top of page

Herdísarvíkurfjall 15 ára afmælisveisla með kúrekahatta í köflóttum skyrtum

Þriðjudagsæfing nr. 704 þann 17. maí 2022.


Fimmtán ár eru síðan við fórum fyrstu gönguna okkar þriðjudaginn 15. maí árið 2007... og ætluðum þá að fara Esjuna og Úlfarsfell til skiptis á þriðjudögum og safna svo fjallstindum einn laugardag í mánuði... eftir nokkra þriðjudaga fengum við svo mikinn leiða á þessum tveimur fjöllum að við fórum að færa okkur á hin fjöllin við borgina... og komumst smám saman að því að það er hægt að fara kyngimagnaðar fjallgöngur á þriðjudagskveldi allt árið um kring... ef maður bara reimar á sig skóna og leggur af stað....


Herdísarvíkurfjall er nýtt fjall í safn Toppfara og þjálfarar ákváðu að hafa það frekar en óhefðbundna leið upp Vífilsfellið sem var fyrst á dagskránni af því sú leið er frekar brött og hentaði ekki gestum sem vonandi myndu mæta í afmælið okkar...


Og hvílík mæting ! Alls 34 manns mættir, þar af fjórir gestir og tveir af þeim á unglingsaldri.... þrátt fyrir að veðrið væri ekki sérlega gott... og spáin sæmileg... vindur og rigning í kortunum en svo átti reyndar aðeins að létta til... og það rættist eins og stafur í bók...


Köflóttar skyrtur og barðastórir hattar voru þema þessa afmælis... og Þórkatla tók sig til og heklaði barðastóran hatt... hvílík snilld hjá henni... mikil hannyrðakona og búin að prjóna líklega flesta fylgihluti riddarapeysunnar...


Herdísarvíkurfjall er hömrum girt í ókleifu klettabelti en á einum stað hefur hraun runnið niður hlíðarnar og teppalagt þessa fínu leið upp fyrir göngumenn eins og okkur... Mosaskarð heitir það... og vestan við hamrana um 5 kílómetrum frá okkar uppgönguleið...


Hörkuuppganga sem reyndi á í logni og hlýindum...


Hvíld í miðri brekku fjallsins... hversu magnað þetta landslag er... kúrekahattarnir pössuðu undarlega vel við náttúruna... og voru mun hentugri búnaður en maður hefði haldið...


Það er komin venja á að hafa myndirnar í afmælisgöngunni svarthvítar... af því fyrsta gangan var eftirherma af gömlum myndum af fjallgöngufólki í pilsum og skyrtum lengst uppi kolsprungnum jöklum...


Það var eitthvað undarlega svalt við þessa hatta og köflóttu skyrtur... kom á óvart... þetta var æfing í hugrekki... að þora að mæta í fjallgöngu eins og kúreki... og hlæja bara að sjálfum sér og hinum með hattana... miklu skemmtilegra en að vera hinn gæinn...


Það er eitthvað lúmskt gaman að því að taka svona þema alla leið og hlæja hæst af öllum yfir þessari vitleysu að fara á fjall í kúrekafötum í rigningu og vindi... þetta þema skilar sér ekkert síður í litmyndum... hvílíkir snillingar sem þið eruð... og englar elskurnar... takk fyrir allt...


Skagfirsk Systra sveifla tekin alla leið... snillingar og englar í gegn...


Hver fer eiginlega á fjall í rigningu og vindi með kúrekahatta í köflóttum skyrtum... og skemmtir sér konunglega í hverju skrefi upp brattar brekkur og yfir úfið hraun ? ... jú, við :-)


Birgir, Hjördís, Oddný T., Gerður Jens., Gréta, Örn, Sigurjón og Vilhjálmur... yndislegt fólk sem við erum svo ótrúlega heppin að hafa innan okkar raða... takk fyrir okkur elskurnar...


Höfðingjar klúbbsins eru um leið okkar mestu töffarar... hver leggur í fjallgöngu í öllum veðrum áratugum saman og nýtur hverrar göngu til hins ítrasta sem væri sú fyrsta ?

... pant gefa aldrei eftir... halda sér í góðu líkamlegu formi alla ævi... og feta í fótspor þessa aðdáunarverða fólks

Jafn svöl í svarthvítu... magnað fólki !


Brekkan var ekki alveg búin...


Flott hrauntröð efst... við vissum ekkert hvort hraunið uppi yrði illfært... þetta voru ókunnar slóðir fyrir þjálfara eins og aðra... við eltum bara gps-punkt sem Örn setti í tækið sitt af korti úr basecamp... en tindurinn sá var merktur á réttum stað...


Lungamjúkur mosi og mjög hrjúft hraunið á köflum...


Hér kom rigning og við urðum að fara í jakkana... yfir köflóttu skyrturnar sem var svekkjandi... en við erum vön öllum veðrum og létum ekkert slá okkur út af laginu...


