Uppgjör á Hálftímanum og Vinafjallinu árið 2024 #Hálftíminn og #Vinafjalliðmitt
Alls tóku 7 manns þátt í að reyna að hreyfa sig í hálftíma á dag sem var áskorun Toppfara árið 2024 og eins og síðustu ár var þó nokkur fjöldi sem gekk á vinafjallið sitt 52 ferðir eða fleiri og melduðu inn sínar samantektir.
Fjórir þátttakenda náðu að ganga bókstaflega hvern einasta dag ársins 2024 eða alls 366 daga og er það aðdáunarvert afrek og segir allt um úthald og elju þessara einstaklinga, enda algerir meistarar öll sem eitt, en þetta voru þau Aníta, Fanney, Kolbeinn og Sjöfn Kr.
Hér koma meldingar hver og eins... okkur öllum til skemmtunar, aðhalds og hvatningar... þetta eru náttúrulega snillingar allt saman...
Og auðvitað drógu þjálfarar einn úr sem tók þátt í Hálftímanum og það var Fanney sem vann sér inn frítt árgjald í klúbbnum en frásögn hennar eins og fleiri hér fyrir neðan er unun að lesa og sannarlega hvetjandi og nærandi :-)
Aníta:

"Ærslabelgirnir Fanney, Sjöfn og ég sammæltumst á innsoginu snemma árs, nánast með hráka handabandi svo mikið var okkur niðri fyrir, að hálftíminn væri ekki eitthvað dagligdags bras heldur SÉR HÁLFTÍMI.
Það sannaðist á fyrsta degi Mont Blanc ævintýris að þegar massívu túrista arki lauk og liðsmenn hlussuðust íssaddir á hótel… þá fyrst var Strava sett í gang með viðhöfn og þeyst í sitthvora áttina… í hálftíma.
Ég gerði samt eina undantekningu á þessari reglu á árinu þegar dóttirin, sem auðvitað álítur móður sína heljarmenni með meiru, bað mig um að bera dáldið mikið parket af 4. hæð, sem á endanum fyllti tvo sendibíla… og svo náttla að losa þá líka í Sorpugám. Sjáðu til… þetta urðu nebblega 55 ferðir upp á 4. hæð og svo niður með ígildi þyngri bakpoka en hollt er smávöxnum og dvergum. Og þegar ég uppgötvaði að þetta dagligdags bras hefði nú örugglega verið sjúklega mikil hækkun þá voru herlegheitin snarlega öppgreiduð í HÁLFTÍMA
Des var massagóður með færri tímum í kennslu og þ.a.l. meiri tíma í útiveru.
62 klst, 142km og 8976m í hækkun
13 þrek og styrkæfingar
4 jógaæfingar
1 láglendisganga
25 fjallgöngur
1 fjallahlaup
2024 UPPGJÖRIÐ
Sum markmið gaf ég skít í, svona eins og maður gerir, sum massaði ég allt of fljótt og sumum náði ég ekki.
Hreyfing alla daga 100%
Hækkunarmarkmið 100.000m, náði 90.240 eða 90,24%
Km markmið 1321km - fór yfir í 1523
Fjallahlaupamarkmið 2x í mánuði... dúndraði inn fjöldanum á vormánuðum og ignoraði hina mánuðina... 100%
104 Úlfarsfellstindar... tók 110
100% mæting í þriðjudagsgöngur... 100%
52 lyftingaræfingar í sal...
=
861 klst í æfingar eða um 2klst og 20mín að jafnaði á dag
Þrek og styrkæfingar 221
Jóga 88
Lyftingaræfingar 9
Hjólatúrar 4
Láglendishundagöngur 37
Fjallgöngur og fjallahlaup 185 (þ.a. tindferðir Toppfara 27/33 og þriðjudags 51)
Ætli mesta afrekið hafi ekki verið að detta á rassinn á jafnsléttu á toppi Baulu.
2025 MARKMIÐIN
Hálftíminn er fokking heilagur með engri undanlátssemi
120.000 hækkunarmetrar
2000km fjallganga og hlaup
Fjallgöngur og fjallahlaup 183 skipti
Vinafjöllin verða Esja og Úlfarsfell og fá 54 toppheimsóknir hvor
Fjallahlaup 1x í viku (ég lofa að troða því ekki á örfáa mánuði )
Mobility 2x í viku
Krossþjálfun, þ.e. 4 mismunandi æfingaform í hverri viku
52x lyftingaræfingar... já já... taka tvö
100% mæting í þriðjudagsæfingar
Mig langar sjúklega í 100% tindferðir svo ég ætla að forgangsraða í samræmi. Svo kemur lífið í ljós.
