top of page

Hrútagjá í krefjandi en hrífandi skemmtilegu klöngri.

Updated: Oct 10, 2022

Æfing nr. 723 þriðjudaginn 27. september 2022.


Þrisvar höfum við komið við í Hrútagjá á annarri leið um Reykjanesið... tvisvar á leið á Mávahlíðar og fyrr á þessu ári í legg þrjú #ÞvertyfirÍsland frá Keili í Kaldársel... en nú var ætlunin að dóla okkur um þessa gjá á haustkveldi og skoða hana vel...


Þjálfarar vissu lítið um leiðir um gjána en sáu að menn virðast fara nokkuð svipaða leið um jaðra hennar og svo milli þeirra á mismunandi leiðum skv. wikiloc...


Þegar komið var á svæðið virtist þetta ósköp umfangslítið og kvenþjálfarinn spáði í að breyta þessu bara í göngu á Mávahlíðar... en við ákváðum að sjá aðeins til og fara að hrauntröðinni vestan megin...


Nokkrar gjár eru á svæðinu og tiltölulega erfitt að átta sig á hvar hin raunverulega Hrútagjá er og hversu langt hún nær...


Hér sést til Sandfells... ekki Litla Sandfells eins og þjálfari kallaði það... og fjær vinstra megin út af mynd er Fjallið eina...


Þegar við komum fram á gjána hér ákváðum við að prófa að fara niður í hana og sjá hvort við kæmumst upp með að þræða okkur eftir henni til norðurs... en sjá má hvernig hún þynnist út hér til suðurs... en hún nær mun lengra til suðurs ef marka má fyrri leiðir okkar um hana þar sem við höfum komið við ofan í henni sunnar en hér...


Klöngur og brölt er nauðsynlegt að æfa sem mest á þriðjudögum þannig að ekkert komi manni á óvart í tindferðunum og því var þetta kvöld tilvalið til að skerpa á handbrögðum, öryggi og líkamsbeitingu í endalausu brölti í klettum, grjóti og hrauni...


Farið hér niður á gjána... ferfætlingar kvöldsins voru sex... Batman, Bónó, Gotti, Moli, Skuggi og svo nýr hundur að mæta í fyrsta sinn... hún Hetja með henni Kareni og stóð hún sig sannarlega eins og hetja í að yfirstíga óttann sem fyrst tók hana heljartökum í klettaklöngrinu...


Ofan í gjánni tók við tafsamt og krefjandi klöngur sem var mjög skemmtilegt þó erfitt væri á köflum en hér reynd á útsjónarsemi, öryggi og fótafimi...


Leiðin var flóknari fyrir hundana þar sem þetta var stórgrýtt á köflum og við töfðumst heilmikið við að koma hundunum í gegnum suma kaflana... bera þurfti þá á milli eða tala þá til því sumum þeirra leist ekkert á blikuna...


Hundurinn Hetja hér komin í band að fara yfir eitt haftið með Kareni en hún lærði mikið í þessari ferð og var orðin ansi örugg þegar yfir lauk...


Edwin var í sinni fyrstu þriðjudagsgöngu í klúbbnum eftir tvær langar og strangar tindferðir í haust... og var í essinu sínu... þetta var að hans skapi eins og margra fleiri þetta kvöld sem elska að príla og klifra sem mest... en hann var einstaklega hjálpsamur með hundana aftast og þökkum við honum kærlega fyrir hjálpsemina...


Stundum var eins og við kæmumst ekki lengra og yrðum að finna leið upp úr gjánni... en það var alltaf leið og við héldum áfram...


Sjá grjóthrúgurnar í gjánni... þetta var varasamt landslag og við reyndum að velja öruggar leiðir... nokkur hrufl sátu eftir þessa æfingu og einhverjir runnu til á grjótinu þegar mosinn gaf eftir og þurftu hjálp frá félögunum... og Þórunn fór ofan í gjótu meira að segja... en allt minniháttar og sagði mest til um hversu mikið príl þetta var...


