top of page

Eilífsdalur Esjunnar á átta tinda hringleið #EsjanÖll2022

Laugardaginn 2. apríl 2022. Tindferð nr. 240. Gengið á 8 tinda; Þórnýjartind, Kistufell nyrðra, Eilífstind, Hábungu, Eilífsklett, Skálatind, Paradísarhnúk og Nónbungu - allt nöfn á kortum nema Eilífsklettur sem er okkar nafngift.


Eilífsdalur Esjunnar var loksins genginn fyrstu helgina í apríl... í versnandi veðri þegar á leið... eftir frekar erfiðan vetur með tilheyrandi frestunum á ferðum... en hér sést hvernig vegurinn að bílastæðinu okkar við námuna gömlu er fullur af snjó svo leggja þurfti ofan við hann...


Þórnýjartindur hér í allri sinni dýrð... þessari ferð var margsinnis frestað vegna veðurs í mars... en loksins kom glæta... með yfirvofandi úrkomu og vindi samt... sem tók yfir síðari hluta göngunnar... en fyrri hlutinn var nægilega góður til að gefa mikið þeim sem fóru... og gangan sjálf gaf dýrmæta útivera og reynslu og þol... fyrir þær göngur sem eru framundan í vor og sumar...


Alls lögðu 13 manns í hann þennan dag... grátlega fáir því miður... Esjuverkefnið virðist ekki höfða til mjör margra... og þegar sífellt er verið að fresta og breyta þá detta þeir út sem hefðu viljað ná þessu... en það breytir því ekki að stakar Esjuferðir eins og þessi eru einstaklega flottar og vel þess virði að mæta í... þó menn séu ekki að safna Esjutindunum þetta árið...


Eilífsdalurinn hér útbreiddur... að okkar mati sá fegursti í Esjunni... en það er vel hægt að færa rök fyrir því að það sé ekki rétt... spáum í þetta saman !


Veðrið var með mjög góðu móti til að byrja með þennan dag... sólarglæta og blíða... hlýtt og milt gönguveður og menn ekki með húfur né vettlinga...


Ganga þarf vestan við Dælisána eða vaða hana innar til að komast að Þórnýjartindi sem er glæsilegasti tindurinn af öllum átta... og vel þess virði að ganga eingöngu á hann sem dagsferð... eða þriðjudagsæfingu á fallegu sumarkveldi eins og klúbburinn hefur gert tvisvar; ... árið 2011: Æfingar frá ágúst til september (toppfarar.is) ... og árið 2015: Allar þriðjudagsæfingar frá júlí (toppfarar.is)

Greiðfær leið upp þó þétt sé... og þó það sé vetur... en hér upp höfum við farið í febrúar (könnunarleiðangur þjálfara), mars, júlí og september...


Sumarfæri og snjólausara hér en við áttum von á...


Bærinn Eilífsdalur og dalsmynni Miðdals sem liggur frá Hvalfirði að vestan og inn í Eilífsdal að austan... Sandfellið hér vinstra megin en það tengist svo Eyrarfjalli vestar... kominn tími á að ganga á það aftur á þriðjudagskveldi...


Nónbunga hér vinstra megin sem var áttundi og síðasti tindur dagsins... hægra megin er hluti af Skálatindi sem var sjöundi tindurinn... þarna áttum við eftir að vera gangandi úr þoku og slyddu niður í skyggni en áframhaldandi rigningu svo allir komu hundblautir í bílana...


Linda sneri hér við og fékk sína hópmynd... vika frá því hún greindist með covid... ekki búin að fá alla sína krafta aftur í kroppinn... við sem legið höfum í valnum af orkuleysi vegna hins sama vissum nákvæmlega hvað hún var að kljást við... skynsamt að snúa strax við... því ofar beið hópsins barningur við vind og úrkomu... kílómetrunum saman...


Mosinn svo grænn undan vetri... vorið er að koma... sjá Reynivallaháls í skýjaslæðu fjær... og hluta af Meðalfelli sem við gengum á um daginn hægra megin í hvarfi að hluta af tagli nónbungu...


Fínasta leið á traustu grjóti og mosa...


Ofar voru skaflarnir en þeir voru greiðfærir líka í þessum hlýindum...


Skálatindur hér ofan dalsins... sjötti tindur dagsins... innar er Eilífsklettur (sá fimmti) sem er varðaður staður innst ofan dalsins og efsti tindurinn á heiðinni áður en komið er að hábungu... en hann er sá eini sem er nafnlaus á kortum og þjálfarar nefndu á sínum tíma þar sem þeim fannst ótækt annað þegar komið er á þessa klettaborg sem stendur upp úr landslaginu...


Skarðsheiðin hér fjærst með alla sína dali og tinda efst... við ætlum að þvera hana endilanga árið 2023...


Efst er smá klöngur sem er greiðfært og skemmtilegt...


Ekkert mál !


... og færið mun saklausara en við áttum von á... frábært... þetta var eini staðurinn sem þjálfarar höfðu áhyggjur af á allri þessari hringleið... og hann var svona saklaus...


Nánast komin upp... mikilvægur áfangi því þar með var þetta bara aflíðandi um heiðar og fram á bungur, nasir og klettaborgir... fyrsti tindurinn í höfn í 702 m hæð...


Töffarar og ekkert minna ! Hörkugöngumenn sem njóta í botn og hafa mikla ástríðu fyrir fjallgöngunum... Oddný T., Sjöfn Kristins og Sigrún Bjarna...


