top of page

Helgafell í Mosó í stað Geirmundartinds vegna veðurs.

Æfing nr. 790 þriðjudaginn 6. febrúar 2024.



Fyrsta æfing febrúarmánaðar gaf okkur smá tilbreytingu í byrjun göngu þar sem við ýttum bíl Lindu á neðra bílastæðinu áður en gangan hófst... bíl Bjargar á efra bílastæðinu á miðri leið upp að fjallsrótum... og loks bíl Anítu í lok göngunnar... bara stuð og samtakamáttur mitt í þessu fannfergi sem nú liggur yfir öllu síðari hluta vetrarins... dæmigert... auð jörð að mestu fram að jólum... og svo brjáluð læti eftir áramótin...



Hér verið að nýta bíl Bjargar....



En það var dagbjart í byrjun göngunnar og við gripum hana til að taka hópmynd með fjallið í baksýn... alls mættir 14 manns og þar af nýliðarnir þeir Guðjón Vilhjálmsson og Stefán Guðleifsson sem smellpössuðu inn í hópinn og við erum afskaplega ánægð með að fá til okkar...


Þessi hliðarleið upp Helgafellið er alltaf krefjandi á veturna því hér er gjarnan frosið færi... klakabunkar á veturna... eða lausagrjót á sumrin...



Skaflinn hins vegar í stakasta lagi þetta kvöld og okkur sóttist þetta mjög vel...



Tekinn var rangsælis hringur eins stór og hægt er nánast til að fá sem mest út úr kvöldinu en ætlunin var að fara á Geirmundartind í Akrafjalli sem hefði aldeilis verið mögnuð æfing... en mikill vindur var í veðurspánni og við lögðum ekki í slíkt veður og vissum að almennt eru menn áhægðir ef við færum svona langar göngur með löngum akstri á þriðjudegi til vegna veðurs og reynum frekar að grípa góða daga til þess arna...



Á miðri leið renndum við okkur niður brekkurnar niður dalinn austan megin...



Í austurenda Helgafells tók fyrst að rökkva... og þegar búið er að ganga í dagsbirtu hálfa leið þá skiptir myrkrið einhvern veginn engu máli... erfiðast er að mæta í göngu og ganga í myrkri allan tímann...



Þetta er bara fallegt... að fá svona ljósaskiptin á miðri leið og upplifa fjallið ljósbjart og svo myrkvað í lokin...



Kvöldsólarlagið skreytti síðari hlutann og hér fór líka að blása... ískaldur stífur vindur...



... sem sagði okkur að við máttum vera fegin að vera ekki í rúmlega 600 m hæð á Akrafjalli... úr því þetta var kuldinn og vindurinn í rúmlega 200 m hæð...



Þjálfari reyndi að ná hópmynd í myrkrinu á tindinum... en það tókst ekki vel :-)



Til baka af hæsta tindi... allavega þeim sem merktur er... mergjuð birta...



Borgarljósin kölluðust á við náttúruljósin á himni... þessi vetrarkvöld... við vildum aldrei vera án þeirra... enginn verðmiði er réttur á svona fegurð... hún fangast ekki nægilega á ljósmyndum... og heilar án efa sál og líkama meira en við gerum okkur grein fyrir...



Örn eltist við fjallshryggi á niðurleið sem gaf ágætis brölt í vindinum...



... og niðurleiðin um sama hliðarhallandi stíginn var mjög skemmtileg í mjúkum snjónum...


Alls 4,7 km á 1:35 klst. upp í 219 m hæð með alls 287 m hækkun úr 62 m upphafshæð...


Töfrandi flott kvöld... enn einu sinni... þau toppa hvert annað í sífellu... þessi vetur er búinn að gefa okkur mikla fegurð og einstaklega góð veður...


Baula beið svo um helgina... og þeir sem mættu... sáu svo sannarlega ekki eftir því... lygilegt veður og færi... og hægt að þvera fjallið... sem er langt í frá sjálfgefið á þessum árstíma...

9 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page