top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Valahnúkar í enn einu logninu

Æfing nr. 728 þriðjudaginn 1. nóvember 2022.


Fjallshryggur kvöldsins... lágur en fagur... og býður upp á mikið klöngur... ef maður sniðugengur ekki erfiðustu klettana...


Algert logn eins og svo oft síðustu vikurnar... með ólíkindum fallegt og friðsælt haust þetta árið...


Eins og við höfum oft gengið um Valahnúka... þetta var fjórtánda skiptið... reyndar ekki alltaf þessa leiðina.... stundum eingöngu með viðkomu á leið annað... að þá er bröltið um hann alltaf að koma manni á óvart...


Upp hér að vestan.. vinstra megin... engin leið niður nema hér aftur til hægri... og það var nú saklausara en það leit út fyrir...


En fyrsta var smellt í eina hópmynd á klettinum því fögur var birtan...


Alls mættir 22 manns... frábær mæting þessa dagana !


Agnar, Bára, Dagbjört, Guðmundur Jón, Inga Guðrún, Ingólfur K., Gylfi, Johan, Jóhanna Fríða, Katrín Kj., Lilja Sesselja, Magga Páls., Ósk E., Sigríður Lísabet, Sigrún Bjarna., Sjöfn Kr., Steingrímur, Steinunn Sn., Þórunn og Örn.

Skemmtilegt klöngur ofan af þessum kletti... sumir enga stund... aðrir vönduðu sig vel...


Verstu brekkunni var sleppt að sinni... líklega erum við farin að sleppa henni allt of oft... einhverji höfðu á orði að þeir hefðu farið hana allt of sjaldan... það er rétt... við vorum duglegri að fara hana fyrstu árin... heilmikið og tafsamt klöngur og langtum flóknara en þetta smávegis hopp þarna áðan... förum þessa brekku næst !


Sjá Esjuna í ljósaskiptunum... mögnuð birta !


Friðsældin var alltymlykjandi þetta kvöld... þetta logn er með ólíkindum... jú og vel þegið svo sannarlega... oft höfum við fengið rok vikum saman á þriðjudögum og munum varla eftir því hvernig er að ganga í logni...


Töfraheimar Valahnúka eru óumdeildir... hingað er þess virði að koma á hverju ári... þó við séum ekki endilega að gæta þess í dagskránni... en gott að hafa þá sem varaáætlun ef veður hamlar för annars staðar...


Brekkan okkar gamla og góða... hingað niður fórum við alltaf fyrstu árin... þegar okkur datt aldrei í hug að hugsa í hindrunum... það getur verið erfitt... sérstaklega þegar úrtöluraddirnar glymja allt í kring... þá reynir á staðfestu... það er svo margt hægt ef viljinn og yfirvegunin er með í för...


Stjörnurnar farnar að skína á himni...


Ljósin á Helgafellinu voru óskaplega falleg í fjarskanum...


Völurnar í Valahnúkum eru einstakar... maður gleymir því ekki þegar maður kom hér fyrst... hvílíkur töfrastaður... hér höfum við verum á öllum árstímum... í alls kyns veðrum... og fáum aldrei nóg af þessari formfegurð...


Ljósin lýstu völurnar svo vel upp... það var ekki annað hægt en taka hópmynd með upplýsingu á þeim... Johan nýliði var með sterk ljós sem hann nýtti til að lýsa upp... það var vel þegið... og útkoman mjög flott !


Frá völunum héldum við upp á austasta tindinn... við sleppum honum helst aldrei... enda flott að enda þar í nesti eins og oft áður... í kyrrðinni með ótrúlega mikla fjallasýn í myrkrinu... tunglið að koma undan Bláfjöllunum og lýsti svo fallega upp himininn...


Dásamlegt alveg... við gáfum okkur góðan tíma til að njóta úr því veðrið rak okkur ekki af stað... en það er það sem oftast tekur af okkur nestistímann á veturna...


Bakaleiðin var um stíginn til baka í myrkrinu þar sem spjallið gaf okkur orku og samveran var nærandi með meiru... alls 6,1 km á 2:20 klst. upp í 216 m hæð með alls 213 m hækkun úr 93 m upphafshæð.


Yndiskvöld eins og þau gerast best með dásamlegu fólki sem gefur svo mikið... takk elskurnar fyrir að vera alltaf til í þetta árum saman.... :-)

50 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page