Lexía kvöldsins var sú að barðastór hattur skýlir manni alveg fyrir rigningu, kulda og vindi... stórmerkilegt að upplifa það...

... og skyrta yfir ullarbol tekur vind og er léttari og þægilegri en stífur jakki... merkilegt og gaman að prófa... það sem manni þykir vænt um þetta fólk...


Konur Toppfara eru svo miklar skvísur...


... í miðjum töffaraskapnum við að gefa strákunum ekkert eftir í fjallgöngunum... einfaldlega geggjaðar konur !


Bræður, systur, synir og makar... það er eitthvað einstaklega fallegt þegar systkini stunda saman með okkur fjallgöngurnar... sem og þegar börn klúbbmeðlima koma með í göngu... hvort sem þau eru orðin fullorðin eður ei...


... kannski ættum við að hafa barnaþema á 16 ára afmælinu á næsta ári... smita fleiri úr fjölskyldunum okkar af fjallgöngum og útiveru á fallegum stöðum...


Gestir kvöldsins voru nokkrir og stóðu sig glimrandi vel... Jakob 17 ára, Alex 15 ára og svo Írunn og Tómas... með nokkrum Toppförum á mynd...


Hundurinn Batman stillti sér meira að segja upp og var greinilega ánægður með þetta svarthvíta myndaþema...

Uppi á Herdísarvíkurfjall var gaman að koma...


Mosaslegin hraunbreiða sem bar vitni um mikið magn rennandi hér ofan úr gígum ofar í landinu... Herdísarvíkurhraunið... þar leynast hellar með sögu:



Nokkuð krefjandi leið í mjög mjúkum mosa en vel fært...


Við reyndum að hlífa mosanum... 34 manns á ferð... erfitt að skilja ekki eftir sig slóð...


Heilmikið landslag þarna uppi... Reykjanesið er kyngimagnað landsvæði !


Uppi jókst rigningin og rokið... þetta leit ekki sérlega vel út... einn gestanna sneri við á þessum tímapunkti og þjálfarar ákváðu að halda aðeins áfram áður en snúið yrði við... við myndum bara taka þennan tind seinna... en svo lagaðist veðrið og við náðum alla leið á efsta punkt Herdísar...


Niður stórt gil sem virkaði eins og eldgömul hrauntröð...


Einhverjir höfðu áhyggjur af jarðhræringum á Reykjanesi þessa dagana... en menn spá hræringum hér jafnvel í 200 - 300 ár... svo það er ekki ráð annað en láta slag standa, gæta sín á grjóthruni og velja leiðir sem henta hverju sinni... þessi var alsaklaus og hentaði vel með jarðskjálftahrinurnar þessa dagana beggja vegna þessa svæðis í raun...


Bræður á fjöllum...


... Sigurjón og Vilhjálmur... miklir eðalmenn og öðlingar sem við erum svo þakklát að hafa innan okkar raða...


Eðalhjónin María og Gunnar sem hafa farið með okkur í ævintýralega margar ferðir í gegnum tíðina og gert mikið fyrir okkur og klúbbinn... takk elskurnar fyrir allt og allt...


Tvö af nýliðum ársins... Vignir og Anna Berglind sem mætt hafa nokkrum sinnum og gefa mjög góðan anda inn í hópinn... með lítil börn heima sem flækir svolítið málin en vonandi ná þau að mæta áfram með okkur...


Bjarni og Gerður Jens... dásamlegt fólk sem okkur þykir ólýsanlega vænt um... elja og þrautsegja einkennir þau bæði... ekkert vesen... bara gaman... alltaf...


Tindurinn var 12 metrum frá gps-punktinum sem Örn merkti inn... á honum var smávegis varða í upphafsferli... við bættum á hana smá grjóti til að halda þeirri vinnu áfram... og hjálpa þeim sem á eftir okkur koma því ekki var hægt að segja að tindur Herdísarvíkurfjalls væri augljós þar sem hann er... fjöldi hóla um allt á þessari heiði...


Á tindinum var rok og rigning... við hættum við að taka hópmynd hér...


... en drifum svo í henni við klettahjallann sem var við tindinn... og út kom þessi mergjaða mynd !


Mættir voru: Anna Berglind, Bára, Birgir, Bjarni, Björgólfur, Gerður Jens., Gréta, Guðmundur Jón, Gunnar, Hjördís, Inga Guðrún, Jaana, Jóhanna D., Katrín Kj., Lilja Sesselja, Linda, María E., Njóla, Oddný T., Sigrún Bjarna., Sigurbjörg, Siggi, Sigurjón, Silla, Sjöfn Kr., Vignir, Vilhjálmur, Þorleifur, Þórkatla og Örn... og gestir kvöldsins voru Jakob sonur Birgis og Írunn, Tómas og Alex... og hundar kvöldsins voru Batman og Kolka... og Bára tók mynd...


