top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Arnarfell á Þingvöllum í vorblíðu

Þriðjudaginn 29. mars 2022. Æfing nr. 697.


Þegar ekið er til Þingvalla blasir ægistórt og fagurt Þingvallavatnið við þegar komið er niður af Mosfellsheiðarkaflanum... og handan vatnsins rís lágt fell sem lætur ekki mikið yfir sér... en lumar á mikilli fegurð sem uppgötvast öllum þeim sem þetta fell heimsækja... við stefndum þangað þetta kvöld...


Blíðskaparveður... sól og logn til að byrja með... en svo lagðist skýjabreiðan sem lá yfir borginni þennan þriðjudag... yfir Þingvelli líka... en þá vorum við búin að hlaða okkur af sólarorkunni blíðu fyrri hluta göngunnar... og nutum sólsetursins í áframhaldandi kyrrðinni...


Grænn mosi... gulir sólargeislar... friðsælt logn... hlýtt hitastig... spegilslétt vatnið... fannhvít fjöll... það var ekki hægt að biðja um meira...


Sólin réði ríkjum og við vorum ölvuð af birtunni... hlýja vorloftinu... og friðnum...


Arnarfellið er ílangt fell með heilmikið landslag eftir sér endilöngu... sem við fáum aldrei leiða á að rekja okkur eftir... þegar þjálfarar fóru hér fyrst könnunarleiðangur árið 2009 áttu þeir ekki til orð yfir þetta fallega fjall sem ekkert var talað um þegar rætt var um fjöllin á þingvöllum... enda mun stærri fjöll allt í kring sem stela senunni...


Litið til baka með Kálfstindana og Reyðarbarmana í baksýn... Lyngdalsheiðin hægra megin... ótrúlega mikið útsýni af þessu lága felli...


Já... fallegt er það Arnarfellið við Þingvallavatn... sjá friðinn úti á spegilsléttu vatninu... engar gárur... bara spegill... og ómur af harmleiknum sem þar varð fyrr í vetur... mann setti hljóðan...


Utan í Arnarfellinu vestan megin lúrir lítið fallegt vatn sem heitir Einbúatjörn... óskaplega fallegt nafn... og var reyndar ísilagt þetta kvöld... en sögur eru til af Toppförum að baða sig í því á góðum sumardegi...


Það var áþreifanlegt vor í lofti... við nutum þess til hins ítrasta að ganga eftir öllu fellinu... en þetta kvöld átti eftir að ylja okkur fram í apríl þar sem frostið tók aftur við næstu vikurnar...


Svona kvöld gefa manni besta félagsskap í heimi... ekki síður ástæðan fyrir því að maður leggur alltaf af stað... og lætur hvorki sófann né annríki afvegaleiða sig...


Hæsti tindur fellsins... í 255 m hæð...


Botnssúlurnar með Búrfellið vinstra megin og Ármannsfellið hægra megin... fjöll sem eru hvert öðru þekktara og blasa við á Þingvöllum svo enginn tekur eftir þessu litla Arnarfelli... sjá ísinn á Einbúatjörn þarna niðri...


Tilvalinn hópmyndastaður... mættir 22 manns...


Sigurbjörg, Katrín Kj., Guðmundur Jón, Þorleifur, Lilja Sesselja, Þórkatla, Oddný T., Ólafur Vignir, Hlökk, Fanney, Gerður Jens., Sigrún Bjarna, Kristín Leifs., Tómas, Bjarni, Gylfi, Oddný T., Siggi, Örn, Jaana og Sjöfn Kr. en Bára tók mynd, og Batman og tíkin Kolka hennar Oddnýjar voru með...


Arnarfellið skiptir litum... formum og áferðum eftir sér endilöngu... og við gengum til suðurendans eins og í fyrri ferðum... en bakaleiðin hefur ýmist verið austan megin sem er styttri og síðri leið eða vestan megin sem er lengri og mun fallegri ganga...


