top of page

Mosfell í skottinu á storminum í magnaðri birtu

Þriðjudagsæfing 21. september 2021.


Stormur geysaði á landinu öllu þriðjudaginn 21. september og tugir fjár urðu úti norður á ströndum þar sem áttin var óvenjulega í svona miklum ofsa... viðvaranir um allt land og menn beðnir að vera ekki á vegum landsins að óþörfu... við völdum því Mosfellið í staðinn fyrir Rauðahnúk í Skarðsheiðinni sem var á dagskrá þetta kvöld...


Veðrið var hins vegar óðum að ganga niður þegar við mættum við Mosfellskirkju og jú það var ágætis vindur en engin úrkoma, hlýtt, bjart og sumarfæri svo það var allt með okkur nema vindurinn...


Yndisleiðin á Mosfell er án efa um suðurhlíðarnar ofan við býlin sem rísa í rótum fjallsins...


Til baka með Grímmannsfellið bak við Guðmund Jón... yndislegur dalur þessi Mosfellsdalur...


Haustið lætur á sér kræla í rólegheitunum... ennþá allt grænt að mestu og laufgað... en vindarnir næstu vikurnar ráða úrslitum...


Slóðin upp suðvesturhornið er orðinn vel troðinn og að sögn Tómasar sem vinnur að skipulagsmálum Mosfellsbæjar þá eru göngu- og hjólastígar í vinnslu hjá bænum og mikið þrekvirki að baki hvað þessi mál varðar enda eru þau til fyrirmyndar hjá Mosfellsbæ...


Vindurinn geysaði ekki að ráði fyrr en uppi á fjallinu...


Helgafell í Mosó hér á bak við Jóhönnu Svavars sem er ein af mörgum gömlum Toppförum sem komið hafa aftur á þessu ári og er dásamlegt að fá aftur í hópinn...


Já... sumarið er ennþá... það er nokkuð ljóst...


Sólstafirnir voru kyngimagnaðir þetta kvöld ofan af Mosfellinu...


Kistufellið í Esjunni svo fallegt með fyrstu snjóföl vetrarins um sig efst...


Vont veður þýðir oft mögnuð birta ef ekki er þeim mun þungbúnara...


Frábær mæting, 16 manns !


Kolbeinn, Örn, Halldóra þórarins., Þórkatla, Jóhanna Svavars., Ásta S., Sjöfn Kr., Jaana, Inga Guðrún, Oddný T., Gerður Jens., Siggi, Hjördís, Tómas, Guðmundur Jón og Batman fremstur og Bára tók mynd...


Vindurinn feykti okkur svo yfir á hæsta tind sem er lítið eitt austar en á brúnunum...


... en það var erfitt að slíta sig frá þessari fegurð sem þarna var...


Einstök birta og mjög fallegar myndir þetta kvöld eins og svo oft í þessum brjáluðu veðrum !


Guðmundur Jón mældi vindinn 19 m/sek...


Tindurinn í roki en einstakri birtu og sýn á Esjuna og Móskarðahnúka...


Þessi græni litur... með gula og brúna og gráa og svarta...


Kistufell Esjunnar svo fallegt...


Þverárkotsháls, Grafardalur, Móskarðahnúkar, Skálafell, Stardalshnúkar... hreint út sagt stakasta snilld í litum og birtu...


Mikið spjallað um skipulagsmál í útivist enda sérfræðingur á ferð hann Tómas... og mjög gefandi samvera þetta kvöld...


Birtan og töfrarnir voru ekki síðri á niðurleið...


Sólin skínandi á afmarkaða hluta landslagsins og breyttist stöðugt...


Skálafellið ekki í fyrsta sinn í kyngimagnaðri birtu... eitt tignarlegasta fjallið á höfuðborgarsvæðinu en svolítið markerað af skíðasvæðinu...


Esjan tignarleg þegar snjórinn mætir... við erum samt ekki alveg til í veturinn strax...


Lúpínan farin að taka yfir stórar melar sem áður voru hér... svolítið skrítið að upplifa það og það eru mjög skiptar skoðanir með hana innan klúbbsins því sannarlega fegrar hún og mýkir... en um leið rænir hún okkur melum og móum...


Skínandi góð æfing í mun betra veðri en við áttum von á...


Alls 4,4 km á 1:12 klst. upp í 295 m hæð með 259 m hækkun úr 73 m upphafshæð.


Vikuna á eftir þurftum við líka að fresta Rauðahnúk vegna óveðurs sem þá kom aftur yfir landið og þá gengum við á Úlfarsfell í verra veðri en hér á Mosfellið...

33 views0 comments

Comments


bottom of page