top of page

Vetrarfjallamennska

Broddar

Ísexi

Ísaxarbremsa

Jöklalínur

Sprungubjörgun á jökli

Snjótryggingar

Mat á snjóflóðahættu

Notkun snjóflóðaýla


Samantekt af námskeiðum í umsjón
Jóns Heiðars Andréssonar fjallaleiðsögumanns IFMGA
fyrir Toppfara í gegnum árin. 

Jöklabroddar og ísexi er nauðsynlegur búnaður allra sem ætla að ganga með okkur að vetri til í lengri ferðum en á þriðjudagskvöldum. 

Við mælum sérstaklega með því að allir kaupi sér sinn búnað frekar en að fá hann reglulega lánaðan. Nauðsynlegt er að nota þennan búnað sem oftast á hverjum vetri svo hann verði manni tamur... maður sé fljótur að ná í hann... festa hann á skóna og ganga á honum jafnvel klukkutímum saman... 

 

Ekki... vera staddur í brattri frosinni brekku lengst uppi í fjöllum á lánuðum broddum sem maður kann ekki almennilega að festa á sig... eða sem passa ekki vel á skóna... eða eru sífellt að losna eftir nokkur skref... mýmörg dæmi eru um þetta í klúbbnum en þetta eru aðstæður sem enginn vill lenda í og geta hæglega verið hættulegar... 

Tegundir val og notkun jöklabrodda:

*Eru misjafnir eftir því hvort um göngubrodda
er að ræða eða klifurbrodda.

*Skiptir ekki höfuðmáli hvort séu 10 punkta eða 12 puntka. Tólf punkta með meira grip en tíu punkta léttari.

*Misjafnir eftir því hvort henta alstífum skóm eða milli/lítið stífum skóm - opnir broddar henta alstífum skóm (Scarpaskónum sem nokkrir hafa keypt í hópnum) en broddar með "körfu" að framan utan um tærnar og aftan utan um hælinn eru nauðsynlegir fyrir lítið stífa og millistífa skó til að veita stuðning á broddagöngu.

*o.m.fl. sem ekki er svigrúm hér til að nefna...
*Val á broddum á vefnum: 

http://www.rei.com/expertadvice/learn/crampons+snow+ice+climbing.html

T36_snaefjok_170410 (74).JPG
t198_midsula_sydstasula_230520 (193).jpg
broddar2_siggasig.jpg
t198_midsula_sydstasula_230520 (271).jpg
broddaganga_siggasig_edited.jpg
t190_hols_trollatindar_010220 (275).jpg
t116_solheimajokull_210315 (52).jfif

Að ganga á broddum... 
... reglurnar fimm... 

 1. Hafa aðeins gleitt með smá bil milli fóta til að flækja ekki broddunum hvor í annan eða flækja broddunum í skálmarnar og detta um sjálfan sig af þeim sökum eins og margir hafa reynt (sbr. rifnar skálmar á hlífðarbuxum v/broddanna). Chaplin eða skíðastökkvarar hér fyrirmyndin.
   

 2. Lyfta fótum vel upp til að reka ekki broddana í hjarnið og detta fram fyrir sig. Með broddunum erum við komin með "lengri fætur" og auðvelt að gleyma sér þegar líður á daginn og menn orðnir þreyttir eða kærulausir. Líkaminn vanur ákveðinni vegalengd sem hann þarf að lyfta fætinum upp og stíga næsta skref (flókin taugalífeðlisfræðileg athöfn) en þegar maður er kominn á brodda þarf maður að muna að lyfta hærra upp til að reka sig ekki niður undir.
   

 3. Taka stutt skref til að hafa betra vald á hverju skrefi.
   

 4. Stíga föstum skrefum niður í snjóinn en ekki léttum svo broddarnir nái að grípa vel í snjóinn (ef hált færi).
   

 5. Stíga jafnt á yfirborðið svo broddarnir nái allir að grípa taki í hjarnið en ekki stíga á ská (eins og maður gerir í skóm og hliðarhalla þegar maður stingur jarkanum á skónum inn í brekkuna til að mynda syllu í jarðveginn - alls ekki gera þetta ef maður er á broddum heldur nýta alla broddana til að grípa í hjarnið með því að ganga "flötum fótum").

  ... og reglurnar þrjár þegar gengið er í brekku... 
   

 6. Ganga með framhlið manns vísandi niður brekkuna ef undirlagið er mjög frosið, bratt og hált til að ná sem jöfnustu gripi - en ekki "ganga á hlið" eins og maður gerir vanalega á göngu í hliðarhalla. Beygja vel hnén, stíga yfirvegað niður og nýta líkamsþungann rétt. Á við í mikilli hálku, svelli eins og t.d. á Kerhólakambi í desember 2007 þar sem við fórum vel yfir þetta og æfðum o.fl. ferðum. Þetta þarf að æfa. 
   

