top of page

Frá Reyðarbörmum í Bláskógabygg yfir Laugarvatnsfjall og Snorrastaðafjall legg 9 #ÞvertyfirÍsland

Tindferð nr. 270 sunnudaginn 18. júní 2023.


Níunda dagleiðin okkar á leið yfir Ísland hélt áætlun sunnudaginn eftir 17. júní þrátt fyrir þungbúna veðurspá þar sem lítill vindur og hlýtt var í veðri... og við lögðum af stað með 385 kílómetra í beinni línu að Fonti á Langanesi...


Gengið var frá Reyðarbörmum í Bláskógabyggð og var ætlunin að ganga yfir Laugarvatnsfjallið en upphaflega áætlunin var að ganga meðfram Kálfstindum og inn að Klukkutindum við Tindaskaga og félaga en þar sem ekki náðust jeppar í þann gjörning... ferja hefði þurft milli upphafs- og endastaðar... þá enduðum við á þessari útfærslu og hún reyndist mjög skemmtileg...


Auðvitað gengum við eftir Litla Reyðarbarmi úr því hann var í leiðinni...


Fagurmótaður og mjög skemmtilegur litríkur hryggur...


Litið til baka... fórum ekki slóðann þarna niðri...


Litli Reyðarbarmur mældist 306 m hár...


Ofan af honum héldum við yfir lungamjúkt og skærgrænt mosaslegið hraunið í átt að gamla Lyngdalsveginum og Barmaskarði...


Mikill gróður á þessum kafla og græni liturinn í algleymi...


Formfegurðin í hrauninu svo heilandi að maður gat varla talað hér...


Kjarrið... liturinn... formin... þessi kafli var með þeim fegurstu hingað til...


Þrír hundar með í för... sem allir nutu sín til hins ítrasta... Batman orðinn ráðsettur og yfirvegaður... en Kolka og Myrra enn í fullu fjöri og skoppandi um allt...


Komin á gamla Lyngdalsheiðarveginn... Gjábakkaveg... en hér hafið fallið aurskriða yfir veginn... heilmikið magn... og við sáum þetta á fleiri stöðum á leiðinni...


Nú gengum við undir syðstu Kálfstindunum í átt að Laugarvatnshelli...


Alltaf jafn magnað að koma að þessum stað... saga fólksins þarna er aðdáunarverð og sláandi... eljan og þrautsegjan... maður á ekki til orð... stutt síðan þjóðin lifði við harðindi og örbirgð...


Ritari þessarar ferðasögu les mikið ævisögur... þar er heimur sem segir sögur liðinna tíma þar sem áræðni, þrautsegja og úthald er aðalsmerkið... eins og hér...


Við fengum óvæntar móttökur við Laugarvatnshelli... tvær konur í klæðnaði liðinna tíma og pylsuvagn...


Þær voru frá Finnlandi og buðust til að segja okkur sögu staðarsins ef við hefðum tíma en við vildum frekar kaupa af þeim pylsu og kók... það var ekki hægt annað...


Nú er búin að endurbyggja Laugarvatnshelli í sína upprunalegu mynd... virðingarvert og dýrmætt framlag...



Í fyrstu ferðum Toppfara á Kálfstinda var hér allt í niðurníðslu og að glatast... þökk sé þeim sem hér hafa tekið til hendinni fellur lífshlaup fólksins sem hér bjó ekki í gleymskunnar dá...

Hvort við fáum okkur pylsu og kók nokkurn tíma aftur á þessari þverunarleið okkar er óvíst... þessi staður á allavega alltaf eftir að sitja í minningunni... magnað að fá svona þjónustu í miðjum óbyggðum að okkur fannst...



Jæja... við máttum ekki staldra of lengi við... áttum langan veg fyrir höndum og vert að halda áfram...


Komin að dalverpinu þar sem bílum er lagt þegar gengið er á Flosatind...


Gaman að rifja hér upp fyrri ferðir á Flosatind... sérstaklega gönguna þar sem hluti hópsins tók Flosatind en hinir fóru niður vegna vaxandi vinds... og bíllarnir vögguðu hér á stæðinu... og Silla tókst á loft á Flosatindi...


Lágskýjað... en hlýtt... og jú rigning öðru hvoru en langir þurrir kaflar á milli svo allavega ritari þessarar ferðasögu var að mestu án regngallans...


Við komum fljótlega inn á slóðann að Flosatindi...


Rigningin góð fyrir gróðurinn... allt svo fagurgrænt og heilandi...


Þjálfarar vildu helst fara í Kálfsgil með hópinn þar sem við höfum ekki farið aftur í hann síðan árið 2012... og af því veðrið var gott þrátt fyrir bleytuna þá héldum við þeirri áætlun...



