Vatnaleiðin 53 km á einum degi
Fri, May 21
|Vatnaleiðin 53 km á einum degi
Ofurganga ársins 2021 verður hvítasunnuhelgina 21. - 24. maí með helgina á eftir 28.-30. maí til vara eftir veðri. Krefjandi gönguleið fyrir sterkari hluta klúbbsins Alls 53 km á 20 klst. miðað við 3 - 5 km/klst með hléum Frá Hrafnkellsstaðahlíð kl.16:00 á fös - lending við Hreðavatn kl.12:00 á laug
Time & Location
May 21, 2021, 2:00 PM – May 22, 2021, 4:00 PM
Vatnaleiðin 53 km á einum degi, Hrafnkelsstaðavegur, Iceland
About the Event
Eingöngu fyrir þá sem eru í mjög góðu líkamlegu formi fyrir mjög krefjandi göngu í nánast sólarhring þar sem svefni er sleppt eina nótt. Nauðsynlegt að vera mjög vel æfður líkamlega og mjög vel stemmdur andlega þar sem reyna mun á jákvæðni, samstöðu og hæfni til að gefa frá sér góðan anda til hópsins í heild þegar á móti blæs og þreytan segir til sín. Hver og einn þarf því að æfa krefjandi göngur fram að ferð, sjá nánar neðar.
Tímarammi þessarar ferðar er frá fös 21. maí til mán 24. maí og svo fös 28. maí til sun 30. maí. og koma báðar helgar til greina. Þeir sem eru skráðir í þessa ferð verða að vera tilbúnir til að fara þegar veður leyfir hvora helgina sem er og því er ferð ekki endurgreidd ef valinn er sólarhringur sem viðkomandi kemst ekki nema hann fái annan til að fara í plássið sitt. Tökum því öll frá báðar þessar helgar NB.
Tímasetningar á ferðinni: Eftir miklar vangaveltur er það okkar lending að farsælast sé að sofa heima fyrir göngu þar sem annars þarf að ferðast upp eftir með búnað til næturgistingar, kaupa gistingu og skilja farangur eftir þar. Einnig er það ókostur að lenda við Hreðavatn seint að kveldi til, jafnvel nóttu ef við leggjum af stað að morgni frá Hrafnkelsstöðum svo brottför síðdegis er skásti kosturinn.
Ókosturinn við upphafstíma seinnipartinn er sá að við erum að næturlagi á miðri göngu en af tvennu teljum við betra að byrja að nóttu til, heldur en að enda að nóttu til. Lending er svo um hádegið við Hreðavatn sem við teljum besta tímann og gott að hafa svigrúm fram eftir kveldi ef eitthvað kemur upp á. Miðnæturganga á þessari gönguleið í friðsælu veðri er NB mögnuð með sólina að setjast og rísa og næturfriðinn alltumlykjandi og við ein í heiminum með töfrum óbyggðanna allt um kring.
Veðurspár:
www.vedur.is Skoðið staðaspár og veðurþáttaspár til að fá betri yfirsýn yfir vind, úrkomu og hita á svæðinu. Textaspá er réttari en myndaspá. www.belgingur.is er stundum nákvæmari. Sjá norska veðurspávefinn þar sem hægt er að skoða langtímaspá, helgarspá og klukkutímaspár en taka þarf með í reikninginn að um fjalllendi er að ræða þar sem önnur lögmál gilda en á láglendi og oft er hæðartala á þessum vef röng: Hallkellsstaðahlíð: https://www.yr.no/en/forecast/daily-table/2-3416623/Iceland/West/Borgarbygg%C3%B0/Hallkelssta%C3%B0ahl%C3%AD%C3%B0
Hítarvatn: https://www.yr.no/en/forecast/daily-table/2-3416349/Iceland/West/Borgarbygg%C3%B0/H%C3%ADtarvatn
Hreðavatn: https://www.yr.no/en/forecast/daily-table/2-3415982/Iceland/West/Borgarbygg%C3%B0/Hre%C3%B0avatn
Verð:
Kr. 22.000 fyrir klúbbmeðlimi. Kr. 27.000 fyrir gesti sem eru í mjög góðu formi og mjög vel undirbúnir.
