top of page

Háihnúkur Akrafjalli í aðventugöngu tólfta árið í röð

Þriðjudagsæfing 30. nóvember 2021


Þegar við mættum við fjallsrætur Akrafjalls var Jaana að koma niður af Geirmundartindi... hún var í vaktarfríi og gat nýtt sér dagbirtuna og ætlaði svo að koma með okkur á Háahnúk en varð að fara heim því miður... en áður en hún kvaddi okkur gaf hún þjálfurum ljósmynd af Erni að kanna færið á Ýmu... mynd sem var notuð á ljósmyndasýningu á Hvolsvelli í sumar... mögnuð mynd og virkilega falleg gjöf elsku Jaana :-)


Aftur var einstaklega fallegt og friðsælt veður í nýföllnum snjó á þriðjudagskveldi...


Brekkan atarna upp í á brúnirnar á Akrafjalli eru alltaf færar... en þessi brekka var áhyggjuefni þjálfara fyrstu árin því hún er brött og í leiðin í hliðarhalla... og það er myrkur og hálka... en hér höfum við aldrei þurft að snúa frá... enda fara Skagamenn hér upp á hverjum degi allt árið um kring...


Jólasveinahúfur voru þema kvöldsins... og sumir mættu með jólaseríu líka... snillingar þetta fólk !


Það er létt að geta í fótspor næsta manns og elta ljósin... svolítið annað að vera fremstur og þurfa að velja leiðina... en lengstum voru þó spor í snjónum sem ekki var fennt yfir og við gátum elt... en annars var Örn með gps-slóð af leiðinni og það munaði ekki miklu að á það reyndi...


Stjörnuhvolfið var yfir okkur... skýin bleik af borgarljósum... borgarljósin í fjarska frá Akranesi og Reykjavík... snjórinn birti samt mest upp umhverfið... sem og höfuðljósin okkar...


Tindurinn í sjónmáli... við fórum þetta þétt og rólega saman sem hópur...


Uppi var napurt og kalt... en við fengum okkur samt jólanestið og spjölluðum og horfðum á dýrðina allt í kring...


Jólaöl... mandarínur... smákökur... konfekt...


Alls 14 manns mættir... eljan í sumum sem hafa mætt á hverju ári er aðdáunarverð... það er eitthvað lúmskt gefandi við að mæta hér á hverju ári og gefa ekki eftir...


Vilhjálmur, Siggi, Sjöfn Kr., Haukur, Bjarni, Linda, Ragnheiður, örn, Katrín Kj., Jóhann Ísfeld, Guðmundur Jón og framar eru kolbeinn og Sigrún Bjarna en Bára tók mynd og Batman og Moli ferfætluðust með okkur í snjónum...


Jólahúfan og jólaserían hans Sigga... meiri snilldin :-) ... með Akranes í fjarska...


Niðurleiðin var varasöm efst með svellið undir snjónum á stígnum... og við runnum mikið til... hefði verið betra að fara bara utan stígsins á mosanum og grjótinu... en við vorum snögg í gegnum þetta og leiðin var greið eftir það...


Magnað að komast þetta á hverju ári á þessum árstíma... og magnað að mæta á hverju ári eins og Guðmundur Jón og Katrín hafa gert frá því árið 2011... yndissamvera og hörkuæfing þetta kvöld !


Alls 5,6 km á 2:30 klst. upp í 578 m hæð með 532 m hækkun úr 37 m upphafshæð.


Allir sammála því að halda okkur við borgarljósagönguna um Geldingarnes í næstu viku þó hún sé ekki fjallganga en leiðin sú er mögnuð og ef veðrið er gott þá fáum við einstaka útiveru og heilmikla göngu þó láglend sé þar sem brölta þarf í misgreiðfæru landslagi... með sjóinn við hlið allan tímann og borgarljósin og fjöllin allt í kring... einstakt !

30 views0 comments

Comments


bottom of page