Fjallið að verða snjólaust... það er ansi vel þegið eftir snjóþungan veturinn...


Klettaborgirnar við suðurtaglið... svo fallegur staður...


Hér sungum við afmælissönginn fyrir Jöönu sem ákvað að fagna með félögum sínum þetta kvöld eins og ótrúlega margir gera á sínum afmælisdegi... alvöru ástríðufólk !

... en Jaana eins og svo margir aðrir í þessum klúbbi hefur gefið okkur mikið frá því hún kom í hópinn með einstökum ljósmyndatökum... einlægri vináttunni... og einskærri fjallaástríðunni sinni... við teljum okkur ljónheppin að hafa hana innan okkar raða...


Frá suðurtagli fjallsins lögðum við leið okkar niður að Þingvallavatni... en með því að taka stóran hring á leið til baka meðfram vatninu lengir maður göngu á þetta fell um tvo kílómetra eða svo...


Það var sannarlega veðrið til þess arna... fara lengri leiðina... þó sumir væru varla í standi eftir covid eða önnur veikindi sem einkenna þessa daga... en við sáum ekki eftir þessari lengri leið þar sem hún gaf okkur mikið...


Mögnuð fegurð þetta kvöld !


Miðfell og Dagmálafell í fjarska vinstra megin... stærri fell en Arnarfellið en ekki alveg eins falleg...


Sólin hneig til hliðar í fangi okkar þegar komið var að vatninu... og við vorum eins og alein í óbyggðunum eða á Hornströndum...


Gangandi fram á leifar af fyrri tíðum...


Austurfjörur Þingvallavatns liggja undir klettunum af Arnarfelli á þessum kafla og leiðin hér meðfram er ótrúlega falleg...


Vorleysingar og skaflar á brúnunum en við fórum varlega...


Spegilslétt... hvílík friðsæld...


Jaana afmælisbarn tók kyngimagnaðar myndir þetta kvöld eins og svo oft áður...


Til baka að fellinu komum við að Einbúatjörn... hér er einstakt að vera að sumri til... hulinsheimur þar sem ekki sést til neins nema ofan af fellinu sjálfu... ekkert skrítið að menn hafi hent sér til sunds hér á góðum degi...


Sjá ísinn á vatninu... vorið er rétt að byrja... en það vinnur hratt þessa dagana...


Mikið spjallað og hlegið... besta orka í heimi !


Esjan og Skálafellið... þarna voru kviknuð ljós í skíðabrekkunum... sást með berum augum en náðist ekki á mynd strax... ljósin voru mjög falleg þegar rökkvaði meira á heimleið keyrandi...


Við röktum okkur eftir leiðinni sem þjálfarar fundu upp á hér fyrstu ár Toppfara... þá var enginn stígur um þessa leið... en nú er vel mótaður stígur kominn á þessari hringleið... margt breyst frá því við byrjuðum að ganga árið 2007...


Þórkatla að mynda friðinn og vorið eins og fleiri...


Norðan megin þveruðum við ásinn til að komast aftur að bílunum... þessi vesturleið er ágætlega krefjandi og gefur mikið...


Enn ein útgáfan af landslagi... þessi hringleið er sannarlega fjölbreytt... Hrafnabjörg hér í fjarska...


Ármannsfellið að speglast í vaxandi húminu... áþreifanlegir töfrar sem fangast ekki á mynd en umlykja mann á staðnum svo maður kemur ferskur og endurnærður heim eftir svona göngu...


Komin handan við norðuröxlina og þaðan var sléttlent alla leið í bílana...


Alls 7,4 km á 2:33 klst. upp í 255 m hæð með alls 293 m hækkun úr 146 m upphafshæð.


Fullkomið kvöld... brosið fór ekki af andlitum okkar... mikið óskaplega var þetta vel þegið !



402 views0 comments

Commentaires


bottom of page