 7. Þegar hálkan er minni en samt til staðar skal ganga í hliðarhalla með því að snúa "efri" fæti, þ.e. fætinum sem er ofar í brekkunni í göngustefnu en "neðri" fæti um 45° niður í mót til að nýta betur yfirborð broddana og hafa meira vald/öryggi á göngunni. Með því að ganga zikkzakk upp brekku er gott að hvíla kálfana með þessu þar sem maður beitir efri og neðri fæti misjafnt eftir því hvernig maður snýr mót hallandi brekkunni.
   

 8. Þegar gengið er beint upp ávala brekku skal ýta með táberginu á hjarnið en ekki með tánum en með þessu er átakið sterkara og þéttara en þegar stungið er með tánum inn. Þetta þarf að æfa. 

Í hnotskurn: 
Gleitt - hátt - stutt - fast - jafnt.

Beint niður - efri beinn og neðri 45 - tábergið.

Að ganga með ísexi...

*Ef farið er í brodda skal alltaf taka ísexi með í hönd líka því þá er maður kominn í hálkufæri þar sem nauðsynlegt er að geta stöðvað sig með ísaxarbremsu.

*Halda skal í ísexina með breiðara skaftið fram og beittara skaftið snýr aftur (oddurinn) og venja sig á að halda alltaf á henni svona þar sem viðbragðið til ísaxarbremsu liggur beinast við í þessari stöðu.

*Ef gengið er í hliðarhalla skal ísexin ávalt vera í þeirri hendi sem snýr að brekkunni til þess að viðbragðið ef maður dettur sé einfaldara við að grípa til ísaxarbremsu.

*Sé gengið niður brekku getur verið gott að styðja ísexinni aftan við sig til að hafa stuðning/hald.

Tegundir, val og notkun á ísexi:

*Lengd ísexinnar skiptir ekki höfuðmáli. Hér hefur áhrif hvort menn vilja geta stuðst við hana hálfpartinn sem staf (með því að hafa hana langa) eða bera eins létta exi með því að hafa hana stutta.

*Hvort handarband eigi að vera á henni eða ekki þá hefur það kosti og galla. Bandið kemur síður í veg fyrir að viðkomandi missi hana niður brekku ef hún dettur úr hendi (hangir á bandinu) og hún veitir stuðning við klifur (en þá erum við komin í annað en göngu á jökli/harðfenni á fjöllum).

 

Ókostir bandsins eru m. a. þeir að það er óhægt um vik að snúa exinni milli handa eftir því hvorum megin maður snýr að brekkunni (t.d. þegar gengið er zikkzakk) og bandið skapar slysahættu ef viðkomandi rennur af stað og exin slæst til og frá á leiðinni niður og getur slegist illa í viðkomandi.

 

t198_midsula_sydstasula_230520 (197)_edited.jpg
namsk_200312 (8).JPG
vetrarfjm_namskeid_110314 (27)_edited.jpg
isaxarbremsaor_siggasig_edited.jpg
namsk_200312 (11).JPG
broddar2_siggasig.jpg

Ísaxarbremsa...

*Ísaxarbremsu er ekki hægt að lýsa - hana verður einfaldlega
æfa verklega !

*Með því að halda alltaf rétt á exinni er maður viðbúinn eins og hægt er að grípa til hennar.

*Mikilvægt er að halda henni sem næst brjóstkassanum þegar bremsunni er beitt og missa hana ekki of langt ofan við sig til að geta beitt líkamsþunganum á ísexina - lítið hald í henni ef maður er kominn lengst fyrir neðan exina sjálfa.

*Hinn hlutinn af líkamsþyngdinni á að fara á hnén og lítið/ekkert annað af líkamanum að snerta jörðina - til að láta líkamsþungann liggja á exinni annars vegar og hnjánum hins vegar en þetta getur skipt sköpum upp á að bremsan virki ef hjarnið tekur illa við.

*Broddarnir mega ALDREI snerta jörðina ef maður rennur af stað. Þetta er mikilvægasta viðbragðið því ef broddarnir rekast í hjarnið á hraðferð rennandi niður kastast menn til og fara í loftköstum niður án þess að geta nokkuð stjórnað sér og beitt exinni og geta slasast illa við það - en ekki síður við það að fóturinn mun höggvast móti mótstöðunni þegar broddarnir fara í hjarnið og ökklar eða aðrir hlutar fótar geta brotnað illa.

*Menn þurfa að æfa vel ísaxarbremsu, hún verður þeim eingöngu töm sem æfir hana oft og reglulega við allar aðstæður.

*Nauðsynlegt er að vera jafnvígur á hægri og vinstri hendi og æfa bremsuna á báðum þannig að hún sé manni töm beggja vegna og æfa fall með höfuð niður í móti á maganum og bakinu, fall frá hlið beggja vegna en ekki eingöngu með falli niður í móti á afturendanum eins og einfaldast er að gera.

