top of page

Háihnúkur Akrafjalli á aðventu

Æfing nr. 732 þriðjudaginn 29. nóvember 2022.


Kolniðamyrkur... átta stiga hiti... auð jörð og ekki frost í jörðu fyrr en í miðju fjalli... og þá birtist það eingöngu sem smávegis leirdrulla í stígnum... úrkomulaust þrátt fyrir grenjandin rigninguna í Reykjavík bæði fyrir og eftir göngu... það eina sem var ekki fullkomið var vindurinn... hann gnauðaði svakalega yfir fjallinu... svo hvein í Geirmundartindsmegin... en við vorum að mestu í skjóli fyrir þessum vindi... fyrir utan stöku hvassar vindhviður sem náðu í skottið á okkur eins og klær meðfram fjallinu... ótrúlegar aðstæður í lok nóvember... en samt ekki í fyrsta sinn sem þetta er einmitt svona...


Lítið mál að klöngrast upp klettana hefðbundna leið upp á Háahnúk þar sem stundum hefur verið varasamt að fara um... en þó flækti vindurinn aðeins fyrir en hann náði að blása þann kaflann á okkur...


Hópurinn þéttur reglulega og við gengum tíu manns saman upp... notalegt og heimilislegt... enda mikið spjallað og hlegið...


Johan nýliði hefur skreytt göngurnar okkar nokkrum sinnum í myrkrinu með aukaljósi þar sem hann lýsir upp klettana eins og hér á Akrafjalli... snillingur...


... hann minnir okkur á Gylfa Þór Toppfara sem hefur verið með okkur frá upphafi og endalaust gefið af sér til allra í klúbbnum, pantað fyrir okkur höfuðljós árum saman... gert og græjað svo margt... hjálpað til á svo ótrúlega margan hátt í gegnum öll þessi ár...


... takk elsku þið öll sem eruð alltaf boðin og búin til að gera lífið á fjöllum betra... rétta fram hjálparhönd þegar á þarf að halda... hvetja, brosa, segja sögur, lána búnað, leiðbeina... gefa góðan anda... koma okkur hinum til að hlæja... gera og græja... ómetanlegt alveg...


Þingmaðurinn fékk að vera með á hópmyndinni... fyrir tilstilli Johans sem lýsti hann upp með ljósinu sínu... nú og ef Batman var talinn með þá vorum við tólf... en annars mættu 10 manns sem skýrðist líklega af rigningunni í bænum, myrkrinu og svo auðvitað HM... England var að leika sinn síðasta leik í riðlinum og okkur grunar að ansi margir hafi viljað horfa á hann...


Ef vel er að gáð má sjá brúnir Akrafjallsins bera við himinn á þessari mynd...


Uppi var hávaðarok en þó skjól litlu neðar... og við þrjóskuðumst við að skrifa í gestabókina... vorum bara tíu manns svo það var ekki flókið... áfram við !


Niður var farið hefðbundna leið... þessi ganga er ein hefð... ekkert nýtt heldur ríghaldið í einhverja fegurð við að fara hér upp í byrjun aðventunnar á hverju ári... eitthvað dísætt við þetta... líklega var Guðmundur Jón sá sem hefur mætt oftast... ótrúleg elja í honum og Katrínu Kjartans árum saman frá því þau byrjuðu í klúbbnum árið 2011... miklar fyrirmyndir og vonandi feta sem flestir í þeirra fótspor þegar árin líða...


Jólanesti... það var sérlega hátíðlegt að finna bragðið af mandarínum og piparkökum velkjast um í munninum þegar við gengum niður fjallið... yndislegt... niðurstaða umræðu innan hópsins á fb var sú að flestir stressa sig almennt ekki á nestispásunum og gera bara það sem lagt er upp með... en þó nokkrir vilja nesti ef mögulegt er svo gerum það... höfum alltaf smávegis nesti nema veðrið og aðstæður séu arfaslakar... þetta getur verið notalegasta stund dagsins eins og Þorleifur orðaði það svo vel... en mjög margar góðir punktar komu fram í umræðunum og þessar spaugilegu þar sem gert var stólpagrín að umræðunni per se... meðal annars að þjálfara fyrir að nöldra sjálfur um nesti :-) :-) ... segðu! ... voru afskaplega heilandi og nærandi... meira svona... hlæjum bara sem oftast... það er miklu skemmtilegra... og svo skal það sagt að öll hlýju orðin í garð þjálfara varðveitast um ókomna tíð og eru mikils metin... það er nefnilega mjög hollt að vera þakklátur... spá í hvernig maður talar um klúbbinn sinn... og spyrja sig frekar hvað maður getur sjálfur gert til að hlutirnir séu betri... í stað þess að detta í nöldurgírinn... hann er svo ætandi og orkueyðandi... og það er okkar reynsla að ef menn festast þar... þá endar það einhvern veginn ekki vel... miklu skemmtilegra að hlæja og hafa gaman og leggja bara sitt fram til hópsins... þá er svo gaman hjá okkur :-)


Nesti neðan við tindinn í fallegu útsýni yfir Akranesbæ... ský á himni sem okkur fundust vera norðurljós en voru bara að endurvarpa borgarbirtunni... talsverð norðurljós hafa verið síðustu daga og stundum alveg stórkostleg...


Malt og appelsín í gleri... Kolbeinn og fleiri alveg með þetta... ekkert ves... bara gaman...


Sex jólasveinahúfur mættar þetta kvöld... svo gaman... mætum með þær í tindferðina næstu helgi frá Hagavík í Grímsnes... og auðvitað jólanesti þá líka... auðgum tilveruna með litlu hlutunum...


Dásamlegt að spjalla á niðurleið... og endað í 5,8 km á 2:20 klst. upp í 560 m hæð með alls 520 m hækkun úr 46 m upphafshæð... sigur að ná þessu þar sem veðurspáin var slæm til að byrja með en þegar nær dró var spáð þurru veðri á Skaganum þetta kvöld eins og Fanney benti réttilega og það rættist bókstaflega... því við keyrðum svo aftur inni í sömu rigninguna í Reykjavík og vorum því afskaplega ánægð með að hafa mætt og haldið þessari hefð við enn eitt árið í viðbót... áfram við á gleðinni og hlátrinum í brjáluðu stuði þó það sé smá rok :-)

23 views0 comments

Comments


bottom of page