Mjög fallegt kvöld í sérstöku mistri og megnri brunalykt á köflum vegna eldanna í Heiðmörk... þriðjudagsæfing 4. maí 2021.
Þriðjudaginn 4. maí gengum við á Gráu hnúka við Þrengslin í sól og góðu skyggni en miklu mistri sem barst frá sinueldunum í Heiðmörk sem kviknuðu fyrr um daginn og áttu eftir að vera stórt verkefni fyrir slökkvilið höfuðborgarsvæðisins næstu daga í einmuna þurrkatíð allan maí mánuð árið 2021...
Mjög fallegir litir þennan dag og hlýlegasta gangan til þessa á Gráuhnúkana... sem engan veginn standa undir nafni lengur... allir orðnir mosavaxnir meira og minna og því meira Grænuhnúkar...
Við gengum upp á allavega sjö hnúka... en á gps-þversniðinu eru þeir níu... líklega tvær bungur sem töldust ekki með í landslaginu...
Glimrandi gleði í hópnum... sumir nýkomnir heim af Vestari Hnapp eða Hnúknum þessa fyrstu helgi í maí árið 2021... og aðrir æfandi grimmt fyrir komandi jöklagöngur í Öræfajökli næstu vikurnar... en því miður reyndist þessi fyrsta helgi í maí vera sú besta af öllum í maímánuði þetta árið... ferðum aflýst eða snúið við vegna veðurs eða sprungna allar helgarnar það sem eftir var af maí... og reyndar líka þessa fyrstu helgi í maí þar sem Vesen og Vergangur undir fararstjórn Skúla Júlíussonar sneru við af Sveinstindi um Kvískerjaleið vegna stórrar sprungu og veðurs sem skall á þau meðan við vorum í rjómablíðu á Vestari Hnapp... ótrúlega erfiðar aðstæður á Öræfajökli í raun almennt... þessir rjómablíðudagar eru nefnilega ekki sjálfgefnir... og segja ekkert um hversu erfitt það er í raun að ná slíkum degi á hæstu tindum landsins...
En það eru ekki nærri allir að spá í þessar jöklaferðir þetta vorið... eru bara að njóta þess að fara magnaðar göngur á þriðjudagskvöldum með sólina hátt á lofti... æfingarnar á þriðjudögum gefa mjög mikið og það er þess virði að reyna að ná þeim sem flestum eða öllum því sumar þeirra jafnast á við dagsgöngurnar...
Þjálfari hafði sagt æfingu kvöldsins frekar létta... en með öllu þessu brölti upp og niður marga hnúka var þetta auðvitað ágætis verkefni... enda fundum við vel fyrir æfingunni þegar heim var komið...
Kolbeinn var Sandra þetta kvöld... og gaf hundunum góðgæti... en Sandra jafnar sig á rifbeinsbroti eftir Flekkudagsgönguna í lok apríl... sem tók af henni allar þrjár stóru ferðirnar í vor... grátlegt alveg...
Mættir alls 28 manns... frábær mæting alla daga þessi misserin...
Prjónapeysurnar standandi: Ragnheiður, Lilja Sesselja, Steinunn Sn., Gylfi, Katrín Kj., Jóhanna D., Svandís, Þórkatla, Gerður Jens., Jóhann Ísfeld, Guðmundur Jón.
Neðri: Svavar, Siggi, Fanney, Jaana, Sjöfn Kristins., Inga Guðrún, Silla, Ólafur Vignir, Örn, Vilhjálmur, Kolbeinn, Bjarni, Elísa, Arna Harðar, Haukur og Björgólfur en Bára tók mynd og Batman, Bónó, Moli og Skuggi gáfu gleði inn í kvöldið með sínu einstaka lagi...
Riddarapeysa kvöldsins... ný í safnið... mjög flottir litir hjá Svandísi og alveg í stíl við landslagið...
Mjög skemmtilegt landslag þetta kvöld... alls kyns mjúkir hnúkar... hver með sínu lagi...
+
Við hefðum getað tekið fleiri... en slepptum þeim syðstu...
Mistrið var áþreifanlegt... sumir fundu mengunina í öndunarfærunum... megn brunalykt á köflum... nánast hægt að bryðja lyktina...
Afslappað... en samt hörku æfing...
Farið að snúa við hér... og farið á vestari hnúkana til baka eftir að hafa tekið þá eystri á innleið...
Það eru mikil forréttindi að ganga með þessu fólki... þrautreyndun fjallgöngufólki til margra ára... og orkumiklum nýliðum sem hafa komið inn og tekið göngurnar með trompi...
Mosinn svo fallegur þetta kvöld...
Himininn líka svo fallegur... mistrið jók á fegurðina og gaf henni einhverja mildi...
Útsýnið magnað ofan af Gráuhnúkum til norðurs yfir Hellisheiðina, Hengilinn og til Þingvalla...
Skálafell á Hellisheiði hér í fjarska... og Stóra Sandfell hægra megin í fjarska en nær eru hluti af Gráuhnúkum...
Sinubrunamistrið í vestri þar sem Heiðmörkin var... var óhugnanlega mikið... byrgði nánast sýn...
Leiðin til baka ofan af hæsta tindi dagsins... í 414 m hæð...
Mjög skemmtileg leið um þessa fögru hnúka...
Litið til baka... með Gráuhnúkana sem voru að baki... og Stóra Meitil sem var í seilingarfjarlægð... og við slepptum viljandi þar sem þessi æfing átti að vera yndis... og menn voru ekki ánægðir síðast þegar Örninn tók upp á því að bæta honum skyndilega við Gráuhnúkagöngu hér um árið... :-) :-) :-)
Alls 4,8 km (Björgólfur mældi hana samt 5,0 km nákvæmlega !) - á 2:08 klst. upp í 414 m hæð með alls 389 m hækkun úr 325 m upphafshæð.
Yndisganga með meiru... á leið heim keyrðum við mænandi á sinueldana í Heiðmörk og gosstöðvarnar á Reykjanesi á vinstri hönd... hvað er að gerast þessi misserin... endalausar hamfarir og stærri verkefni hjá Almannavörnum og viðbragðsaðilum sem passa okkur öll hin... takk fyrir það kæru öll !
Comments