*Gott er að fara alltaf yfir ísaxarbremsu í hvert skipti sem farið er á brodda og hún tekin í hönd ef menn gera það sjaldan á hverju ári og fyrir þá sem fara reglulega á brodda með ísexi að æfa sig í huganum á göngunni, taka hana í viðbragðsstöðuna önnur hendi á efra skafti og hin á neðra skafti og ísexin ber við brjóstkassa.

*Þegar ísaxarbremsa er æfð er öruggast að vera ekki á broddunum til að auka ekki slysahættuna og velja öruggt æfingasvæði, þ. e. svæði þar sem menn stöðvast sjálfkrafa neðar og ekkert tekur við annað en snjór, hvorki grjót, möl, gljúfur né annað.

Í hnotskurn:

Alltaf með jöklabroddum, alltaf gegnt brekkunni, breiða skaftið fram, sem næst brjóstkassanum, allur þungi á öxl og hné, broddar alltaf upp og snerti aldrei jörðina, fara alltaf yfir þegar farið á brodda, æfa árlega með báðum höndum og viðbrögð í öllum stellingum.

Jöklalínur...

 

... skulu vera +/-8 - 10 mm þykkar og eru venjulegast um 80 metra með ca 8 m á milli hvers manns ef full lína og leiðsögumaður með sína aukalegu 20 m og flestar eru með smá teygjanleika í sér...en þetta fer að sálfsögðu eftir fjölda í línu ofl. og er breytilegt.

Hver og einn göngumaður klæðir sig í göngubelti þar sem sérstök, styrkt lykkja liggur framan á og þar í er næld karabína. Hver og einn er festur í línuna með hnýttri lykkju sem nælist í karabínuna á göngubeltinu. Mikilvægt er að skrúfa karabínuna í lásstöðu þegar búið er að næla lykkjunni í karabínuna. 

Almennt gildir að halda réttu bili milli allra göngumanna með því að láta línuna rétt strjúkast við jörðina. Með því er tryggt að ef einhver fellur ofan í sprungu, þá er höggið sem minnst og fallið sem styst. EF menn halda ekki þessu bili, heldur ganga nær og jafnvel alveg að hlið næsta manns fyrir framan til að spjalla, munu tveir falla niður í sprungu og ástand línunnar í heild þar með orðið mjög alvarlegt og illframkvæmanlegt að hefja hefðbundna sprungubjörgun.

Jöklasprungur liggja almennt þvert fallandi eða lekandi niður jökulinn (togsprungur) og því er gengið beint yfir þær eftir leiðsögn þar sem helst er búið að kanna legu sprungna áður ef mögulegt er. Jöklasprungur opnast þegar hlýnar að vori og geta verið vel færar með snjóbrúm að vetri og snemma vors en orðnar ófærar þegar hlýnar síðar að vori og svo að sumri.

 

Ef komið er að mjög víðum sprungum getur þurft að færa allan leiðangurinn (alla línuna ) til hliðar sbr. Þverártindsegg, 3ja tinda Öræfajökulsferðin og Kotárjökull. Ganga þarf þá yfir sprungusvæðið með því að halda sömu vegalengd milli manna þó þeir raði sér sikk sakk yfir í línunum, þar sem gengið er samhliða hugsanlegum sprungum og þannig tryggt að álagið á hverja snjóbrú sé ekki of mikið, því ef tveir standa á sama stað eru auknar líkur á að snjóbrúin gefi sig en ef eingöngu einn er í einu...

 

Mjög mikilvægt er að stíga aldrei á jöklalínuna á broddunum þar sem línurnar trosna og ef einhver fellur ofan í sprungu, reynir virkilega á styrk línunnar og að hún sé ekki trosnuð.

Leiðsögumenn skaffa jöklalínur og bera þær á bakpokanum þar til komið er að og af sprungusvæði. Þær þarf að vefja upp á ákveðinn máta (samliggjandi lykkjur sitt hvoru megin við hendi eða yfir háls) þannig að línan flækist ekki og ef þessa er ekki gætt, getur tekið mjög langan tíma að leysa úr flækjunni. 

Það er sjálfsögðu kurteisi að hver og einn leysi hnútinn sem fór í karabínu viðkomandi til að flýta fyrir frágangi leiðsögumanns þegar farið er
úr jöklalínum á niðurleið.
Munum eftir því !

t171_kotarj_rotarfjhn_040519 (240).jpg
t171_kotarj_rotarfjhn_040519 (311).jpg
t171_kotarj_rotarfjhn_040519 (151).jpg
t38_hvanhnuk_130510 (500).JPG
t38_hvanhnuk_130510 (519).JPG

Sprungubjörgun á jökli

Hvað gerum við ef leiðsögumaðurinn
sem alltaf gengur fremstur fellur allur ofan í sprungu ?