Matterhorn
Segja fleiri brandara og vera með meiri læti
Og vera almennt á algjörri sjálfshátíð
Takk fyrir mig
Við erum best í heimi... pottþétt"
Bára:

"Samkvæmt Strava hreyfði ég mig 353 daga af 366 dögum ársins og vantaði því 14 daga upp á Hálftímann. Ha, ég ? Trúi þessu ekki !
Svolítið svekkjandi þar sem ég reyndi að láta annríki og veikindi ekki stöðva mig en mér tókst samt að missa úr 14 daga sem mér finnst ótrúlegt. Hélt að þetta væru kannski fimm dagar... :-) (afneitun.is). En svona er tölfræðin góð og afhúpandi. Dj. skal ég bæta mig árið 2025 og ná öllum dögunum sko ! ... hahaha...
Ég fór alls 2.496 km á árinu á 586 klst. með alls 81.503 m hækkun og í alls níu mismunandi hreyfingum. Hreyfingin á árinu jókst um 22 - 49% eftir því hvort um var að ræða fjölda daga, kílómetra, hækkunarmetra eða klukkustunda og því ekki annað hægt en draga þá ályktun að Hálftíminn hafi aukið svona við hreyfinguna almennt.
Hálftíminn var alger snilld og kom mér oft út að hreyfa mig þegar ég hefði annars æft afsakanir af miklum móð og var stórmerklegt að uppgötva að nánast alltaf getur maður kreist úr hálftímahreyfingu í annríki dagsins og það allra merkilegasta var... að aldrei var maður svekktur yfir þessari áskorun þegar þessum hálftíma var lokið, þó stundum væri maður veikur eða mjög þreyttur að drattast af stað, í myrkri, erfiðu veðri, ófærð, undir álagi eða hvað eina annað manni til flókinda.
Hálftíminn er því kominn til að vera í lífsstíl mínum og okkar Arnar... við saman á elliheimilinu að taka gangana í 30 mín útskýrandi fyrir starfsfólkinu að þetta sé sko "Hálftíminn"... ha ? vitið þið ekki hvað "Hálftíminn er ?" ... haha... :-)
Ég náði 60 ferðum á Úlfarsfellið en ætlaði 100 ferðir en hnéð fór í mask í Mont Blanc ferðinni stóru á niðurleiðinni af Aiguille du Tour sem var svo stórkostleg ganga að ég fyrirgaf þessu fjalli fyrir að færa hnéð aftur í slæmt ástand... en þessi ferð gaf mér einnig svakalega lungnabólgu sem fór ekki úr mér endanlega fyrr en í lok sumarsins og litaði þessi pest annað heilt sumar í mínu lífi eins og sumarið 2021 þegar það tók mig nákvæmlega 100 daga að losna við slæma influensu þá (parainfluensa týpa 2), en kannski var þetta bara covid19... veit það ekki, fer helst ekki í sýnatöku og er búin að læra að influensan er ekkert skárri en þetta kóf og því breytir það engu.
Lærdómurinn af Hálftímanum er sá að dagleg hreyfing er lífsstíll sem mér líkar mjög vel við. Ég gæti samt haft meiri metnað í hvaða hreyfing þetta er, ég er að festast í göngutúrunum með Batman sem er létt leið út úr honum og eins er ég að skrá það að fara "út að leika með barnabörnunum" og "garðvinnu" sem hálftímann, en það er samt kannski líka góð leið til að hálftíminn verði manni ekki íþyngjandi til langs tíma (marga ára) litið, því í báðum tilfellum er um heilmikla hreyfingu og álag að ræða sem tekur tíma og orku.
