top of page

Þórólfsfell var þriðja föstudagsfjallið í bongóblíðu

Tindferð nr. 266 föstudaginn 28. apríl 2023.


Síðustu helgina í apríl snjóaði heil ósköp og látlaust í rúmlega sólarhring á hluta af Suðurlandi... þar sem þjálfarar dvöldu í bústað sínum... daginn áður á leið á þriðjudag föstudagsfjallið... og því var útlitið ekki gott með bílfæri en veðurspáin hins vegar með ágætum...


Þjálfarar böktuðu veðurspána vel og gerðu ráðstafanir með varafjall ef ófært skyldi vera að Þórólfsfelli í Fljótshlíð... en Bjólfellið var áður á dagskrá og þangað hefði verið ófært... en við höfum breytt úr því í Þórólfsfellið stuttu áður með skoðanakönnun á Toppfarahópnum á fb... þar sem flestir völdu Þórólfsfellið og færri Drangshlíðarfjall sem rís vestan við Skógarfoss og er búið að toga okkur lengi til sín... en þjálfarar fengu leyfi bænda þar til að leggja bílunum ef ske kynni að Þórólfsfellið yrði ófært inn eftir...


Þjálfarar höfðu flutt bílinn sinn upp á þjóðveg deginum áður þegar ljóst var að það snjóaði þessu mikla magni og gengu svo 1,3 km frá bústaðnum í bílinn... svona var ástandið á vegum í Holtunum í Rangárþingi ytra á föstudagsmorgninum... lygilegt alveg.... jú, það hefur snjóað í maí áður... en ekki svona mikið magn með viðvarandi kulda dögum saman eftir það sem hélt þessum snjó á öllum túnum dögum saman... fram yfir helgina... sem var löng því það var 1. maí á mánudegi... og enn var ófært þann dag á sveitaveginum okkar að bústaðnum...


Það var skafrenningur þennan morgun og því skóf fljótt í öll bílför á þjóðveginum... einn af mörgum kostum þess að ganga á föstudögum en ekki um helgi er að ýmis starfsemi er í gangi... eins og skólaakstur... og því var mokað svo hægt var að keyra þennan dag...


Þegar komið var inn á Fljótshlíðarveg... eftir frekra langt wc-stopp á Hvolsvelli þar sem bæði þjálfarar komu nokkrum mínútum of seint sem og hluti þeirra sem keyrði frá Reykjavík... en þær töfðust vegna bílveltu sem varð á Hellisheiði og Gulla og Fanney aðstoðuðu á slysstað... og við tókum smávegis viðrun á þessu áður en haldið var inn eftir... varð ljóst að í Fljótshlíðinni hafði ekki snjóað alveg eins mikið og í uppsveitunum... en engu að síður talsverður snjór... og þegar upp á Þórólsfellið var komið, sáum við að snjókoman hafði náð inn hálfa Fljótshlíðina til austurs og norðurs...


Þríhyrningur alhvítur... eins og Bjólfellið, Hekla og fleiri fjöll... á meðan Búrfell í Þjórsárdal var snjólítið eins og önnur fjöll sem ekki lentu í þessari snjókomuhrinu...

Jaana þekkir vel til á þessum slóðum og hafði samband við heimamenn sem höfðu sagt henni að það væri ekki mikil snjókoma innst í Fljótshlíðinni... og við vorum dauðfegin að heyra það...


Dagmálafellið í Eyjafjallajökli... örlagarík ferð okkar þangað árið 2020... gleymist aldrei...Þórólfsfellið að koma í ljós... vá... autt í neðstu hlíðum... það var svolítið annað en fannfergið á láglendinu austar á Suðurlandi...


Vá... alveg auð jörð hér... við önduðum ekki bara léttar... við fögnuðum innilega... þetta var framar öllum vonum...


Horn og Dagmálafell undir Eyjafjallajökli...


Eyjafjallajökull...


Yndislegt... það var mjög skrítið að stíga út úr bílnum á auða jörð eftir að hafa verið í þungri snjókomu og göslast djúpan snjó í tvo daga á undan...


Við lögðum af stað kl. 10:16 eftir akstur úr bænum kl. 8 og svolitlar tafir á Hvolsvelli...


Algert logn... auð jörð... hlýtt... sól... við vorum í sumarskapi... þessi ferð var geggjuð !


Við byrjuðum og enduðum gönguna á tveimur gljúfrum... á uppleið var það Þórólfsárgil en það virðist vera nafnlaust á kortum ?


