top of page

Kálfstindar - Flosatindur á Þingvöllum

Síðasta þriðjudagsæfingin með þjálfurum fyrir sumarfrí 15. jún í 2021


Það var varla að það viðraði fyrir svona krefjandi kvöldgöngu eins og ætlunin var að taka á Flosatind í Kálfstindum þriðjudaginn 15. júní... mikill vindur og kuldi í kortunum... en ekki úrkoma og líklega skyggni... og þetta gæti vel sloppið... svo við héldum áætlun og lögðum í hann... í mun betra veðri en við þorðum að vona... enn einu sinni...


Flottur hópur á ferð... þessi kvöldganga var krefjandi... en samt léttari en Kjalardalurinn í Akrafjalli vikuna á undan... sem mjög margir mættu í... svo það er ljóst að við getum þetta alveg... þetta er sterkur og jákvæður hópur sem hugsar í lausnum og jákvæðni... ekki hindrunum eða úrtölum... Flosatindur í baksýn...


Hundurinn Nói nagaði þessa trjárót sem væri hún bein... meira krúttið...


Það er stígur til að byrja með alla leið upp í Flosaskarð... en Örn tók samt beinustu leið upp til að spara smá vegalengd enda skiptir ekki alveg máli hvar er farið þetta neðarlega...


Lausagrjót í skriðunum og því hægfarið og krefjandi... en stígurinn bjargar þessu...


Krefjandi leið sem tekur tíma... Lena að mæta í sína fyrstu göngu í nokkur ár og það var yndislegt að hitta hana aftur...


Flosaskarð... skjól hér og miklu betra veður þetta kvöld en við þorðum að vona...


Svo hófst ævintýraleg uppgangan... þétt hækkun í langan tíma með brölti í móbergi með lausagrjóti ofan á... ekki alveg uppáhalds... en verðlaunin slík að það er hvers skrefs virði...


Flott og vel fær leið að sumri... svolítið varasamari að vetri til... Elena lét þetta nægja og sneri við enda var þetta ekki besta gangan að mæta í eftir nokkurra ára hlé...


Þéttum hópinn reglulega og gættum að grjóthruni...


Syðri Kálfstindarnir tveir... Illkleifur skírðum við þennan en hann er nafnlaus... og svo þann syðsta kölluðum við Suðra á sínum tíma og fórum á hann árið 2010...


Bröltið flæktist smá ofar...


Mjög skemmtilegur kafli hér... þeir sem voru í göngunni í fyrrahaust þar sem við eltumst við hæsta tindinn sem er innstur og þann næst innsta í miklum bratta og vetrarfæri... rifjuðu upp minningar af því að fara hér upp í miklu roki þar sem rúmur helmingur leiðangursmanna sneri við neðar og sleppti Flosatindi á meðan Örn og nokkrir þrjóskuðust við alla leið hér upp við illan leik... en sannarlega aðdáunarverðan...


Komin ofan við neðsta klettinn...


Fínasta færi og ekki frosið þrátt fyrir kuldana þetta misserið...


Útsýnið af Kálfstindum er hreint út sagt magnað...


Tindurinn í sjónmáli... mjög flott aðkoma hér um móbergið utan í klettinum hér hægra megin sem gefur Flosatindi sinn sérstaka svip...


Fjallasýnin til norðurs að koma í ljós...


Fallegt landslag sem minnti mikið á Hengilinn...


Grýlukerti í klettunum... jebb... það var ekki hlýrra en þetta...


Við gátum ekki komist upp á tindinn fyrir fegurðinni sem þarna var...


Svipmikli kletturinn á Flosatindi hér bak við Elísu... hversu lengi ætli hann haldi ? ... því ekki er móbergið sérlega sterkt berg... og hér herja eflaust mikil veður...


Tindurinn mældist 848 m hár... ekki slæmt á þriðjudagskveldi takk fyrir duglega fólk !


Geggjað að koma hér upp... enn einn tindurinn sem við sigrum á þessu ári þrátt fyrir erfið veður...


Hér var ískalt og vindur... ekki besti staðurinn fyrir nesti... við ákváðum að borða aðeins neðar...


Frábær hópmynd af dásamlegum hóp sem mætir sama hvað...


Þórkatla, Inga Guðrún, Þorleifur, Fanney, Elísa, kolbeinn, Batman, Gréta, örn, Jaana, Rakel, Ragnheiður, Gerður Jens., Björgólfur, Sævar, Guðmundur Jón og Svala en Bára tók mynd.