Ef eingöngu ein lína ef á ferð skulu allir í línunni bíða, gott getur verið að grípa í hjarnið með ísexinni ef þarf, setjast strax allir niður, halda línunni strekktri og passa að þunginn dreifist á alla línuna, en ekki bara fremsta mann sem tekur eðlilega mesta höggið við fallið og mesta þungann til að byrja með þegar slysið verður. Leiðsögumaður sem ferðast með hóp í einni línu á jökli er þjálfaður í viðbrögðum við slíkt fall og kemur sér sjálfur upp úr sprungunni. Mjög mikilvægt er að toga ekki í línuna heldur gefa leiðsögumanninum tíma og svigrúm til þess að koma sér sjálfur upp. 

 

Ef hópurinn togar þann sem fellur ofan í sprungu upp úr án hans samráðs eru mesta líkur á að hann stoppi efst neðan við sprunguopið á snjóhengjunni sem yfirleitt slútir yfir sprunguopinu og getur þetta valdið áverkum á leiðsögumanni og gert honum í raun ókleift að komast framhjá og upp á brúnina. Sjá ferðasöguna þegar Soffía Rósa Toppfari og fleiri lentu í þessu atviki á Hvanndalshnúk 2009 með ÍFML þar sem hlutirnir fóru vel að lokum, en ekki leit vel út meðan á því stóð þar sem þau urðu viðskila við meginhópinn, lentu í arfaslæmu veðri og engu skyggni, og þau biðu lengi að þeim fannst þangað til hann var kominn úr sprungunni  en leiðsögumaðurinn varð að láta pakpokann falla niður í sprunguna af því hann var togaður upp af hópnum undir hengjuna en þá fór gps-tækið hans með og því lentu þau í vandræðum líka við að rata niður í engu skyggni. Svakaleg saga sem segir svo margt og eingöngu deilt hér til að læra af og aldrei dæma þar sem við getum öll lent í viðlíka aðstæðum á fjöllum þar sem röð atvika setur hlutina fljótt í slæma stöðu:

http://gbo.blog.is/blog/gbo/entry/521774/

http://mbl.is/greinasafn/grein/1210894/

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef fleiri en ein lína er í leiðangrinum
kemur önnur lína til björgunar:

Björgunarlínan: Leiðsögumaðurinn þar nálgast brúnina varlega þar sem yfirleitt er snjóhengja á brúninni og sprungan liggur breiðari innan undir snjónum - notar til þess snjóflóðastöng til að kanna snjóalög og finna hvar fasta landinu sleppir til að gæta að eigin öryggi - grefur þá með skóflu úr brúninni til að bandið grafist ekki eins mikið inn, setur svo bakpoka, skóflu, skíði, staf eða annað þvert yfir snjóhengjuna til stuðnings til að línan skerist ekki inn í meðan á björgun stendur.

Leiðsögumaður sendir svo aukaspotta niður til þess sem féll ofan í sprunguna með hnút og karabbínu (aukalínan sem leiðsögumaðurinn er með hjá sér í pokanum (þessa 20 metra)) en hann mælir út circa hversu langan spotta þarf miðað við hve sprungumaðurinn er farinn langt niður - setur karabínu á hnútinn - og sá sem féll nælir karabínuna á sama stað á beltinu og hina karabínuna (sá sem féll má alls ekki losa karabínuna sem fyrir er og heldur honum öruggur við sína eigin línu).

 

 

Tryggja skal með spurningu til sprungumannsins hvort karabínan sé örugglega læst og með samfelldu átaki björgunarlínunnar í nokkrum áföngum þar sem fremsti maður í björgunarlínunni kallar "bakka" er maðurinn smám saman togaður upp úr sprungunni - mikilvægt að allir kalli skipun fremsta manns aftar á næsta mann, menn séu samtaka, veiti gott viðnám og taki hlutverk sitt alvarlega svo allt fari vel . Á meðan heldur lína sprungumannsins vel í og tryggir að hann falli ekki neðar ef eitthvað mistekst við björgunarlínuna (t.d. við að festa sjálfur aukaspottann í sig) og bakkar líka eins og línan þeirra losnar við uppgöngu leiðsögumannsins. Næst fremsti maður í þeirri línu skal meðan á björgun stendur, næla sig í línuna með karabínunni sinni með því að næla henni fyrst í línuna og svo losa hana af hnútnum í beltinu - en þannig er hann laus úr línuhnútnum en áfram nældur í línuna og getur gengið rólega að sprungunni - þar skal hann halda munnlegu sambandi við þann sem féll og tryggja að alls sé í lagi hjá honum meðan hann er hífður upp.

