top of page

Vinafjallið mitt árið 2022

Updated: Jan 17, 2023

Samantekt þátttakenda með einni mynd frá hverjum og einum #vinafjalliðmittx52

(Mynd frá Jöönu af tindi Móskarðahnúka).

Alls tóku allavega 14 manns þátt í vinafjalls - áskoruninni árið 2022 og náðu líklega 11 manns að ganga 52 sinnum eða oftar á vinafjallið sitt á árinu. Hrein unun var að lesa meldingar þeirra yfir árið á fjallið sitt en hver ferð á vinafjallið getur verið efni í heila ferðasögu ef því er að skipta.


Sex ? gengu alls 52 eða fleiri ferðir á Úlfarsfellið, þrjú á Helgafell í Hafnarfirði og ein á Móskarðahnúka; Kolbeinn fór 160 ferðir, Ragnheiður 121 ferð en það sem upp úr stendur er Jaana sem gekk alls 90 sinnum á Móskarðahnúka á árinu 2022 sem er aðdáunarvert afrek þar sem leiðin er krefjandi og löng og aðstæður mun erfiðari en á lægri fjöllunum nær Reykjavík. Hún vinnur sér inn árgjald í klúbbnum fyrir afrekið, til hamingju með þetta elsku Jaana ! Hér koma meldingar hvers og eins þátttakanda með mynd frá viðkomandi:


Jaana:

Samantekt fyrir vinafjallsáskorun #vinafjalliðmittx52 árið 2022:

Árið byrjaði með látum...bálhvasst í janúar og svo mættu snjórinn og ófærðin í febrúar svo að ekki leit þetta vel út hjá mér að ná 52 ferðum upp á vinafjallið mitt Móskarðshnúka...

En, svo kom mars og apríl og svei mér allt í einu hægt að komast keyrandi á bílaplanið og mun þægilegra að brölta áfram í kjölfarið Flestar ferðir voru því í sumarblíðunni og náðist ferð nr. 52 í september Svo byrjuðu bónusferðirnar sem voru mjög svo skemmtilegar, ekki síst þegar snjórinn og ófærðin mættu á ný rétt fyrir jól... lokatala 90 ferðir.


Jóhanna Diðriks:

Mér tókst að klára #25 ferðir á Helgafell í Hafnarfirði í #vinafjalliðmittx52 áskoruninni 2022. Það var mjög ánægjulegt og krefjandi að takast á við þær ýmsu aðstæður sem komu í veg fyrir að ég næði að klára 52 ferðir. Fjallamaraþonið sömuleiðis náði 7 af 12 mánuðum

Gleðilegt ár kæru göngufélagar þið eruð frábærar fyrirmyndir. Hlakka til að ganga með ykkur á nýju ári.


Katrín Kj:

Hér er uppgjör mitt fyrir árið sem nýliðið er.

Ég ákvað að velja mér fellin í Mosfellsdal sem vinafjöll að þessu sinni.

Lauk við 52 ferðir á Úlfarsfellið góða en samtals urðu ferðirnar alls 73 á fellin samtals……jafnt mínum aldri.


Kolbeinn:

Vinafjallið mitt var Úlfarsfell og náði að fara 160 ferðir.Linda:


Njóla:

Ársuppgjörið mitt fyrir 2022.

Fór 83 ferðir á Helgafell #vinafjalliðmittx52

Búið að vera frábært gönguár hjá mér og Dodda (þegar hann komst með ) en samtals fór ég á 138 fjöll á árinu heima og erlendis, allt samviskulega skráð í dagbókina.


Ragnheiður:

Hér er uppgjörið mitt 2022, strembið þegar líða tók á árið

Samtals fór ég 121 ferð á vinafjallið mitt, Úlfarsfell.


Siggi:


Sigríður Lísabet:

Fór 56 ferðir á vinafjallið mitt á síðasta ári

Fyrsta ferðin var 3. janúar en sú síðasta 15. des.


Sigríður Lár:

Ég hef aldrei átt eins ömurlega samtölu í fjallaáskoruninni: Fór samtals 18 sinnum á Esjuna/Móskarðshnjúka. Hef tvær löglegar afsakanir: slæmt covid og Ermarsundið. 2023 klárlega betra. Gleðilegt ár félagar í besta gönguhópi jarðar!


Sjöfn Kr:

Ég valdi Helgafell Hjf sem mitt vinafjall, og varð okkur vel til vina. Það er svo hentugt, aðgengilegt árið um kring með örfáum undantekningum. Leiðirnar á því eru fjölbreyttar og það var gaman að kynnast þeim smátt og smátt. Og svo finnst mér það svo fallegt, ég dýrka móbergið með öllum sínum skúlptúrum, bæði hvössum og mjúkum.

Ferð nr 52 náði ég 13. október, en ákvað síðan að bæta 10 við svo þær yrðu jafnmargar aldursárum mínum. Flestar ferðirnar fór ég að vetrarlagi, í janúar og mars. Samtals gekk ég 360,2 km á mitt ágæta vinafjall. Þórkatla:

#Vinafjalliðmittx52 2022 var Úlfarsfell. Ég fór 59 skráðar ferðir á fellið mitt og svo eina bónusferð í lok árs sem ekki fær tölu við sig. 59 ferðirnar voru samtals 248,1 km og með 14.500 m hækkun alls. Merkilegt að ég er ekki orðin leið enn, heldur hlakka ég til að rölta þetta þegar ég hef tíma. Úlfarsfellið verður áfram vinur minn.


