top of page
  • Facebook
  • Instagram
  • YouTube
  • Twitter

Skráning í fjallgönguklúbbinn
Toppfara...

... fer fram með greiðslu æfingagjalda og tölvupósti á baraket(hjá)simnet.is.


Hægt er að skrá sig í klúbbinn hvenær sem er ársins í 12 eða 1 mánuð í senn og gilda æfingagjöldin frá og með skráningu/greiðslu.

Tölvupóstur skal innihalda eftirfarandi:
 

  • Fullt nafn

  • Kennitölu

  • Heimilisfang

  • GSM símanúmer

  • Netfang

  • Greiðslufyrirkomulag, þ.e. hvort búið er að greiða árgjald eða fyrir einn mánuð. 
     

 

Verðlisti:

  • Kr. 20.000 - árgjald í 12 mánuði (hægt að byrja hvenær sem er ársins).
    Ef tveir skrá sig saman (par, vinir) þá er greitt1,5 gjald: kr. 30.000 eða kr. 15.000 á mann.
    ​​

  • Kr. 5.000 - einn mánuður til prufu. 
    Ef viðkomandi vill halda áfram eftir þennan mánuð, þá er hægt að nýta upphæðina upp í árgjald með því að skrá sig í kjölfarið í 12 mánuði. Bætt er þá við kr. 15.000 (alls þá 20.000 kr.). Aðild í heilt ár miðast þá við upphaf mánaðarins sem greitt var stakt fyrir í upphafi.
     

  • Við lækkuðum æfingagjöldin í september 2025 svo hér með greiða allir lægsta árgjaldið. Tilefnið er að við erum að hefja 20 ára starfsárið í maí 2026 og dagskráin það ár miðast við að þjálfarar mæti annan hvern þriðjudag.
     

  • Hægt er að nota niðurgreiðslu stéttarfélaga eða vinnuveitenda vegna líkamsræktar fyrir æfingagjöldum Toppfara.
    Örn sendir tölvupóst með kvittun á pdf-skjali sem hægt er að senda á stéttarfélagið (orn-bokari(hjá)simnet.is).

     

  • Athugið að æfingagjöldin eru lág þar sem við hugsum ástundun í fjallgönguklúbbnum okkar til langs tíma, helst árum saman. Æfingagjöldin miðast við að klúbbmeðlimir komist ekki alltaf og detti jafnvel út í einhverjar vikur eða mánuði, en það komi ekki að sök, þar sem þetta sé lífsstíll, en ekki tímabundið verkefni, þó menn séu að sjálfsögðu velkomnir tímabundið með okkur eins og mörg dæmi eru um. 
     

  • Gestir geta því miður ekki komið í staka þriðjudagsgöngu til prufu eins og áður var, þær eru eingöngu fyrir klúbbmeðlimi þar sem við viljum ekki bera ábyrgð á fleirum en skráðum meðlimum. Ef gestir vilja koma í staka þriðjudagsgöngu, þá geta þeir skráð sig í einn mánuð með því að greiða kr. 5.000 og komið í allar fjórar eða fimm þriðjudagsgöngurnar þann mánuðinn og svo ákveðið sig og bætt þá við upphæðina sem vantar upp á til að greiða árgjald og þá gildir aðildin frá því greitt var fyrir staka mánuðinn. 
     

  • Sendið endilega póst á þjálfara fyrir frekari upplýsingar eða hikið ekki við að hringja í okkur ef eitthvað er óljóst. 

 

Greiðslu má inna af hendi á eftirfarandi máta:

  • Greiða beint inn á reikning Toppfara ehf nr:  0114 - 26 - 58100 á kt: 581007- 2210.

  • Setja í skýringu að verið sé að greiða æfingagjöld.

  • Ekki er lengur hægt að greiða með kreditkorti. 

 

Innifalið í klúbbgjaldi:

  • Skipulagðar fjallgönguæfingar alla þriðjudaga allt árið um kring þar sem þjálfarar mæta annan hvern þriðjudag og frjáls mæting er annan hvern þriðjudag.

  • Lægra gjald fyrir tindferðir og lengri ferðir sem greiðast aukalega.

  • Forgangur í lengri ferðir og gönguferðir erlendis.

 

 

Þriðjudagsæfingarnar:
 

  • Brottför yfir vetrartímann er frá fjallsrótum kl. 17:30 á fjöllin nær Reykjavík frá október út mars.
     

  • Yfir sumartímann frá apríl út september er brottför annað hvort frá fjallsrótum kl. 17:30 ef fjallið er þekkt og nálægt Reykjavík eða frá Össuri, Grjóthálsi 5 / Ásvallalaug Hf kl. 17:00 og er brottfarartími og staðsetning auglýst í hvert sinn. 

 

Athugið að þjálfarar taka sér fasta hvíld í 5-6 vikur að sumri og1-3 vikur að vetri til og reiknast æfingagjöldin út frá því, en þriðjudagsgöngum hefur almennt verið haldið úti í fjarveru þjálfara, þar sem klúbbmeðlimir bjóða upp á þriðjudagsgöngur í staðinn og því má reikna með því að alltaf sé þriðjudagsfjallganga allt árið um kring þrátt fyrir hvíldartíma þjálfara. 