Nesti hér eftir Þórnýjartind... sjö aðrir "tindar" eftir þennan dag... en ekki fleiri nestispásur því veðrið stöðvaði alla slíka kyrrstöðu... það reyndi á en allir sammála því að setjast ekki niður í miðri slyddu eða rigningu til að borða...


Brúnirnar á Þórnýjartindi innar ofan Miðdals... þjálfara langa mikið að kanna hvort ekki sé fært upp Þórnýjartind Miðdalsmegin og hafa oft mænt á leið þar upp... prófum hana einn daginn !


Sjá hengjurnar í snjónum... varasamt og þá sérstaklega í engu skyggni...


Nú tók við heiðarganga að Eilífstindi en Örn ákvað að koma við á staðnum þar sem Þórnýjartindur er merktur á korti þó okkar mat sé að hann sé sjálfur tindurinn sem skagar yfir Eilífsdalsmynninu... en með þessum útúrdúr náðum við í Kistufell hið nyrðra sem rís yfir Blikdalnum og eru miklir klettahamrar séð úr þeim dal... en bara brúnir þeim sem koma héðan að... en Kistufellið var þá tindur nr. 2 þennan dag og mældist 840 m hár...


Ennþá var skyggni hér... niður í Eilífsdal með Skálatind hér dökkan handan dalsins...


Fínasta færi og ekki of mjúkt í snjónum...


Eilífstindur hér dökkur klettur úti á nösinni þarna... við teljum klettanösina sem liggur að honum sem sértind á Esjunni þar sem maður horfir niður á sjálfan Eilífstindinn þaðan í seilingarfjarlægð... þarna fram á brúninni stóðu menn stuttu síðar...


Skyggnið farið að hverfa... úrkoman að mæta... og vindurinn...


Smá glæta ennþá niður í Miðdalinn...


... og til baka um lendur Þórnýjartinds...


Kominn á þriðja tind dagsins... Eilífstind sem við merkjum hér á þessa klettanös... þó hinn eiginlegi Eilífstindur sé þessi klettastandur hér lengra úti á nösinni... magnaður staður og sanngjarnt að telja sem sér stind eða sér áfangastað á Esjunni... hann mældist 780 m hár...


Sýnin af klettanösinni fram á innstu brúnir Eilífsdals...


Hér stöldruðu menn lengi við... en veðrið versnaði hér og skyggnið hvarf smám saman...


Engin spurning að fara hér fram á og skoða...


Klettarnir betur hér...


Kyngimagnaður útsýnisstaður ! Með Eilífsdalinn allan útbreiddan til norðurs...


Séð frá klettanösinni og inn að meginlandi Esjunnar...


Dýrmætt að ná þessum stað áður en skyggnið hvarf... en önnur eins veisla er á Paradísarhnúk og Skálatindi og á brúnunum við Eilífsklettinn síðar á leiðinni...


Frá Eilífstindi var gengið í vaxandi vindi og slyddu í einni beit upp á Hábungu... þar sem ekkert beið okkar... ekki einu sinni varða... sem var líklega á kafi í snjó... gps-punkturinn var það eina sem sagði okkur að þetta væri hæsti punktur Esjunnar... tindur nr. fjögur þennan dag... í 920 m mældri hæð í þetta skiptið...


Neibb.. ekkert væl... bara úthald og jákvætt hugarfar... gleði og ánægja með formið og getuna a´tarna til þess að geta þetta allt saman... menn örkuðu frá Hábungu niður á Eilífsklett sem var tindur fimm og mældist 916 m hár... engin mynd tekin þar því Örninn vildi koma hópnum sem fyrst út úr þessu veðri... og hélt ótrauður niður á Skálatind... þar með farinn að rekja sig eftir austurarmi Eilífsdalsins...


Á Skálatindi var heldur ekkert að sjá... hann mældist 800 m hár og gefur frábært útsýni yfir á Eilífstind og vesturarm dalsins... en þarna var bara þoka...


Sama átti við um Paradísarhnúk sem gefur stórkostlegar fjallsbrúnir og útsýnisstaði niður Flekkudall Esjunnar... hann var tindur sjö þennan dag... og mældist 802 m hár... en Örninn straujaði bara yfir hann og niður á Nónbunguna...


Hvar eiginlegur tindur Nónbungu er er ekki á hreinu... við höfum í raun ekki ennþá merkt hann... en á grafi göngunnar væri hægt að segja 550 m hæð... við þurfum að festa þennan punkt næst ! Þar með var áttundi og síðasti "tindur" dagsins kringum Eilífsdal kominn... sjá hér Þórnýjartind í suddanum sem var mættur og fylgdi hópnum alla leið niður...


En engan bilbug var að finna á mönnum... menn voru ótrúlega jákvæðir þennan dag og glaðir... andrúmsloftið var einstakt... og það reynir virkilega á það þegar mótlætið er þetta... vindur, rigning og ekkert skyggni... magnaður hópur !


Síðasta mynd dagsins... tekin í sigurvímunni með afrek dagsins... og með fyrsta tind leiðarinnar í baksýn, Þórnýjartind...


Steinar Ríkharðs., Sigrún Bjarna, Ólafur Vignir, Hjördís, Sigurbjörg, Þórkatla, Siggi, Bjarni, Sjöfn Kr., Jaana og Ragnheiður en Örn tók mynd og Batman var eini hundurinn...


Afreksferð með meiru... dísætur sigur... einstaklega góðir ferðafélagar sem fá 10,0 fyrir frammistöðuna og ekki síst hugarfarið sem var aðdáunarvert með meiru !

146 views0 comments
bottom of page