top of page

Fjallamaraþonið árið 2022

Updated: Jan 17, 2023

Áskorun ársins 2022 var að ganga að lágmarki maraþon vegalengdina 42,2 km á fjall í hverjum mánuði og fór frammistaða þátttakenda langt fram úr væntingum þjálfara ! #Fjallamaraþoniðmittx42km


Alls tóku 12 manns þátt í fjallaáskorun þjálfara árið 2022 og alls náðu 8 manns að ljúka maraþon vegalengdinni 42,2 km alla tólf mánuði ársins en og frammistaða var langt umfram væntingar þar sem margir þátttakendur gengu yfir 100 km og jafnvel yfir 200 km í einu mánuði.


Mikil ánægja var með þessa áskorun eins og fleiri í gegnum árin og einurð þátttakenda gáfu okkur þjálfurum enn og aftur orku og áræðni til þess að halda áfram með þessar sérstöku áskoranir á hverju ári... þetta var lúmskt skemmtilegt og ekki eins auðvelt og halda mátti í byrjun en um leið léttara en sumir áttu von á sem var skemmtileg uppgötvun. Fyrst og fremst gaf þetta okkur aðhald til hreyfingar í hverjum mánuði ársins og veitti heilmikilli gleði inn í lífið, þetta var geggjað gaman !Sjöfn Kristins vann sér inn árgjaldi í klúbbnum fyrir sérlega glæsilega frammistöðu en alls náði hún að ganga 1.804,9 km á árinu, einn mánuðinn yfir 200 km en annars alla hina yfir 100 km nema febrúar mánuðinn sem var einnig erfiður hjá fleirum sem tóku þátt í þessari áskorun. Magnaður árangur ! Til hamingju Sjöfn !


Hjartansþakkir allir sem tóku þátt og takk fyrir samviskusemina við að skrásetja þetta og senda inn mjög skemmtilegar frásagnir af hinum ýmsu ferðum eða einstaka mánuðum, mikil verðmæti fólgin í því. Þið voruð öll einfaldlega frábær að gera þetta !


Sjá meldingar þátttakenda hér í stafrófsröð:


Ása:

Uppgjörið mitt í Fjallamaraþonið mitt 42,2 km á fjöllum í hverjum mánuði 2022. Ég er ákaflega stolt af sjalfri mér að hafa klárað þessa áskorun alla manuði ársins. Byrjaði brött í janúar og rölti 102 km, febrúar reyndist aðeins snúnari þar sem ég náði mér í covid í miðjum mánuðinum, náði samt 62.5 km. Í mars glímdi ég við eftirköst covid og var alveg að verða góð þegar ég tók uppá því að mölva úlnliðnum á mér all hressilega.

Náði samt apríl 52.9 km. Rétt skreið maí 43.1 km. Og enn tæpari í júní 42.8.

Í júlí var ég verkjaminni og náði 4 daga göngu um Lónsöræfin en strax í kjölfarið náði ég mér í víruspest og steinlá í 2 vikur, 76 km náðust fyrir pest. Var slöpp í byrjun ágúst og kláraði maraþonið í Þýskalandi sem var virkilega gaman. Í sept var ég dulítið upptekin við að flytja og var með allt niðrum mig þegar síðasti dagurinn rann upp og gekk rúma 30km þann 30 sept. 42.52 km í heild þann mánuðinn. Í okt var ég upptekin við að koma mér fyrir og ferðast, þann 31. átti ég um 5 km eftir og var á leið a Úllann þegar mér var tilkynnt um andlát föður míns sem var yfirvofandi, ég snéri við heim en fór stuttu seinna aftur af stað og kláraði 44.33 km í okt. Nóvember og desember voru ekki eins snúnir, 50.44 í nóv og 52.5 í des.


Samtals voru þetta 668.73 km sem er mun minna en undanfarin ár hja mér.

Myndin er úr göngu sem ég fór í kringum nýja hraunið 24 mars, sem var 10 dögum eftir brot sem segir bara að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ég fór að sjalfsögðu ekki ein en minn maður hjálpaði mér þar sem þurfti.


Þar sem frásagnir Ásu er oftar en ekki óborganlega fyndnar og skemmtilegar stóðst þjálfari ekki mátið að setja inn þessa meldingu hennar af septembermánuði þar sem henni tókst að ná sér í 30 km göngu um mosfellsku alpana... geri aðrir betur þegar maður er bara búinn með 12 km í lok mánaðar og vantar 30 km upp í 42,2 km fjallamaraþonið sitt!

