar en að snúa keyrandi við og þurfa hvort eð er að finna einhverja aðra leið á svæðinu til að ganga á...


Þessi tilviljun gaf okkur mjög skemmtilega hringleið kringum Folaldadali... sem opnuðust okkur á þessu aprílkvöldi uppi á Móhálsatindunum... og þar sem þeir voru fullir af vatni eftir veturinn og vorið... þá enduðum við á að fara hringleið kringum vatnið með viðkomu á þremur tindum alls...


Örn elti gps-slóðina frá því 2020 svona nokkurn veginn en þó ekki alveg þar sem landslagið gat nú sagt honum betur hvar væri hentugt að fara... vorið 2020 var þoka yfir öllu og erfitt að átta sig á hvað var framundan...


Folaldadalirnir voru þurrir með öllu þetta ágústkvöld... mjög gaman að sjá þetta í birtu og skyggni...


Hér 21. apríl 2020... við urðum að sneiða meðfram vatninu þegar komið var niður í dalinn...


Fínasta leið hér upp... á hjólaslóðum sem búnar eru að skerast heilmikið niður brekkurnar...


Sjá Móhálsinn handan við Folaldadali hér... og Mávahlíðar lengra vinstra megin... og Akrafjallið lengst hægra megin...


Falleg leið... kvöldsólin vermdi svo um munaði... þetta var besta veðrið í sumar á þriðjudegi hingað til... sem er ótrúlegt...


Við létum slóða og landslag og gps-slóðina ráða för... allt eftir því hvað hentaði best á hverjum stað... og fórum því ekki alltaf alveg sömu leið og síðast...


Á leið upp fyrri tindinn sem við töldum þá vera Stapatind árið 2020... en er Folaldatindur án efa... Stapatindur er sunnar og rís beint upp af Stapanum í Kleifarvatni... en við höfum áður ruglað þessu saman enda heita allir tindarnir Stapatindar í fleirtölu á einhverjum kortum en svo í eintölu á öðrum...


Hér sést Stapatindur í baksýn með mosasbreiðuna á sér... og við á leið upp á Folaldatind...


Komin upp á tindinn í dásamlegu móbergsklöngri eins og það gerist best á Sveifluhálsinum...


Folaldatindur mældist 410 m hár þetta kvöld...


Hópmynd kvöldsins... alls mættir 20 manns... mun betri mæting þegar þriðjudagsgöngurnar eru frekar stuttar... áberandi minni mæting ef þær eru langar og strangar... sem þýðir að við þurfum að hafa báða möguleika...


Kolbeinn, Sveinbjörn, Björgólfur, Birgir, Haukur, Lilla, Sjöfn Kr., Sigrún Bjarna., Inga Guðrún, Afnar, Bjarni, Guðmundur Jón, Jóhanna Fríða, Doddi, Katrín Kj., Súsanna, Þórkatla, Njóla, Örn og Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...


Mergjaður fjallgarður... fáum aldrei nóg af honum... hér eigum við margar góðar minningar af stórkostlegum ferðum... sú fyrsta var í desember árið 2010... og þá settu þjálfarar nöfn á alla tinda sem áttu engin úr frá örnefnum í næsta nágrenni... þar á meðal Folaldatind úr frá Folaldadölunum... Tindferð 47 - Sjö tinda ganga á (toppfarar.is)


Stapatindur hér framundan...


Heilmikið klöngur og dýrmæt æfing í brölti í bergi og brekkum... gerum þetta sem oftast... til að missa ekki hæfnina...


Dásamleg nestispása hér í hlíðunum milli tinda... með hnúka og bergkletta um allt...


Noregsfararnir Guðmundur Jón, Katrín Kj., Doddi og Njóla með norskt fjallanesti... en Toppfarar eru nú um allan heim að ganga í hinum ýmsu löndum og koma heim með andann á lofti og blik í augum af sælu yfir alls kyns sætum sigrum og spennandi leiðum...

loksins gátu menn aftur farið á fjöll... við erum undarlega hljóðlega búin að loka þessum covid-kafla... sem betur fer...


Áfram var brölt og klöngrast... upp og niður... og ekki valin endilega léttasta leiðin að hætti hússins...


KLeifarvatnið fallegt og djúpblátt á vinstri hönd... og mosagrænar hraunbreiður Vigdísarvalla og félaga á þeirri hægri... gosinu í Meradölum formlega lokið um daginn... stóð stutt yfir... en er líklega bara einn af mörgum köflum í nýrri goshrinu á þessu svæði...

Litið til baka...


Yndislegt að ganga svona í sólinni og hitanum þó golan blési þarna uppi... nauðsynlegt að anda að sér eins miklu sumri og við getum áður en veturinn kemur... en mörg okkar eru farin að hlakka til vetrarins engu að síður... töfrar hans skáka alltaf sumrinu á fjöllum...


