Botnaskyrtunna og Örlygsstaðahnúkar frá Álftafirði
- Bára Agnes Ketilsdóttir
- Apr 11
- 4 min read
Tindferð nr. 328 laugardaginn 22. mars 2025

Loksins var komið að Botnaskyrtunnu í annað sinn... og nú frá Álftafirði þar sem við ákváðum að ganga á Örlygsstaðahnúka í leiðinni... sem fyrr nýttum við kortin frá Reyni Ingibjartssyni sem hafa alltaf komið sér vel í göngum okkar á Snæfellsnesinu...
Við gengum í rjómablíðu til að byrja með en því miður lék þoka um hæstu tindana og var sýnu dimmara yfir sunnan megin þegar við keyrðum vestur... en sólin tók við norðan megin og fylgdi okkur lungað úr uppgöngunni. Færið með besta móti og engin þörf á jöklabroddum fyrr en í hlíðunum neðan við Botnaskyrtunnuna en þá reyndi vel á að menn festu þá rétt á sig og að þeir færðust ekki til. Helgi lenti í því óláni að annar broddanna losnaði og fór alveg í sundur og það var erfitt að fóta sig á einum broddum en allt bjargaðist þetta með lagni og yfirvegun...
Góð áminning um hversu mikilvægt það er að nota broddana nokkrum sinnum á hverjum vetri svo það verði manni tamt að setja þá á sig og ganga á þeim en það var í raun hægara sagt en gert á þessum ljúfa vetri enda höfum við ekki enn komist mikið í ”alvöru” tindferðir þar sem jöklabrodda er þörf. Hver ferð er reynsla og þessi var dýrmæt.
Neðan við Botnaskyrtunnu tók þokan yfir og Örn gekk eingöngu eftir gps. Þegar komið var í skarðið þar sem Linda og Sigga Lár runnu niður árið 2021 ákvað Örn að fara sömu leið upp og þá var farin niður til að ljúka þessari lífsreynslu þar sem vel reyndi á alla og var það heilandi fyrir þá sem voru í örlagaríku ferðinni 2021. Uppi slæddist þokan um og tók fyrir útsýnið sem þó glitti aðeins í en aldrei svo að vel væri hægt að njóta því miður. Við ætlum ekki aftur upp á þetta fjall þar sem af svo mörgum öðrum er að taka og við erum að safna öllum fjöllunum á Snæfellsnesinu… en við ætlum á Ljósufjöll og Kattareyra á næsta ári og helst eingöngu í góðu skyggni (sem er langt í frá sjálfgefið á Ljósufjöllum) og þá munum við bæta upp fyrir að sjá ekki þennan dag í mars 2025…
Niður var svo farið meira aflíðandi leiðina sem rætt var um að hefði verið betri þarna um árið 2021 og var hún ekki eins brött og hentaði vel til niðurgöngu, enda er mun erfiðara að fara niður mjög brattar brekkur á jöklabroddunum en upp þær og ræddum við þetta saman í göngunni. Þegar Örn gekk á Botnaskyrtunnu árið 2021 var heldur ekkert skyggni og hann gekk eftir gps leið sem hann hafði aldrei farið áður og þessi brekka virkar ósköp saklaus og við furðuðum okkur á þessu, en þegar ofar er komið í brekkuna og maður er að fara niður í mót í jöklabroddunum í miklu harðfenni, þá er auðvelt að missa stjórn og renna af stað. Þetta var því mjög góð heimsókn og lokun á þessari leið og þessu fjalli.
Í bakaleiðinni borðuðum við nesti við staðinn þar sem Linda og Sigga stoppuðu og hópurinn beið eftir björgunarsveitunum og svo rúlluðum við til baka svipaða leið en þó ekki alveg heldur héldum við okkur niður í gilinu og komum þá fram á foss sem þurfti að sniðganga og eftir á að hyggja er hryggurinn betri en þetta ræðst alltaf af snjóalögum og færi og landslagið lítur auðvitað allt öðruvísi út að sumri en vetri.
Þokan jókst á niðurleið og það þyngdi smám saman yfir og komu smávegis snjóél og meira að segja vindhviður og þegar við litum til baka síðasta kaflann var allur fjallgarðurinn kominn í þoku. Þá byrjaði að rigna fljótlega eftir að við komum í bílana, í enn eitt skiptið í sögu þessa klúbbs… þessir veðurgluggar á Íslandi endast sjaldnast út daginn takk fyrir… og í akstri á heimleið lamdi slagveðrið á okkur… ótrúleg viðskipti eftir fallegt veður stóran hluta dagsins...
Við þökkum Gunnari Helga Guðmundssyni, bónda að Kársstöðum kærlega fyrir liðlegheit og leyfi til að leggja bílum við eyðibýli Örlygsstaða og fyrir að hringja í okkur eftir gönguna og grennslast fyrir um hvernig gekk. Það var notalegt símtal og þjálfari sá eftir því að hafa ekki spurt hann um Kattareyra og hvort þessi glæsilegi tindur sem gnæfði yfir okkur allan daginn væri ekki örugglega hluti af eyranu (ólögulegt eins og kattareyra séð ofan frá) en það bíður betri tíma því við fengum leyfi til að hafa samband við hann á næsta ári þegar ætlunin er að ganga á Ljósufjöll og Kattareyra…
Mögnuð ganga upp á 15,0 km á 7:29 klst. Upp í 1.017 m hæð á Botnaskyrtunnu og 260 m á Örlygsstaðahnúkum með alls 1.077 m hækkun úr 5 m upphafshæð.
Ljósmyndir úr ferðinni hér fyrir neðan og nafnalisti undir hópmyndinni:

Nýfallinn snjór yfir öllu á útleið...
















Hestur vinstra megin og Botnaskyrtunna hægra megin...



















Að lenda á Örlygsstaðahnúkum...

Eyrarfjall og Kársstaðir...



















































Mættir voru alls 15 manns sem var frábær mæting:
Davíð, Jón Odds., Þorleifur, Sighvatur, Örn, Guðjón, Gulla, Aníta, Jaana, Berta, Áslaug, Birgir, Sjöfn Kr. og Helgi en Bára tók mynd og Baltasar og Batman léku sér að þessari krefjandi ferð.





























Gps-punkturinn "Sigga og Linda"... brekkan þar sem þær runnu niður ofan hópsins...

Örn tók ekki annað í mál en fara upp þessa sömu brekku... til að loka þessari lífsreynslu...








Þokan kom og fór á efsta tindi og það var kalt í gjólunni og þokunni í rúmlega 1.000 m hæð...

Botnaskyrtunnan mældist 1.017 m há...




















































Magnað að hafa náð þessu... eina sem vantaði var skyggni af tindinum... annars frábær og krefjandi dagur með dásamlegu fólki... takk kærlega fyrir okkur elskurnar og Gunnar bóndi að Kársstöðum !
Myndband af ferðinni hér: Botnaskyrtunna og Örlygsstaðahnúkar úr Álftafirði 220325
Gps-slóðin hér: https://www.wikiloc.com/hiking-trails/botnaskyrtunna-og-orlygsstadahnukar-ur-alftafirdi-220325-206132249
Ferðasagan frá árinu 2021: Tindferð 217 Botnaskyrtunna og L
Comments