top of page
  • Facebook
  • Instagram
  • YouTube
  • Twitter

Svartagjá og Glymur óhefðbundna leið í 18 ára afmælisveislu klúbbsins

Æfing nr. 851 þriðjudaginn 14. maí 2025


Átján ára afmælisgangan okkar var óhefðbundin leið að Glym miðvikudaginn 14. maí... þar sem þjálfarar ákváðu að horfa á undankeppni Evrópsku Söngvakeppninnar í Sviss á þriðjudagskveldið þar sem Væb - bræðurnir kepptu fyrir Íslandshönd...


Á þessum dögum ríkti fádæma blíða á landinu öllu og hitastig fór yfir 20 gráður á nokkrum stöðum, meðal annars á suðvesturhorni landsins... svo við vorum ljónheppin með veður...


Mættir í þetta afmælisboð voru alls 15 manns; Ása, Karen, Sighvatur, Siggi, Inga, Gerður Jens., Þorleifur, Dina, Halldóra Þórarins., Þórhildur, Silla, Guðný Ester, Helgi og Örn en Bára tók mynd... og Batman, Hetja og Myrra léku á als oddi eins og vanalega...


Þema kvöldsins var Væb-sólgleraugu... og silfur-glimmer... og menn mættu með silfurlitaðan fatnað... silfurspennu í hári... íslenska fánann... og glimmer fánaborða.. Ása og fleiri eru náttúrulega algerir snillingar !

Svartagjá er stórkostleg náttúrusmíð í Víðihamrafjalli og á sínum tíma prófuðu þjálfarar að fara upp meðfram henni vestan megin, þ.e. vinstra megin og komust að því að það er fínasta leið...


Gjáin þegar nær var komið... ágætis klöngur og þvælingur í grjótskriðum og kjarri sem er farið að hamla svolítið för frá því sem áður var... ótrúlegt... en dásamlegt samt líka...


Brekkan upp með gjánni lítur ekki vel út í fjarska... en er skárri þegar að er komið... en krefst þess samt að fara varlega og ekki senda grjót niður á félagana neðar...


Magnaður staður... við stöldruðum við í efri hlíðum og nutum útsýnisins...


Grjótgatið efst... þessi brekka reyndi vel á en öllum gekk vel hér upp...


Sjá útsýnið... gullfallegt veður... og mjög lítill snjór í fjöllum eftir mildan vetur og hlýtt vor og sumarbyrjun...


Þórhildur og Halldóra héldu með laginu frá Eistlandi sem hér Machiato... enda frábært lag... og mættu með Machiato kaffi frá Starbucks ! Geri aðrir betur segir þjálfari nú bara... hér með konfektið sem var í boði þjálfara með freyðivíninu...


Til hamingju með 18 ára afmælið... og takk fyrir að mæta í afmælið elskurnar !


Uppi var gengið að Glym vestan megin... sjá Hvalfellið hér svo fagurt... skaflinn okkar góði sem sendi okkur alltaf niður brekkurnar hér á árum áður er þarna ennþá þrátt fyrir hlýindin....


Frábær hópur... bestu félagar... forréttindi að ganga með þessu fólki... Halldóra, Þórhildur, Ása, Gerður Jens og Silla... allar með sína sögu í klúbbnum en Halldóra og Gerður búnar að vera með okkur frá upphafi eða nánast það...


Gerður Jens ofurkona er hvorki meira né minna en 77 ára í haust... fædd 1948... enn á fjöllum, á hjóli, á skíðum, í sundi, í jóga... mögnuð kona og dýrmæt fyrirmynd... en í kjölfarið á þessari göngu ákváðu þjálfarar að þeir klúbbmeðlimir sem hafa verið með okkur að lágmarki í fimm ár greiða ekki æfingagjöld eftir 75 ára aldur... en með þessu þarf enginn að velkjast í þeirri ákvarðanatöku hvort halda eigi áfram í fjallgönguklúbbnum eður ei... heldur eru bara velkomnir til æviloka sem heiðursfélagar og munu vonandi vera með okkur árum saman... en þetta á við þegar þessi ákvörðun er tekin um Gerði Jensdóttir, Katrínu Kj. og Guðmundur Jóns og svo Möggu Páls... það er heiður að ganga með þessu fólki og ekki orð um það meir !


Gljúfur Glyms er stórkostlegt... og snerti okkur djúpt þetta kvöld eins og alltaf...


Við óðum Botnsána fyrir ofan fossinn... en hún var ansi breið, vatnsmikil og köld... og fór Bára þjálfari þrjár ferðir til að ferja tvenna vaðskó til þeirra sem gleymdu að koma með... og var þetta sérlega frískandi og skemmtilegt vað...


Austan megin vorum við komin á stíginn sem liggur upp með ánni og fossinum og hér eru nokkrir áhrifamiklir útsýnisstaðir sem við nutum í rólegheitunum á niðurleið...


Hvílíkur staður að vera á !


Niðri tókum við hópmynd með fossinum... sólin að setjast hér og við enn á leið niður í algeru tímaleysi...


En... þá kom babb í bátinn... sem við vorum svo sem búin undir... enginn staur kominn yfir ána eins og svo oft á þessum árstíma... en áin svo straumhöfð og vatnsmikil að sumum leist ekki á blikuna og þjálfara ákváðu að vaða Hvalskarðsána og fara yfir á brúnni neðar sem þýddi lengingu á leiðinni en það reyndist mjög falleg leið sem við myndum vilja fara aftur síðar...


Hér lék sólsetrið sitt hlutverk og mikil kyrrð einkenndi þennan kafla í ljósaskiptunum...


Hægt var að stikla yfir Hvalskarðsá svo við þurfum ekki að fara í vaðskóna á ný...


Niður með ánni var svo farið að brúnni og aftur í bílana og reyndist þetta mun minni og léttari viðbót við gönguna en þjálfarar áttu von á...


Alls 7,6 km á 5:05 klst.... jebb... við vorum að njóta þetta kvöld enda 20 stiga hiti ! ... upp í 284 m hæð við Svartagjá í Víðihamrafjalli og 336 m við Glym með alls 474 m hækkun úr 60 m upphafshæð...




Comments


bottom of page