Útsýnið til austurs...


Já... finnum skjólsælan stað fyrir nesti...


Útsýnið til vesturs að Botnssúlum...


Nesti hér í skjóli undir tindinum...


Nú var að tygja sig niður...


En fyrst... smá mynd af Kálfstindaförunum í brjálaða vindinum í haust... tengill á ferðasöguna kemur þegar Premis hefur lagað www.toppfarar.is.


Standandi fóru alla leið... við hin þarna niðri snerum við... á mynd vantar nokkra úr ferðinni :-)


... og allir sem ekki voru í þessari hávaðaroksferð... þjálfari þorði ekki fyrri sitt litla líf að stinga upp á riddarapeysumynd eftir það sem á undan var gengið :-) ... það hefði allt orðið vitlaust ! :-) ... nei, hvaða vitleysta... þessar riddarapeysur eru bara tær snilld og við hlökkum til að fá sífellt fleiri peysur í safnið Toppfara... það hljóta allir að vilja vera með... þetta er svo mikil snilld... svo fyndið... svo fallegt... og svo gaman...


Við vorum skjót niður... og eins og alltaf gekk það mun betur en menn héldu...


Magnað landslag... kyngimagnað útsýni !


Þessi klettur sem fyrr segir... hvað ætli hann haldi lengi ?


Jæja... hann er nú kannski bara að fara að standa af sér öll veður líklega... þetta stóra flykki sem gnæfði yfir okkur... og stangast út úr Flosatindi svo vel sést langar leiðir frá Þingvöllum...


Brött leið niður en mjög góð...


Inga Guðrún og fleiri að kljást við hnémeiðsli og önnur meiðsli... en lætur sig samt hafa það eins og hún getur og má... frábær göngufélagi eins og fleiri... og bara veisla að ganga með þessu fólki... maður fer alltaf betri maður heim...


Komin að neðsta klettinum í fjallinu...


Svo gaman að spjalla og segja sögur...


Við allavega sporuðum út góða slóð ef einhverjir fara fljótlega og geta þá farið hér upp... en við sáum leifar af eldri slóðum rétt hjá... veðrið þurrkar þetta út í látum á hverjum vetri...


Flosaskarð... komin úr mesta brattanum...


Skemmtilegur og notalegur kafli hér niður í bílana...


Yndislegt... mikið heppnaðist þetta vel... langtum framar vonum miðað við veðurspá... eins gott að við hættum ekki við...


Mikið af fallegum stöðum hér...


Sumarið... er tíminn... eins gott að njóta rétt á meðan það varir...


Þessi kafli er góður en fara þarf samt varlega...


Komin í kjarrið og sumarið neðar...


Hér náðum við Lenu sem sneri við ofan við Flosaskarð... vonandi mætir hún bara vel næstu þriðjudaga... þá er hún klár í allar göngur... en þessi var ekki alveg sú rétta til að mæta í eftir langt hlé...


Ilmandi birkið...


Grænka sumarsins...


Kálfstindar í öllu sínu veldi... Flosatindur í miðjunni efstur á sjá... en sá hæsti er samt sá innsti...


Alls 5,4 km á 3:31 - 3:37 klst. upp í 848 m hæð með alls 651 m hækkun úr 187 m upphafshæð...


Helga Rún, Jóhanna Fríða og Þorleifur hafa boðist til að vera með þriðjudagsgöngurnar fyrir okkur meðan við þjálfarar tökum okkur sumarfrí frá 22. júní til 20. júlí og svo erum við erlendis þriðjudaginn 3. ágúst... allir þriðjudagar skipaðir nema 20/7 og 3/8 en nokkrir klúbbmeðlimir að spá í að bjóða fram göngu en það er ennþá langt í þetta og best að binda sig ekki fyrr en nær dregur... hefðbundin tindferð fyrir hverja göngu er okkar þakklætisvottur til þeirra sem halda utan um svona þriðjudagsgöngu... hjartansþakkir elskurnar... og hafið það sem allra best í sumar !


Þið eruð mögnuð... og sem ég segi... maður kemur betri maður heim eftir göngu með ykkur í hvert sinn... takk fyrir okkur og sumarknús... já, og verum góð hvert við annað fyrst og fremst... þá eru okkur og öllum heiminum allir vegir færir nefnilega :-)



Gps-slóðin frá fyrri ferð hér: Wikiloc | Flosatindur Kálfstindum 250613 Trail

190 views0 comments
bottom of page