Hópmynd í Hrútagjá... gjáin er svo stór að hún gleypir stóran hóp Toppfara eins og ekkert sé...


Reynt að ná samhengi landslagsins hér...


Mættir voru: Arna Harðar., Bára, Bjarnþóra, Dagbjört, Edwin, Guðmundur Jón, Haukur, Inga Guðrún, Jóhanna D., Jón St., Karen Rut, Kristín Leifs., Linda, Oddný T., Sigurbjörg, Siggi, Sjöfn Kr., Steinunn Sn., Valla, Vilhjálmur, Þorleifur, Þórkatla, Þórunn og Örn en Bára tók mynd og hundarnir voru alls sex: Batman, Bónó, Gotti, Hetja, Moli og Skuggi...


Bíddu... ha... er leið fær áfram hér... jebbs... það var alltaf leið... stundum fleiri en ein... og hundarnir fóru stundum sínar eigin leiðir...


En stundum þurftu þeir smá hjálp... þó duglegir væru með eindæmum...


Skuggi var svalur enda ýmsu vanur eins og fleiri... þeir þurfa auðvitað sína æfingu í þessu eins og við...


Alls 25 manns að koma sér hér upp með smá útsjónarsemi... já... þetta tók tíma... og var ansi skemmtileg æfing...


Stundum náðum við lengra upp í dagsljósið... en stundum vorum við djúpt ofan í gjánni... það var algert logn... en í þessu landslagi hefði verið skjól í vindi...


Komin til norðurendans hér og Fjallið eina í sjónmáli milli klettanna... Reykjavegarslóðin hér neðan við sem tekur sveig kringum Hrútagjána milli hennar og Sandfellsins... vá... okkur tókst að fara alla leið til enda...


Hér snerum við við... en svo ákvað þjálfari að skella í eina riddarapeysumynd...


Riddarapeysurnar og vinir hennar... allar prjónapeysur kvöldsins saman á mynd... gaman að sjá ólík prjónamynstur og um að gera að eiga fleiri en eina prjónapeysu... sum okkar erum með riddarapeysublæti... og eigum fleiri en eina peysu...


Bakaleiðin var mun greiðfærari en bröltið í gegnum gjána...


Við fórum upp á hrauntungurnar til að byrja með...


... og vorum fljótlega komin á slóða alla leið til baka sem er greinilega mikið genginn... en misstum í raun af innsta hlutanum af þessum slóða sem gefur að því okkur skilst fallegt landslag austar í norðurvegg gjárinnar... gott að eiga það eftir fyrir næstu æfingu um þessa gjá eftir 3 ár eða svo... en þá skulum við byrja á þessum enda og skoða þann undraheim...


Flott bakaleið í húminu sem nú lagðist yfir... sólin sest og það rökkvaði hratt...


Markmiðið var að ná í bílana áður en það skylli á myrkur...


... og það tókst... frábært að komast höfuðljósalaus í gegnum september... nóg er eftir af myrkri að ganga í næstu vikurnar...


Sem fyrr síðustu þriðjudaga... skall myrkrið á keyrandi heim á leið...


Alls 3,8 km á 2:20 klst. upp í 236 m hæð með alls 101 m hækkun úr 222 m upphafshæð...


Frábær öðruvísi æfing en vanalega... vonandi allir hæstánægðir með kvöldið og enginn hvekktur eftir þetta verkefni... þrátt fyrir hrufl og sár hér og þar... mögnuð frammistaða hjá öllum og dýrmætt að sjá gleðina, þakklætið, hjálpsemina, útsjónarsemina og jákvæðnina innan hópsins... einfaldlega mögnuð frammistaða hjá mönnum / fólki og hundum :-) :-) :-) Þið eruð best elskurnar !

73 views0 comments

댓글


bottom of page