Mjög tignarlegt... og fallegt í morgunsólinni...


Fórum eins langt og við komumst inn eftir...


Batman ennþá með skerminn sinn til að vernda saumana og virðist ekkert láta hann trufla sig lengur...


Litlir fossar rennandi ofan í gljúfrið... hvílík fegurð...


Út aftur... snjóföl þar sem sólin hafði ekki náð að bræða hann eftir gærdaginn...


Upp hlíðarnar sunnan við gilið með mögnuðu útsýni yfir gilið...


Við vorum átta manns... allt konur nema Örn... fleiri komust í göngu á föstudegi en laugardegi þessa helgi og því er ennþá von með að þessar föstudagsferðir festi sig í sessi...


Linda í nýrri tiddarapeysu... svo falleg og alveg í stíl við umhverfið... magnað !


Stígur hér upp til að byrja með meðfram gljúfrinu...


Ferskir litir þennan dag og allt svo kristaltært...


Ofan við gljúfrið hér... ægifegurð...


Sterkir og tærir litir... allt minnti á neðsta kaflann í jöklaferð... stórskorið landslag... lágir morgunsólargeislar... jöklar allt í kring ofar...


Við héldum okkur á stígnum upp eftir...


Efri hluti Þórólfsfells kominn í ljós... þetta er sannarlega víðfeðmt fjall...


Ennþá á auðri jörð... ennþá algert logn... þetta var alveg dásamlegt...


Komin í snjólínu í um 300 metra hæð...


Eyjafjallajökull glitraði í suðri...


Gljúfrið og hluti af fjallasal Tindfjallajökuls efst...


Mjög skemmtileg leið um fjallsása og gil...


Létt en fjölbreytt leið...


Fjallablóm... vetrarblóm...


Við eltum nokkurn veginn slóðina frá því árið 2021 en það er hægt að ganga nánast hvaða leið sem er hér upp...


Steikjandi hiti og blíða...


Snjórinn mjúkur og þunnur... engin þörf á keðjubroddum... þetta var mun saklausara en við áttum von á...


Enn eitt gilið...


Smávegis fjallsbunga hér upp...


Mikið spjallað og spáð...


Létt hér upp...


Sýnin til baka yfir Fljótshlíðina... sjá má snjólínuna hægra megin þar sem snjókoman náði... auð jörð sunnar...


Einstök blíða...


Við nældum okkur í alls kyns hliðarhallakafla og brekkur...


Áning hér og Fanney bauð upp á heimabakaða hjónabandssælu...


Sjöfn las upp heimasamið ljóð til Fanneyjar sem var alveg dásamlega skemmtilegt og fallegt...
Magnað ljóð og fullt af tilvísunum í atburði og umræður í göngunum síðustu daga ! :-)


Við þjálfarar getum ekki lýst því hversu lánsöm við erum að hafa svona manneskjur innan okkar raða... takk fyrir að vera til stelpur...


Södd og sæl eftir góða nestispásu héldum við áfram för upp eftir...


Smávegis gjóla hér en sólin skein í heiði...


Efsta brekkan framundan...


Hitastigið á snjónum var þannig að reimin á legghlífunum hennar Möggu Páls söfnuðu á sig miklum snjó... eins og hárin á hundunum gera gjarnan...


Komin í efsta hlutann...


Enga stund hér upp...


Margsinnis fannst okkur við vera á jökli í þessu steikjandi sólarveðri með þrjá jökla glitrandi í kringum okkur...


Snjórinn rúllandi niður en mjög þunnt lag og engin snjóflóðahætta...


Þessi ganga var mjög heilandi og nærandi... friðsæl og notaleg...


Alsæla...


Fljótshlíðin út eftir... snjólínan... Stóri Dímon... Markarfljót...


Stórmerkilegt að sjá hvert snjókoman náði... í svona miklu magni... líklega hvarf þessi snjór hér samt á stuttum tíma... en það tók marga daga að leysa hann upp í uppsveitunum...


Dásamlegt að spjalla og spá í lífið og tilveruna...


Síðasta brekkan...


Notalegt að fara í svona létta og stutta dagsgöngu... við nutum hvers skrefs...


Komin upp og breytilegt landslagið uppi...


Tindar Eyjafjallajökuls í baksýn... Bláfell, Gráfell, sést smávegis í Búra og loks Hornklofi og Tindur....


