Þakgil að Huldujökli og Kötlujökli í Mýrdalsjökli
- Bára Agnes Ketilsdóttir
- Jun 24
- 5 min read
Tindferð nr. 335 sunnudaginn 8. júní 2025

Þar sem ekki var orðið bílfært inn Kaldadal né að Hagavatnsskála á Jarlhettur kölluðu þjálfarar eftir áhuga á göngu á önnur fjöll og voru með ýmsar hugmyndir en þegar Fanney stakk upp á Þakgili þangað sem var orðið bílfært í byrjun júní... á var ekki aftur snúið... loksins komum við Þakili að og við vorum mjög spennt...

Yndisleg veðurspá... frábær mæting... dásamleg akstursleið... mögnuð gönguleið...

Blíðskaparveður eins og áður á þessu sumri og vori... og Þakgilið tók á móti okkur sólríkt og kyrrlátt og svo fallegt í byrjun júní... það var skrítið að geta keyrt alla leið hingað upp eftir á breytilegum vegaslóðanum en ekki inn að Hagavatni né inn Kaldadal... metnaðurinn greinilega mikill hér í sveit...

og fjögur gistu í Þakgili nóttina áður... Ása og Fanney í tjaldi... Sighvatur í ferðabílnum sínum og Áslaug í gestahúsi í boði staðarhaldara...

Keyrt var úr bænum kl. 07 og brottför áætluð gangandi kl. 10 og það stóðst... við vorum lent hér keyrandi upp úr 9:30 og höfðum nægan tíma til að græja okkur og fara á wc eftir bílferðina...

Þjálfarar að fara þessa leið í fyrsta sinn og höfðu legið yfir gps-slóðum á wikiloc... rauða leiðin í baldn við þá fjólubláu og með útúrsnúningi að brúnunum ofan við jöklana var á áætlun...

Útsýnið n iður Þakgilið úr fystu brekkunni upp úr dalnum...

Mögnuð leið og vel slóðuð... hér ganga margir en okkur grunar að það séu að mestu útlendingar...

Hvílík byrjun á sumrinu... ef maður vill ekki kalla maímánuð "sumarmánuð"...

Stuttbuxur og stuttermabolir í byrjun og enda þessarar göngu... en veðrið átti eftir að breytast snarlega á einu vetfangi efst við jökulinn...

Vel slóðað og jeppaslóði að hluta...

Hrikalega flott leið þó aflíðandi væri hér fyrri hlutann..

Nashyrningurinn... og fleiri kynjamyndir allt um kring á honum og í öðru bergi.. þessi leið er göldrótt...

Augljóst andlit í stafni hér...

Við mættum erlendum göngumönnum meira og minna... man ekki eftir neinum Íslendingum...

Það er ráð að staldra við á leiðinni og skoða ofan í gljúfrin... ekki arka of hratt framhjá þeim...

Dásamlegt í alla staði... við vorum svo ánægð að hafa drifið okkur þrátt fyrir langan akstur... hann er alltaf þess virði...

Gljúfrin þröng ofan Þakgils...


Frábær hópur á ferð... margir að fara í stórar ferðir erlendis eða hérlendis í sumar og haust og menn að æfa sig fyrir þær... og grípa þessa góðu daga sem gefast á Íslandi þegar þeir koma... eins og þessa helgi...

Jeppaslóði er hluti af gönguleiðinni upp heiðina...

Stórskorðið og hvassbrýnt landslag...

Þess virði að fara fram á brúnirnar á leiðinni upp eftir...



Ljúf og geiðfær leið...

Kynjamyndir um allt á þessu svæði...

Nýtt landslag fyrir okkur en ætli þetta séu Vondhöfuð ? Hvílíkt örnefni !

Grýttara þegar ofar dró...

Skyndilega dró fyrir sólu... og þungbúin ský sem færðust hratt úr suðvestri komu yfir svæðið okkar... og éljagangur gekk yfir okkur með bláan himinn allt í kring...

Fanney og Shöfn nýkomnar heim frá Perú þar sem þær gengu Inkastíginn með Fjallafélaginu.... í sólbjartri og mjög vel heppnaðri ferð þar sem stemningin í hópnum var frábær...

Við hlógum bara að þessum éljagangi og klæddum okkur bara betur yfir stuttbuxur og stuttermaboli og fengum okkur nesti...

Héldum svo áfram undir élgaganginum og treystum því að sólin skini aftur á okkur...

