top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Fíflavallafjall og Hrútafell í litskrúði og formfegurð að hætti Reykjaness

Þriðjudagsæfing 31. ágúst 2021


Loksins komumst við á þriðjudagsæfingu á Reykjanesi... tvær eða þrjár sem áttu að vera síðvetrar og í vor færðust yfir á haustið þar sem Almannavarnir lokuðu vegasamgöngum á Vigdísarvallasvæði ofl. vegna jarðhræringanna í Geldingadölum sem hófust í lok mars á árinu... og því verða nokkrar Reykjanesgöngur næstu vikurnar fram á veturinn...


En það er aldeilis í lagi... bara þessi akstursleið hér inn Vigdísarvelli... er veisla... hvað þá ganga um fjöll og fell á þessu landsvæði...


Mjög góð mæting var þetta kvöld þó blautt væri og frekar þungbúið... alls 36 manns...


Ætlunin var að ganga upp á þessar brúnir hér ofan við Djúpavatn en þar sem það var þungbúið og þokukennt ákváðu þjálfarar að ná Fíflavallafjalli og ná Hrútafelli... við förum þennan Djúpavatnskamb á næsta ári með Traðarfjöllunum sem þar nálægt... við eigum þau alltaf eftir...


Við fórum ekki alveg sömu leið á Fíflavallafjall og árið 2015... þar sem við lögðum bílunum nær Hrútafelli og fjær Djúpavatnskambi... sem kom sér vel í lok göngunnar þar sem við enduðum á Hrútafellinu í bakaleiðinni...


Fíflavallafjall er einstaklega fagurt fjall... hulinsheimur sem leynir á sér og breytir sífellt um áferð, lit og form allan tímann sem maður gengur eftir því... en því miður tók þokan af okkur dýrðina að mestu... en þó var þetta ægifagurt þar sem nær var litið...


Riddarapeysurnar koma sterkar inn þetta árið og fjölgar þeim stöðugt... hvílíkir litir í þeim... hér er góð hugmynd að litum... skærmosagræni með brúnum og ljósgráum...


Við nutum þess mikið að ganga um fjall fíflavalla... yndissamveram og mikið spjallað...


Skemmtilegt og hollt brölt upp og niður létta kamba og hjalla...


Alls 35 manns... flestir náðust á mynd...


Aðalheiður, Agnar, Ása, Bára, Bjarni, Björgólfur, Elísa, Gerður Jens., Gréta, Guðmundur Jón, Gylfi, Heiða, Jaana, Jóhanna D., Jóhanna S., Karen, Katrín, Kolbeinn, Linda, Lilja Sesselja, Njóla, Oddný T., Siggi, Súsanna, Svala, Vilhjálmur, Þorleifur, Þórkatla og Örn og Batman, Nói og Myrra juku svo enn meira á fjallafjörið...


Þar af voru þrír nýliðar; Ásta Sigurjóns., Hjördís og Sigurbjörg... og Aðalheiður, Heiða og Súsanna voru að koma aftur eftir mislöng hlé... og Agnar var að koma sína fyrstu göngu eftir að hann sleit liðþófann í hnénu á Kvígindisfellli í maí... yndislegt að sjá ykkur öll...


Síbreytilegur heimur Fíflavallafjalls verður heimsóttur bráðlega síðar í sól og blíðu... ekki spurning...


Nesti á góðum stað... Kolbeinn gaf hundunum af stakri ljúfmennsku sinni sem fyrr... meiri öðlingarnir sem eru í þessum klúbbi... hundarnir fara ekki varhluta af því...


Hvert skref er veisla á Reykjanesinu... eldsumbrotasvæði mikið þar sem hver gígurinn á fætur öðrum blasir við alls staðar þar sem maður lítur... hvílíkur staður...


Gnægðin í gróðrinum á þessum síðsumarstíma... þar sem sumarið réttir haustinu keflið... náttúran þrútin lífi, litum og orku... sem er einstakt að anda að sér og hlaða sig með á þessum árstíma...


Riddarapeysulitahugmynd...


Við gengum út allt Fíflavallafjallið... eftir tagli þess að norðan áður en við snerum við...


Mávahlíðar hér í fjarska... þær komast bráðlega aftur á dagskrá...


Stór gígur var og þarna en gleymdist að taka mynd... og heilu hrauntraðirnar þar sem hraunið hefur runnið stríðum straumum lágu svo meðfram fjallinu til baka...


Gengið meðfram Fíflavallafjalli til baka með það á hægri hönd...


Hrútafellið hér... okkur munaði ekkert um að ganga á það í bakaleiðinni...


... og vorum enga stund þarna upp og yfir...


Heilmikið landslag uppi á Hrútafellinu... það er nýtt í safnið sem var gaman... og mældist 254 m hátt...


Niður það hinum megin þar sem hraunbreiðurnar blöstu við og bílarnir í fjarska við vegaslóðann...


Alls 7,5 km á 2:48 klst. upp í 287 m á Fíflavallafjalli og 254 m á Hrútafelli með alls 387 m hækkun úr 202 m upphafshæð.


Allir blautir en sælir og endurnærðir eftir sérlega gefandi útiveru þrátt fyrir rigninguna í lokin... merkilegt hversu svona útivera gefur manni mikið... dásamlegt alveg hreint !

153 views0 comments

Comments


bottom of page