top of page
Writer's pictureBára Agnes Ketilsdóttir

Gosstöðvarnar að þriðja gosinu á Reykjanesi um Meradalaleið.

Æfing nr. 764 þriðjudaginn 18. júlí 2023.


Þriðja gosið á Reykjanesi hófst mánudaginn 10. júlí 2023 með látum og hagstæðu veðri og vindáttum fyrstu dagana...



Norðan við Litla Hrút þýddi enn lengri ganga en að fyrri gosum eða um 9 km aðra leið og alls 18 - 20 km... svo við bjuggum okkur undir 6 - 7 klst. kvöldstund þegar loksins var þriðjudagsæfing að gosinu rúmri viku eftir að það hófst...


Blíðskaparveður eins og allan júlí mánuð á þessum landshluta og stífur norðanvindur okkur í hag hvað varðar gasmengun og skyggni...


Leiðin greið eftir gamla malarveginum svokallaða "Meradalaleið"... en ekki eins mikið af fólki og við áttum von á... búið að vera lokað og opið til skiptis að gosstöðvunum svo ekki allir dagar voru mögulegir...


Fínasta leið en gamli vegurinn skárri en fyrsti hlutinn sem búið er að bera nýja möl í... hún er ansi gróf...


Hér sáum við gíginn birtast... Hraunssels-Vatnsfell hér á hægri hönd...


Ekki leyfilegt að fara lengra en að þessum stað við hraunbreiðuna... sem sé ekki meðfram Hraunssels-Vatnsfelli sem var rétt metið því gasmengunin barst einmitt þangað... þetta þýddi samt að við vorum eingöngu búin með 7 km göngu á 1:26 klst... og gígurinn ansi langt í burtu...


Ekkert við því að gera... hópmynd sem x tók af okkur, mjög viðkunnanlegur maður sem þekkti þó nokkra í hópnum okkar...


Bára, Brynjar, Kristjana, Inga Guðrún, Kolbeinn, Boirgir, Aníta, Þorleifur, Fanney, Örn, Sigurbjörg, Sjöfn og Olav Tombre og hundurinn Batman var með þó mælst væri til þess að hundar færu ekki á svæðið þar sem hann var skilinn eftir þegar þjálfarar gengu kringum Langasjó og þar sem sonurinn á heimilinu var farinn erlendis þá gátu þjálfarr hreinlega ekki skilið hann aftur einan heima og farið í fjallgöngufötunum út í bíl... hann ætlaði sko með...


Jú, við sáum sletturnar upp úr gígnum og eldinn... en áhrifamest var að fara að þessum hraunjaðri og sjá logandi glóðina alls staðar og finna hitann og heyra hljóðin...


Batman var smeykur og leið ekki vel á þessum stað... hitinn af hraunbreiðunni var svo mikill að hann yljaði manni... en hann skynjaði þessi sterku öfl þarna og var órólegur og ekki líkur sjálfum sér...


Við settumst og borðuðum nesti og horfðum á gosið úr fjarlægð... þetta var náttúrulega svindl... besti útsýnisstaðurinn er úr hlíðum Litla hrúts og þar var heilmikið af fólki en hann er á skilgreindu hættusvæði svo það hvarflaði ekki að okkur að ganga alla leið þangað enda er það líklega um 22 km leið og ekki á ljúfum vegi eins og Meradalaleiðin heldur upp og niður fellin á leiðinni...


Kyngimagnað fyrirbæri... líklega eitt af mörgum gosum næstu árin... en aldrei að vita... enda eru jarðvísindamennirnir að komast að þessu jafn furðu losnir og við...


Hraunjaðarinn... nokkurra metra hár...


Eldurinn í honum... það var mjög heitt nálægt honum... og ótryggt... hann gat hreyfst til hvenær sem er... hálftíma eftir að við fórum af svæðinu brunuðu björgunarsveitarbílar og lögregla að svæðinu við þennan hraunjaðar... og maður var sendur með þyrlu til Reykjavíkur og daginn eftir var tilkynnt um að hann hefði verið bráðkvaddur við hraunið...


Andlit í eldinum... þetta var hálf óhugnanlegt...


Næst... verður maður að fara í ljósaskiptum... og komast lengra... það er án efa þess virði að fara aftur þegar búið er að opna eitthvað nær gígnum...


