top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Jólaganga á Úlfarsfell að jólatrjánum hans Kolbeins.

Æfing nr. 734 þriðjudaginn 13. mars 2022.


Það var jólatréssala í fullum gangi þegar við mættum á síðustu fjallgönguæfinguna fyrir jól þriðjudaginn 13. desember... áfram í sama einstaka veðrinu... logni, heiðskíru með frosna jörð og engan snjó...


Frábær mæting í allan vetur... 23 manns... sem segir allt um veðrið þennan veturinn...


Farið var upp bratta gilið sem svo er merkt á skiltum ofan við skógræktina og færið var jú frosið þar sem vatnið rann en annars var gott hald í gróðrinum og flestir nenntu ekki að setja á sig keðjubroddana... sem þýddi að velja þurfti hvar maður steig niður...


Borgin glitraði þarna niðri og sólsetursroðinn var enn á himni...


Bræðurnir Johan og Gustav að njóta útsýnisins yfir borgina...


Hingað koma margir á Gamlárskvöld... og eins er alltaf fjölmennt á Úlfarsfelli á Gamlársdag og Nýársdag... og núorðið er fjölmennt hér alla daga... það er helst þegar veðrið er slæmt að fáir eru á ferli og maður nær að vera með hundinn lausan í friði...


Mastrið og stjarna á himni... þessi endalausa heiðskíra... dæmalaust...


Farið upp á pallinn á efsta tindi, Stórahnúk... fleiri en við á svæðinu og hundarnir rugluðust aðeins... ekki vanir að deila fjöllunum með öðru göngufólki þar sem við erum á ferð... og ennþá vill Tinni hennar Ragnheiðar ekki fara hér upp... Batman er búinn að læra á pallinn en fer ekki upp hann nema við segjum honum það ákveðið... en líklega fara sumir hundar ekki hingað upp...


Niður var farið á Litla hnúk um stíginn sem var nánast alveg laus við svell...


Orðið vel troðið... Úlfarsfellið er ansi vinsælt útivistarsvæði...


Af Litla hnúk sneiddum við okkur niður og utan í honum að jólatrénu hans sem Kolbeinn hefur skreytt í nokkur ár...


... og það meira að segja tvö tré... ótrúlega flott hjá honum... við vorum einstaklega heppin að fá þennan mann í okkar hóp... öðlingur mikill og hjálpsamur og alltaf mættur ef eitthvað er til að gera og græja... takk fyrir okkur Kolbeinn... megi framtíðin bera í skauti sér ævintýralegar fjallgöngur til fjölda ára... og upplifun og reynslu sem auðgar líf okkar um ókomna tíð...


Þórkatla kom með heitan sírópsdrykk með möndlumjólk handa öllum hópnum og var þessi drykkur virkilega góður... hann verður hitaður á heimili þjálfara við gott tækifæri í kringum jólin... og er orðinn fastur liður í þessari jólagöngu klúbbsins hér með...


Jólatrén og jóladrykkur... höldum áfram að bæta í þessa hefðargöngu sem mörgum þykir vænt um og mæta alltaf í...


Katrín Kj. að sýna bræðrunum flotta mynd af þeim... líklega tekin á brúninni fyrr í göngunni þar sem þeir horfa yfir borgina... en aldrei að vita samt... snilldarljósmyndari hún Katrín...


Mættir alls 23 manns...


Arnór, Bára, Edwin, Guðmundur Jón, Gustav, Inga Guðrún, Johan, Jórunn Ósk, Katrín Kj., Kolbeinn, Kristín H., Lilja Sesselja, Linda, Njóla, Ragnheiður, Sigríður Lísabet, Siggi, Sjöfn Kr., Steinunn Sn., Þorleifur, Þórkatla og Örn og hundarnir voru Batman, Bónó og Moli, Snót og Tinni...


Þriðja jólatréð er skreytt á þessu svæði af einhverjum öðrum framtakssamri manneskju... við vitum ekki hver hún er... en einn daginn gæti dularfulla jólatrésskreytingamanneskjan bæst við fjallgönguhópinn ef það sama gerðist og með Kolbein... það væri magnað...


Styrktarganga fyrir Kvennaathvarfið var niður af Stóra hnúk þetta kvöld og við færðum okkar göngu um hálftíma til að skarast ekki á við hana uppi á pallinum og á niðurleið... og þetta rétt slapp... við fórum ekki sömu leið niður af Stóra hnúk og vorum á leið yfir á Hákinn þegar þau komu niður og það var mjög gaman að sjá ljósakeðjuna þeirra...