Ég styð rökin að þetta megi vera önnur hreyfing en skipulögð líkamsrækt eins og t. d. að heimilisþrif fái að mælast sem hálftíminn sem mér skilst að sé ekki samþykkt í Lífshlaupinu, þar sem ég allavega tek þrifin með hamagangi og svitna alltaf mikið og þarf að vera í hlírabol í átökunum og skipta honum út í lokin, hahahah... en ég skil líka rök Lífshlaupsreglugerðarfólksins. Hver ákveður bara og hefur þetta eins og honum finnst. Hálftími í léttar gólfæfingar eða lóðalyftingar í ræktinni er léttara fyrir mig en að ryksuga, skúra, þurrka af og þrífa baðherbergið í hamagangi til að ljúka þessum leiðingum af sem fyrst - svo út frá því finnst mér réttlætanlegt að hafa heimilisþrif með í Hálftímanum... en... samt ætla ég ekki að gera það... en út að leika með barnabörnunum og garðvinna... jú... það eru heilmikil átök, lyftingar, teygjur, þol og styrkur sem jafnast pottþétt á við ketilbjöllutíma takk fyrir :-) En ef einhverjum finnast heimilisþrif mega vera hálftími, þá er ég sammála því... allt... til að hreyfa sig í hálftíma á dag... er sigur !
Þá langar mig að benda á að ef maður eltist við svona áskoranir eins og Hálftímann eða Vinafjallið yfirleitt, af því þetta hugnast ekki öllum sem ég skil en er svolítið miður... þá uppgötvar maður að margar af þessum ferðum / hreyfingum þar sem maður drífur sig út í alls kyns veðrum og færð (sem maður hefði annars ekki farið nema vegna óskorunarinnar) - gefa manni ótrúlegar upplifanir og margar mjög sérstakar... t. d. þegar ég gleymdi keðjubroddunum... og klæddi skóna mína í mjög svo "allt ofstóru ullarbelgvettlinga mína sem ég prjónaði hér um árið og hjóluðu t. d. með mér í átta ár í vinnuna... og þannig komst ég upp og niður Úlfarsfellið í fljúgandi hálku alla leiðina... en hefði annars þurft frá að hverfa... og fleiri skipti... ótrúlega falleg samskipti við ókunnuga sem verða á vegi manns... o. s. frv...
Sem betur fer á maður vinafjall og sem betur fer er maður að eltast við þennan Hálftíma... því í mörg skipti eru þetta heilt ferðalag, hugljómun, hugbreytandi upplifun... þar sem margt gerist og maður kemur ekki bara sterkari heim heldur líka ríkari...
Ætla að bæta mig í fjölbreytni og þolæfingaálagi árið 2025 og fara á Esjuna í stað Úlfarsfells og krossþjálfa 4 hreyfingar á viku, því mig langar að synda og hjóla meira og ég þarf að lyfta eða gera styrktaræfingar á gólfi með eigin líkamsþyngt... og mig langar að skokka smá ef ég get... alls 7 mismunandi hreyfingar sem væri mjög gaman að ná 52 skiptum í öllum á árinu.
Lærdómurinn af vinafjallinu mínu, Úlfarsfelli er sá að maður heldur sér sterkum og öruggum á fjöllum í öllum aðstæðum veðurs og færðar með því að hundskast í alls kyns veðrum þarna upp einn á ferð, dagsbirtu sem myrkri, að vetri sem sumri... því ef maður fer 52 - 100+ ferðir á vinafjallið allt árið... þá er engin leið að komast undan slæmum veðrum og þungri færð eða lítilli dagsbirtu... og velja bara góða veðrið að sumri til í sól... og með því að vera vanur slíkum breytileika í veðri og færð... stundum aleinn í brjáluðum byl þarna uppi... þá bregður manni ekkert í brún þegar vindurinn blæs eða það er snjóþungt og erfitt í lengri fjallgönguferðum... þolið agnvart alls kyns aðstæðum eykst við að fara vinafjallið og sjálfsöryggið og sjálfstæðið sömuleiðis. Bara það að þurfa að skella á sig keðjubroddunum í hverri viku mánuðum saman... styrkir mann... Maður er nefnilega ótrúlega oft að spora út slóð í nýföllnum snjó (fyrstur á svæðið) ef maður tekur Úlfarsfellið svona oft á ári. Vinafjallið þjálfar því ekki síður öryggi og andlegt úthald gegn krefjandi aðstæðum en líkamlegt form.
Læt hér fylgja með fyndnustu söguna af Hálftímanum frá mér á árinu, en oft var þetta ansi skrautlegt... að kreista út hálftímahreyfingu eftir veislur, viðburði, matarboð, barnabarnapössun, smíðar, málningavinnu, vaktir, ferðalög og ekki síst þrátt fyrir veikindi en ég fór ansi oft út að ganga lasin svo stundum jaðraði við vitleysu þó maður færi vel klæddur og rólega:
"Ég átti afmæli þann 21. febrúar á miðvikudegi, en þann dag var ég á dagvakt og fór beint út að borða og svo á körfuboltaleik Í Vesturbænum og ætlaði bara að taka hálftímagöngutúr heima fyrir upp úr kl. 22 til að ná hálftímanum.