Drepfyndið að hafa þennan bláa himinn í miðjum éljagangi 😊

Litið til baka…

Fjöllin í kring að verða hvít eftir áganginn í éljunum… ótrúlegt alveg 😊


Við fórum út af stikaðri gönguleiðinni eins og flestir gera til að koma fram á þennan magnaða útsýnisstað…

Þorðum ekki öðru en taka hópmynd ef ske kynni að veðrið versnaði… en það átti bara eftir að batna aftur í sama bongóið og var á uppleið…

Við tók tæpu klukkutími á þessum brúnum þar sem við gengum upp að jöklinum og nutum þessa stórbrotna útsýni sem við vorum agndofa yfir… hvílíkur staður… hér á að sjálfsögðu að stika leið svo allir viti hvar á að fara og þetta fari ekki framhjá þeim sem samviskusamlega ganga stikaða slóðann og missa af þessu svakalega útsýni…

Strax hér batnaði veðrið og sólin fór aftur að skína smám saman…

Fossinn sem síðar átti eftir að senda miklar drunur niður dalinn, stöðvast alveg… og byrja svo aftur að renna… þetta landslag var kvikt og lifandi og sífellt að breytast fyrir framan okkur með tveimur snjóflóðum meðan við vorum þarna og reglulegum drunum úr jöklinum… ótrúlegt…

Við ákváðum að fara alveg upp að jöklinum og láta þessar útsýnisbrúnir ekki nægja… vildum snerta Mýrdalsjökul…























Sprungur strax sjáanlegar neðst í sporðinum á jöklinum…




Regnboginn í fossinum okkar…







Eftir um klukkustunda dól og notalegheit við botn dalsins og á sporði jökulsins… héldum við áfram för niður eftir brúnunum… við tímdum alls ekki að yfirgefa þetta útsýni…

Í þessari rakningu eftir brúnunum gáfust magnaðir útsýnisstaðir sem smám saman opnuðu fyrir okkur heim Huldujökuls og Kötlujökuls og ruðningslandslagsins þarna fyrir neðan…





Rjúpnafell heitir fjallið lengst til vinstri… hin eru nafnlaus… og Kötlujökull breiðir hér úr sér svo fagurmótaður…



Perluvinirnir Myrra og Batman… hafa marga ausuna sopið á fjöllum og margsinnis deilt bíl hvort annars á alls kyns þvælingi milli upphafs- og endastaðar… og eru að þvera Ísland saman…



Rjúpnafell og svo Huldufjöll fjær og Huldujökull á bak við fjallgarðinn…







Nesti tvö á svo flottum stað að engin orð fá því lýst…




Áfram héldum við eftir brúnunum og fengum stórkostlegt útsýni á hverjum stað þar sem við stöldruðum við… hvílíkt lán með veður og skyggni… þetta var langt í frá sjálfgefið…







Besta hópmyndin þennan dag… hvílíkur staður… að vera á…
Mættir voru alls 14 manns í stafrófsröð… Ása, Áslaug, Bára, Björg, Fanney, Gestur sem var gestur og er fyrrum Toppfari, Gulla, Helgi, Jón Odds., Linda,, Maggi, Sighvatur, Sjöfn Kr. og Örn og Batman og Myrra voru hundar dagsins…

























Hafursey þarna niðri á sandinum… það er komið á dagskrá árið 2026… og löngu kominn tími á að ganga á hana…

Á endanum neyddumst við til að yfirgefa jöklana og halda áfram niður eftir í Þakgil aftur… þessa fallegu hringleið sem kallast rauða leiðin eða Austurafréttur þar sem við svo læddumst inn á fjólubláu leiðina í lokin…

Ekki tók síðra landslag við… djúp, þröngskorin og gróin gilin ofan Þakgil…



Og leiðin niður eftir smá út af stikuðu leiðinni í bröttum hliðarhalla… var mergjuð…








Farin að sjá glitta í Þakgil þarna niður í dalverpinu neðst í fjallgarðinum… gullfallegur staður…



Litirnir… formin… fegurðin… við vorum lánsöm að hafa gripið þetta veður og þetta tækifæri til að kynnast þessum stað…



Þessi leið er stórkostleg… hún þarf eiginlega að heita eitthvað annað en rauða leiðin og Austurafréttur… vonandi fá þessar gönguleiðir á þessum stað nöfn sem kennd eru við staðina og alla þessa fegurð sem ríkir á þessum slóðum… en heimamenn hafa sannarlega stikað og slóðað þetta vel og skilti og upplýsingar eru til fyrirmyndar…



Komin niður í dalinn að Þakgili… og hér var farið að rigna… ótrúlega breytilegt veðrið í þessari göngu en sólin réð ríkjum að mestu og við fengum gott skyggni allan tímann… sem var mikil gæfa…




Alls 16,5 km á 6:42 klst. upp í 745 m hæð með alls 828 m hækkun úr 154 m upphafshæð… en eins og alltaf eru tölurnar misjafnar eftir tækjum í takt við nútímann þar sem sannleikurinn virðist vera valkvæður og fari eftir vali hvers og eins… nei, ég segi svona 😊


Fjallasýnin keyrandi heim á leið frá Vík… fjöllin við Mýrdalsjökul eru mjög spennandi og krefjast ekki jeppafæris… við höldum áfram að safna nýjum slóðum og upplifa framandi fjöll eins lengi og heilsan leyfir…
Hrikalega flott og stórbrotin ganga sem er ekki annað hægt en mæla með. Frábær félagsskapur og dásamlegt veður og tært skyggni…
Gps-slóðin hér: https://www.wikiloc.com/hiking-trails/thakgil-ad-huldujokli-og-kotlujokli-um-rjupnagilsbryr-080625-218509865
Myndbandið hér: Þakgil að Huldujökli og Kötlujökli 080625
Commenti