Til eru svo margar aðrar gerðir sprungubjörgunar sem fara þarf yfir á sérnámskeiði
sem við tökum síðar eftir því hvort menn eru eingöngu tveir saman á göngu, ein lína á göngu o.fl.

namsk_200312 (47).JPG
namsk_200312 (46).JPG
namsk_200312 (48).JPG
snjoakkeri2_siggasig.jpg
vetrarfjm_namskeid_110314 (70).JPG
snjobolli.JPG

T-akkeri og snjóbolla-akkeri

Ef síga þarf niður eftir göngumanni sem fallið hefur ofan í sprungu er hægt að setja línu sem hægt er að tryggja með annað hvort T-akkeri (T-slot-anchor) eða snjóbolta-akkeri (snow bollard). Jón Heiðar sýndi okkur þetta á námskeiðinu 2014. 

 

Í T-akkeri eru tvær axir grafnar niður með aðra lárétta til stuðnings og hinni stungið beint niður á bak við þannig að sú lárétta gefur þeirri lóðréttu stuðning til að halda í spottann sem þá er festur. Þetta þarf að prófa vel áður en einhver sígur niður á þessu akkeri þar sem þykkt og samsetning snævar hefur allt um það að segja hversu öruggt þetta er... og mikilvægast að grafa nógu djúpt og grafa smá farveg fyrir línuna þannig að hún kippist ekki upp í mót...

Í snjóbolla-akkeri er grafinn stór bolli í snjóinn og línunni rennt í farið í kring þar sem skilyrt er að snjórinn þarf að vera nægilega harður svo línan skerist ekki í gegnum bollann. Snjóbolla-akkerið er hægt að nýta ef fara þarf niður bratta brekku þar sem hægt er að losa línuna frá bollanum neðan frá og halda áfram göngu. 
Sjá gott myndband hér: 
Winter skills 2.8: making a snow bollard and using it to make an abseil - YouTube 

 

ATH betur á námskeiði um þetta
með Jóni Heiðari NB !

Sjá hér almennt um tryggingar í jöklaferðum:

Hauling and pulley: Rescuing a companion on a high alpine tour | LAB ICE (ortovox.com)

Mat á snjóflóðahættu

Unnið úr námskeiði Jóns Heiðars fyrir Toppfara 17. mars 2015
auk tilvísana í texta Leifs Arnar Svavarssonar um efnið sem og veraldarvefinn eins og við á.

Leiðarval á fjöllum: 

Almennt skal sniðganga brekkur þar sem snjóflóðahætta er til staðar og velja öruggar leiðir um hryggi, grjót og aflíðandi brekkur eða halda sig í jöðrum gilja ef unnt er. Snjóflóðahætta er mest þar sem snjór safnast saman, í giljum, hvilftum og skálum og forðast skal að ganga í miðjum brekkum. Brestir í snjóþekjunni sem þjálfarar hafa t. d. upplifað í könnunarleiðangri fyrir klúbbinn á Trönu og Múla 2013 og fleiri í klúbbnum gleymast aldrei þeim sem hafa upplifað, en ef þeir heyrast þegar gengið er í brekku þá skal snúa við hið snarasta.

 

Almennt er sagt að snjóbrekkur í 30 - 50 % halla eru skilgreindar sem hættusvæði en snjóflóð geta fallið utan þessara prósentutalna að sögn Jóns Heiðars og allt niður í 25% skv. Leifi Erni sem skrifar kaflann um snjóflóð í Fjallabók Jóns Gauta Jónssonar, okkar gamla leiðsögumanns í Toppförum. Gott er að temja sér frá upphafi að meta halla í brekkum og þróa með sér tilfinningu fyrir honum, t. d. með því að nota lófa og útréttan þumal (45% halli þá beint upp af 90% horni - sjá glærurnar á veraldarvefnum) eða stilla upp stöfum og mynda 90% horn (sjá Fjallabókina)... eða nýta tæki ef þau eru til staðar eins og áttavitann sem sumir geta mælt halla, og nú á tímum snjallsíma sem margir hverjir mæla halla ef þeir eru lagðir á yfirborðið... prófum þetta í göngum !

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Litlar brekkur geta spýjað niður snjóflóði eins og stórar... sbr. snjóflóðið sem við sáum á Þingvöllum forðum daga á Búrfellsgöngunni í brakandi blóðu þann 5. febrúar 2012 og alltaf þarf að horfa á heildarmyndina, hvað er fyrir neðan okkur og ofan ? Þó við séum stödd á "öruggum" stað geta snjóbrekkur verið fyrir ofan okkur sem geta sent niður snjóflóð á okkur... og ef við erum á tæpistigum þá getur slíkt snjóflóð sópað okkur fram af... sbr. gangan meðfram gljúfri Laxár í kjós í fyrra vetur þar sem fleiri en eitt snjóflóð náði út í ánna og hefði sópað okkur út í á... og því skal forðast að standa undir bröttum snjóþungum brekkum sbr. Drottningargilið sem við skoðuðum, en ef ekki verður hjá því komist skal dreifa hópnum og senda einn í einu eins og við gerðum í fyrstu göngunni okkar á Snæfellsjökli o.fl. ferðum.