 

 

Verð í tindferðir (dagsgöngur um helgar):

 

... fer eftir lengd, umfangi og staðsetningu en almennt er verðið eftirfarandi: 

  • Kr. 6.000 fyrir klúbbmeðlimi í mjög stuttar dagsgöngur.

  • Kr. 7.000 fyrir klúbbmeðlimi í hefðbundna tindferð.

  • Kr. 9.800 fyrir gesti sem vilja prófa göngu með klúbbnum.

  • Fjölskyldumeðlimir Toppfara greiða sama verð og klúbbmeðlimir í tindferðir.
     

  • Verð í flóknarði ferðir en hefðbundna dagsferð frá Reykjavík (upp á hálendi, mjög langar ferðir út á land eða á jökul) ráðast af umfangi hverju sinni. 
     

Gjafakort í klúbbinn:

 

  • Hægt er að kaupa gjafakort fyrir aðild í klúbbnum í hálft ár eða árgjald í heilt ár.

  • Sendið þjálfara póst og við útbúum fallegt gjafakort og sendum það í pósti eða afhendum í póstlúgu á uppgefið heimilisfang ef  viðkomandi er á  höfuðborgarsvæðinu.
     

Heiðursfélagar: 

Þeir klúbbmeðlimir sem náð hafa 75 ára aldri og hafa verið í klúbbnum í lágmark 5 ár, greiða engin æfingagjöld þar með og eru meðlimir í klúbbnum út ævina. Á það skal bent hér að margir af sterkustu göngumönnum Toppfara í gegnum öll þessi ár, hafa verið fólk frá 65 ára til 85+ ára og hafa þau ekki hikað við að mæta í erfiðum veðrum né í brattar leiðir, svo aldurinn segir ekkert til um hvers menn eru megnugir. Þetta fólk er okkur mjög dýrmætar fyrirmyndir.

Mikilvægar upplýsingar til nýliða sem gott er að lesa þegar maður byrjar í klúbbnum:

  • Allar upplýsingar um klúbbinn, stofnun, markmið starfsemi, reglur, þróun o.fl. má lesa hér.
     

  • Athugið að það er heillavænlegast að einsetja sér að mæta reglulega á þriðjudögum og svo í tindferðirnar um helgar um leið og geta leyfir, en um leið gera ekki þá kröfu á sjálfan sig að mæta alltaf. Það er okkar reynsla að ef menn setja slíkar kröfur á sjálfan sig þá er það yfirleitt ávísun á vonbrigði eða uppgjöf eftir ákveðinn tíma. Við mælum því með að stefna á að ganga á fjall einu sinni í viku eða aðra hvora viku til að byrja með en hreyfa sig daglega að einhverju leyti til að byggja upp þol og styrk.
     

  • Sé lífið flókið þá stundina er gott markmið að ganga alltaf á fjall einu sinni í mánuði í stað þess að missa fjallgönguþjálfunina alveg niður þar sem léttara er að koma svo aftur inn, frekar en að ganga ekkert á fjall mánuðum saman og þurfa jafnvel ítrekað að byggja upp fjallaþolið frá byrjun. Að sama skapi eru alltaf einhverjir sem mæta nánast alltaf á þriðjudögum og það jafnvel árum saman en það er mun sjaldgæfara en hitt. Fjallganga einu sinni í viku er góð regla og það felst mikil gæfa í að ná því árum saman. 
     

  • Mjög sjaldgæft er að ná að mæta alla þriðjudaga vikum, mánuðum eða árum saman og best að setja ekki þá kröfu á sjálfan sig í byrjun, heldur miða við að ná að mæta í hverjum mánuði eða aðra hvora viku sem dæmi. Um leið er það okkar reynsla að þeir sem vilja komast í gott fjallgönguform og vilja geta tekið þátt í lengri ferðunum, þá sé best að mæta reglulega á þriðjudögum eða fara sjálfur á #vinafjalliðmitt einu sinni í viku. Einnig er það okkar reynsla að þeir sem hika ekki við að koma í tindferðirnar (dagsferðir um helgar) og máta sig við hópinn þó vegalengd eða erfiðleikastig hljómi erfitt, eru mjög fljótir að komast í mjög gott fjallgönguform og lang flestir geta mun meira en þeir halda.
     

  • Flestir vanmeta eigin getu og eiga ekki að hika við að mæta og sjá þá hversu mikið þeir þurfa að bæta formið til að geta haldið í við aðra í hópnum. Við höfum öll verið á byrjunarreit einhvern tíma og við lendum öll í bakslagi með líkamlegt form vegna meiðsla, álags í lífinu eða veikinda og höfum öll komist að því að þetta snýst einfaldlega um að láta slag standa, mæta og sjá erfiðleikastigið á eigin skinni og einsetja sér svo í kjölfarið að æfa eins og maður þarf. 
     

