top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

5 tinda og 3ja vatna leið í Mosó á Hafrahlíð, Lala, Reykjaborg, Þverfell og Bæjarfell í veðrabrigðum

Æfing nr. 719 þriðjudaginn 30. ágúst 2022.


Slagveður gekk yfir höfuðborgarsvæðið og vesturlandið allan síðasta þriðjudag ágústmánaðar og því afréðu þjálfarar að fara í göngu styttra frá borginni en á tinda Gufudals ofan Hveragerðis... enda átti rigninguni ekki að slota þar fyrr en tíu um kvöldið... en um sexleytið á höfuðborgarsvæðinu...


Við afréðum því að fara á Hafrahlíðina og Reykjaborgina... og helst taka krók yfir á Þverfellið til að lengja gönguna úr því við værum á þessum slóðum að sumri til... en annars eru þetta einar af okkar vetrarslóðum... þar sem við göngum í myrkri eða ljósaskiptum og snjó og illviðrum ef svo ber undir að vetri til...


Við lögðum af stað í logni en grenjandi rigningu... vel búin og ákveðin í að sjá hversu vel jakkar og buxur myndu halda í svona veðri...


Fórum til að byrja með hefðbundna leið á Hafrahlíðina og Lala og svo yfir á Reykjaborgina...


Logn og hlýtt og mikil stemning og allir svo glaðir að hafa drifið sig út í þessu veðri enda alsaklaust í mildinni...


Hópmynd áður en við héldum upp í þokuna á Lala...


Guðmundur Jón, Katrín Kj., Bjarni, Sigrún Bjarna, Inga Guðrún, Elísa, Siggi, Kolbeinn, Örn, Sjöfn Kr., og Þórkatla með Batman að verða betri í hópmyndunum og Bára tók mynd... alls 12 manns... ef við hefðum haldið áætlum og stefnt á Gufudal hefðu eflaust enn færri mætt... sem hefði verið mikil sóun á þeirri leið... sem á skilið gott veður og skyggni...


Allir tindar Mosfellsbæjar merktir með stöpli þar sem nafn og hæð er á skilti... þessu var komið í verk eftir íbúakosningu og af myndarskap bæjarstjórnarmanna Mosfellsbæjar...

... Mosfellingar hampa svo sannarlega náttúrunni sinni í hvívetna... eru stoltir af henni... og njóta þess í botn að vera byggð í útjaðri höfuðborgarinnar... gæfan er þeirra...


Þokan lá yfir Hafrahlíðinni og Lala og leiðinni inn eftir á Reykjaborgina...


... en þegar við vorum að klára hliðarstíginn... stytti upp...


... og létti til... hratt og skyndilega...


Þannig að uppi á Reykjaborg sáum við í bláan himinn og sólin tók fljótlega að skína... magnað sjónarspil sem engan veginn er hægt að fanga á mynd... verður að vera á staðnum og upplifa... eins og svo oft...


Farið að glitta í tinda Bláfjalla í suðri... og svo Esjunnar í norðri... og Hengilsins í austri...


Á Reykajborginni var ætlunin að meta hvort við tækjum tæplega 5 km göngu á 2 klukkustundum eða 7,5 km göngu á tæpum 3 klukkustundum með Þverfelli og Bæjarfelli...


Þetta var engin spurning... sólin mætt og skyggnið opnaðist hratt... við héldum áfram för inn á heiðina að Þverfelli... með Borgarvatnið á hægri hönd...


Esjan og Móskarðahnúkar að birtast... fjær eru Grímmannsfellið...


Reykjaborg hér í baksýn...


Þverfellið hér framundan efst... og Flatafell í Grímmannsfelli vinstra megin...


Móskarðahnúkar að birtast...


Einstök birta og sérstök uppljómun sem varð á öllu landslaginu í kring...


Sólin mætt til að vera það sem eftir lifði kvölds að mestu... allt blautt en hlýtt og algert logn... þetta ár er búið að vera mjög lygnt sama hvað segja má um annað í veðrinu...


Borgarvatn hér í baksýn... Hafrahlíð, Lali og Reykjaborg...


Esjan og Móskarðahnúkar og svo Skálafell í Mosó hægra megin fjær...


Þverfellið hér framundan...


Komin á Þverfellið með Bjarnarvatn hér til austurs og Torfdalshrygg handan þess og svo Flatafell í Grímmannsfelli vinstra megin... ótrúleg fegurð og birta hér...


Veit ekki alveg afhverju við settumst ekki bara niður hér og fengum okkur nesti... líklega af því enginn var með slíkt því það var grenjandi rigning og rok þegar við keyrðum á æfingu... og allir gíruðu sig inn á hressilega rigningargöngu... en við stöldruðum lengi við hér og nutum fegurðarinnar...


Katrín og Guðmundur í nýju fallegu riddarapeysunum sínum sem kallast sannarlega á við landslagið...


Peysa Katrínar var í sömu litum og Móskarðahnúkum... grádröppuð með appelsínugulum og fjólubláum litum... plötulopi úr lambsull sem var keypt beint frá býli... sérvaldir litir...


Við dáðumst að peysunni... léttari en léttlopinn... og því hentugri að sumri...


Frá Þverfelli héldum við yfir á Bæjarfellið...


Leið sem við höfum ekki farið síðan árið 2009... löngu kominn tími til að fara þessa leið aftur...


Borgarvatnið hér á leið yfir á Bæjarfellið... Reykjaborg hér hægra megin og Hafrahlíð og Lali vinstra megin með Úlfarsfellið fjær...


Dásamlegur friður og fegurð þetta kvöld...


Reykjaborgin hér ofan af Bæjarfellinu...


Hafrahlíð og Lali og Reykjaborg ofan af Bæjarfelli með Borgarvatnið þarna á milli...


Litið til baka á þverfellið, Torfdalshrygg og Grímmannsfellið...


Reykjaborg og Borgarvatn...


Yndisganga með meiru...


Hafravatn og Borgarvatn... við nutum svo sannarlega dýrðarinnar...


Berjamó niður brekkur Bæjarfells...


Við gáfum okkar góðan tíma til að tína gómsæt og vel þroskuð berin...


Kolbeinn fann þúsundkall... merkilegt hvað rekur á fjörur okkar í þessum göngum !


Leiðin til baka af Bæjarfelli um lendurnar niður að Hafravatni voru óskaplega fallegar...


... gegnum grænar lendur og skóga...


Sólin settist þegar við lentum við bílana... nú sest hún rúmlega átta að kveldi og rökkrið tekur brátt við á þriðjudagskvöldum... við nýttum kvöldið mjög vel...


Alls 7,4 km á 2:41 klst. upp í 314 m hæst með alls 373 m hækkun úr 80 m upphafshæð...


Takk öll fyrir yndiskvöld með miklum veðrabrigðum... enn eitt dæmið um hversu mikið maður uppsker ef maður bara skellir sér út og lætur veðrið ekki stöðva sig... það rætist svo sannarlega oft úr veðri... meira en maður á von á... og... þessi leið verður sko endurtekin fljótt aftur... förum aftur hér að sumri en ekki alltaf bara að vetri í myrkri !


Það þarf ekki alltaf að keyra langan veg til að ná í dýrðarinnar náttúru... höfuðborgarsvæðið býður upp á mörg fjöll og margar fallegar leiði í túngarðinum sínum...

239 views0 comments

Recent Posts

See All

Kommentare


bottom of page