top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Kvígindisfell í mögnuðu útsýni

Updated: Jun 1, 2021

... þar sem Agnar fékk slynk á hnéð og reif liðþófann hlaupandi upp grjótskriðu neðarlega í fjallinu... þriðjudagsæfing 11. maí 2021.


Kvígindisfell af Uxahryggjaleið óhefðbundna leið upp hægra megin... einn úr hópnum fékk slynk á hnéð þegar hann hljóp upp eina grjótskriðuna enda mikið lausagrjót í þurrkinum og heyrðist smellur líkt og liðþófinn hefði rifnað og gat hann ekkert stigið í fótinn í kjölfarið...

... kallað var á aðstoð björgunarsveita en þyrlan kom og gat lent þar sem við biðum neðarlega í fjallinu... við þökkum Neyðarlínunni, Þyrluáhöfn og björgunarsveitinni sem mætti landleiðina á vettvang, hjartanlega fyrir sérlega ljúfmannlega þjónustu og alúð frá fyrsta símtali til síðustu veifingar úr lofti...


Flestir úr hópnum héldu áfram för upp þetta magnað útsýnisfjall og uppskáru fágæta sýn á Botnssúlurnar, innri Þingvallafjöllin og fjallakransinn við Langjökul sem og alla leið upp í Borgarfjörð, Holtavörðuheiði, eldfjalla Suðurlands og til Kerlingarfjalla... einstakt útsýnisfjall sem lætur mjög lítið yfir sér og virkar óspennandi uppgöngu en gefur þeim mun meira af fjallasýn í staðinn... 120521.



Þetta var enn eitt góðviðris þriðjudagskvöldið... og það var fólksbílafært inn Uxahryggjaleið... eftir heilmikið japl, jaml og fuður yfir bílfærinu þar sem allir fengu jeppafar... kom í ljós að við hefðu getað keyrt á hvaða bíl sem var inn að fjallsrótum...



Við fórum ekki hefðbundna leið á fjallið frekar en oft áður... og keyrðum því framhjá mun ávalara og einfaldari leið á fjallið austan megin... höfðum farið áður tilraunakennda leið norðan megin en nú leist okkur ekki nægilega vel á hana þar sem snjóskaflarnir voru harðir og ekki færir í þessum kulda... þjálfarar sáu því út fína leið norðvestan megin þar sem hægt var að sniðganga skaflana og til vara var svo mun meira aflíðandi leið enn vestar sem við höfðum sem varaleið og niðurgönguleið ef uppgönguleiðin yrðin erfið... og endaði hópurinn á að fara þá leið niður...


Fjallasýnin er stórkostleg af Kvígindisfelli... ekki glæsilegt fjall að ganga á kannski... eða þó... en útsýnið af því er milljón dollara virði... yfir öll fjöll Þingvalla, Botnssúlurnar, Esjuna, Skarðsheiðina, Borgarfjörðinn og hálendið í norðri og kringum Langjökul og félaga...



Einn af kostum þess að fara óhefðbundnar leiðir á fjöll er uppgötvun á alls kyns fallegum stöðum... þessu gili hér með ísfossinn innst... mjög fallegur staður...


Alls mættir 30 manns þetta kvöld... Agnar, Anna Harðar., Arnór, Ása, Bára, Bjarni, Björgólfur, Egill, Gerður Jens., Guðmundur Jón, Helga Rún, Inga Guðrún, Jaana, Jóhanna Fríða, Katrín Kj., Kolbrún Ýr, Kristín H., Linda, Neval, Oddný, Ragnheiður, Sigrún Bj., Siggi, Sigurjón, Silla, Sjöfn Kristins., Svandís, Vilhjálmur, Þórkatla og Örn.



Brekkan upp fyrsta múlann var ansi brött en vel fær í mosa og föstu bergi... hún tók vel í og átti eftir að skipta máli við ákvörðun um að flytja ekki Agnar þarna niður þegar hann sneri sig illa á hnénu...