"Ekki er nú öll vitleysan eins,,,ég er kannski pínu þrjósk en það hefur verið bras fyrir mig alltof marga mánuði að klára þessa 42.2 km, ýmsar uppákomur. Amk 2 sinnum hef ég verið að klára síðustu 3-5 km síðasta dag mánaðar. Í sept var ég alveg með allt niðrum mig,,er að flytja og hefur mesti frítíminn farið í það bras,,mála, flytja þrífa og þh. Í morgun var ég eingöngu komin með 12.1 km,,þannig að það vantaði 30.1. Þeir voru gengnir í dag.


Ég ákvað að taka Mosfellsku alpana,,eða drjúgan hluta þeirra,,byrjaði á Úllanum,upp skógræktina og niður hjá Sæbrekku,,þarna var ég komin með einhverja verki í hnéið svo ég hugsaði aðað.væri snilld að labba hringinn um Hafravatn,,allt a jafnsléttu og létt,,uhh kannski a jafnsléttu en ekki létt,,blautur og þungur gróður og sandurinn líka þungur,,hált a steinum svo ég setti nú ekki hraðamet,,gangan hinsvegar var frekar mikið æði,,logn og rigning. Síðan fór ég uppá Lala, Reykjaborg, þaðan yfir á Reykjafell, Æsustaðafjall, eftir Skammadal niður í Reykjadal, síðasta fellið var svo Lágafell. Þá var ég stutt frá mínu nýja heimili og þurfti nauðsynlega á klósett, græjaði það og kláraði svo kílómetrana mína.


Ég er algerlega lurkum lamin því þó ég hafi alveg labbað áður 30 km+ þá hef ég ekki labbað mikið eða langt undanfarið,,líkþorn var að drepa mig, fann ekki gott belti og það sem ég notaði nuddaðist við bakpokann. Í okt ætla ég að klára þessa 42.2 km a fyrstu 10 dögunum svo hægt sé að gera ekkert annað en að njóta,,en sko,,þetta var nú allt pínu æði.


Tilvitnun beint af fasbók frá Ásu Jóhannsdóttur þann 30. september 2022.


Bára:


Birgir:

Fjallamaraþonið mitt. Hér kemur frammistaða mín á árinu. Ég náði ekki lágmarkinu í febrúar. Ástæðan er einföld : Ég skráði mig í þennan ágæta félagsskap í febrúar og það var komið fram í miðjan mars þegar ég áttaði mig á þessu skemmtilega verkefni ! Janúar : 60 km Mars : 53 km Apríl : 93 km Maí : 114 km Júní : 147 km Júlí : 68 km Ágúst : 50 km September : 78 km Október : 118 km Nóvember : 93 km Desember : 85 km


Þetta eru aðallega fjallgöngur svo hækkun / lækkun er allnokkur. Eftirminnilegast frá árinu er að hafa tekið þátt í Fjallgönguviku Austfjarða í lok júní, það voru 8 göngur í beit, samtals 90 km og uppsöfnuð hækkun 6600 m. Stórkostlegt. Ekki má heldur gleyma ferðunum góðu að Fjallabaki með Toppförum, Ljónstindur - Eldgjá og Stóra Súla - Hattfell, báðar ógleymanlegar.

Það er mjög hvetjandi að taka þátt í svona áskorun, hef líklega aldrei áður gengið jafn mikið á einu ári. En á móti kemur að ég hjólaði nokkru minna en áður, en það er víst ekki allt hægt ! Ég þakka kærlega fyrir mig og er nú þegar byrjaður að safna káemm og háemm í sarpinn fyrir þetta árið ! — er þakklát/ur.Fanney:

Hér er ársuppgjörið frá mér fyrir #fjallamaraþoniðmitt . Þetta var mjög góð áskorun sem hélt manni svo sannarlega við efnið. Suma mánuði fór ég þetta leikandi létt en svo var stundum vinnan eða skólinn að þvælast fyrir eða covid þarna fyrr á árinu. Þetta varð sérlega skrautlegt í desember þar sem ég nýtti hátíðisdagana í góðar göngur og var alveg sérlega svöng þegar ég borðaði jólamatinn.


Það toppaði samt fátt brjálæðið þegar ég mætti í vinnuna kl 8:45 og samstarfsfélagar mínir sem aldrei þessu vant voru mættir á undan mér, stríddu mér fyrir að vera svona sein miðað við þau ( mæting er kl 9:00). Þau voru ekki lengi að þagna þegar ég sagði þeim að ég hefði vaknað klukkan sex og hefði farið í 6 km göngu á Úlfarsfelli fyrir vinnu ( ég bý í miðbænum þannig þetta er töluverður rúntur í morgunsárið). En ég ætlaði sko ekki að gefa þetta eftir á lokasprettinum. Þetta urðu óvart akkúrat 100 göngur sem ég fór í á árinu. Samanlagt urðu þetta 917.38 km og 43117 metra hækkun.