Þegar við komum í KR-heimilið sá ég mér leik á borði þar sem um hálftími var í leik, að nýta tímann og ná þessari hálftímahreyfingu meðan við biðum eftir leiknum frekar en að eiga hann eftir heima seint um kvöldið.
Það var myrkur úti, frost og ískaldur vindur og svell á gangstéttunum... og ég tiplaði í sparifötunum á spariskónum kringum KR-völlinn þar sem leikur var í gangi og áhorfendur kappklæddir í napurleikanum... þegar hringnum lauk kringum völlinn eftir 18 mínútur (ég gekk hægt) - þá treysti ég mér ekki annan hring þar sem ég var orðin blá af kulda og þreytt í fótunum á þessum spariskóm og þreytt á að passa að detta ekki í hálkunni... og brá á það ráð að halda göngunni áfram inni í íþróttahúsinu... fyrir framan áhorfendapallana og foreldrana sem voru sestir til að horfa á leikinn... og meðfram vellinum þar sem þjálfararnir og leikmennirnir, þ.á.m. 19 ára sonur minn voru að hita upp fyrir leikinn... og einhverjir foreldrar heilsuðu mér og byrjuðu að spjalla en ég hélt bara áfram að ganga... í hringi... og gat ekki tekið þátt í samræðunum... og sagðist vera að taka þátt í Lífshlaupinu
Þegar leikurinn hófst var ég búin með 28 mínútur og varð auðvitað að klára 30 mínútur... ég, mamman... tiplaði því áfram meðfram íþróttavellinum á spariskónum í sparifötunum, þar til 30 mínútur voru liðnar... algerlega úr takti við það sem var að gerast í íþróttahúsinu (leikur í gangi og fólk að horfa á) - og settist svo loks eftir 2ja mínútna leik með hinum áhorfendunum sem horfðu á mig forviða fyrir taktleysið (var þessi kona ekki komin til að horfa á leikinn eða hvað ?) ... og muldraði einhver afsökunarorð um að þetta "væri sko fyrir Lífshlaupið" (af því ég vissi að það væri skiljanlegra) og svo jú áskorun um 30 mínútur á dag... en flestir heyrðu það ekki... og foreldrarnir, leikmennirnir og þjálfararnir halda líklega að þarna hafi mamma Hilmis í Haukum verið slegin einhverri skelfilegri sýniþörf eða tauvaveiklun og þurft að róa sig með því að arka fram og til baka um allt íþróttahúsið... þó leikurinn væri hafinn... og ég mun aldrei geta útskýrt þetta... já, svona er lífið þegar maður tekur þátt í hálftímanum...
En það þýðir ekkert annað en hlæja bara að þessu... og muna að þegar annað fólk hagar sér skyndilega eitthvað skringilega einhvers staðar... þá er kannski einhver svakalega góð og skiljanleg skýring á því... þó maður viti hana ekki... hahahaha :-)
Fanney:

"Gleðilegt ár kæru Toppfarar! Það var leiðinlegt að missa af göngunni í gær. Takk fyrir samfylgdina á liðnu ári og ég hlakka til fleiri ævintýra með ykkur á því nýja. Takk Bára og Örn fyrir að halda úti þessum klúbbi.
Hér kemur desemberbókhaldið fyrir #hálftíminn í síðasta skiptil. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt. Desember er ávallt annasamur og ég sé að mín hreyfing fór að mestu fram í Primal enda stutt að fara. Þetta endaði í 31 skipulagðri hreyfingu á 38,3 klst.
En þá að máli málanna! Ég ákvað í gamni að taka saman ársuppgjörið líka, þar sem maður er nú með þetta allt svona skráð. Ég missti aldrei úr dag, dröslaðist meira að segja í göngutúr með covid og 40 stiga hita, svo mikil var þrjóskan að ná öllum dögunum. Öll hreyfing fór fram utan vinnutíma (er í fullu starfi), nema 4 æfingar sem ég gerði baksviðs á Ellý, samtals 2 klst. En þetta urðu samtals 533,4 klst. af hreyfinru (það samsvarar 23 sólarhringum eða 69 vinnudögum) og voru æfingarnar 390 talsins. Mér finnst alveg magnað að sjá þetta svona samankomið.