Nýfallin snjóflóð í umhverfinu eru augljósasta vísbendingin um yfirvofandi snjóflóðahættu eins og við höfum oft séð í okkar göngum, og gott er að venja sig alltaf á að hafa auga með því hvar sem við göngum, horfa á þessar brekkur og sjá hvernig snjóflóðið hefur fallið, hver er hallinn á brekkunni því þannig gerir maður sér fljótt grein fyrir hversu saklausar brekkurnar geta verið og hversu algeng snjóflóð eru að vetri til sbr. Þverártindsegg 2012 þar sem við sáum mörg snjóflóð og heyrðum þau falla allt í kring. Rúllandi snjóboltar eru einnig merki um snjóflóðahættu og höfum við oft séð þá í okkar ferðum sbr. Vatnshlíðin 2014 og Dyrhamarsferðin 2017 hér á mynd o. m.fl.

 

 

 

Veðrið dagana fyrir göngu er nauðsynlegt að skoða að vetri til m. t. t. snjóflóðahættu. Skafrenningur eða hríðarveður = uppsöfnun mikils magns snævar á stuttum tíma (þar sem snjórinn hefur ekki haft tíma til að bindast neðri lögum) og snögg hlýnun = asahláka, rigning eða sólargeislun á suðurhlíð (bráðnun veldur að binding gefur sig og styrkur minnkar) eru aðalhættumerkin.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Skafrenningur er meginorsök náttúrulegra snjóflóða, þ. e. ekki þeirra sem skíðamenn eða aðrir valda með umgangi sínum um brekkurnar. Ef vindur og úrkoma er dagana á undan á því svæði sem ganga skal um, verðum við að gera ráð fyrir snjóflóðahættu alls staðar þar sem snjór hefur safnast fyrir. Hlémegin eða uppsöfnunarmegin eru varasamir staðir á meðan útséðir staðir þar sem snjóinn hefur sorfið af eru öruggari. Brekkur þar sem sól skín allan daginn verða varasamar er líður á daginn (suðurhlíðar) en daginn eftir sólríkan dag verður norðurhlíðin varasamari ef næturfrost var um nóttina þar sem snjórinn hefur náð að bindast að sunnan en ekki að norðan. Hlýnun styrkir svo almennt snjóþekjuna þegar tíminn líður og er því eingöngu varasöm til að byrja með.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mat á snjóalögum:

Mikilvægt er gera sér grein fyrir því að snjóflóðahætta er alltaf til staðar þar sem snjór safnast upp, að hann geti verið lagskiptur og að mesta hættan skapast þegar efstu snjóalög liggja ofan á veikari lögum neðar, þ. e. efri lög eru illa bundin neðri lögum og renna af stað undan fallþunganum... eða eins og Jón Heiðar orðaði það þá yfirvinnur fallþunginn þá samloðun sem er í snjóalögunum þannig að þyngdarafl jarðar togar snjóinn bæði til sín og niður á við eftir því sem hallinn er meiri þar til togkrafturinn verður meiri en samloðunarkrafturinn.

Ein vönduð prófun getur gefið góða vísbendinu um ástand brekkunnar, en um leið verður að gera sér grein fyrir því að ástandið getur verið annað á öðrum stað og því þarf alltaf að horfa gagnrýnið á eigið mat og endurtaka prófun ef ástæða er til. Margar snöggar prófanir á víð og dreif á svæðinu geta þannig gefið betri mynd en ein góð mæling (Leifur Örn). Útivistarfólk getur haft áhrif niður á 1,5 metra (og kallað fram snjóflóð með umgangi) en almennt er talið nóg að gera prófun niður á 1 metra (ath?).

Snjóþekja þar sem mjúkur snjór er á yfirborði snjóþekjunnar sem þéttist smám saman þegar neðar dregur án þess að skörp skil séu á milli laga, er almennt metin örugg og án teljandi snjóflóðahættu, en þetta getur breyst á sama svæði þannig að harður snjór liggi skyndilega ofan á mýkra lagi og þar er hættan klárlega til staðar. Flekaflóð eiga sér stað þar sem heilu snjóalögin bindast illa við mýkra undirlag og skríða af stað í heilum fleka eins og einhverji í okkar hópi hafa séð.

Samþjöppunarpróf:

Til að meta þetta grafa menn snjógryfjur eins og við gerðum þetta kvöld á öruggum stað sem um leið á að gefa góða mynd af því svæði sem verið er að meta... um  1 m á breidd og 2 m á lengd og 1 m á dýpt... og við mátum snjóalögin á rannsóknarhliðinni  (1 m hliðarhliðinni) með því að ýta og stinga í snjóinn frá efsta lagi að neðsta... Ef hnefi stingst inn er snjóalagið hættulega mjúkt, ef fjórir fingur ganga inn þá er það frekar mjúkt, einn fingur (meðal), einn blýantur (frekar hart) og loks hnífur gengur inn (hart).