Janúar: 71.5 km, 4005m hækkun Febrúar: 43.82 km, 1637m hækkun Mars: 43.45 km, 1746m hækkun Apríl: 138.34 km, 6821m hækkun Maí: 91.42km 5268m hækkun Júní: 69.55 km, 3218m hækkun Júlí: 202.11 km, 8699m hækkun Ágúst: 61.83 km, 2444m hækkun September: 61.94 km, 2788m hækkun Október: 47.22 km, 2761m hækkun Nóvember: 42.61 km 2338m hækkun Desember: 43.59 km, 1392m hækkun


Meðfylgjandi myndir eru frá fjórum göngum sem voru sérlega fallegar eða eftirminnilegar. Efst til vinstri: Cima Capi við Gardavatn Ítalíu Efst til hægri: Aðalvík á Hornströndum Neðst til vinstri: Friðland að Fjallabaki Neðst til hægri: Suðurtindur Hrútfjallstind (á toppnum)


Jaana:

Jæja, gleymdi náttúrulega samantekt fyrir fjallamaraþonið.... #fjallamaraþoniðmitt 2022.

Here it comes: Samanlagt voru þetta 1741,5 km Uppsöfnuð hækkun: 121,777 m

Og jamm, þar af voru 738,83 km á vinafjallinu Móskarðshnúka með uppsöfnuð hækkun 62,813 m.Þetta var mjög skemmtileg áskorun sem hélt manni gangandi (bókstaflega) allt árið. Svo er bara gaman að þurfa að skrá allar ferðir því þannig sér maður líka bara sjálfur hvar maður nú hefur verið að brölta -og svei mér, maður fann nú sjálfan sig á ýmsum stöðum á landinu og líka erlendis Nánari samantekt (mánaðarskyrslurnar) er að finna á siðunni fjallamaraþonsáskorunar sjálfri.


Ps. Og eins og sjá má á myndinni svo er maður oft alveg í skýjunum á þessum fjallaferðum -eða jafn vel fyrir ofan


Jóhanna Fríða:

Desember skýrslan!


Heldur varð árið endasleppt hjá mér göngulega séð, vegna fótbrotsins 8. desember, í síðustu göngu haustprógramsins í hópnum sem ég var að fararstýra.


Þegar ég brotnaði var mesta svekkelsið að missa af gönguferð til Tenerife með mágkonu minni. Við vorum þó búnar að eiga gæðastundir í æfingagöngum og stundum duglegu frænkur mínar með, 14 og 16 ára, ótrúlega duglegar og áhugasamar Myndin er frá einni slíkri göngu, síðustu og léttustu æfingagöngunni, 7. des, í nágrenni Hvaleyrarvatns, í yndislegri birtu í ljósaskiptunum.


Annað svekkelsi var maraþonið!!! ...þegar ég skoðaði tölurnar og sá að ég hefði líklega náð því ef ég hefði ekki þurft að hætta við gönguna með Toppförum 3. desember. Ég prófaði þá að bæta við tölunum frá Erni og þá var heildartalan 42,1 km!!! Vá hvað ÞAÐ hefði verið svekkjandi!!! (Hefði reyndar þá náð 1500 km í heild, en það er önnur saga ).


Svo ég er bara góð og glöð með árið og fer súper bjartsýn inn í nýtt ár. Næ kannski ekki maraþoni í janúar, en stefni á lágmark 52 km alla mánuði eftir það

Gleðilegt ár og takk fyrir súper skemmtilega áskorun!


Jóhanna Diðriks:

Mér tókst að klára #25 ferðir á Helgafell í Hafnarfirði í #vinafjalliðmittx52 áskoruninni 2022. Það var mjög ánægjulegt og krefjandi að takast á við þær ýmsu aðstæður sem komu í veg fyrir að ég næði að klára 52 ferðir.


Fjallamaraþonið sömuleiðis náði 7 af 12 mánuðum

Gleðilegt ár kæru göngufélagar þið eruð frábærar fyrirmyndir. Hlakka til að ganga með ykkur á nýju ári.

Katrín Kj. og Guðmundur Jón:

Hér eru tölurnar fyrir desember, þó ég hafi ekki náð þessu þennan mánuðinn…því miður Röð tilvika eins og pest og ýmislegt annað réð því. En það var rosalega gaman að taka þátt í þessari áskorun, og mjög hvetjandi. Svo var það lika þannig hjá mér, að þegar tölunni var náð, þá var eins og ekkert mál væri að bæta í. (nema nú í desember).


Heildar niðurstaða eftir árið er:

834,7 km 37.836 m. samanlögð hækkun 121 ferð á 224 tinda.


