Æfing nr. 834 mánudaginn 13. janúar 2025+

Önnur æfing ársins 2025 var á mánudegi þar sem Batman var settur á aðgerðadag á æxlinu í kjálkanum þriðjudaginn 14. janúar og þjálfarar vissu að þeir komust ekki á þriðjudagskveldið í fjallgöngu...
Færsla frá þjálfara af lokaða fb-hópi Toppfara:
"Athugið æfingin í næstu viku verður á mánudag en ekki þriðjudag !
Batman fer í stóra aðgerð á þriðjudag og við verðum að vera heima með honum um kvöldið. Æxlið verður fjarlægt og hluti af neðri kjálkanum en þetta var ákveðið í vikunni þegar ég fór enn einu sinni upp á Dýraspítala og grátbað um að eitthvað yrði gert fyrir hann.
Niðurstaðan var sú að hann er almennt mjög hraustur, meinið hefur ekki dreift sér í önnur líffærakerfi og ekki tekið yfir kjálfabeinið ennþá. Þá er hann búinn að vera að berjast við þetta í tæp tvö ár, fór í fyrstu aðgerðina í apríl 2023 sem er alveg ótrúlegt, einu sinni var hætt við á skurðarborðinu með hann þá þegar svæfðan og allt saman, þar sem æxlið var orðið of samofið öllu í kring) þannig að hann er sannarlega búinn að gera sitt í þessari baráttu og á skilið að losna við þetta ferlíki.
Það er stutt síðan menn fóru að framkvæma þessa aðgerð á Íslandi, okkur hafði verið sagt í hitteðfyrra að dýralæknar á Íslandi hefðu jú séð þessa aðgerð framkvæmda í sínu námi erlendis en það tíðkaðist ekki að framkvæma hana hér á landi. Það hefur breyst og bati hunda eftir þessa aðgerð, (þó þeir tapi kjálkanum og eigi erfitt með að geyma tunguna í munnholinu, hún lafir út þar með) - er víst framar vonum og mesta furða að sögn dýralæknisins sem samþykkti aðgerðina.
Þökk sé Kolbeinn Ingi Birgisson sem benti okkur á þáttinn um hundinn sem fór í svipaða aðgerð í þáttaröðinni "Dýraspítalinn" á Stöð2+ (fyrsta svona aðgerðin sinnar tegundar, framkvæmd á dýralæknastöðinni í Garðabæ) þá sáum við (og fleiri) að þetta yrði líklega ekki meiri útslitslýti á Batman en nú þegar er orðið og líðan hans mun án efa lagast fyrir utan reglulegar blæðingarnar og önnur óþægindi sem hann líður stöðugt fyrir.
Við gerum okkur grein fyrir að það er búið að vera langt í frá sjálfsagt að hópurinn sætti sig við að hafa blæðandi hund í kringum sig göngu eftir göngu sem klínir allt út, bakpoka, skó, föt og aðra hunda, enda gekk þetta ekki lengur og því erum við mjög þakklát öllum fyrir þolinmæðina, umburðarlyndið og það allra dýrmætast fyrir umhyggjuna sem svo margir innan klúbbsins hafa sýnt Batman.
Hann lifir svo góðu lífi og á svo marga góða vini að heilsan hans er framúrskarandi og hann er bókstaflega hvorki tilbúinn til að eldast né gefa þessu æxli yfirhöndina, ekki síður þess vegna fer hann í þessa aðgerð, þó hann sé á ellefta ári Svo haf þökk elsku bestu þið öll
Förum því á Helgafell í Mosó á mánudaginn, til vara er og var alltaf flottara fjall ef veður leyfir, en af fenginni reynslu þá er janúar oft erfiður mánuður með veður þar sem myrkrið flækir allt ef skyggni er slæmt, og það er auðvitað spáð grenjandi rigningu svo líklega verðum við bara glöð að fara allavega á Helgafellið í blautu myrkrinu, en sjáum til á sunnudag.
Set inn tilkynningu þá en vildi að allir vissu stöðuna og væru búnir undir að fara á mánudagskvöldiðn í stað þriðjudags - takk fyrir allt elskur, þið eruð langbest" .
Tilvitnun lýkur !
Félagar hans sendu honum hlýjar kveðjur og allir knúsuðu hann þetta kvöld... þar sem þetta var síðasta gangan hans með æxlið og hluta af neðri kjálkanum... hann var sóttur kl. 17:00 á þriðjudeginum á Dýraspítalann í Víðidal eftir flókna aðgerð og var hann ansi slappur og hreinlega í áfalli við að hafa misst hluta af kjálkanum svo við tók erfiður sólarhringur en þegar þetta er skrifað degi síðar... miðvikudaginn 16. janúar þá er hann rólfær og búinn að fara í göngutúr... en mjög framlágur og getur lítið drukkið og borðað... líkja má þessu líklega við að missa framan af annarri hendinni enda nota hundar kjaftinn sinn það mikið til að höndla alla hluti fyrir utan að nærast, anda og gelta :-) Elsku Batman...
En æfingin á Helgafellinu var dásamleg... sökum þess að farið var kl. 17:00 en ekki kl. 17:30 var dagsbirta upp brekkuna sem var hreint dásamlegt... og flestir mættir voru sammála því að það væri betra að hittast kl. 17 en 17:30 en að sama skapi voru líklega ekki þeir viðstaddir sem myndu frekar vilja hittast kl. 17:30 svo þjálfara ákváðu að breyta ekki þessari tímasetningu og halda sig við kl. 17:00 frá Össuri eða Ásvallalaug og svo kl. 17:30 ef við sleppum því að hittast þar og hittumst beint við fjallsrætur þegar gengið er á fjöllin sem eru í borgarjaðrinum...
Veðrið var yndislegt... hlýtt, lygnt og þurrt... og sumarfæri eftir öll hlýjindin... þetta var yndisleg samvera og fínasta æfing... takk fyrir umhyggjuna elsku félagar og vinir...
Alls 4,5 km 1:41 klst. upp í 212 m hæð með alls 282 m hækkun úr 60 m upphafshæð...
Ljósmyndir úr göngunni hér - svo fallegar þar sem ljósaskiptin og svo tunglið skreyttu för... og nafnalisti undir hópmyndinni:















Mættir voru alls 16 manns... og Batman tók Baltasar á þetta og stillti sér upp á grjótinu fremst á mynd...
Guðjón, Skarphéðinn, Guðný Ester, Elsa, Inga, Linda, Örn, Lilja Rós, Sjöfn Kr., Kolbeinn, Gerður Jens. og Björg en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn þetta kvöld.

Kvöldið á eftir... þriðjudaginn 14. janúar fóru Aníta, Linda og Siggi líka á Helgafellið í Mosó þar sem Siggi hafði boðið öllum með... tær snilld og synd að fleiri skyldu ekki mæta en það var svo sem rok og rigning... en það hefði ekki stoppað marga hér áður fyrr... og stoppar ekki þá sem mæta nú orðið... VEL GERT ELSKURNAR !




Takk innilega fyrir dásamlegt kvöld og yndissamveru og alla umhyggjuna í garð Batmans... áfram við árið 2025 í alls kyns veðrum, færi og birtu !
Comentários