Þriðjudagsæfing 23. nóvember 2021
Það kyngdi niður snjó eftir hádegið þriðjudaginn 23. nóvember þegar við ætluðum yndisgöngu um Hvaleyrarvatn og nágrenni og við mættum í algert meistaraverk úr smiðju náttúrunnar við vatnið um hálfsexleytið...
Þetta átti að vera létt og notaleg yndisganga kringum vatnið með viðkomu á Stórhöfða og við héldum þeirri áætlun þó mjög væri freistandi að lengja leiðina þar sem veðrið var svo fallegt...
Stígarnir kringum vatnið eru fjölfarnir... og það er góður stígur kringum Stórhöfða og meira að segja alla leið út í Kaldársel eins og við fórum hér um árið hlaupandi: Óbyggðahlaup nr (toppfarar.is)
og svo gangandi um "sjö tinda til Hafnarfjarðar" á sínum tíma.... Tindferð 195 Sjö tindar til Hafn (toppfarar.is)
En við fundum ekki stíginn sem liggur upp á Stórhöfða fyrr en á niðurleiðinni og fórum því bara upp í gegnum mosann og lúpínuna...
Stórhöfði mældist 133 m hár... þetta var allt of létt... við vorum næstum því búin að lengja hringinn yfir á hina höfðana vestar og koma niður skógræktina... en þjálfara langaði að finna stíginn sem er oftast farinn þarna upp og þeir sáu að gæti verið góð niðurleið... og þeir vildu ekki svíkja þá sem mættu gagngert í létta göngu og hefðu ekki viljað lengja leiðina...
Snjókoma var á tindinum og þar blés aðeins... en annars var logn og friðsælt þetta kvöld...
Alls mættir 29 manns... viku síðar voru eingöngu 14 manns á Akrafjalli... það er augljóslega meiri mæting þegar mætt er nær borginni og eins þegar gangan er í léttari kantinum... þess vegna viljum við hafa þessar léttu með í bland... svo að sem flestir drífi sig út að ganga með okkur á þessum dimmasta og þyngsta tíma ársins...
Jæja, prófum að fara niður stíginn sem við sáum að lá upp Stórhöfðann norðvestan megin og fór framhjá okkur á uppleið...
Birtan sem stafaði af snjónum var kyngimögnuð... það munar öllu að hafa snjóinn á þessum dimmasta tíma... megi hann vera allan nóvember og út janúar...
Borgarljósin lýsa svo upp skýin þegar það er lágskýjað.... þetta var eins jólalegt og það gerist...
Nýfallin mjöll á trjánum í skóginum...
Hversu fallegt er þetta... lygileg fegurð á þriðjudagskveldi sisvona... það er margfalt þess virði að fara út á þessum árstíma sem oftast... á hverjum degi... til að næra sálina...
Þegar niður var komið var farið kringum Hvaleyrarvatnið að sunnan og austan...
Mjög falleg leið og einstakur staður að heimsækja á þessum árstíma í myrkri með ferskan snjó yfir öllu saman...
Yndislegt... nærandi... heilandi... friðandi... hugljómandi...
Við tímdum ekki heim... spjölluðum heilmikið við vatnið í lok göngu... þetta var heldur létt kvöldganga... en yndileg var hún...
Alls 5,9 km á 1:33 klst. upp í 133 m hæð með 200 m hækkun úr 36 m upphafshæð... meira krefjandi ganga næsta þriðjudag... endilega mæta þá til að fá alvöru kvöldgöngu !
Takk fyrir dásamlegheitin og yndislegheitin elskurnar :-)
Comentarios