Ég ætla að halda hálftímanum áfram á nýju ári, enda bara lífstíll sem er kominn til að vera. En ég ætla að gefa sjálfri mér séns ef að ég er veik eða á mjög löngum ferðadegi, en í mesta lagi 2x í mánuði og það á að vera undantekning en ekki reglan."
Halldóra Þórarins:

"Ég fór alls 55 ferðir á vinafjallið mitt Úlfarsfellið árið 2024, en ég náði ekki 52 ferðum þangað árið 2023.
Ég hef hingað til ekki verið að taka þátt í hálftímanum, en datt það svo í hug í fyrradag að reyna að ná allavega hálftíma hreyfingu 2/3 daga ársins. Allir þessir duglegu Toppfarar ýta manni af stað."
Inga:
"Ég var ekki með í 1/2 tímanum en kláraði 57 ferðir á úllann á sl. ári. Verð með í 1/2 tímanum þetta árið."
Jóhanna Fríða:

"Náði 350 dögum, 95,6 %, sem er nú töluvert minna en hjá sumum öðrum sjúklega duglegum Toppförum, en ég er mjög sátt.
Náði loksins skorpu með Toppförum (sex af ellefu göngum með ykkur, voru í desember), enda ökklinn LOKSINS orðinn góður og því mun, mun auðveldara að stökkva af stað en áður í óvissuklöngur og skemmtilegheit.
Það fór minna fyrir æfingum í desember en áður, mig vantaði meiri útiveru í lífið þennan mánuðinn.
Setti markmið upp úr miðjum desember að ná 53 ferðum (53 ára sko...) samtals á Helgafelli í Hafnarfirði og Úlfarsfell (Helgafell varð samt að eiga fleiri ferðir), sem og að ná samtals 2000 km í göngum (og 200 í desember), en sú tala verður hærri á þessu ári.
Markmið ársins eru frekar óljós eins og er, en hálftíminn heldur áfram hjá mér og ég ætla að taka þátt í áskoruninni um krossþjálfun.
Gleðilegt nýtt ár :-)"
Kolbeinn:

"Hér er Desember og allt árið hjá mér: "
Sighvatur:
"Hér er yfirlit yfir hreyfingu mína allt árið 2024.
***********************************************
2024 Km Klst. Hækkun Km
Ganga 2.120 812 66
Hjól 1.020 80 9
Sund 71 28
Samtals ganga, hjól og sund : 920 klst.
Önnur hreyfing: Skíði og skíðaganga og aðeins að byrja að hlaupa aftur.
360 km. af göngunni var yfir holt og hæðir á Camino Norte á Spáni.
30 mín: 90%
***********************************************
Það þarf ótrúlega seiglu til að ná 100% í "30 mínútum" eins og ég veit að a.m.k. þrír Toppfarar náðu - til hamingju með það!"
Siggi:

"Samkvæmt mínu bókhaldi áði ég 357 dögum með 1/2 tímann á dag."
Sjöfn Kr:
#hálftíminn í desember
"Gleðilegt ár öll sömul og kærar þakkir fyrir það gamla.
Ég náði að hreyfa mig minnst hálftíma alla daga í des, og náði þar með að sinna hálftímanum hvern einasta dag ársins, ánægð með það !
Fjaĺlgöngur 15
Láglendisgöngur 6
Rækt 11
Samtals 32 skipti
Fjallgöngur urðu 101,6km, láglendið 30.8km, Úlfarsfellin 9 og urðu alls 120 á árinu.
Hálftíminn er búinn að skerpa á lífsstílnum og mun ég hafa hann algjörlega til hliðsjónar á nýju ári og helst bara framvegis. Ætla samt að leyfa mér smá sveigjanleika og undanlátssemi ef aðstæður verða of krefjandi."
Örn:
Náði öllum dögunum nema einum.
--------------------------------------
Lokaorð frá þjálfara:
Takk innilega öll fyrir þátttökuna, hún fór fram úr væntingum því það er okkar reynsla að mörgum finnast áskoranirnar frábær hugmynd en svo er mun erfiðara að byrja og halda þær út, og að það hafi virkilega fjórum tekist að ná öllum 366 dögum ársins 2024 er hreint út sagt aðdáunarvert með meiru !
Til hamingju öll sömul elskurnar og til hamingju Fanney með vinninginn, árgjald í klúbbnum sem þú getur nýtt þegar hitt rennur út :-)

Comentarios