top of page

Djúpavatnskambur og Traðarfjöll í fallegum ljósaskiptum.

Æfing nr. 725 þriðjudaginn 11. október 2022.


Grenjandi rigning allan þriðjudaginn og landsleikur kvenna í knattspyrnu um sæti á HM 2023 varð þess líklega valdandi að eingöngu átta manns mættu til léttrar en gullfallegrar göngu á Reykjanesinu... en við sem mættum kyngdum og vissum að veðurspáin lofaði betra veðri upp úr fimm leytinu og að við myndum bara horfa á leikinn seinna... ekki það að þetta magnaða landslið átti svo sannarlega skilið að allir sætu heima að horfa...


Við byrjuðum á nafnlausum gíg sem við héldum fyrst að væri Djúpavatnskamburinn okkar... þar til við komum upp á hann og sáum að þetta var bara gígur á leiðinni að kambinum... mig minnir að við höfum ruglast svona líka síðast... en þetta kom auðvitað ekkert að sök og við skoðuðum þennan gíg bara í leiðinni...


Nýr meðlimur mættur þetta kvöld... Johan hér rauðklæddur... smellpassar í hópinn og einn af mörgum nýliðum sem við erum svo heppin að fá í okkar hóp...


Gígurinn a tarna fallegur umhorfs og yfirferðar...


Smávegis rigning í byrjun göngunnar... en svo var varla að við tækjum eftir úrkomu... man ekki hvort það rigndi meira þetta kvöld... það var vindur uppi á fellunum en skjól niðri á láglendinu... og mikill friður ríkti á svæðinu...


Hinir tveir nafnlausu gígarnir hér lágir framundan í hrauninu... og hærri kamburinn vinstra megin er svo Traðarfjöllin þar sem við enduðum... og hægra megin sést aðeins í Djúpavatnskamb eða Djúpavatnsbrúnir eins og við kölluðum þær víst síðast þegar við gengum á þennan kamb austan við Djúpavatnið... hærri fjallsbrúnirnar efst hægra megin eru svo Djúpavatnseggjarnar... allt okkar nafngiftir nema Traðarfjöllin sem eru merkt svo á korti...


Gígur tvö af þrjú þetta kvöld... sá eini sem við gengum ekki um... fyrir utan Djúpavatnskambinn og Traðarfjöllin... ótal nafnlausir gígar eru um allt Reykjanesið...


Fyrsti nafnlausi gígurinn sem við gengum upp á... bílarnir aftan við hann... og Sveifluhálsinn og Móhálsatindarnir þarna fjær...


Djúpavatnskambur mlældist 275 m hár... sjá veiðikofa Hafnfirðinga hægra megin... sunnan við Djúpavatn...


Litur í vartninu að norðan... leysingavatn úr lækjunum úr fjöllunum þarna megin líklega...


Mjög falleg leið sem hefði verið gullin í kvöldsólinni...


Komin yfir kambinn og framundan er þriðji nafnlausi gígur kvöldsins... með Vigdísarvallaveg í gegnum sig miðjan eiginlega... og Traðarfjöllin vinstra megin... sjá héðan hvernig þau eru tveggja bunga... en við náðum að ganga á báðar bungurnar...


Skemmtilegur kaflinn yfir á Traðarfjöllin... en hann gjaldféll svolítið við að hafa veginn svona ofan í kindaslóðinni...


Einhver orka er í hrauninu á Reykjanesi... og kringum önnur eldfjallasvæði á landinu... hvílík forréttindi að hafa svona göngusvæði í túngarðinum sínum... og geta farið út... og verið ein í heiminum... á saklausu þriðjudagskveldi... langt í frá sjálfgefið... förum sem oftast... hlöðum okkur orku og fegurð og heilun... ómetanlegt ef maður gefum því gaum á annað borð...


Þjálfarar tóku fána og trefla með í tilefni leiksins... áfram Ísland... þið eruð geggjað landslið stelpur og mjög dýrmætar fyrirmyndir fyrir ungar íþróttastelpur !


Hundurinn Batman, Sjöfn Kr., Guðmundur Jón, Katrín Kj., Örn, Johan, Halldóra Þ. og Bára tók mynd en Dina var snúin við vegna veikinda litlu fyrr því miður.


Traðarfjöllin framundan... létt ganga þetta kvöld og synd að fleiri skyldu ekki koma og njóta hennar...


Litið til baka af Traðarfjöllum til Djúpavatnseggja, Djúpavatns og Djúpavatnskambs... Grænadyngja svo fjærst í skýjunum og Fíflavallafjall hægra megin... sogin... frímerkjaútgáfan af Landmannalaugasvæðinu lúrir handan við eggjarnar... við ætlum þriggja vatna leiðina á þriðjudegi á næsta ári og ganga um Sogin fögru í leiðinni...


Komin upp á Traðarfjöllin... efsti tindur hér og mældist 278 m hár...


Við ákváður að fara yfir á lægri tindinn líka úr því veðrið væri svona gott... þó það væri að skella á myrkur...


Lægri tindurinn hér... vorum enga stund yfir...


Stutt í myrkur á neðri tindinum... þeim syðri... en birtan mjög falleg... sólarglæta í suðvestri... þungbúnara í suðaustri...


Töfrarnir að vetri til í myrkrinu hafa sinn sjarma... við myndum aldrei vilja missa af þessum göngum... þær eru magnaðar... og gefa ekkert minna en sumarkvöldin björtu... einmitt vegna þess að öll útivera er minni á veturna... og því drekkur sálin í sig þessa fegurð á hverju þriðjudagskveldi...


Bakaleiðin var farin austan við Traðarfjöllin yfir hraun og mosa... þar sem við reyndum að sniðganga veginn... og fórum ekki á hann fyrr en stuttu fyrir bílana... dásamlegt !


Alls 6,0 km á 2:03 klst. upp í 275 m og 278 m hæð með alls 281 m hækkun úr 202 m upphafshæð...


Yndiskvöld með meiru sem gaf ótrúlega mikið... áþreifanleg fegurð... breytileg birta... friðsæld og notalegheit gáfu okkur mikið þetta kvöld :-)


Áfram Ísland... sem tapaði 4:1 fyrir Portúgal... við tökum þetta bara næst... mjög flottar ungar fótboltakonur eru að rísa upp og bætast við þetta frábæra lið... framtíðin er björt í íslenskum boltaíþróttum kvenna sem karla...

20 views0 comments
bottom of page