Landslagið uppi á Þórólfsfelli kom okkur á óvart... tvö vötn sem skreyttu fallega leiðina...


Íshröngl í austurendanum...


Áþreifanlegur friður hér...


Svo fallegt...


Örn tók góðan hring á fjallinu... varðan með "jólatrénu" er ekki hæsti punktur og við þræddum því hæstu hnúkana uppi...


Lungamjúkt færi...


Vatn tvö...


Mun stærra og einnig með íshröngli... og snævi þakinni eyju...


Fjöll hálendisins að koma í ljós vestan við fjallið...


Og vatn þrjú... eða tjarnir... leysingavatn líklega og svo þornar þetta þegar líður á sumarið... við urðum ekki vör við þessar tjarnir í desemberferðinni árið 2021 enda hávetur og þykkari snjór yfir öllu...


Eyjafjallajökull speglaðist í síðasta vatninu sem var ekki íshrönglað...


Hér mældum við hæsta punkt fjallsins... hann var 589 m hár og er 587 m á wikiloc-slóðinni okkar (stundum ósamræmi í gps-slóðinni á base camp og wikiloc) en það virðist ekki vera formlegur tindur merktur á þessu fjalli nema þar sem varðan er en hún er 577 m há og því ekki hæst.


Hópmynd með Mýrdalsjökul og hálendisfjöllin í baksýn...


Jaana, Sjöfn Kr., Örn, Linda, Aníta, Gulla, Magga Páls. og Fanney en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...


Riddarapeysurnar... við heffum átt að taka mynd af þeim á besta staðnum síðar á austasta tindinum... af því þar voru jarðlitir á láglendinu... svona skiptir máli að vanda sig smávegis og gefa sér tíma í hópmyndirnar þó það sé alltaf smá vesen...


Austasti tindurinn framundan hvítur að sjá... hann er ekki alveg hæstur... mældist samt 586 m eða rétt undir hæsta punkti...


Bára þjálfari vildi eindregið ganga á þennan hvíta tind þarna austan megin... þar sem hann var líklega að gefa okkur mikið útsýni yfir þórsmörkina og mun óskertara en allt þetta undirlendi á efsta hluta fjallsins...


Smá giljaklöngur til að komast á milli...


Litið til baka að hæsta punkti...


Tindfjallajökulstindarnir svo fallegir norðan megin...


Klettaskúti með ísnálum...


Upp austurtindinn... hér birtist Þórsmörkin í allri sinni dýrð... en ansi hvít af snjó samt ennþá...


Undirlendið að Tindfjallajökli...


Létt hér upp...


Litið til baka...


Geggjað að ná þessum aukatindi...


Eins gott að gera meira úr þessu saklausa fjalli...


Geggjað útsýni héðan !


Hattfellið vinstra megin... Stórkonufell... og nafnlaus flotti hvíti tindurnn hægra megin við miðju myndar... og loks Einhyrningur með enn eina ásýndina en hann er auðgreinanlegur á oddhvassa klettinum sem skagar upp úr honum vinstra megin... þarna vorum við... á þessum fjöllum í fyrra og hitteðfyrra...


Eyjafjallajökull... við sáum glitta í bíl á einums tað neðan við hann í smá gili þar sem vegaslóði lá inn úr... fleiri en við voru að njóta þessa dags á þessum slóðum...


Þórsmörkin... Húsadalur ef að er gáð... Útigönguhöfði sem er á dagskrá í byrjun júní... Morinsheiði... Heiðarhorn... Fimmvörðuháls... Magni hægra megin á mynd...


Tindfjallajökull... Búri, Hornklofi, efsti hlutinn á Ými og loks Tindur og félagar...


Hér ákváðum við að taka langa áningu og njóta, fá okkur nesti og bara vera til... magnaður útsýnisstaður sem menn verða að koma á þegar þeir ganga á þetta fjall...


Nesti með jöklum allt í kring...


Myndatökur...


Hvílíkur veitingastaður ! Á heimsmælikvarða...


Nærmynd af Eyjafjallajökli...


Batman kann að njóta með okkur... alltaf klár... mættur... hjálpar við leiðarval og rötun... og heldur utan um hjörðina sína af stakri snilld...


Það va rsvona veður... sólbað og spjall... yndislegt...


Örn náði sér í snjóaðan giftingarhring...