Ef veikustu lögin eru efst er lítil snjóflóðahætta, ef sterk lög eru efst og veik neðar þá er hætta til staðar.

 

 

 

Því næst gerðum við 30 cm breiða og djúpa súlu niður eftir öllum veggnum sem Jón Heiðar skar fínlega með snjósög og þar horfðum við á lögin og gerðum svokallað Samþjöppunarpróf eða Compression Test.

 

Samþjöppunarpróf
Compression Test Easy = CTE 1 -10 með hendi frá úlnlið.
Compression Test Medium = CTM 11 - 20 með hendi frá olnboga.
Compression Test Hard = CTH 21-30 með hendi frá öxl.

...og æfðum þetta öll í gryfjunum okkar síðar um kvöldið.

 

 

 

Í sýnikennslunni losnaði hluti þekjunnar af súlunni við CTM13 eða svo ?

...og þá tók Jón Heiðar þann part frá og kannaði nánar veika lagið á þekjunni sem brotnaði í prófinu (kubbaðist af súlunni og bendir til veikleika sem bendir til snjóflóðahættu)...  með stækkunargleri og kristallaspjaldi (og hitamæli), til að sjá betur útlit snjókornanna, stærð, þéttleika, samloðun (og hitastig með sérmæli?)...  en slíkar mælingar kallast "stækkað samþjöppunarpróf" (e.Extended Compression Test) og gefa góða vísbendingu um ástandið í viðkomandi hlíð og öðrum sem snúa eins gagnvart snjósöfnun og sól. Prófunin gefur staðlaðar tölulegar niðurstöður sem menn miðla sín á milli og bera þannig saman vitneskju um snjóalög ýmissa svæða.

 

 

... og við fengum að skoða...
en þetta mat gefur m. a. færi á að meta hvort snjóflóðahættan sé að minnka og þá hversu hratt.

 

Sjá ýmis myndbönd á veraldarvefnum:

https://www.youtube.com/watch?v=crwvFn67e5Q

og:

https://www.youtube.com/watch?v=_HoGgXneLm4

Fyrirlestur:

https://www.youtube.com/watch?v=VF5Bg_qyJpg

t142_dyrhamar_060517 (523).jpg
299aef_vatnshlidarhorn_040314 (7).JPG
302aef_laxargljufur_250314 (16).JPG
299aef_vatnshlidarhorn_040314 (10).JPG
t142_dyrhamar_060517 (547).jpg
t213_sulnaberg_261220 (65).jpg
t142_dyrhamar_060517 (577).jpg
snjoflodanamskeid_170315 (10).JPG
snjoflodanamskeid_170315 (25).JPG
snjoflodanamskeid_170315 (16).JPG
snjoflodanamskeid_170315 (19).JPG
snjoflodanamskeid_170315 (22).JPG

Snjóflóðaýlir

 

Það skiptir sköpum að vera með snóflóðaýli að vetrarlagi á fjöllum þar sem lífslíkur minnka hratt fyrsta klukkutímann ef menn lenda í snjóflóði... en þeir eru því miður ekki almenn eign gönguhópa á Íslandi enda leitast menn þess í stað við að sniðganga snjóflóðahættusvæði. Engu að síður, ef við skyldum lenda í flóði, þá er staðan margfalt betri ef allir eru með ýli svo hægt sé að finna mþá sem lenda undir (ýlirinn sendir boð frá viðkomandi og því er ýlirinn stilltur á sendingu) og til að hægt sé að rekja sig til þeirra sem eru  með ýli með því að stilla ýlinn sinn á "móttöku".

 

Snjóflóðastöng hjálpar við að staðsetja viðkomandi endanlega og skófla svo við að grafa. 

Þriggja loftneta ýlar í dag einfalda og stytta leið umtalsvert þar sem þeir eru með stefnuör og fjarlægðarmælingu eins og gps-tækin þegar verið er að eltast við einn punkt.

Í upphafi göngu er ráðlegast að prófa mælana hjá öllum í hópnum eins og við gerðum á Baulu hér forðum daga, með því að allir kveiki á sínum, stilli á sendi og fararstjóri stillir sinn á móttöku og lætur alla ganga framhjá til að kanna hvort þeir virki allir og svo þarf að prófa hans sendi í lokin. Ef lent er í snjóflóði eru allir þannig örugglega stilltir á sendingu og þeir sem komast upp úr flóðinu verða þá að muna að stilla allir sinn á móttöku og byrja að leita...

Reyna skal að staðsetja þann eða þá sem lentu í snjóflóðinu sem nákvæmast beint eftir flóðið, ekki færa til hluti sem finnast heldur skilja þá eftir á nákvæmlega þeim stað, ef það hjálpar síðar til við erfiðleika með að finna viðkomandi við nákvæmari staðsetningu. Ýlirinn nemur í um 20 m radíus í allar áttir. Ef margir geta leitað með ýli skal halda 40 m fjarlægð á milli manna, en ef maður er einn að leita skal skipuleggja leit með því að fara niður snjóflóðið með um 20 m fjarlægð frá einum flóðjaðrinum að hinum og skáskera sig niður með um 40 metra á milli þannig að enginn blettur fellur utan 20 m radíusins sem ýlirinn nemur.