Fljót aftur í skjólfatnaðinn eftir að hafa verið eingöngu í köflóttu skyrtunum... þetta fyrirsætulíf á fjöllum er stundum erfitt... :-) :-) :-)


Við ákváðum að fara í smá skjól fyrir nesti...


Þjálfarar eru alltaf með freyðivín þegar skála er fyrir hinu og þessu... en ákváðu að taka með himneska heilsudrykki og smá djöfladrykk frá helvíti... sem smökkuðuðst allir vel og báru með sér góðan anda sama hvað nafnið sagði sko :-)


Guðmundur Jón í nýrri riddarapeysu með appelsínugult glas í stíl... og Silla með smá kampavínsglas...


Konur Toppfara eru töffarar inn að beini... gefa strákunum ekkert eftir og hafa afrekað ótrúlegustu fjallgöngur þar sem virkilega hefur reynt á...


Frænkurnar Njóla og Inga Guðrún sem hafa báðar marga fjöruna sopið í klúbbnum... og eru geggjaður félagsskapur sem gefa hópnum og okkur mikið...


FFF... fræknir feðgar á fjöllum fremst á mynd... Birgir og Jakob 17 ára...


... við náðum að hafa smá nestispásu í bakaleiðinni þar sem veðrið snarlagaðist er leið á kvöldið...


Fleiri með smá smakk á góðgæti... þessi nestispása slapp mun betur en við þorðum að vona...


Verst að þjálfari náði ekki myndum af öllum að hafa það svo notalegt...


Til baka var farið svipaða leið og hér batnaði veðrið hratt... varð aftur bjart til fjalla og sólin var ekki langt undan...


Ekki vindur né rigning... sem betur fer snerum við ekki við og slepptum tindinum...


Niður svipaða leið um hraunfallið...


Löng og krefjandi leið en lungamjúk og saklaus...


Dúandi leiðin svo á láglendi að girðiðngunni þar sem smá slóði er eftir vinnumennina sem nýtist vel sem gönguslóði að fjallinu því hraunið er mjög úfið nær ströndinni...


Afmælisfjall kvöldsins... Herdísarvíkurfjall með Lindu og Sillu í forgrunni... Perúfararnir nýkomnir heim úr magnaðri ferð og höfðu frá svo mörgu að segja af þessu ævintýralega landi...


Yndislegar konur tvær sem gefa klúbbnum svo mikið... ekki hægt að biðja um betri göngufélaga...


Mögnuð uppgönguleið á Herdísarvíkurfjall upp þornaðan hraunstrauminn sem hefur lekið niður fjallið á sínum tíma... tíkin Kolka hennar Oddnýjar og Jakob sonur Birgis í forgrunni...

... heiður að fá unga fólkið í heimsókn til okkar í göngu... Jakob og Alex... þið eruð alltaf velkomnir með okkur í fjallgöngu...


Höfðingi Toppfara í nýrri riddarapeysu úr smiðju Katrínar prjónameistara klúbbsins sem hefur prjónað á okkur marga vettlingana og jafnvel heilu peysurnar...


GuðmundurJón er alveg í stíl við landslagið og sólarbjarmann sem skreytti bakaleiðina þetta kvöld... í stuttbuxum allt kvöldið gegnum rigningu og vind fyrri hluta göngunnar... þessir höfðingjar láta ekki að sér hæða !


Þessi mynd fór á flug á samskiptamiðlunum... eins og fleiri riddarapeysumyndir... hvílík snilldaritasamsetning... eðalmaður á ferð...


Sólin í bakaleiðinni keyrandi heim... um okkar fallega Ísland óskaði okkur hlýlega til hamingju með afmælið... og hvíslaði því að okkur að láta ei deigan síga... halda áfram okkar för...


... að gleyma ekki að vera þakklát... vera alltaf hlý og góð hvert við annað... hampa sérkennilegheitum hvers og eins... njóta fjölbreytileikans sem einkennir þennan hóp...


... rækta vináttuna sem hefur myndast innan okkar raða... gefa alltaf bros og gleði til næsta manns... rétta hvort öðru hjálparhönd þegar hennar er þörf... sýna hvort öðru alltaf virðingu ... kalla fram það besta í næsta manni...


... að halda áfram að þjálfa styrk og hugrekkið gegn veðri og vindum... viðhalda áræðni og forvitni gegn ókunnum slóðum... halda okkur í góðu líkamlegu formi til þess að geta áfram uppgötvað nýjar slóðir um óbyggðir landsins... já... höldum áfram !


Alls 8,4 km á 3:26 klst. upp í 350 m hæð með 447 m hækkun úr 22 m upphafshæð.

51 views0 comments
bottom of page