Jæja... það er alltaf erfitt orð þegar maður er að hafa það svona notalegt... við tímdum varla að leggja í hann aftur... Bára spáði mikið í að fara niður af fjallinu hér og ganga veginn til baka í sól og auðri jörð og losna þannig við snjóinn... en þá hefðum við misst af útsýninu og Örn vildi frekar halda sig uppi á fjallinu... gott að eiga inni svona öðruvísi leið þar til næst... þó það verði líklega samt ekki aftur... nema það gjósi og við vitum þá af mergjuðum útsýnisstað...


Mýrar á leiðinni til baka en það var auðleyst með smá hoppi eða útúrdúr...


Sumarið er alveg að koma á fjallinu...


Við héldum þvælingi áfram út í króka og kima fjallsins... nú sunnan megin...


... en það gaf ekki eins vel á góðan útsýnisstað og austan megin...


Svo við héldum bara út á vesturhlutann... með Fljótshlíðina í fanginu...


Þar var varðan góða... sem við mældum í 576 m hæð... sagður formlegur tindur Þórólfsfells en er mælanlega ekki hæstur... hér eru Landmælingar með mælingartæki og líklega er hér jarðskjálftamæling eða álíka í gangi...


Litið til baka...


Frá vörðunni út á vesturhlíðarnar...


Mergjað veður ennþá en stutt í þykkan skýjabakka sem lá neðan við Eyjafjallajökul... og okkur grunaði að væri yfir Drangshlíðarfjalli við Skógarfoss sem var varafjallið þennan dag...


Mergjuð leið hér niður... tilraunakennd eins og síðast...


Létt til að byrja með en svo skerast gilin upp í fjallið og rjúfa beinustu leið niður...


Við þurftum að eltast við bungurnar sem liggja milli gilja...


Litið til baka... hér hvarf sólin aðeins bak við skýin og það var léttir eftir alla birtuna...


Skyldi þessi bunga gefa á góða niðurleið ?


Við vildum ná Mögugili á niðurleiðinni og eltumst því við það...


Æj, já... hér var ekki fært niður... Örn rifjaði upp tilraunir í desember 2021 þar sem þau sneru við af ásnum hér vinstra megin...


Þetta var fín leið hér hægra megin...


Mögugilið að myndast efst hér... dypkar svo og þrengist á dæmigerðan hátt neðar...


Þessi leið virtist fín... en var ófær í hálkufæri síðast... þar sem brattinn eykst neðar...


Forréttindi að standa svona á fjallsbrún á niðurleið og geta virt fyrir sér landslagið allt í kring... viku síðar voru jarðskjálftar í Kötlujökli / Mýrdalsjökli... og eina f flóðgáttaleiðum niður af þeim jökli ef gos verður undir jökli er hingað niður eftir Markarfljótinu...


Hér sneri Örn frá síðast... en þetta virtist sleppa núna...


Jú, gott hald í grjótinu með mjúkan snjó yfir...


Síðast fór hann með hópinn niður ásinn hér hægra megin með smávegis krækju ofar til að komast á hana... svona stórskorin gil í fjallshlíðum eru fljót að flækja tilraunakenndar niðurleiðir en oft finnst einhver leið...


Gaman að fara hér niður...


Batman hafði hlaupið í óðagoti ofar alla leið hér niður og beið niðri eftir okkur... við sáum engan og ekkert sem gaf honum tilefni til þessa upphlaups... en hann fór hratt yfir með skerminn sinn og braut hann í látunum...


Mikið var þetta dásamlegt...


Litið til baka upp brekkuna góðu...


Best í heimi !


Yfir þetta gil til að komast niður með Mögugili...


Litið til baka... Þórólfsfellið er mergjað fjall !


Mögugilið tók nú völdin af fjallinu...


Mjög fallegt... næst skulum við reyna að ganga niður eftir því... okkur fannst eftir á að það væri líklega ágætis klöngurleið...


Mikið landslag hér um allt...


Örn kominn út á ystu nöf...


Batman skilur ekki í svona fíflalátum húsbónda síns...


Sjöfn fór á hinn oddann...


Neðan við hann var hellisop sem við leiðbeindum henni með að finna... sést ekki ofan frá...


Mjög flott landslag hér...


Komin niður í sumarið...


Litið til baka...


Mikið landslag í gilinu...


Jarðfall... sandur og grasbreiður....


Við ætluðum að ganga hér inn eftir neðan frá...


Klettahöfuðið...


Jarðfallið...


Mögugilið með Þórólfsfellið ofar...


Elja íslenskrar náttúru á sér engin takmörk...