  • Sækið endilega um aðild að lokaða fasbókarhópnum "Toppfarar" þegar búið er að ganga frá æfingagjöldum.
    Þjálfari getur ekki bætt nýliðum við nema vera vinir þeirra á fb fyrst og stundum er erfitt að finna nýliðana á fb, svo endilega sækið sjálf um hér: https://www.facebook.com/groups/toppfarar/

     

  • Fjallgönguklúbburinn er einnig með opinbera síðu á fb til að kynna klúbbinn, þar sem allar dagsferðir / tindferðirnar eru settar inn sem viðburðir, svo gestir og gamlir klúbbfélagar eða þeir sem vilja geta mætt í stakar göngur, geti komið í stöku tindferð með hópnum. Klúbbfélagar Toppfara skrá sig þar inn á hvern viðburð fyrir sig og greiða lægra gjald þar sem klúbbmeðlimir og klúbbmeðlimir ganga fyrir, ef þátttaka er takmörkuð: https://www.facebook.com/fjallgongur.is 
     

  • Sjá dagskrá klúbbsins fyrir árið. Þjálfarar semja dagskrá heils árs í senn og birta hana síðla hausts árið á undan, en hún breytist alltaf eitthvað eftir veðri og vindum, áhuga og aðstæðum hverju sinni þegar nær dregur hverrin göngu.
     

  • Skoðið búnaðarlista klúbbsins en munið að lykilatriði er að mæta, ekki hvaða búnað maður á né að eiga allt sem er á listanum. Mætum í því sem við eigum til að byrja með og sjáum smám saman hvaða búnað mann vantar að koma sér upp (vantar mig betri gönguskó,  hlífðarföt eða belgvettlinga og afhverju þá ?). Fjallgöngur snúast ekki fyrst og fremst um að þurfa að eiga margslunginn og dýran búnað, heldur að leggja í hann helst einu sinni í viku og láta hvorki veður né annað hindra reglulega ástundun, svo formið sé gott allt árið um kring.
     

  • Lágmarks fjallgöngubúnaður að okkar mati er gönguskór, hlífðarjakki, hlífðarbuxur, hlýjir vettlingar og hlýtt höfuðfat, bakpoki og kjarngott nesti og þannig getur maður byrjað. Reynslan við að ganga á fjöll allt árið um kring kennir manni svo smám saman að það er gott að hafa belgvettlinga, lambhúshettu, skíðagleraugu, hælsærisplástur, keðjubrodda o.fl. í bakpokanum en slíkan búnað er best að koma sér upp smám saman eftir því sem reynslan krefst þess af manni.
     

  • Hvernig kemst ég í gott fjallgönguform...? ... um hvað snýst fjallgönguþjálfun ?...  lykilatriði er að detta aldrei úr formi heldur viðhalda því með reglulegri ástundun. Tilgangur þessa fjallgönguklúbbs er fjallgönguþjálfun við allar aðstæður veðurs, færðar og birtuskilyrða allt árið um kring og að njóta íslenskrar náttúru sem mest í leiðinni... andlegri og félagslegri vellíðan til hagsbóta ekki síður en líkamlegri. 
     

  • Athugið að einkenni þessa klúbbs er að fara sífellt á ný fjöll eða nýjar leiðir á fyrri fjöll í bland við fyrri leiðir, en ekki endurtaka sífellt sömu leiðirnar (nema stöku fjöll yfir háveturinn í myrkri). Þá er það einnig einkenni þessa klúbbs að velja meðvitað erfiðari leiðir á þekkt fjöll eða áður gengin fjöll, ekki einföldustu né léttustu leiðina, sem þýðir meira klöngur og meiri fyrirhöfn. Allt í þeim tilgangi að þjálfa okkur og ögra, svo við verðum betri og öruggari í fjallgöngum, enda er erum við fjallgönguþjálfunarklúbbur en ekki ferðafélag og það er mikilvægt að allir átti sig á þessu. Tilgangur þessa klúbbs er ekki að bjóða fólki í ferðir heldur að þjálfa það í fjallgöngum sem þýðir að þjálfa öryggi og færni í klöngri, ekki síður en úthaldi. 
     

  • Mikilvægasta veganestið í okkar klúbbi er virðing... auðmýkt... jákvæðni... gleði... áræðni... staðfesta... og þakklæti... og við minnum reglulega á þessi gildi, því þau gefa orku og gleði... og það sem mest er um vert... ný ævintýri að upplifa. Af öllum þessum gildu er þakklæti það mikilvægasta að okkar mati. Það er langt í frá sjálfgefið að geta yfirleitt gengið á fjöll, hvað þá allt árið um kring, við allar aðstæður, stöðugt nýjar leiðir og gjarnan að kanna ókunnar slóðir... fyrir það ber að þakka í hvert einasta sinn sem gengið er á fjöll. 
     

  • Frekari upplýsingar hjá þjálfurum; Bára: 867-4000 / baraket(hjá)simnet.is eða  Örn 899-8185 /orn-bokari(hjá)simnet.is.


    Komdu með...... það er magnað að safna sífellt nýjum fjöllum... nýjum leiðum... nýjum upplifunum... og komast að því að maður getur mun meira en maður hélt... 

bottom of page