Þess ber að geta að Guðmundur gekk þetta allt með mér og svo gaman að vera í þessu saman. Þetta byrjar allt á einu spori.Ragnheiður:

Hér er uppgjörið mitt 2022, strembið þegar líða tók á árið

Samtals fór ég 121 ferð á vinafjallið mitt, Úlfarsfell


Fjallamaraþonið 2022:

Janúar 46.65 km, hækkun 2633 m.

Febrúar 75.54 km, hækkun 2741 m.

Mars 59.02 km, hækkun 2724 m.

Apríl 83.61 km, hækkun 4599 m.

Maí 71.61 km, hækkun 4294 m.

Júní 54.82 km, hækkun 3389 m.

Júlí 108,17 km, hækkun 6.215.m

Ágúst 56.32 km, hækkun 2.986 m.

September 70.6 km, hækkun 3.504, m.

Október 42.36 km, hækkun 2331 m.

Nóvember 42.27 km, hækkun 1755 m.

Desember 45.10 km, hækkun 2.106 m.


Samtals eru þetta 756.01 km, hækkun 35.773 m.


Siggi:


Kolbeinn:

Hér eru tölur frá mér fyrir árið 2022 Vinafjallið mitt var Úlfarsfell og náði að fara 160 ferðir

Fjallamaraþonið 2022:

Janúar 140,92 km hækkun 7960 m Febrúar 132,25 km hækkun 6913 m Mars 101,93 km hækkun 5995 m Apríl 187,59 km hækkun 9591 m Maí 61,28 km hækkun 4067 m Júní 47,17 km hækkun 2104 m Júlí 48,50 km hækkun 2182 m Ágúst 116 km hækkun 7306 m September 68,20 km hækkun 4187 m Október 0 km hækkun 0 m Nóvember 71,69 km hækkun 4422 m Desember 108,16 hækkun 6092 m


Samtals km 1084,35 hækkun 60,819 m.


Sjöfn Kristins:


Það er nú þannig að þegar maður tekur þátt í áskorun, þá hleypur manni kapp í kinnar og fjör í fætur. Aldrei fyrr hef ég gengið svo mikið á einu ári, og aldrei svo fjölbreyttar fjallgöngur. Stundum verð ég hroðalega skúffuð þegar ég missi af djúsí göngum, en vá maður minn, hvað ég er samt búin að komast margt og fá að upplifa mikla dýrð og ánægju !


Það er gaman að renna yfir bókhaldið og sjá þessa skemmtilegu blöndu af Toppfaragöngum stórum og smáum, gönguferðum öðrum hérlendis og erlendis, ein og með öðrum. Ég get ekki annað en verið þakklát fyrir þetta allt, alls ekki sjálfgefið að hafa bæði heilsu og tækifæri til að stunda þetta frábæra áhugamál.


Læt fylgja með eina mynd frá deginum sem við gengum á Rjúpnafellið.


Þórkatla:

Hér kemur samantekt á #Fjallamaraþoniðmitt2022.


Það kom mér á óvart hversu háar tölurnar urðu og ég áttaði mig á að ég hef lengi gengið þetta mikið án þess að taka það saman neitt sérstaklega. Mér fannst samt skemmtilegast við að skrá þetta niður að sjá hvað það voru mörg ný fjöll á árinu, taldist til ca 40 ný fjöll/fell og það er stærsta ástæðan fyrir að maður er að paufast þetta, að geta farið á nýjar slóðir.

Að lokum var svolítið pínlegt að sjá að aðeins vantaði 7 km upp á að árið endaði í 1500 km sléttum hjá mér, passa það betur næst, ja eða ekki.


Mögnuð frammistaða sem fór langt fram úr væntingum þjálfara og mjög skemmtilegar frásagnir þátttakenda !


Árið 2023 er áskorunin að ná sem flestum fjallgöngum á þriðjudögum allt árið, telja þær og helst hafa með hversu mörg fjöll/leiðir maður er að fara í fyrsta sinn í lífinu. Bara til gamans gert og aðhalds og já, hvatningar hvert og eitt okkar til annars, því það er svo skemmtilegt að sjá hvað hinir eru að að ná að gera og það gefur manni orku til að gera meira en maður hefði annars gert og eins veitir svona áskorun manni aðhald því öll hundskuðumst við stundum á fjall út af þessu "fjallamaraþoni" þegar við annars hefðum legið heima í sófa eða tekið léttan göngutúr í hverfinu okkar :-)


Mörg dæmi eru um þetta í fyrri áskorunum í gegnum árin... þetta skilar sér vel í bættri líðan á sál og líkamna... við hættum ekki þessum skringilegu, árlegu áskorunum frekar en að ganga á vinafjallið okkar á hverju ári :-) Áfram við !23 views0 comments

Comments


bottom of page