---------


Mun fleiri en hér eru að ofan gengu á vinafjallið sitt en náðu ekki 52 ferðum á árinu eða hafa ekki ennþá sett inn sína samantekt... en af því það er hrein unun að lesa lýsingar þátttakenda af einstaka ferðum á vinafjallið... læt ég hér fylgja lýsingu frá Ásu sem er alger veisla að lesa... ein ferð á vinafjallið manns getur nefnilega næstum því verið efni í heila bók ef því er að skipta !


Ása Jóhannsdóttir þann 19. desember 2023:

"Með tilliti til þess að mér finnst bras vera allt annað en þras þá fór ég eina skemmtilegustu ferð mína á Úllann áðan. Ég vissi að ég væri tæp að ná birtu og líka að það er vindur allt í kring svo ég var alveg með allar græjur með mér. Ég rölti að heiman og upp í gegnum skógræktina, þó nokkurn hluta leiðarinnar hafði enginn gengið og talsverður snjór svo það voru alveg háar hnélyftur í góðan tíma. Stuttu eftir að ég komst á spor einhverra annara þá mætti ég Sjöfn okkar og það er aldrei leiðinlegt. Þegar ég var að komast a Háahnjúk tók við alveg agalegur skafrenningur og svo a toppnum var alveg bálhvasst, þannig að maður þurfti að setja hausinn undir sig. Ég fer alltaf yfir og niður á Skarhólamýrina, þá byrjuðu skemmtileg heitin. Það var ekkert að lægja en í staðinn dimmdi með og skafrenningurinn jókst. Ég skellti mér í skel, á ekki vindgleraugu en skellti sálgleraugum upp og svo höfuðljósi. Ég sá bara ekkert hvar ég var fyrir skafrenningi en þekki fjallið eftir nokkrar ferðir þarna svo það var aldrei neinn beigur, bara gaman. Eftir smá siksax þá datt ég á stíginn og leiðin greið. Ég var samt pínu gröm yfir hve nýja Black Dimond ljósið mitt lýsti illa í þessari ferð, þið ættuð að vita hvað það skánaði þegar ég tók sólgleraugun niður. Þetta var sko stuð, var rúma 2 tíma með leið sem ég er venjulega um 1 klst og 20 mín." Tilvitnun beint af fb-hópi Toppfara frá Ásu Jóhnnsdóttur 19. desember 2023.

Látið mig vita ef það vantar einhvern hér inn og endilega meldið inn ykkar samantekt með ljósmynd inn á lokaðan fb-hóp Toppfara :-)


Takk öll elskurnar fyrir að taka þátt, hvort sem þið náðuuð 52 ferðum eður ei... 10 ferðir eru fleiri en margir ná... það er ekki sjálfgefið að komast á fjall yfirleitt...


Og til hamingju öll fyrir að klára vinafjallið ykkar alls 52 ferðir eða fleiri á árinu 2022 !

Jaana vann sér inn árgjald í klúbbnum fyrir að fara alls 90 ferðir á árinu á Móskarðahnúka sem er aðdáunarvert afrek enda löng og krefjandi leið, oft á jöklabroddum eða keðjubroddum, ófærð við fjallsrætur og í alls kyns vandræðum með bílfæri að fjallsrótum en það segir sína sögu að Jaana keypti sér jeppling á árinu til að komast betur að fjöllunum og ekki síst að vinafjallinu hennar, Móskarðahnúkum.


Líklega verður þetta afrek Jöönu seint toppað en það gefur okkur hinum hvatningu og orku... og það sem mest er um vert... sýnir okkur að þetta er vel hægt ef hugarfarið er jákvætt, lausnamiðað og einbeitt :-)


Við hvetjum fleiri til að taka þátt árið 2023 en þá eru 12 fjöll í pottinum og eitt fjall í hverjum mánuði sem allir þátttakendur þurfa að ganga á. Fyrir þá sem hafa komist á bragðið með #vinafjalliðmittx52 þá er þetta einstaklega nærandi og heilandi að gera þetta fyrir utan ótvíræðan ávinning af þessu fyrir líkamlegt gönguform.


Það er augljóst að þeir sem ganga á vinafjallið sitt að meðaltali einu sinni í viku eða oftar á hverju ári, eru almennt í góðu fjallgönguformi og öruggir á fjöllum í alls kyns veðrum og færð, því það er ekki alltaf sól og logn á vinafjallinu ef gengið er á það allt árið um kring.


Ómetanleg upplifun, reynsla og þjálfun fæst með þessari ástundun... vonandi komast sífellt fleiri á bragðið með þessa ástundun... höldum áfram að rækta vináttu okkar við vinafjallið okkar... meðan heilsa og svigrúm leyfir :-)

83 views0 comments

Comments


bottom of page