Batman átti ekkert erindi að þessum gosstöðvum... við tökum hann ekki með aftur... við svo sem vissum þetta... en treystum á stífan vindinn og ferska loftið með honum... en nálægðin við hraunjaðarinn var honum ofviða... hann var allra fegnastur þegar við tygjuðum okkur af stað rúmum klukkutíma eftir þessa góðu nestispásu...


Hraunssels-Vatnsfell... sem við gengum á þegar við tókum þverunarlegginn frá Stóra Leirdal að Keili... sem einmitt frestaðist vegna fyrsta gossins... en í staðinn fengum við að ganga meðfram nýja hrauninu öllu á þessari leið sem var stórkostleg upplifun...


Hraunjaðarinn og mannfólkið... flestir vel búnir og í góðu ásigkomulagi... allt annað yfirbragð yfir þessum hópi en í fyrri gosum enda mun lengri gönguleið...


Við lögðum af stað til baka svekkt en samt snortin... og ræddum mögulegar aðrar leiðir að gosinu en ef Vigdísarvallavegur hefði ekki verið lokaður þá hefðum við farið frá honum... og hann var svo opnaður tveimur dögum síðar...


Takk fyrir okkur gígur Litla Hrúts...


Svakalegt sjónarspil engu að síður... sjá allt fólkið uppi á Litla hrút... björgunarsveitarmaður sagði okkur að búið væri að hringja í lögregluna... þeir færu ekki þarna upp til að sækja fólkið...


Sama strunsið var á okkur til baka... Langisjór 51 km á 15 klst. sat greinlega ekkert í þjálfurum, Anítu né Sjöfn sem öll voru mætt og ennþá ölvuð eftir þá stórfenglegu upplifun... ofurgöngu þrjú í klúbbnum...


Sjá rjúkandi hitann utan í Hraunssels-Vatnsfelli... merkilegt...


Gamli gígurinn... sá sem við gengum hringinn í kringum á þriðjudagsæfingu í apríl 2021... en svo fylltist dalurinn af hrauni og nú er þessi leið langt undir hrauni....


Sírenurnar á fullu þegar bílanir fóru framhjá... við vissum ekki hvað hafði gerst en spurðum björgunarsveitarfólkið í lok göngu sem sagði þetta hafa verið vegna veikinda... en gerðar voru endurlífgunartilraunir á staðnum áður en hann var fluttur með þyrlunni...


Fallegt kvöld og dásamleg útivera með frábæru fólki þó ekki fengjum við nándar viðlíka upplifun og árið 2021... http://www.toppfarar.is/aefingar/55_aefingar_jan_mars_2021.htm


Við vorum ekki lengi að þessu... hvílíkur mannfjöldi en allt með ró og spekkt... vel gert hjá heimamönnum og björgunarsveitarfólki og Grindvíkingum...


Ótrúlegur viðsnúningur á þessu svæði... árið 2018 vorum við ein í heiminum þarna og lögðum bílunum í Nátthafa sem nú er allur kominn undir hraun...


Ha, partý eftir göngu ? ... þetta var náttúrulega algert svindl... við héldum að við værum að fá 20 km göngu á 6 - 7 klst. nálægt gosinu.... en ekki 15 km á 4 klst. og ná varla að sjá gíginn :-)


Gígurinn úr hlíðum Litla hrúts síðar um kvöldið...


... um nóttina rofnaði veggur gígsins og hraunið rann í aðra átt... en fann sér svo leið áfram austan undir Litla hrút og til suðurs... https://www.visir.is/g/20232442428d/fangadi-augna-blikid-thegar-veggur-hrundi-i-hraunid-storkostlegt-ad-verda-vitni-ad-thessu-


Alls 14,4 km á 3:58 klst. upp í174 m hæð með 285 m hækkun úr 33 m upphafshæð...


Þjálfarar fara nú í sumarfrí eftir Hattfellið á föstudag og Grænahrygg á laugardag... næstu þrjá þriðjudaga verða klúbbgöngur að gosinu, á Vífilsfellið og á vinafjöllin tólf eftir smekk og hentugleika... sjáumst næst þriðjudaginn 15. ágúst...


26 views0 comments

Comments


bottom of page