Á Hákinn varð þessi gjörningur til... alltaf eitthvað nýtt í þessari ljósmyndun... en samt dæmigerð myndataka í myrkrinu... æj, hún vær að vera með... þetta er svo flott...


Niðurleiðin var svo um þriðju bröttustu leiðina sem gefst á Úlfarsfelli... á eftir þessari sem við fórum upp fyrr um kvöldið... en allra brattasta er leiðin sem við fórum um skriðuna Lágafellsmegin í síðustu viku... en þessi kafli niður af Hákinninni er krefjandi ef það er hálka og menn fóru því varlega hér niður... hópurinn þéttur niðri og svo var farið hver á sínum hraða niður í bílana svo Bára, Njóla, Katrín og Guðmundur Jón voru ein eftir í myrkrinu að spjalla á stígnum frá brekkunni og gegnum skóginn og niður... það voru jú þrjú ljós á eftir okkur sem við héldum að væri annar hópur... en komumst svo að því að þetta voru Arnór, Kristín H. og Steinunn Snorra og komum af fjöllum... héldum svo sannarlega að við hefðum verið síðustu fjórmenningarnir þar sem við vorum talsvert á eftir hópnum og höfðum farið mjög hægt niður eftir... leitt að hafa misst af þeim síðasta kaflann... en þau eru vön og dóluðu sér greinilega sjálf niður í bílana þar sem við náðum að kasta á þau kveðju...


Alls 4,6 km á 2:05 klst. upp í 307 m hæð með alls 396 m hækkun úr 44 m upphafshæð.


Yndislegt kvöld og góður endir á árinu en af fenginni reynslu er jólafrí þriðjudaginn 20. desember þar sem menn eru orðnir svo önnum kafnir dagana fyrir jól að mætingin hefur verið dræm þann dag... þjálfarar eru svo erlendis milli jóla og nýárs og því er lagt upp með vinafjallinu þann 20/12 og 27/12 fyrir þá sem vilja skjótast á fjall... en eins og fram kom á æfingunni ætla Siggi og Kolbeinn að vera með Úlfarsfellsgöngu á Gamlársdag kl. 11:00 fyrir þá sem vilja en gangan í fyrra var frábær með freyðivíni á tindinum, flugeldum og smá áramótastemningu í göngunni og þá ákváðum við að hafa þetta árlegt enda frábær að enda árið svona.


Gleðileg jól elsku vinir og fjallgöngufélagar... hreint út sagt magnað ár er að baki okkar árið 2022 sem einkenndist af einstaklega góðri mætingu... mjög mörgum nýjum fjöllum, tindum og leiðum í safnið sem farnar voru milli veðurstríða... þar sem erfitt veður einkenndi fyrri hluta ársins en einmuna blíða þann síðari. Fjallajólatréð fangar þetta vel hér ofar á vefsíðunni...


... verum þakklát númer eitt... höldum okkar striki sama hvað... viðhöldum líkamlega forminu og tæknilegu getunni með reglulegum fjallgöngum allt árið um kring... frá sjónarhóli þjálfaranna er augljóst að þeir sem stunda fjallgöngurnar reglulega og taka vinafjallið sitt í hverri viku eða svo eru aldrei í vandræðum með formið sittl, búnað né færni í að fóta sig niður og upp brekkur í alls kyns aðstæðum... ráð okkar er einfalt... um leið og við hættum að gera... þá hættum við að geta... um leið og við hættum að ganga á fjöll... þá hættum við að geta gengið á fjöll... svo höldum áfram... njótum... við viljum ekki missa af veislunni sem er framundan...


... okkar bíða mjög sjaldfarin fjöll á hálendinu í sumar og haust... mjög sjaldfarinn tindur í Öræfajökli í vor... mjög spennandi leiðir þvert yfir Ísland úr byggð að jaðri hálendisins... alls kyns spennandi nýir tindar og leiðir á þriðjudögum... í bland við gamalkunnar og fallegar göngur sem við ætlum að rifja upp og gefa þeim sem ekki mættu í fyrri ferðir... árið 2023 verður geggjað !

26 views0 comments

Opmerkingen


bottom of page