Innifalið er fararstjórn og rúta með bílstjóra í tvo daga, akstur frá Reykjavík til Hrafnkelsstaða og svo frá Hreðavatni til Reykjavíkur eftir göngu með hugsanlegum möguleika á að fá rútuna inn að Langavatni ef einhver þarf að hætta í miðri göngu.
Athugið að ekki sjálfgefið að rútan komist samt ef bílfæri er erfitt og því þurfa allir að gera ráð fyrir að fá enga rútu á miðri leið. Greitt beint inn á reikning Gallerí heilsu: 0114-26-58100. Kt: 581007-2210 eða með símgreiðslu á kreditkorti: Örn í síma: 588-5277 eða 899-8185 og Bára í 867-4000. og tölvupóst orn-bokari(hjá)simnet.is eða baraket(hjá)simnet.is.
Annar kostnaður ferðar:
Hver og einn kemur með drykk og mat til að fá sér eftir gönguna þar sem við skulum skála fyrir afrekinu og viðra ferðina í tvo tíma eða svo áður er keyrt er í bæinn.
Skráning og skilmálar:
Skráning eingöngu gild með greiðslu sem er óendurkræf við afboðun eftir 1. apríl nema annar komi í staðinn. Við afboðun fyrir 1. apríl er 75% ferðar endurgreitt eða kr. 16.000 (21.000).
Leiðsögn:
Þjálfarar. Gengið verður út frá neðangreindum ferðahraða og nauðsynlegt að allir þátttakendur fylgi þeim hraða en eru ella á eigin vegum.
Brottför / Heimkoma /Aksturslengd:
Brottför frá Össur Grjóthálsi 5 Reykjavík með rútu kl. 14:00. -Lending við Hrafnkellsstaðahlíð um kl. 15:30 eftir um 1,5 klst. akstur - græjum okkur og nærumst. -Brottför um kl. 16:00 frá Hrafnkelsstöðum fyrsta legginn inn að Hítarvatni. -Lending við Hreðavatn um kl. 12:00 á laug eftir 53 km göngu. -Skálum og borðum saman á veitingastaðnum: -Brottför með rútu um kl. 14:00 - lending kl. 16:00 í Reykjavík.
Akstursleiðarlýsing:
Ekið Vesturlandsveg og inn á Snæfellsnes um veg 55 upp eftir og svo um þjóðveg 1 til baka gegnum Borgarnes.
Hækkun/lækkun:
Lagt af stað í 110 m hæð við Hrafnkelsstaðahlíð og farið upp í 590 m hæð hæst í Gvendarskarði yfir Langavatnsmúla úr Þórarinsdal og endað í um 80 m hæð við Hreðavatn. Samanlögð hækkun er um 1.800 m. Athugið að gott er að líta svo á að þessar samansöfnuðu lækkanir/hækkanir brjóti upp gönguna og séu góð tilbreyting fyrir líkamann á langri vegalengd sem yrði of einhæf ef öll á sléttlendi.
Göngulengd:
Um 55 km.
Göngutími:
Um +/- 20 klst. = 3 km/klst. + 3 x 40 mín matarpásur, en fer endanlega eftir veðri, færð og gönguhópi.
Leiðin:
Á misgreinanlegum slóða alla leið í fjölbreyttu landslagi þar sem stikla þarf læki og ár. Gengið upp í skörð, meðfram vötnum, á malarvegum, í mosa, grjóti og grasi.
Áætluð skipting leiðar - sálrænt best að taka leiðina í áföngum:
1. Hallkelsstaðir - Hítarvatn: 12 km:
Um 4 klst. ganga. Lending um kl. 20:00. Matarhlé 40 mín. Lagt af stað um kl. 20:30.