Þegar búið er að staðsetja viðkomandi er gengið eftir ýlinum og farið varlega þegar komið er í 5 m fjarlægð þar sem ekki er gott að þjappa meira snjóinn ofan þess sem grafinn er (loftun) og byrja þarf fínleit svokallaða... þar sem farið er nákvæmlega eftir ýlinum eins og hægt er þar til minnstri fjarlægð er náð. Þá er hafin staðsetning með snóflóðastöng þar sem stungið er í spíral út frá staðnum sem ýlirinn benti á og byrjað að grafa þegar búið er að stinga í hinn grafna (stöngin látin standa þar sem stungið var í hann til að gefa skýra staðsetningu)... en þessi partur af leitinni, fínleitin, vefst helst fyrir mönnum þegar á reynir skv. Leifi Erni í Fjallabókinni. Moksturinn er og vandmeðfarinn þar sem fara skal um 1 metra neðan við fundarstað og grafa geil neðan við stöngina með því að stinga skóflunni niður með hliðarveggjum og moka snjónum með jörðu frekar en að lyfta honum og ef fleiri eru að moka þá færa þeir þennan snjó enn fjær.

Við prófuðum leit með nokkrum ýlum sem voru þetta kvöld og það var mjög skýrt hvernig ýlirinn nam þann sem var með hann frekar en þá sem reyndu að villa til um fyrir leitarmönnum og voru ekki með ýli svo þetta var mjög áreiðanlegt í raunvirkni.

En ef þessi tækni á að virka í okkar hópi þá þurfa allir að vera með ýli... eða allavega tveir og þá verður annar þeirra að vera sá sem lendir í flóðinu og hinn ekki til að þetta nýtist... og ekki yrði hægt að staðsetja nokkurn annan sem ekki er með ýli svo það er eiginlega allir eða enginn ef vel á að vera því ef þessi eini sem ekki er með ýli reynist vera sá eini sem lendir ofan snjóflóðsins þá nýtur allur hópurinn ekki góðs af því að vera allir mðe ýli... fyrr en utanaðkomandi hjálp berst sem er með ýli... en þá geta verið liðnar dýrmætar mínútur...

Frábært kvöld og heilmikill fróðleikur
sem við skulum halda við í göngunum
en upp úr stendur:

*Mikilvægast að vanda leiðarval, kunna að meta snjóflóðahættu og sniðganga snjóflóðahættusvæði með öllu.
*Temja sér að lesa sífellt í landslagið og gera sér það eðlislægt að meta snjóflóðahættu hvar sem gengið er í snjó.
*Alltaf meta veður dagana og klukkustundirnar fyrir göngu að vetrarlagi til að meta hættu á flóðum.
*Vera alltaf með skóflu, sög, snjóflóðastöng og ýli meðferðis ef mögulegt.
*Ekki hika við að gera snjógrýfjun og samþjöppunarpróf ef við þurfum þess.
*Vera með varaplan ef snjóflóðahætta er til staðar og ekki hika við að breyta plani frekar en tefla í tvísýnu.
*Æfa þessi atriði reglulega og ræða þau innan hópsins.

Kærar þakkir Jón Heiðar fyrir einstaka fagmennsku og ljúfmennsku við okkur eins og alltaf
... þetta var virkilega gagnlegt !

snjoflodanamskeid_170315 (58).JPG
snjoflodanamskeid_170315 (81).JPG
snjoflodanamskeid_170315 (54).JPG
snjoflodanamskeid_170315 (3).JPG
snjoflodanamskeid_170315 (60).JPG

Námskeið Toppfara í notkun jöklabrodda og ísexi: 

 

Árið 2012: Frábært vetrarfjallamennskunámsk (toppfarar.is) 

Árið 2014:  Vetrarfjallamennska *Broddatækni (toppfarar.is) 

Öll námskeið Toppfara hér...
...  í vetrarfjallamennsku, skyndihjálp í óbyggðum, snjóflóðahættu,
sprungubjörgun, skriðjöklum, rötun með áttavita og kort o.fl...

Sjá frábæra samantekt Gylfa
af ýmsum atriðum frá einu námskeiðinu af Youtube:

http://www.youtube.com/playlist?list=PLC3A2B3459411B2C5

Ofargreindur fróðleikur er unninn úr samantektum af námskeiðum
sem Jón Heiðar Andrésson, fjallaleiðsögumaður hefur heldið fyrir Toppfara í gegnum árin.

 

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar NB.
Höfum þetta sem réttast svo allir séu að gera sem best. 

bottom of page