Okið... Fanntófellið... Þórisjökullinn... Litla og Stóra Björnsfellið... og þetta voru bara nokkur af öllum þeim fjöllum sem blöstu við af fjallinu þetta kvöld...



Sýnin til Borgarfjarðar... Þverfell við Reyðarvatn hér næst hægra megin... á það gengum við árið 2019 í sárabót fyrir jöklaferðina sem þá var aflýst vegna veðurs í maí...



Örn fann hér fína leið upp en hún var í talsverðum bratta og heilmikið grjóthrun úr hlíðunum svo það reyndi á að vera ekki að klöngrast ofan við hópinn sem var svo neðar... en í þessu grjóti sem er hér ofan við Sigga tók Agnar á rás beint upp og sneri sér snögglega við þegar hann kom að hópnum sem var þá farinn að þvera hlíðina efst á eftir Erni... og fékk þá slæman slynk á hnéð svo small í og ljóst var að liðþófinn var rifinn eða álíka áverki í hnéliðnum...



Við sem öftust vorum fórum nefnilega beint upp í áttina að hópnum í mosanum... en Agnar valdi grjóthrúguna sem var of mjúk fyrir hnéð og lék hann því miður svona illa... grátlegt alveg...



Rúmlega helmingur hópsins kominn upp þegar óhappið gerðist en ljóst að við vorum ekki að fara lengra og Bára bað Örn að koma niður... það yrði að kalla á björgunarsveitir því hann gat ekkert stigið í fótinn... eftir heilmiklar vangaveltur með hvort hann gæti haltrað niður eða við borið hann á milli okkar... svipað og við gerðum með Ástu Jóns á sínum tíma...


Þeir sem treystu sér upp gerðu það og héldu áfram með hópnum upp á tindinn (Ása, Guðmundur Jón, Inga Guðrún, Jóhanna Fríða, Katrín Kj., Kristín H., Oddný, Sigrún Bjarna) en hinir sneru við til baka í bílana og þjálfarar biðu með Agnari eftir björgun...


Þjálfarar nýbúnir að fjárfesta í tveimur 4ra manna neyðarskýlum og 2x1 manns sem er eiginlega 2ja manna og Agnar fór í annað þeirra... þetta er nú eiginlega bara stór plastpoki sem einangrar vel gegn vindi og kulda... og í raun hægt að vera bara með svartan plastpoka... en þessi hefur umfram þann svarta að vera áberandi úr fjarlægð fyrir björgunaraðila og hann er mun dýpri þannig að hægt er að setja hann yfir höfuðið... og það geta í raun tveir einstaklingar farið þarna ofan í eða einn einstaklingur og svo bakpokinn hans... mjög gott skýli í raun... keypt í Fjallakofanum og kostaði ekki mikið...



Þjálfarar hringdu í Neyðarlínuna og gáfu upp gps-punktana og sögðu að það væri greið um 2ja kílómetra leið á láglendi að fjallinu og frá slysstað væri ein brött brekka sem við gætum vel komið hinum slasaða niður um ef þyrfti... Neyðarlínan hringdi stuttu síðar og sagðist senda þyrluna... og sigmaðurinn á hinum enda línunnar spurði alls kyns spurninga til að skipuleggja aðstoðina sem best... mjög fagmannlega gert og öll samskipti okkar við þau var til fyrirmyndar... hvergi lætt því að okkur að þetta væri nú vesen í okkur og við værum að valda usla eða vandræðum... því tilfinningin að kalla svona á hjálp er þungbær... það er langt í frá sjálfsagt að biðja svona um björgun... en við vorum öll sammála því að það væri ekki á neinn leggjandi í hópnum að halda á Agnari alla þessa leið eins og við bárum Ástu í vetur því þá vorum við mun nær bílunum en þetta kvöld....