Hofmannatindur og Miðdegishnúkur þarna hægra megin í fjarska... en Stapatindur gaf hæst 419 m hæð og er marghnúkóttur og svipmikill þó saklaus virðist úr norðri þaðan sem við komum...


Þessi bergtröð er mjög skemmtileg og gefur alltaf skínandi góða æfingu í klöngri...


Hringadróttinsslegið landslag... hvílík smíði ! ... en þetta landslag nýtur sín samt betur með snjóföl að vetri... þá verður lygilega fagurt hér...


Þessi brekka var ekkert smá holl fyrir okkur :-) :-)


Þjálfarar ákváðu að halda sömu leið og árið 2020... það var freistandi að lengja gönguna yfir á næsta tind þar sem veðrið var svo gott... en við erum búin að læra að menn mæta gagngert af því gangan er í styttri kantinum eða léttari kantinum... og það hefur stundum fallið illa í kramið þegar við höfum lengt göngurnar á þriðjudögum... menn jafnvel snúið frá og farið einir til baka... sem er ekki góð tilfinning fyrir okkur þjálfara... svo við héldum áætlun þetta kvöld... yfirleitt þegar við spyrjum hópinn hvort eigi að lengja þá taka ekki allir vel í það... og lexían því sú að halda bara því sem lagt er upp með og njóta...


Folaldadalir... svo fagrir í kvöldsólinni...


Svolítið kuldalegra í apríl árið 2020...


Dásamlegt í ágúst árið 2022...


Allur þessi kafli var þjálfurum kvíðavekjandi í þessari göngu þarna 2020... þar sem við vissum ekkert hvort við komumst hér niður og yfir á Móhálsinn... en það slapp vel með ágætis klöngri samt...


Mjög gaman að rifja þessa leið upp og kannski einmitt dýrmætt að fara alveg sömu leið til að festa hana í minni...


Þessi brekka reyndi á að fara varlega og reikna út hvar best var að stíga niður...


Menn renndu sér á afturendanum og redduðu sér niður hér... sjá nákvæmlega sömu leið svo núna ofar...


Sólin skein ofan í Folaldadalinn þegar við þveruðum hann yfir þúfurnar...Allt undir vatni vorið 2020...... já, Folaldadalirnir voru á kafi...


En skraufþurrir núna... þetta var þá ekki meira rigningarsumar en það :-)


Litið til baka... landslagið hér er þess eðlis að það er ekki sjálfgefið að komast hvar sem er upp og niður... og í þoku þarf að finna leið eins langt og maður sér... þessi hringleið var því skemmtilegur fengur... og fær okkur til að búa til fleiri slíka á þessu svæði... við eigum náttúrulega alltaf eftir að hringa Arnarvatn sunnar á hálsinum...


Móhálsatindarnir tóku við okkur vestan við dalina... mjög falleg leið...


Hjól búin að spora út allan hálsinn...


Við ákváðum einnig í kjölfarið á þessari göngu að ganga meira á Sveifluhálsinn frá Vigdísarvallavegi... þar sem landslagið er skemmtilegt hérna megin... en fyrst og fremst af því kvöldsólin skín hérna megin... það er skuggi Kleifarvatnsmegin... og dýrmætt að fá þessa gullnu geisla á okkur allt kvöldið...


Gróðurinn um allt að vinna... og komnir haustlitir í þessar hetjur okkar...


Þessi áberandi slóði eftir hjól var ekki vorið 2020... svo þetta eru nýleg för... og við sáum muninn á landslaginu... hér er verið að hjóla um allt...


Það var eitthvað rangt við það að enda göngu með sólina ennþá á lofti... loksins þegar hún var mætt... manni leið eins og við værum að svindla... en þetta var leið kvöldsins... og sem fyrr segir þá erum við búin að læra að menn vilja að við höldum áætlun því margir mæta einmitt af því ganga er ekki löng í tíma né kílómetrum...


... enda bíða okkar mörg svona kvöld næstu vikurnar... því við höldum að það verði sko geggjað gott veður í allt haust fram í október þegar myrkrið tekur við... er það ekki ? ... er það ekki ? :-)


Alls 4,2 km á 2:10 klst. upp í 281 á Móhálsatindum, 410 m hæð á Folaldatindi og svo 419 m á Stapatindi með alls 376 m hækkun úr 226 m upphafshæð...


Yndiskvöld með meiru... verum þakklát... yljum okkur við svona kvöld... við svona samveru... þau eru hvert og eitt ævintýri sem gefur okkur orku á líkama og sál...

36 views0 comments

Commenti


bottom of page