Nestispása hér í þessum fína hellisskúta sem Ása kom auga á og við gengum upp í... mjög vel til fundið þar sem hér var friður fyrir rigningardropunum sem sífellt runnu niður á okkur... lóðrétt því það var ekki vindur... en það mikið að allt varð blautt...


Dásamlegt að borða hér... Kolbeinn hundavinurinn mikli með vini sína með í matarhléinu...


Jæja... Kálfsgil... við sjáum ekki eftir því...


Hellisskútinn neðan frá...


Lítið virðist gengið inn í þetta gil en það er alveg magnað náttúrufyrirbæri og hafði mikil áhrif á okkur á sínum tíma árið 2012...


Mjög gaman að koma hér...


Kálfsgil er afskaplega stórgrýtt frá fyrsta skrefi...


... og það var heilmikið brölt að komast hér upp eftir...


Árið 2012 voru þykkir snjóskaflar yfir botni gilsins og mun greiðfærara að ganga hér inn...


Komin að bjarginu þar sem enn ófærara verður...


Við létum þetta bjarg vera endapunktinn hér inn... og nokkrir tóku myndir af sér á þessum bjargi... Myrra hér með Ásu...


Bakaleiðin gekk betur en við áttum von á... eins og alltaf...


Þetta var kærkomin tilbreyting frá göngunni...


Stærð gilsins fangast ekki á ljósmyndum... þetta var yfirþyrmandi landslag...


Kyngimögnuð upplifun og fyrir flesta var þessi kafli áhrifamestur á þessari gönguleið...


Hópmynd hér... einhverra hluta vegna tókum við ekki aðra hópmynd í ferðinni... líklega vegna bleytunnar... grátlegt samt...


Mættir voru Ása, Bára, Birgir, Dina, Inga Guðrún, Kolbeinn, Sigríður Lovísa gestur, Sigrún Eðvalds., gestur, Sjöfn Kr., Örn og Öyvind og hundarnir voru þrír; Batman, Kolka og Myrra...


Komin í birtuna aftur...


Eina snögga hópmynd hér líka reyndar !


Berggangar í berginu...


Þetta var æði !


Nú var að klífa Laugarvatnsfjallið... og þjálfarar tóku þá ákvörðun að fara inn í hvilft fjallsins og freista þess að komast þar upp frekar en að taka gls-slóðina sína frá 2012 upp snarpar brekkurnar hér á vinstri hönd... það lá beinast við að taka hvilftina og okkur sýndist hún fær þegar við horfðum á hana frá hellisskútanum í nestinu... þó við sæjum reyndar ekki efsta hlutann fyrir þoku...


Í þessari brekku rann Ása af sleipum steini og var svo óheppin að lenda með brjóstkassann á grjóti svo hún fann verulega til á eftir og íhugaði að snúa við... en ákvað að halda áfram en var svo verkjuð það sem eftir leið göngu og fann að hún hafði rifbeinsbrotnað sem var alveg grátlegt þar sem hún hefur fengið meira en nægan skammt af óhöppum síðustu ár...


Frábær hópur dagsins... og Þverfellið í baksýn hér... það er komið á dagskrá á þriðjudagskveldi á næsta ári...


Upp hér... grýtt og bratt en vel fært...


Hvíld á milli...


Kolka skvísa að hvíla sig... hundarnir læra það fljótt að það þarf að hvílast á milli í svona löngum göngum...


Mjög skemmtileg leið og við vorum spennt að kynnast henni...


Þoka ofar en hún kom og fór og lyfti sér einhvern veginn stöðugt fyrir okkur sem var vel þegið...


Þetta var geggjuð leið fyrir klifurketti klúbbsins...


Batman skildi ekkert í þessu hangsi... við vorum mjög róleg og afslöppuð í þessari ferð og hann átti stundum varla til orð...


Efsti kaflinn... þetta var ennþá fínasta klöngur og hvergi tæpistigur...


Mergjuð leið !


Þegar komið var upp á Laugarvatnsfjallið... ef við getum sagt að við höfum verið þar... það má vel spyrja sig... þá var ekkert skyggni og þoka yfir öllu... svo þjálfarar tóku þá ákvörðun að eltast ekki við efsta tind Laugarvatnsfjalls heldur stefna beint á brúnirnar niður í Bláskógabyggð um Snorrastaðafjall...


En á þeirri leið er stöðuvatn uppi á fjallinu... sem var þurrt...


Við ákváðum að taka nestispásuna engu að síður við "vatnið" enda fínasta veður þó við værum komin upp á heiðina...


