Æfing nr. 776 þriðjudaginn 24. október 2023.
Eftir frestun um eina viku á Lokufjallið vegna slagviðris í síðustu viku... sem gaf okkur frískandi skemmtilega göngu á Úlfarsfellið í roki og rigningu... var komið blíðskaparveður þessa síðustu daga í október... logn og sól ríkti dögum saman og við nutum þess í botn. Aftur frábær mæting, alls 23 manns og algert logn alla gönguna, líka uppi á Hnefa sem er einstakt en líklega telst árið 2023 til þess árs þar sem mest logn hefur ríkt á þessum 17 árum sem klúbburinn hefur verið starfandi. Hestar kíktu við fyrsta kaflann upp á Lokufjallið og fjórir hundar nutu lífsins með okkur en reyndar þurfti Týra að víkja og vera inni í bíl þar sem hún var á lóðaríi og Batman var alveg til í að búa til hvolpa með henni aldrei þessu vant hjá báðum þessum hundum :-) Yndislegt kvöld, veður, skyggni og stemning, sólsetur, ljósaskipti og svo myrkur og við nutum þess að taka góða æfingu saman en oftar en ekki höfum við verið við harðneskjulegri aðstæður á þessari leið.
Bára þjálfari lét vita að hún fékk tíma í liðþófaaðgerð næsta föstudag og sagðist galvösk koma aftur í fjallgöngur eftir um 3 vikur en það reyndist aldeilis ekki rétt... engar fjallgöngur í 2 mánuði svo út árið verður Örn einn með þriðjudagsgöngurnar og býður upp á mergjaðar tindferðir um helgar eins og honum einum er lagið... Hátindur fyrstur á dagskrá næstu helgi og áfram er spáð sama dásemdarveðrinu.
Alls 6,8 km á 2:34 klst. upp í 430 m hæð með alls 440 m hækkun úr 52 m upphafshæð.
Gps-slóð af þessari leið frá árinu 2017 hér: Wikiloc | Lokufjall og Hnefi 280217 Trail
Ljósmyndir úr göngunni hér, sjá nafnalista við hópmyndina neðar:
Mættir voru 23 manns:
Fanney, Siggi, Kolbeinn, Örn, Aníra, Þorleifur, Sighvatur, Sjöfn Kr., Brynjar, Gerður Jens., Björg, Linda, Kristjana, Sigubjörg, Birgir, Katrín Kj., Ása, Sigrún Anna, Inga, Oddný G., Karen Rut og Guðmundur Jón en Bára tók mynd og hundarnir Batman, Hetja, Myrra og Týra mættu í smitandi gleðinni sinni sem við erum svo þakklát fyrir því hún minnir okkur á að við erum ekki einu skepnur jarðarinnar og á engan hátt æðri öðrum... #Þriðjudagsþakklæti
Eigum við að taka riddara- og prjónapeysumynd ? Ha, nei, er það nokkuð... nei, nenni ekki að klæða mig í eða úr... æj, jú, hey, það eru einhverjir tilbúnir... allt í lagi...
Líklega síðasta riddara- prjónapeysumynd ársins á þriðjudegi... margar svo fallegar !
Nestistími uppi á fjalli í logni ? ... mjög sjaldgæft... en ótrúlega oft á þessu ári 2023... líklega lygnasta árið í 17 ára sögu klúbbsins... takk fyrir allt lognið árið 2023... #Þriðjudagsþakklæti
Takk fyrir yndisgöngu og dásemdarfélagsskap elskurnar :-)
Comments