top of page

Jókubunga í Akrafjalli

Æfing nr. 751 þriðjudaginn 18. apríl 2023.


Í annað sinn ákváðum við að fara óhefðbundna leið upp á Akrafjall um Kúludal á Jókubungu á þriðjudagsæfingu en lentum í mikilli rigningu uppi og þegar göngu lauk beið bóndinn á bænum Kúludalsá okkar við hliðið og var ekki sátt við að gönguhópur færi þessa leið hér í gegn að fjallinu þar sem skógrækt væri hafin á svæðinu og það því viðkvæmt fyrir öllum átroðningi. Við báðum hana innilega afsökunar á því að hafa ekki fengið leyfi, höfðum ekki áttað okkur á því á þessum slóðum og vonum að hún hafi tekið útskýringum okkar og afsökunarbeiðni til greina, sjá nánar síðar í lok þessarar ferðasögu. Það skal því tekið fram hér strax og lögð mikil áhersla á það við alla sem lesa þetta, að þessi leið er ekki möguleg vegna skógræktar á svæðinu neðan við Kúludalinn, við biðjum alla að virða það og finna aðrar leiðir til að ganga á Akrafjallið enda af nægum öðrum leiðum að taka.

Við gengum meðfram læknum upp í mölina hér við Kúludal og vonum innilega að við höfum ekki stigið á eina einustu hríslu sem reynir að lifa hér af eftir gróðursetningu fyrir þremur árum síðan eða svo, því það viljum við alls ekki. Við erum vön að fá alltaf leyfi bænda þegar við förum um þeirra land á fjall, en í þessu tilfelli töldum við ekki þörf á því þar sem við lögðum síðast við þjóðveginn og gengum stuttan kafla yfir óræktað land að fjallinu, en jeppaslóðinn sem var nýttur síðast var horfinn undir nýlega vegöxl við þjóðveginn og við þurftum því óvænt að keyra bílunum gegnum hlið á öðrum slóða og leggja bílunum þar til að geta gengið upp eftir.


Klöngrast var inn Kúludalinn í grjótskriðum ofan við lækinn og var þetta heilmikið brölt...


En mjög falleg leið og gaman að upplifa leiðina í meiri dagsbirtu en síðast...


Innar í dalnum víkkar hann og brekkurnar upp úr honum verða vel færar...


Mjög þétt upp hér og reyndi því vel á en hér fór að rigna og á okkur runnu tvær grímur... eftir blíðskaparveður niðri vorum við að fara inn í blautt veður og ekkert skyggni...


Litið til baka út dalinn...


Tignarlegur dalur og virkilega fallegur...


Uppi á brúninni tók þokan við... og þaðan voru um 1,8 kílómetrar í Jókubunguna sjálfa...


Greiðfært og aflíðandi leið um mosavaxnar og grýttar grundir... en þoka umlukti allt því miður og ekkert skyggni til tindanna í Akrafjalli né útsýnisins sem þarna er...


Á Jókubungu var grenjandi rigning og sumir orðnir vel blautir... við tókum því frekar stutta matarpásu og snerum rösklega við til að koma hita í kroppinn með göngu...


Þegar aftur var komið að brúninni yfir Kúludal kom skyggnið... og við fengum smávegis innsýn í hvers lags útsýni gefst á þessu fjalli ef það er skyggni...


Við vorum enga stund hér niður... eins og hún reif í þessi brekka á uppleið...


Móða á myndavélinni í allri bleytunni... en í Kúludal var blíðskaparveður eins og á uppleið... þar var bara heiðin sjálf uppi sem var erfið í rigningu og þoku...


Að þessu sinni gengum við meðfram Kúludalsánni lunga úr leiðinni niður...


Stundum í lækjarfarveginum sjálfur þegar of bratt var til beggja hliða...


Stundum fórum við austan megin við lækinn en mestmegnis vorum við vesta megin...


Mjög falleg leið og dýrmæt æfing í brölti og klöngri...


Hér komum við okkur upp úr gljúfrinu... og héldum svo meðfram ánni í bílana yfir sama kaflann og á uppleið en engin mynd var tekin þar sem myndavélin var orðin blaut en við gengum hálf troðna slóð að okkur fannst og vonum innilega að engin trjágræðlingar hafi verið á þeirri slóð sem við sáum ekki og gátum stigið framhjá en við gætum þess alltaf hvar sem við göngum að hlífa gróðri sem mest.


Þegar við komum í bílana beið okkar sem fyrr segir bóndinn í Kúludalsá og fljótlega kom lögreglumaður frá Akranesi sem hún hafði kallað til. Við ræddum saman í dágóða stund og þjálfarar báðust innilega afsökunar á því að hafa ekki fengið leyfi til að fara frá þjóðveginum að fjallinu. Við vonum að bóndinn hafi sæst tekið afsökunarbeiðni okkar til greina og að hún sé ekki í ósátt við okkur eftir þetta samtal. Við pössum þetta mjög vel næst og förum aldrei án leyfis svona slóðir, þó stuttar séu og ómerktar nema í samráði við bóndann eða landeigandann á svæðinu. Þegar heim var komið setti þjálfari tilkynningu á lokaðan fb-hóp Toppfara og bað alla að deila ekki leiðinni né gps-slóðinni á samskiptamiðlum.


Höldum áfram að vera í góðu sambandi við bændur á þeim svæðum sem við göngum á, því það hefur oft gefið okkur mjög gefandi samskipti og vinalegar mótttökur í gegnum árin. Vinnum þetta saman með bændunum í góðum samskiptum við þá, það er alltaf betra og heilbrigðara fyrir alla. Takk bændur Íslands fyrir öll ykkar liðlegheit, vinsemd og hjálpsemi sem þið hafið auðsýnt okkur öll þessi ár þegar við höfum fengið að ganga um landið ykkar á leið upp í fjöllin... #Þriðjudagsþakklæti

29 views0 comments

Comments


bottom of page