top of page

Glammastaðamúli... af því þetta nafn varð að vera með í Skarðsheiðardraumnum... tindur nr. 16 af 23.

Þriðjudagsæfing 19. október 2021.


Við bættum einum tindi til viðbótar við Skarðsheiðardrauminn frá upphaflegri áætlun... Glammastaðamúla í suðausturenda heiðarinnar... lágur og hógvær... en nafnið í slíkum gæðaflokki að það er ekki annað hægt en hafa hann með... þó færa megi rök fyrir því að hann sé hluti af fjallsrótum Hlíðarbrúna sem við gengum á í ágúst með Brennifelli og Hestdalsöxl... en af því við elskum landslag og viljum kortleggja það sem mest með göngunum okkar... þá fékk Glammastaðamúli sinn sess í Skarðsheiðaryfirferðinni árið 2021... hann er samt mun lægri og lágstemmdari en fjöllin hér á mynd... sem skreyttu aksturinn á leið að austurenda heiðarinnar...


... og það sérstaka er... að þegar hann er glöggvaður á veraldarvefnum... þá kemur ekkert skrifað um hann... nema frá okkur... og svo vísanir á kort þar sem nafnið er að finna þar... þetta á stundum við um fjöll sem við höfum gengið á í gegnum tíðina... ekkert skrifað um þau á veraldarvefnum fyrr en við setjum þau á dagskrána og göngum á þau... Hróarstindar eru nærtækt dæmi... um þá var ekkert á veraldarvefnum þegar við gengum á þá árið 2010... en síðan þá hefur það breyst með fleira göngufólki á þeim... en samt ótrúlega lítið í raun ennþá hægt að finna á veraldarvefnum annað en það sem frá fjallgönguklúbbnum kemur...


Mjög hvasst var þetta kvöld... og aksturinn slíkur á leið út eftir að við efuðumst um að við gætum farið í almennilega göngu þetta kvöld... en við rætur Glammastaðamúla hafði Bjarni Skagamaður fundið þennan fína stað til að leggja bílunum... mun skjólsælli en austar og við lögðum því að stað við enda múlans hér upp...


Sjá bílana þarna niðri... Glammastaðaá hægra megin... en ofar er Olnbogafoss sem við náðum því miður ekki að skoða vegna veðurs...


Aflíðandi leið upp en þó smá klöngur hér og þar í móanum...


Hópmynd áður en myrkrið skellur á:


Árni, Þórkatla, Jórunn Ósk, Tómas, Jaana, Kolbeinn, Ásta Sig., Ragnheiður, Hjördís, Gerður Jens., Örn, Silla, Davíð, Sigurbjörg, Jóhanna S., Sjöfn Kr., Björgólfur og Bjarni en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...


Já... aflíðandi og þægileg leið... þetta hentaði fínt í svona brjáluðu roki beint í fangið...


Það rökkvaði fljótt... við sóuðum dýrmætum tíma í einnar klukkustundar akstur úr Reykjavík að múlanum... eitthvað sem við gerum almennt ekki á þessum árstíma... viljum nýta dagsbirtuna þegar hún er orðin af svona skornum skammti síðla hausts... en þetta var eina leiðin til að ná þessu...


Yndislegt að fá sól og heiðskírt veður... þar með fengum við birtuna lengur fram eftir kveldi...


Erfitt að halda sér á fótunum í rokinu á köflum... þetta var verulega frískandi !


Flottur hópur og allir vel klæddir... gott að láta reyna á búnaðinn...


Tunglið gægðist bak upp bak við Glámu... en við erum búin að setja þessa fallegu tinda ofan við Geitabergsvatn á dagskrá næsta sumar... stuttu síðar gleyptu skýin tunglið hins vegar svo töfrarnir þegar það kíkti á okkur vöruðu stutt... en voru magnaðir...


Akrafjallið ber hér við himinn... töfrarnir voru til staðar þrátt fyrir rokið...


Við létum landslagið ráða... hvað tindur Glammastaðamúla var nákvæmlega var engan veginn hægt að átta sig á... en þessi leit út fyrir að vera slíkur... og við settum stefnuna þangað eftir alls kyns pælingar og yfirlegu á kortum áður en við lögðum í hann... því við vissum að ofar byrja svo hinar eiginlegu "Hlíðarbrúnir" þar sem við vorum fyrr í haust...


Hér var ágætis skjól svo þessi ganga slapp ótrúlega vel þrátt fyrir veðrið...


Geggjuð hópmynd ! Samsung Galaxy símarnir taka sannarlega flottar myndir í myrkrinu !


Niðurleiðin gekk mjög vel en þar reyndi á að halda hópinn í myrkrinu...því ef menn halda ekki í við hópinn eru þeir fljótir að tínast og missa alveg sjónar á hópnum... það þarf ekki annað en mishæðótt landslag og maður er einn í myrkrinu og ef skyggni er lélegt vegna úrkomu eða þoku þá sér maður ekkert til hópsins neðar...


Þá er mjög gott ráð fyrir þá sem vilja bæta gönguformið sitt að leyfa sér ekkert annað en að vera alltaf með fremstu mönnum niður til baka því þá er yfirferðin niður í mót og engin ástæða til að dragast aftur úr... heldur ganga rösklega allan tímann og reyna vel á sig því þannig eykst formið.


Það hafa margir gert þetta skipulega í gegnum árin, staðsett sig framarlega og reynt að halda í við fremstu menn á leið upp og svo alltaf staðsett sig framarlega á leið niður og eru aldrei aftastir og árangurinn lætur ekki á sér standa.


Auðvitað á þetta ekki alltaf við, ef menn vilja bara njóta og spjalla, en þetta er mjög góð leið til að bæta formið sitt skipulega því þriðjudagsæfingarnar eru einmitt til þess að bæta gönguformið og geta farið í lengri dagsferðir til að njóta þeirra sem mest...


Alls 4,8 km á 1:42 - 1.48 klst. upp í 332 m hæð með alls 301 m hækkun úr 94 m upphafshæð.


Fallegt kvöld og mjög gefandi samvera... frábær mæting í miklu roki... virkilega vel gert !

23 views0 comments
bottom of page