Æfing nr. 822 þriðjudaginn 8. október 2024
Fyrsti snjórinn mætti á æfingu fyrsta þriðjudag í október en þetta hefur gerst áður og oft hefur svo enginn snjór sést á æfingu fyrr en í desember svo nú verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast... en það var rigning og auð jörð í Reykjavík þegar við lentum þar úr miklum ógöngum við að koma okkur keyrandi úr Dyradölum eftir gönguna... meira ævintýrið ! :-)
Það var gott að fá snjóinn því hann lýsir allt umhverfið upp og auðveldara er að átta sig á landslaginu allt í kring þegar orðið er dimmt... og þjálfarar sendu á hópinn fyrr um daginn að taka keðjubroddana meðferðis þar sem rigningin / slyddan sem spáð var þetta kvöld var orðin að snjókomu í uppfærðiri veðurspá...
Það var og... snjór yfir öllum Henglinum þegar keyrt var að honum og ljóst að við yrðum í fannhvítri jörð alla æfinguna... hvílík fegurð...
Gangan gekk mjög vel en var krefjandi löng og heilmikið príl upp og niður á fjölbreyttri leið og það í snjó og svo myrkri á leiðinni til baka... svo þeir sem mættu og hvað þá þeir sem eru nýir í klúbbnum og hafa aldrei gengið að vetri til eða myrkri og eins þeir sem mættu eftir langt hlé... máttu vera ánægðir með sig...
Sex hundar voru með okkur... þrír sem mæta vel þetta misserið... Baltasar, Batman og Myrra... og svo þau Fura hans Georgs sem var að mæta eftir langt hlé... og Stella og Whiský hennar Örnu sem var líka að mæta eftir langt hlé eins og Egill... en það fréttist þar með að þau eiga von á barni í janúar og er Arna því önnur konan í Toppförum sem mætir í göngu svona langt gengin... fimm mánuði á leið... sem er aðdáunarvert... sérstaklega þar sem gangan var nokkuð krefjandi og löng og flæktist í ofanálag með erfiðu bílfæri til baka úr fjöllunum...
Þegar við komum úr göngunni í myrkrinu blöstu við okkur bílljós á veginum og einn var kominn út af í beygjunni í brekkunni og voru þetta erlendir ferðamenn sem vinkuðu til okkar og báðu um aðstoð og fóru nokkrir upp eftir og gátu ýtt bílnum og aðstoðað þau niður brekkuna... þau voru skelfingu lostin og festu sig svo aftur í brekkunni úr dalnum þegar hópurinn ætlaði heim og með heilmikilli aðstoð komum við þeim aftur niður úr brekkunni með bílinn á rétt ról en þau enduðu á að fara bara út í kant og gista í bílnum... þetta var Camp Easy bíll... eftir að hafa afþakkað bílfar í bæinn... og var þetta niðurstaðan eftir að hafa hringt í Lögregluna sem stóð í ströngu að skipuleggja björgunaraðgerðir á Kömbunum ofan Hveragerðis þar sem bílar lentu þar í hremmingum eins og við...
Á staðnum var einnig stór leigubíll sem fékk félaga sinn til að koma með keðjur til að setja á dekkin... en sá bíll komst ekki upp alla brekkuna og annað hvort reyndu þeir aftur með betra tilhlaupi... erlendu ferðamennirnir voru jú fyrir á veginum... svo logandi hrædd að þau þorðu varla að hreyfa bílinn... eða þeir skildu hann eftir og fóru á bíl aðstoðarmannsins til baka í bæinn en sá bíll komst klakklaust upp brekkuna eins og allir hinir... þegar bíll ferðamannanna var ekki fyrir...
Ótrúlegt ævintýri og svakalega flott ganga... og allt varð þetta hálf óraunverulegt þegar komið var í bæinn í auðri jörð og myrkrið allt umlykjandi... enn einu sinni fengum við þessa sterku upplifun að hafa farið úr einum heiminum í annan... forréttindi sem eru ein af ástæðum þess að við erum enn að... átjánda veturinn í röð...
Alls var þetta 8,3 km ganga á 3:13 klst. upp í 501 m hæð með alls 464 m hækkun úr 338 m upphafshæð... geggjuð æfing með fullt af lærdómi... keðjubroddar og höfuðljós og vara rafhlöður í bakpokann hjá öllum hér með... vera vel búinn með hlífðarfatnað og hlýtt og skjólgott höfuðfat og vettlinga... í skóm sem halda vel broddunum... ekki mjúka, lága skó NB...
Ljósmyndir úr göngunni hér fyrir neðan og nafnalisti undir hópmyndinni:
Mættir alls 19 manns + 2 sem fóru á undan, þau Katrín Kj. og Guðmundur Jón:
Efri: Georg, Kolbeinn, Siggi, Linda, Aníta, Skarphéðinn, Katrín Kj., Ása, Björg, Arna og Egill.
Neðri: Jón, Inga, Guðjón, Sighvatur, Örn, Lilja Rós, Guðmundur Jón, Valla og Halldóra Þ. en Bára tók mynd og hundarnir sex voru nafngreindir hér ofar...
Takk innilega fyrir mergjaða æfingu og ekki síst fyrir hjálpina við að koma öllum bílum burt af svæðinu og ljúfmannlegu hjálpsemina við logandi hræddu ferðamennina elskurnar :-)
Commentaires