top of page

Þrasaborgir upp þýfða Lyngdalsheiðina á flatan gígbarm.

Æfing nr. 724 þriðjudaginn 4. október 2022.


Þrasaborgir voru fyrst á dagskrá klúbbsins haustið 2020 í miðjum covid-faraldri þegar enginn mátti hittast og lagt var upp með að menn færu á eigin vegum þegar færi gæfist... en þetta ár söfnuðum við öllum fjöllum Þingvalla og komumst að því að við yrðum að telja þessa flötu dyngju með þar sem hún gefur heilmikinn svip á Þingvallasvæðið og er hluti af fjallarammanum kringum Þingvallavatnið...


Þetta var því önnur gangan á þessa flötu heiði en sú fyrsta í hópi... sæmilegt veður... skárra en við áttum von á miðað við veðurspána sem þó rættist samt í raun... en nýja riddarapeysan hennar Jóhönnu Fríðu var eitt það fegursta sem fyrir augu okkar bar þetta kvöld... magnaðir litir frá Þingborg úr plötulopa... léttari en léttlopinn og andar betur... líklega erum við mörg að fara að bæta þessum lopa við safn riddarapeysanna... en peysan er úr smiðju Katrínar Kjartans prjónameistara Toppfara sem prjónað hefur fleiri en eina peysu handa klúbbmeðlimum að ónefndum öllu vettlingunum sem hún hefur prjónað handa félögum sínum ofl...


Svona var landslagið á leið upp Þrasaborgir... flatt og þýft... en mjög fallegt í einfaldleika sínum... og fjöll Þingvalla birtust smám saman þegar ofar dró...


Já... ekki annað hægt en viðurkenna að líklega var þetta mest óspennandi leið sem við höfum boðið hópnum okkar upp á... varla að það væri hækkun í þessu... en látum ekki svona... Þrasaborgir eru fallegar þó flatar séu... og landslagið og útsýnið dásamlegt...


Gömul hjólför í fjallinu... áður en maður veit af er maður farinn að ganga í þeim frekar en að skoppa milli þúfna... við sem ætluðum ekki að elta þessa gömlu slóð... en vorum komin á hana á miðri uppleið... sjá Reyðarbarmana í baksýn... mikil fegurð í þokunni og heiðinni... eitthvað gamalt rumskar í hjartanu... smalanum innra með okkur öllum...


Hundar Toppfara gefa okkur mikla gleði... tíkinn Hetja í sinni annarri göngu með hópnum og þurfti núna ekkert að leggjast á afturfæturna og neita að halda áfram eins og í Hrútagjá fyrir viku síðan... sú var glöð svo eftir var tekið... takk elsku hundar Toppfara fyrir alla ykkar gleði öllum stundum... öndum henni inn... smitumst af henni... verum þakklát fyrir hana...


Farið að glitta í tindinn... hann leynir á sér... klettóttur viðfeðmur gígbarmur í 434 m hæð...


Tindurinn... hér blés vel og við leituðum skjóls neðan við hann og fengum okkur nesti... sjá fjöllin á Suðurlandi í fjarska... héðan sést til jökla, sjávar, Vestmannaeyja... yfir Suðurlandið... til norðurs og austurs yfir Þingvelli... flottur útsýnisstaður !


Útsýnið til Þingvallavatns og fjalla...


Við settumst niður í nesti í dagsbirtu... það tók að skyggja og þegar við lögðum af stað var rökkrið það mikið að flestir náðu í höfuðljósin fyrir heimferð...


Myrkrið verður ekki lengur umflúið... það er komið til að vera fram í febrúar... alltaf smávegis áfall að fá það eftir dásamlegu sumarbirtuna... en svo í vetur þegar fer að birta þá er maður löngu hættur að kippa sér við myrkrið... og þakkar fyrir alla glætu sem gefst... þó hún sé bara í blábyrjun þriðjudagsgangnanna...


Lagt af stað niður af tindinum... samsung síminn ýkir birtuna sem þarna var...


Alls mættir 15 manns sem var vel gert miðað við veður og veðurspá... líklega um 10 manns færri en ef við hefðum verið í góðu veðri eða nær borginni... við veltum fyrir okkur hvort við ættum að fresta svona ferð sem er í klukkutíma akstri frá borginni... neibb... höldum bara áætlun og látum okkur hafa það... enda rættist úr veðri þegar á hólminn var komið...


Örn, Ingólfur, Siggi, Þórkatla, Linda, María Harðar, Karen Rut, Birgir, Katrín Kj., Sjöfn Kr., Maggi, Guðmundur Jón, Jóhanna Fríða og Ólafur Vignir en Bára tók mynd og Batman og Hetja eru þarna í forgrunni...


Niðurleiðin var rösklega farin í vaxandi myrkri og best að vera í hópnum en ekki dragast aftur úr því þá verður myrkrið alltumlykjandi... fínpússum þetta í næstu göngum og njótum saman gaman...


Sumarhitinn sést á þessari mynd...því þrátt fyrir myrkrið og vindinn þá var hlýtt, úrkomulaust nánast allan tímann og sumarfæri... þrír af fimm grundvallarþáttum aðstæðna...

Alls 8,0 km á 2:17 klst. upp í 434 m hæð með alls 255 m hækkun úr 218 m upphafshæð...


Takk öll fyrir að mæta... það fylgir kraftur með hverjum og einum sem gerir svona göngur að yndisupplifun sama hvernig veðrið lætur... snilld að ná þessu saman !

41 views0 comments

Opmerkingen


bottom of page