Haldið af stað "yfir vatnið" að klettaveggnum sem liggur eftir allri heiðinni...


Mjög gaman að koma hingað en þessir klettar sjást vel ofan af efsta Kálfstindinum sem við nefndum Norðra á sínum tíma...


Skothylki á víð og dreif... hér er greinilega skotæfingasvæði...


Nú tók við ekta íslensk heiði rúma þrjá kílómetra leið að niðurgöngustaðnum... sú ganga gekk framar vonum þó aðeins teygðist úr hópnum...


Rjúpuhreiður ?


Leiðin niður af Snorrastaðafjalli var brött og grýtt en vel fær... verst var að sjá ekki yfir allt svæðið til að geta valið bestu leiðina en þjálfarar studdust við gps-slóð frá Stefáni Guðleifssyni á wikiloc en fóru samt norðar niður en hann hafði gert...


Neðar þurfti aðeins að klöngrast og það reyndi á lofthræðslu hjá þeim sem eru mikið að glíma við hana en færið fínt og leiðin í stakasta lagi...


Við verðum að koma hér aftur í góðu skyggni og fara þessa leið aftur til að upplifa hana í samhengi við landslagið í kring...


Skyggnið lagaðist þegar neðar dró og við gátum áttað okkur betur á landslaginu...


Brátt létti þokunni og við okkur blasti sérlega blómleg Bláskógabyggðin... bærinn Snorrastaðir hér hægra megin... mikið kjarrlendi og við héldum okkur uppi á hryggnum hér og svo meðfram lækjarfarveginum til að festast ekki í kjarrinu...


Oddný datt illa í lækjarfarveginum neðst þar sem við snerum inn á slóðann þegar hún var að taka upp myndavélina en virtist hafa sloppið og hruflað sig eingöngu á framhandlegg en líklegast rifbreinsbrotnaði hún og við vorum ekki hissa sem sáum hana detta, þetta var slæmt fall...


Við tók blómlegur og funheitur og friðsæll kafli á slóða alla leið að bílunum en þeir voru sundurskornir á köflum eftir vatnsleysingar...


Sláandi að sjá þetta...


Litið upp fjallið... hvar byrjar og endar Laugarvatnsfjall annars vegar og Snorrastaðafjall hins vegar ? ... það er á mörkunum að við getum sagst hafa þverað Laugarvatnsfjall en tilfinningin er engu að síður sú þar sem við fórum upp á heiðina og niður hér og að vatninu... við látum þetta vera opið og til endurskoðunar eins og allt sem við gerum svo þetta sem sé réttast...


Yndislegur síðasti kaflinn í gegnum sumarhúsabyggðina...


Það var kærkomið að sjá bílana... þó það væri hlýtt og lygnt... þá var raki í fötunum og bleytan eykur álagið í svona göngu... við knúsuðum vinkonurnar Ásu og Oddnýju og vonuðum innilega að þetta væru ekki slæm meiðsli hjá þeim... en þær báru sig mjög vel og ætluðu ekki að láta þetta stöðva sig í áframhaldandi för yfir landið í sumar... við erum ljónheppin að hafa þessar tvær innan okkar raða, dásamlegar manneskjur með mikla gleði og einstaklega skemmtilegar umræður... þær eru einar af fáum sem hafa frá byrjun verið harðákveðnar í að ná að þvera landið á þessum tíu árum... það er aðdáunarvert og mikils virði... við náum þessu saman stelpur... þið eruð einfaldlega æði !


Við enduðum á að telja þetta sem 22,5 km leið á 9:17 - 9:22 klst. upp í 650 m hæð með alls 806 m hækkun úr 219 m upphafshæð.


Ekki græddum við mikið á þessum 22,5 kílómetrum til að nálgast Langanes... :-) :-) ... nú eru 374 kílómetrar eftir... en við viljum gera þetta svona... láta landslagið ráða og gefa okkur fallega staði á leiðinni... ekki bara ganga beint um vegaslóða og óspennandi svæði sem gefa okkur ekki mikið...


Frábær leggur sem gaf okkur þrjú "fjöll", eitt gil og einn merkilegan sögustað, Laugarvatnshelli...


Næst verður það Bláskógabyggð yfir Efstadalsfjall í Brúarárskörð... eða eigum við að halda okkur á láglendinu... það er meira en að segja það... ekkert nema vegir, girðingar, skurðir, lóðir, tún... við neyðumst til að halda okkur uppi í fjöllunum... og reyndar mjög spennandi að koma bakdyramegin að Brúarárskörðum...



53 views0 comments

Comments


bottom of page