2. Hítarvatn - Langavatn: 16 km:
Um 6 klst. ganga. Lending um kl. 02:30. Matarhlé í 40 mín. Lagt af stað kl. 03:00.
3. Langavatn - Vikravatn: 12 km:
Um 4 klst. ganga. Lending um kl. 07:00. Matarhlé í 40 mín. Lagt af stað kl. 07:30.
4. Vikravatn - Hreðavatn: 13 km:
Um 4 klst. ganga. Lending um kl. 12:00.
Við höfum þá 2 klst. til að borða, skála og viðra ferðina áður en rútan fer kl. 14:00. Hver og einn kemur með mat og drykki sem geymt er í rútunni fyrir lokahófið sem verður í grasbala við rútuna nema við finnum betri stað til þess að hvílast, skála og viðra ferðina í tvo tíma áður en keyrt verður í bæinn. Styttri hvíldir teknar á milli leggja eftir landslagi, veðri og stemningu.
Nýta skal skipulagðar pásur þjálfara og ekki hægt að bíða eftir hverjum og einum sem þarf að stoppa þess á milli heldur verða menn að ná hópnum ef þeir stoppa aukalega á miðri göngu. Tímastjórnun þessarar göngu er mjög mikilvæg til að þetta takist og nauðsynlegt að allir gangi í takt. Þjálfarar halda hópinn allan tímann og miða við ákveðið tímaplan/gönguhraða - þeir sem fara á undan eða dragast aftur úr eru á eigin vegum þar með eða ná hópnum í skálum og hafa þá styttri tíma í hvíld þar ef þeir vilja fylgja hópnum.
Athugið að við erum ekki í tímakapphlaupi (göngum, skokkum ekki NB) en viljum halda ákveðinni tímaáætlun og við höldum hópinn allan tímann svo það reynir á að allir geti verið í takt með gönguhraðann.
Erfiðleikastig:
Mjög krefjandi eða erfiðleikastig 6 af 6 og því eingöngu fær mjög sterkum göngumönnum sem eru vanir langvarandi álagi á göngu klukkustundum og kílómetrunum saman við allar aðstæður veðurs og færðar. Þátttakendur þurfa að þekkja sjálfan sig og búnað sinn vel undir álagi og vera við öllu búnir hvað veður, færð og búnað.
Gott viðmið er að ef maður er frekar framarlega í hópnum í göngunum og ekki að dragast aftur úr og ef maður getur heldið lengi áfram án þess að þurfa að stoppa og hvílast, þá sé maður nægilega vel búinn undir svona langvarandi álag og ofurlanga vegalengd.
Athugið að þessi leið er almennt gengin á 3 dögum og við vitum um einn sem hefur gengið hana í einum rykk, sumarið 2020, Gunnlaugur Júlíusson.
Allir mjög vanir göngumenn í góðu þolformi sem búa að þrautsegju og andlegri seiglu eiga að hafa gott vald á þessari göngu, en um leið er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að margt getur komið upp á og allir geta lent í vandræðum á svona langri vegalengd óháð formi og reynslu. Andlegur undirbúningur er ekki síðri fyrir svona átök en líkamleg, að hafa trú á sjálfum sér og andlegt þrek til að takast á við þær hindranir sem upp á koma á leiðinni. Góður undirbúningur tryggir góðan reynslubanka sem gaman er að taka út af við áskorun eins og þessa !
Spörum orku með því að hugsa jákvætt, ganga áreynslulaust, vera með lágmarksfarangur, með orkuríkt nesti, nýta pásurnar vel með því að hvílast, borða og jafnvel dotta... að ekki sé talað um að æfa vel fyrir átökin mánuðina á undan að sjálfsögðu, annars náum við ekki að gera þetta.
Undirbúningur:
Formlegt æfingatímabil hefst í janúar 2021.