Líklega biðum við í tæpan klukkutíma eftir þyrlunni... og björgunarsveitir á Vesturlandi komu líka landleiðina... og hringdu þegar búið var að sækja Agnar í þyrluna og spurðu hvort við þyrftum einhverja aðstoð... sem við afþökkuðum með miklu þakklæti og virðingu... hvílík þjónusta... !



Agnar fór á slysadeildina og reyndist ekki brotinn eða með bráðaáverka en grunur var um rifinn liðþófa sem staðfestist tveimur vikum síðar og þá var hann drifinn í aðgerð hjá bæklunarlækni sem sá hversu illa farinn hann var... enda steig hann varla í fótinn dögum saman... vonandi kemur hann sterkur til leiks áður en sumarið er liðið... þessi drengur á allt það besta skilið... frábær fjallafélagi sem hefur gefið okkur svo mikið og hefur mikla ástríðu fyrir fjöllunum og óbyggðunum...




Sjá grjótbrekkunar þar sem Agnar sneri hnéð... slétta mosavaxna syllan lengst til hægri var staðurinn þar sem þyrlan lenti og sótti hann...


Þyrlan sótti víst líka konu sem runnið hafði niður bröttu hlíðina inn að Vörðuskeggja í Henglinum (þessari sem við sniðgengum í desember og fórum ofan við) - og voru því tveir fjallgöngumenn fluttir á slysadeildina þetta kvöld með þyrlunni... en þess skal getið að í fréttum var Agnar orðinn að konu sem hafði hrapað í hlíðum Kvígindisfells... sem var svolítið mikið ólíkt karlmanni sem fékk slynk á hnéð hlaupandi upp grjótskriðu... ekki fall, ekki kona, ekki hröpun niður... og var þetta sláandi röng lýsing hjá fréttamanninum... og okkur var tíðrætt um hversu lítið er að marka fréttirnar nú til dags... menn velja bara hvað þeir skrifa... velja hvað þeir lesa... og velja hverju þeir trúa... á allri þessari upplýsingaöld þá er sannleikurinn líklega aldrei í eins miklum vandræðum og einmitt núna...



En... sem sé... þegar þyrlan var farin... tóku þjálfarar að huga að hópnum sem farið hafði áfram upp Kvígindisfellið eftir óhappið... og hringdu í Bjarna þar sem þeir ráðlögðu hópnum að fara niður norðvestar af fjallinu meira aflíðandi leið í stað þess að fara sömu leið niður en þjálfarar höfðu haft hana bakhöndinni sem niðurleið... Bjarni skilaði þessu til Björgólfs sem tók stjórnina á hópnum af sinni stöku snilld enda með margra ára reynslu sem fararstjóri hjá Útivist og kann svo vel að mæta í göngu þar sem hann lætur þá alfarið um stjórnina sem sjá um gönguna það skiptið... en kann vel að grípa inn í þegar á þarf að halda eins og þetta kvöld og eins á Botna-skyrtunnu fyrr í vetur...


Eftir heilmiklar vangaveltur innan hópsins með leiðarval á leið niður enduðu Helga Rún og Neval sem höfðu verið á eftir hópnum lengi vel um kvöldið þar sem þær þurftu að snúa við til að sækja hundinn Whisky sem sneri til baka í bílana á miðri leið að fjallinu... enduðu þær sem sé á að velja að fara sömu leið niður og komið var upp og þjálfarar sáu sem betur fer til þeirra og gátu lóðsað þær niður með leiðbeiningum um hvar þær skyldu fara... því það er mun flóknara að sjá leiðina þegar komið er ofan frá...


Og svo fóru þjálfarar í að taka á móti hópnum norðavestar og mændu stöðugt upp eftir hlíðunum þar sem sjá mátti hópinn koma niður og var leiðin greiðfærari en uppleiðin enda heilmikið landslag þarna uppi og ávalar bungurnar auðvelda ekki sýnina niður brekkurnar og gekk það sem betur fer vel...


