top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Dragafell og fjörur Skorradalsvatns á dýrindis kveldi með sólina í fanginu.

Updated: Apr 27, 2022

Þriðjudagsæfing 12. apríl 2022 nr. 699.

Í þriðja sinn á einu og hálfu ári leggjum við bílunum hér á Draganum... sem heitir víst ekki Dragháls heldur Geldingadragi... þar sem hinn eiginlegi Dragháls er neðar skv. kortum og athugasemd heimamannsins Hjördísar sem mætti í göngu þetta kvöld... gott að vita og best að fylgja nafnahefð heimamanna... en að þessu sinni lögðum við í hann í austurátt... á Dragafell sem við vorum ekki ennþá búin að fá í fjallasafn Toppfara og löngu kominn tími til... en fyrri ferðir hér voru á Brennifell og félaga í fyrra haust og svo á Hádegishyrnu og Mórauðahnúk í janúar í lærdómsríkri kaldri ferð eins og áður á þessum Skarðsheiðarslóðum...


Brekkurnar upp á Dragafellið eru nokkuða aflíðandi og greiðfærar í heiðarlandslagi og skaflarnir þrjóskuðust við á leiðinni enda svalt í veðri þessa dagana...


Flott mæting enda yndisganga á dagskránni og góð veðurspá... en við fengum eiginlega meira út úr kvöldina en áætlað var... það var einfaldlega fullkomið í alla staði... útsýnið... veðrið... hitastigið... fegurðin...


Snjóskaflarnir ágætlega mjúkir alla leið upp en svellað færi á stöku köflum...


Sjá hér fjallsbrúnirnar ofan við Geitabergsvatn... en þær eru á dagskrá síðla sumars... þegar allt verður grænt og þrútið af sumarorkunni... það verður falleg ganga og ný fjöll og leið í safnið...


Dragafellið er eiginlega heiði... nema þegar horft er á það frá Skorradalsvatni sem við gerðum síðar um kvöldið... en leiðin var greið...


Þegar ofar dró opnaðist svakalegt útsýni til allra átta og við vorum hlessa af undrun... það sást til fjögurra jökla... út með Snæfellsnesi... um baklandið allt á esjunni... ttil Þingvallafjallanna... stórbrotið útsýni af ekki hærra fjalli...


Skarðsheiðin hér í vestri...



Strútur, Eiríksjökull, Okið, Geitlandsjökull, Fanntófell, Þórisjökull, Litla og Stóra Björnsfell, Kvígindisfell nær og Hlöðufell fjær... magnað !


Hvalfellið og Botnssúlurnar...


Hvalfellið og Botnssúlurnar nær... svo tignarleg fjöll... við fáum ekki nóg af þessum fjallgarði og eigum ansi margar ferðir þarna upp á alla vegu á alla tinda oftar en einu sinni... Botnssúlurnar (fjallgongur.is)


Snæfellsnesið allt... við sáum allar þrjár Tröllakirkjurnar... í Kolbeinsstaðafjalli, Hítardal og á Holtavörðuheiði... Baula var þarna og Hrútaborg og öll hin... Vatnaleiðin... samantekt á öllum göngum Toppfara á Snæfellsnesi er í vinnslu... þau eru sannkölluð veisla fjöllin þau...


BVið reyndum að ná þessari fjallasýn á hópmynd... alls mættir 23 manns... óskandi að fleiri hefðu notið þessarar dýrðar en þetta er þungt vor... vonandi munu hlýjindin næstu daga gefa fleirum orku til að koma sér af stað og njóta vorsins á fjöllum... það er áþreifanlegra en milli húsa í borginni...


Efri: Guðmundur Jón, Vignir, Súsanna, Anna Berglind, Gulla, Þorleifur, Hjördís, Jón St., Sigurbjörg, Hlökk, Kristín Leifs., Bjarni, Kolbeinn og Örn. Neðri: Katrín Kj., Þórkatla, Ágústa Þ., Gerður Jens., Sjöfn Kr., Ólafur Vignir, Haukur og Valla.


Batman og nýr hundur, hún Skotta hennar Ágústu léku sér um allt með okkur og Bára tók mynd.


Riddarapeysurnar voru svo margar þetta kvöld að það var kominn tími á eina slíka !


Örn, Kolbeinn, Valla, Ólafur Vignir, Haukur, Þórkatla, Sjöfn Kr., Katrín Kj., Guðmundur Jón, Jón St., Gerður Jens., Bjarni og Bára með hálendi Kaldadals í baksýn og Skorradalsvatnið nær...


Ofan af tindi Dragafells tóku þjálfarar stefnuna niður að Skorradalsvatni um Fálkagil...


Nokkrir magnaðir útsýnisstaðir voru á leiðinni þar sem við nutum dýrðarinnar og það með sólina á okkur á köflum... þetta var ótrúlega fallegt...


Ísinn ennþá á vatninu... en hann hverfur án efa í slagviðrinu sem mætir fyrstu þrjá páskadagana eða fleiri...


Skorradalsvatnið til vesturs... mjög langt en fagurt... nokkrir Toppfarar hafa hjólað í kringum það... það er spennandi verkefni...


Beint niður... við vorum hikandi að taka stefnuna niður með Fálkagili þar sem snjóskaflarnir voru meiri og harðari en við áttum von á...


Og ákváðum að fara aðeins lengra austan með brekkunum...