Þáttökuskilyrði allra eru eftirfarandi: Að fara í 3 x 17-20 km dagsgöngur og 1 x 30 km dagsgöngu að lágmarki. Tindferðirnar í vetur og vor beinast að hluta til að þessum undirbúningi og t.d. eru tvær rúmlega 30 km göngur í Íslandsferðinni miklu (Ísland þverað I og II í janúar og mars). Æskilegast er að fara x1 í viku rösklega fjallgöngu t.d. á #vinafjalliðmitt þar sem gengið er rösklega alla leið upp og niður og lítið sem ekkert stoppað til að æfa röskan gönguhraða (ekki fara á spjallhraða heldur ná vel upp púls og öndun).
Almennt: Fyrir krefjandi átök eins og þessi er mikilvægt að þjálfa sig vel mánuðina á undan, mæta í þriðjudagsgöngurnar og tindferðirnar og fara aukagöngur eins og hægt er. Nauðsynlegt er að æfa þol oftar en í fjallgöngum Toppfara og koma regluleg hlaup, hjólreiðar, spinning, göngur, skíði, sund eða hvers konar þolþjálfun sér vel.
Gangan á ekki að snúast um það hvort við séum í nægilega góðu formi til að ganga Vatnaleiðina á einum degi, heldur hversu gaman það verður að upplifa það - sem er allt önnur nálgun á verkefninu - og tryggir stórkostlega upplifun og uppskeru.
Vikuna á undan er mikilvægt að hvílast og nærast vel. Borða staðgóðar kjöt- og fiskmáltíðir, grænmeti og ávexti og drekka vel. Dagana tvo fyrir átökin hefur oft verið talað um orkuhleðslu með flóknum kolvetnum eins og pasta o.fl., en að mati þjálfara þá teljum við mikilvægast að borða kjöt- eða fiskmáltíðir þar sem þær virðast gefa meiri langvarandi orku fyrir svona langa áreynslu. Hver og einn þarf að meta þetta sjálfur og lesa sér til á veraldarvefnum.
Sjá einnig ráðleggingar Glerárdalshringsmanna: www.24x24.is og maraþonmanna: www.marathon.is. Mikilvægt er að drekka vel af vökva dagana fyrir átökin og allan tímann á göngunni. Mjög mikilvægt er að ná góðum svefni næturnar á undan til að hafa efni á að sleppa heilli nóttu úr.
Andlegur undirbúningur er ekki síður mikilvægur, að safna sjálfstrausti með góðri ástundun vikurnar og mánuðina á undan og hafa trú á sjálfum sér og verkefninu - þetta getur einfaldlega ráðið úrslitum!
Búnaður sálar og líkama:
Reynslan kemur sér vel í vali á búnaði fyrir þessa ferð - munið upptalninguna undir búnaður á vefnum.
Farið í allar tindferðir með Vatnaleiðina í huga, til að velja hvað hentar best. Verið undir öll veður búin (hitastig, vind og úrkomu), samnýtið búnað eins og hægt er, hugið að þyngd og meðfærileika, ull og dry-fit er best.
Hver og einn þarf að vera með allan fatnað til göngu í bæði góðu sem erfiðu veðri (samnýta eins og hægt er), vera með næringarríkt nesti fyrir langa göngu, orkubita/orkugel eingöngu sem aukaorkugjafa, nóg af hælsærisplástri, verkjalyfjum, venjulegum plástrum, íþróttateip til að vefja utan um særindi í húð, jafnvel teygjubindi (hnéhlífar etc) ef viðkvæmur í ökkla eða hnjám NB og hverju öðru sem hann telur sig þurfa ef á móti blæs á göngunni. Vera með hlaðinn gsm-síma, sólgleraugu og sólarvörn.
Þjálfarar verða með lágmarkssjúkrabúnað eins og alltaf sem nýtist eingöngu fyrir neyðartilfelli, þjálfarar verða ekki með verkjalyf, orkugel eða annað slíkt fyrir hópinn í heild, hver og einn þarf að hafa birgðir af því sjálfur.
Skór verða að vera vel gengnir til, þægilegir og helst frekar léttir! Göngustafir dreifa álaginu ef menn eru vanir þeim. Verið undir það búin að blotna í fætur. Hafið varasokka til skiptanna (passa þyngd bakpoka). Viðrið fætur í lengri pásum.
