top of page

Geldinganesið í fallegri jólabirtu með friðarsúluna í aðalhlutverki

Þriðjudagsæfing nr. 682 þann 7. desember 2021


Súsanna mætti í nýju riddarapeysunni sinni í þriðja sinnið í vetur... og fékk loksins mynd af henni... í fjörustráunum við Geldinganesið í myrkri... frosti... og kaldri golu...


Genginn var okkar hefðbundni hringur meðfram fjörunni allan tímann og byrjað austan megin... með Úlfarfsfellið... strendur Grafarvogs og síðar Mosfellsbæjar og svo Kjalarness handan sjávarins... í töfrum sem enginn annar staður gefur á höfuðborgarsvæðinu...


Mjög góð mæting þetta kvöld eins og á Stórhöfða við Hvaleyrarvatn fyrir tveimur vikum síðan... stuttur akstur og léttari ganga þýðir betri mæting á þessum árstíma enda nóg að gera á öðrum vígstöðvum og dýrmætt að sem flestir komi sér út í göngu...


Margir með jólahúfu á höfði og tveir með jólaseríu... Sigurjón hér með jólaskraut og jólaseríu á bakpokanum sínum... skemmtileg úrfærsla :-)


Fallegt...


Siggi með blikkandi jólaseríu á höfðinu... við verðum að fá okkur svona fyrir næstu jól... stemning í þessu sem birtir bara upp skammdegið...


Esjan alhvít hinum megin við sjóinn... einstakt að ganga hér að vetri sem sumri... en sumarið hefur vinninginn... norðan megin er maður einn í heiminum...


Augun námu bara myrkur... en Samsung Galaxy síminn nýtir alla mögulega birtugjafa og nær svona mynd þegar litið var til baka... mögnuð myndavél sem má alveg eiga smá hrós !


Þegar gengið var til vesturs um norðurstrandirnar stal friðarsúlan senunni... stærð hennar og tignarleikur naut sín vel frá þessum sjónarhóli... ótrúlega fallegt !


Þjálfari myndaðist við að ná litaskiptri hópmynd og þetta er afraksturinn... svartur... grár... gulur... bleikur... appelsínugulur... fjólublár og blár... með friðarsúluna í baksýn...


Það var spáð smávegis snjókomubelti sem færi yfir svæðið um sexleytið... og það rættist aldeilis... ótrúlegt hversu nákvæmlega veðurspáin rætist stundum... hér kom smá snjófjúk... og svo snjóaði heilmikið við suðurströndina síðar um kvöldið...


Norðvesturhluti Geldinganess er fallegastur... hér er eins og maður sé staddur á Hornströndum... og ekki galið að taka þennan hring x2 - x3 ef menn eru að æfa Hornstrandaferð... hér er maður ennþá einn í heiminum... en farinn að sjá höfuðborgina aftur...


Mikla birtu stafaði af friðarsúlunni...


Við stöldruðum ekki við hér á tanganum að borða nesti því vindurinn var kaldur og það var ráð að halda bara áfram göngu... en hér hefðum við átt að slökkva á ljósunum og upplifa Esjuna hvíta... friðarsúluna... borgina og Akranes í fjarska... gerum það næst !


Vesturhamrarnir eru magnaðir eins og norðurveggirnir líka... hér lemur sjórinn á klettaveggjunum með heilmiklum sjógangi og löðri... hér liggur kindagatan út með brúninni og fara þarf varlega... því skyldi maður detta er maður í sjálfheldu með sjóinn lemjandi upp að klettaveggjunum...


Borgin farið að leika aðalhlutverkið aftur á suðvesturhorninu... hér mildast leiðin aftur eftir harðneskjuna norðan megin...


Borgarljósin lita upp skýin sem stafar svo birtu af til okkar... líkt og við séum með gult eða appelsínugult þak yfir okkur... eitt af mörgum töfrum myrkurgangnanna að vetri til...


Hér tók að snjóa aftur og af krafti...


Sérlega jólalegt eins og fyrri þriðjudagsæfingar... sjaldan höfum við náð svona mörgum friðsælum og fallegum þriðjudagsgöngum í desember með snjó og fegurð viku eftir viku... oft hefur nefnilega verið rigning eða autt færi og lítið sem minnir á jólin...


Snjóbakkinn sem lagðist yfir borgina og svo okkur hér að létta aftur til... en við misstum alveg skyggnið á kafla til borgarinnar... mjög gaman að horfa á borgina frá Geldinganesinu...


Jörðin orðin hvít... og snjórinn beint í fangið...


Bátrekinn sem var alltaf hér... og losnaði frá í einu óveðrinu... með miklum söknuði Grafarvogsbúa sem hér hafa komið árum saman til að skoða og njóta... en svo koma hann aftur í öðrum sjógangi... og er hér ennþá... mæli með að koma hér með börn og leyfa þeim að skoða... ævintýralegt með meiru...


Samkvæmt Ísleifi Pádraig Friðrikssyni á fasbókinni þá er þetta fyrrum Særós RE207...

Við urðum að taka hópmynd hér... svo fallegur staður...


Smá vesen að koma sér aftur í land... hrakningar á sjó :-) :-) :-) ... hvað höfum við ekki upplifað "á fjöllum" ha ?


Alls 7,2 km á 2:21 klst. upp í 25 m hæð með alls 92 m hækkun úr 4 m upphafshæð... yndislegt og hörkugóð ganga sem leynir á sér og gefur góða útiveru og fínustu æfingu í að fóta sig og halda rösklega áfram í myrkri snjó og frosti...


Síðasta æfing fyrir jól verður hefðbundin jólaæfing á Úlfarsfell frá skógræktinni en við verðum að koma við hjá jólatrénu hans Kolbeins svo þetta verður stór hringur með smá aukakrókum sem er ágætis tilbreyting fyrir þá sem alltaf eru á Úlfarsfellinu...

23 views0 comments

Comments


bottom of page