Niður í gilið í endanum...


Sjöfn fann kandís sem hún elskaði sem barn... já... þegar það var eina nammið sem var í boði... ógleymanlegt sælgæti fyrir þá sem eru nægilega gamlir...


Við þræddum okkur inn gilið...


Linda í stíl við landslagið... svo fallegt...


Magnað hvað riddarapeysurnar ná að fanga stundum liti náttúrunnar fullkomlega...


Mögugilshellir... virtist eins og hellisskúti en þeir sem hafa farið þarna inn segja þetta þröngt og myrkvað... enda 15 m langur og sagður einstakur jafnvel á heimsvísu... ekkert okkar langaði að þrengja sér inn í hellinn og því létum við þetta nægja...


Hangandi blóðberg... aðdáunarverð elja og útsjónarsemi...


Litið út eftir gilinu...


Heilu tröllin að tala saman í gljúfrinu...


Og hellisskútar um allt...


Þornaður lækjarfarvegur...


Mjög fallegt gil...


Við vildum fara eins langt og við kæmumst...


Sjöfn stökk hér niður og lenti á grjótvegg... en það var hægt að klöngrast upp klettinn hér vinstra megin... við sáum verksummerki eftir einhverja sem það hafa gert... en við létum þetta nægja í bili...


Litið til baka...


Magnað gljúfur !


Stórbrotið...


Leiðin áfram hér...


Klettahöfuðið séð neðan frá...


Kynjamyndirnar um allt...


Hópurinn að koma allur inn...


Smá nesti hér... það var ekki annað hægt en njóta þess að vera í þessu gili í sumarblíðunni...


Jæja... flæði... þjálfarar vilja láta göngurnar flæða og gerast eins og landslag og veður leyfir... ekki ákveða stíft hvar og hvenær skal borða eða á... bara láta flæða og þegar flestir eru búnir að borða og spjalla smávegis... þá bara tygja sig í rólegheitunum með mildi... ekki tilkynna ákveðinn tíma eða tilkynna að stutt sé í brottför... það kemur alltaf streitu á alla... sem tekur róna sem er annars yfir... svo bara fer maður að tygja sig af því hinir eru byrjaðir á því... og lagt af stað í rólegheitunum... enda eiga þá allir að vera búnir að gera og græja flókna hluti eins og búnað og salernisstopp...


Smá hópmynd hér inn gilið...


Og svo hópmynd út eftir gilinu... einstaklega fallegt...


Við skutumst út úr gilinu og skunduðum í bílana...


Takk fyrir okkur Mögugil...


Fræðsluskilti um gilið... erfitt að lesa en þá kemur veraldarvefurinn sér vel: Mögugilshellir, Þórólfsfell - Katla | Geopark (katlageopark.is)


Markarfljótsáraurarnar inn í Þórsmörkina...


Þórólfsfellið í baksýn með Mögugilið í forgrunni... mjög fallegur endir á þessari fallegu fjallgöngu...


Smá spotti á malarveginum að bílunum...


Sjá skiltið sem var brotið að hluta... klaufaskapur hjá þjálfara að taka ekki mynd af því... annar staurinn hefur kubbast í sundur í veðurhamnum í vetur... þetta hafa þjálfarar sérð gerast í sinni Landsveit ekki svo langt frá... veðrin hér eru langtum verri en i höfuðborginni... og erfitt að ímynda sér það nema verða vitni að því og/eða eyðileggingunni sem verður reglulega af þeim völdum... það er ástæða fyrir því að skálar og möstur eru geirnegld niður á hálendinu...


Alls 11,1 km á 5:48 klst. upp í 589 m hæð með alls 661 m hækkun úr 80 m upphafshæð...


Misvísandi tækin en þegar slóðunum er hlaðið í Base Camp... og á wikiloc þar sem leiðin er 10,5 km sem dæmi svo við reynum að velja raunsannasta vegalengd og fara milliveginn...


... enda var enginn með sömu vegalengd í símanum sínum... og þetta fer svo á strava eða önnur álíka forrit og alls kyns tölur koma frá leiðangursmönnum í sömu ferð... segir svolítið um okkar tíma... ekki einn sannleikur... heldur margir og hver og einn velur sinn sannleika... sumt var betra í gamlga daga sko ! :-)


Veitingar, viðrun og hlátur... dásemdin ein !


Aftur var ekið inn í fannfergið sem lá yfir Rangárþingi Ytra...