Lexía kvöldsins klárlega sú að þjálfarar vilja ekki skipta hópnum þegar slys verður en í þessu tilfelli var veðrið með okkur, lítið mál að bíða eftir björgun sem gekk vel svo það hefði verið betra að Örn hefði farið með hópnum upp á tindinn... einnig að þjálfarar sögðu hópnum að koma niður og snúa við eftir óhappið hjá Agnari en það komst ekki til skila til allra og því var í raun áhætta tekin með því að hópurinn fór sjálfur upp á fjallið einsamall, þó þar væru með í för vanir göngumenn og fararstjórar eins og Björgólfur sem tók styrka stjórn á hópnum á niðurleið... og eins er ekki gæfulegt af svona hóp að skipta sér svo í tvennt heldur hefðu stelpurnar átt að halda sig með hópnum og ekki fara tvær einar niður á öðrum stað, þar sem aðstæður eru fljótar að flækjast mikið ef fleiri lenda í óhöppum, villast eða finna ekki leið niður og hópurinn var á kafla kominn í fimm hluta; þeir sem sneru í bílana eftir óhappið voru í tveimur hópum en ekki einum = 1+2, Agnar og þjálfarar = 3, hópurinn uppi = 4 og Helga Rún og Neval = 5. EF það hefði skyndilega komið þoka og ekkert skyggni verið á fjallinu... ef einhver annar hefði misstigið sig illa... hvað ef... hvað ef... þá var ekki gott að vera skyndilega aðskilin í fimm ólíkum hópum... og ef eitthvað fleira hefði gerst hefði þetta verið eitt af aðalatriðunum sem hefðu verið gagnrýnd...

En þetta fór allt saman vel... auðvitað... og allir komu í þvílíkri sæluvímu niður eftir stórfenglegt útsýnið ofan af Kvígindisfelli... sælubrosin voru ótvíræð... og menn voru óðamála í lýsingum á útsýninu af fjallinu, já magnað þetta kvígindisfell !



Þau fengu magnaðan tind í safnið... 783 m hátt Kvígindisfellið... mynd frá Jaana - Takk !

Neval, Siggi, Björgólfur, Jaana, Silla, Kolbrún Ýr, Svandís, Bjarni, Gerður Rún, Ragnheiður, Sigurjón, Arna Harðar, Vilhjálmur, Þórkatla og Jóhanna Diðriks en Helga Rún tók mynd. Vantar Lindu á myndina ?



Mynd Jaana: Botnssúlurnar, Hvalvatn og Hvalfell...



Mynd frá Jaana: Ok, Fanntófell og Lyklafell.



Mynd frá Jaana: Þau sáu þyrluna koma þegar þau voru á tindinum...



Mynd frá Jaana: Niðurleiðin var svolítið mál enda heilmikið landslag ofan við staðinn þar sem þjálfarar biðu með Agnari... það var mikið eftir af fjallinu ofan okkar þar...



Loksins öll sameinuð gengum við til baka í bílana... en þeir sem fóru ekki upp á fjallið heldur sneru strax við hittu á björgunarsveitirnar sem komu landsleiðina... Þverfellið við Reyðarvatn hér... sólarlagið svo fallegt...



Skjaldbreiður hér í baksýn og Þingvallafjöllin að birtast...



Takk fyrir okkur Kvígindisfell... mjög leitt með Agnar... vonandi kemur hann bættur og betri í göngu með okkur sem fyrst aftur... bataknús elsku vinur...



Alls gengu þjálfarar, Agnar og þau sem sneru við eftir óhappið hans 2,9 km á 2:30 klst. upp í 557 m hæð með alls 169 m hækkun úr 416 m hæð... en hópurinn sem fór á hæsta tind Kvígindisfells gekk 8,9 km á 2:30 klst. upp í 783 m hæð með alls 470 m hækkun.






253 views0 comments

Comments


bottom of page