Annar útsýnisstaður neðar... töfrandi fallegt... orkan hér er einstök og áþreifanleg... við önduðum henni að okkur og komum sterkari og glaðari heim... ómetanlegt...


Örninn valdi góða leið austan við þennan skafl niður að vatninu...


Skaflarnir það mjúkir að við þurftum ekki að fara í keðjubroddana en það var ekki langt í þá samt...


Mýktin hins vegar jókst stórum með hverjum lækkandi hæðarmetranum og niður gengum við í hlýrra veður...


Mjög falleg leið niður...


Komin á mosaeyjuna sem við kölluðum svo... skaflinn til baka hér...


Mergjuð leið á blússandi færi...


Sólin að setjast og gera til reiðubúna til að skína á okkur í bakaleiðinni og gæða síðasta kaflann geislum og töfrum...


Litið til baka upp skaflinn... langur en ansi skemmtilegur...


Sjá hér beint niður að mosaeyjunni...


Hérna tókum við nesti og slökuðum aðeins á eftir fjallið...

Höfðingjar hópsins... Guðmundur Jón og Þorleifur... spjallið í þessum göngum er ekki síður ómetanlegt en hreyfingin og útiveran og landslagið og fegurðin og hreina loftið og orkan og heilunin og... listinn er ótæmandi...


Nýliðarnir Anna Berglind og Vignir og reynsluboltarnir Þórkatla og Sjöfn Kristins... einmitt svona viljum við hafa hópinn.. blöndu af reynslumiklu fólki sem kann allt og er alltaf til í allt... og nýliða sem eru að upplifa allt í fyrsta sinn, læra og verða góðir í fjallgöngum áður en þau vita af ef þau mæta vel... frábært fólk sem við höfum í þessum klúbbi sem gefa okkur öll mikið með sínu framlagi hvert og eitt... takk elskurnar fyrir að vera til í þessa...


Litið upp eftir nestiseyjunni okkar...


Jón og Valla hafa gengið í gegnum margar krefjandi ferðir með okkur árum saman og eru dýrmætir félagar eins og allri þeir sem ganga með okkur árum saman og láta sig hafa alls kyns veður og verkefni í gegnum súrt og sætt...


Smá skógarganga áður en við komum niður að vatninu...


Litil til baka með brekkuna okkar þarna uppi... hún er nú ansi saklaus að sjá héðan...


Skotta í sinni fyrstu göngu og lét Batman alveg hafa fyrir því að leika og hoppa og skoppa... hann er að verða allt of ráðsettur og nýtur þess án efa að fá svona orkubolta í hópinn sinn...


Fegurðin við Skorradalsvatn var áþreifanleg og ólýsanleg...


Við gengum meðfram vatninu og höfðum sólina í fangið...


Hundarnir nutu dýrðarinnar með okkur...


Hvílík fegurð !


Litið upp brekkurnar á Dragafelli... Fálkagil það stærsta þarna...



Fellið og vatnið... takk fyrir okkur elsku Ísland... ein í heiminum sem eru líka ekta íslensk forréttindi...


Skorradalsvatnið hristir þessar íshellur af sér um páskana... það væri gaman að fá fréttir af vatninu eftir páska... hversu langan tíma tók að bræða þennan ís...


Hjördís var í sveit mörg sumur á bæ handan við Dragafellið og þekkir þessar slóðir mjög vel... hún sótti vaðskó sem hún gleymdi síðast þegar hún var að leika hér við vatnið... hann var þarna ennþá og beið hennar... spurning með brúsana sem tvær í hópnum hafa týnt.. kannski við finnum þá þegar við göngum aftur á Meðalfellið eða Tvíhnúka...


Við tókum svo malarveginn út með vatninu að beygjunni upp Dragann...


Skyndilega sáum við þessa íshellu liggjandi ofan á grjótinu...


Hjördís tók sig til og skreið út á hana án þess að brjóta ísinn... það var vel gert !


Sjá myndbandið hér: (20+) Facebook

Snillingur að ná að gera þetta án þess að brjóta helluna eða renna af og bleyta sig !


Út að leika sér með vinum sínum á þriðjudagskvöldum í fimmtán ár... ekki leiðinlegt !


Við gengum svo með sólina og sólsetrið í fanginu út með vatninu...


Yndislegt alveg hreint... sjá Dragafellið hér á hægri hönd...


Hér tókum við stefnuna beint yfir á Dragann...


Dragafellið í allri sinni dýrð með tunglið komið hátt á loft þó enn væri sól á lofti...


Skásneiðingin að Draganum var létt og skemmtileg eftir kaflann á veginum...


Litið til baka... skógrækt hér og við fórum varlega...


Verður gaman að sjá þetta eftir nokkur ár...


Hádegishyrna og Mórauðihnúkur... með Villingadalinn ísilagðan...


Um Dragann var farið veginn að bílunum... alger kyrrð og ótrúlega hlýtt... vorið beint í æð með allri þessari birtu... og páskafríið framundan...


Alls 8,5 - 9,3 km eftir því hvaða gps-tæki var um að ræða... á 3:00 - 3:02 klst. upp í 490 m hæð með alls 488 m hækkun úr 226 m upphafshæð.


Þriðjudagskveldin gerast ekki betra en þetta... þau eru ansi mörg gullfalleg og gefandi í vetur og vor þrátt fyrir kuldann og úrkomuna og vindinn... ómetanleg orkuhleðsla og næring á sál og líkama...

52 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page