Vera eingöngu í göngufatnaði sem maður er vanur; göngubuxum eða dry-fit hlaupabuxum, ullarbol að ofan eða öðrum léttum bol sem er nægilega hlýr undir hlífðarjakka ef það versnar óvænt veðrið. Gott að vera með eina létta en hlýja ullarpeysu í bakpokanum til öryggis þeir sem vilja (passa þyngd bakpoka). Lífsnauðsynlegt að vera með þessa fernu: vatns- og vindheldar hlífðarbuxur og -jakka, hlýja vettlinga og hlýtt höfuðfat. Bókstaflega hættulegt ef þetta fernt er ekki með NB.
Nesti skal vera kraftmikið; T.d. gróft brauð, kjötálegg, kjöt, pastasallat, pylsur, feitur matur, sviðasulta, lifrarpylsa, egg, bananar, harðfiskur, þurrkaðir ávextir, grænmeti, ávextir og svo gæti verið gott að vera með bollasúpur eða álíka ef menn eru með primus. Hægt er að ná sér í vatn alla leiðina en þó skal alltaf vera ágætilega birgur á hverjum legg.
Þetta er löng leið svo líkaminn þarf prótein og fitu en ekki bara kolvetni. Það er enginn að fara þessa leið á orkubitum og orkudrykkjum! Líkaminn þarf fyrst og fremst MAT í langvarandi erfiðum átökum. Orkubita, orkugel og orkudrykkir eiga eingöngu að vera til viðbótar við kjarngott nesti sem gott er að grípa í á miðjum legg milli nestisstöðva þegar þreytan sækir að. Athugið að ef menn eru orðnir mjög orkulausir og þreyttir getur það gert illt verra að skella í sig orkubita eða álíka - veldur oft bara ógleði og meiri óþægindum. Við yfirþyrmandi orkuleysi er ráðlegast að hvílast, drekka vel, borða kjarngott nesti (mat!) - þó menn séu allt annað en svangir! - og fá sér svo orkubita í kjölfarið áður en lagt er aftur af stað eða stuttu síðar.
Orkuleysi við krefjandi átök má gjarnan rekja til vatnsskorts, sykurskorts, steinefnaskorts eða einfaldlega þreytu. Hollast er að hvílast reglulega, spara orku á göngu eins og hægt er með því að vera slakur á líkama og sál, halda vökvabúskapnum góðum með því að drekka vel (regluleg þvaglát og ljósgult þvag bera vitni um góðan vökvabúskap), halda blóðsykrinum og næringarstöðu eðlilegu með reglulegri, kjarngóðri fæðu, ekki skjótfenginni orku úr geli eða álíka sem dugar einfaldlega of skammt fyrir svona löng átök.
Þá hafa menn gjarnan mælt með vítamínum og steinefnum dagana/vikurnar fyrir krefjandi átök, sérstaklega kalki og magnesíum (til að hindra vöðvakrampa m. a.) en inntaka á steinefnum er vandmeðfarin og getur verið varasöm - svo farið vel eftir leiðbeiningum með það og prófið allt slíkt á undirbúningstímabilinu en ekki eingöngu í göngunni sjálfri !
Að lokum er jákvætt hugarfar, sjálfstraust, þrautsegja og elja gagnvart mótlæti og einbeittur vilji nauðsynlegur búnaður fyrir svona göngudag. Úrtölur, neikvæðni, sjálfsefi og uppgjafartónn munu einfaldlega koma í veg fyrir að mönnum takist að klára verkefnið.
Tryggingar:
Þátttakendur eru ekki tryggðir í göngunum og er bent á tryggingarfélögin í þessu sambandi. Toppfarar ehf tryggir hvorki þátttakendur né farangur þeirra. Þátttakendur ferðast á eigin ábyrgð og eru því hvattir til að kanna með eigin tryggingar.