top of page
  • Facebook
  • Instagram
  • YouTube
  • Twitter

Kúpuhryggur og Flatnaháls #Esjanöðruvísi

Æfing nr. 855 þriðjudaginn 10. júní 2025


Þjálfari er sífellt að finna nýjar og öðruvísi leiðir á Esjunni þetta árið... þar sem Esjan er vinafjall kvenþjálfarans... og þessi er ein af þeim...


Í stað þess að fara upp stíginn ofan við bílastæðið við Kollafjarðará (ekki hefðbundna bílastæði Esjunnar) neðan við Kistufell... þá er gengið niður veginn og fundin trébrú yfir lækinn... en þær eru allavega þrjár brýrnar á þessu svæði yfir ána... og gengið svo upp með Kollafjarðará... og er hægt að fara beggja vegna árinnar og á milli kvísla þar sem alltaf er hægt að stikla yfir hana á nokkrum stöðum...


Grátlega fáir mættir á þessa síðustu þriðjudagsæfingu þjálfara fyrir sumarfrí þar sem þjóðhátíðardagurnn 17. júní er næsta þriðjudag og svo Strútsstígur...

en fyrst og fremst grátlegt af því þetta er svo flott leið og frekar stutt svo hún hentar fleirum í klúbbnum...


Byrjað er á að fara upp nafnlausan hrygg sem mætir svo Flatnahálsi ofar neðan við Kistufellið sem hér gnæfir yfir öllu... en það skyggði á þennan dag að leit var í Esjunni af ungum manni sem ekki skilaði sér úr fjallgöngu á mánudeginu... og fannst hann því miður látinn fyrr þennan þriðjudag... en það vissum við ekki fyrr en seinna um kvöldið... og fyrir einskæra tilviljun var það undir Kistufellinu... við vottum fjölskyldu þessa drengs okkar innilegustu samúð... blessuð sé minning hans...


Þegar komið er upp á Flatnaháls er leiðin vel á fótinn en greiðfær og gróin... það kemur löngun til að klífa Kistufellið þegar maður er staddur hér... en það er mun stærra verkefni en einn þriðjudagur rúmar... við tökum þá leið fljótlega...


Neðan við klettabeltið í Kistufelli stöldruðum við aðeins við og nutum útsýnisins og fengum okkur nesti tvö sem var samt eiginlega aðeins neðar í grænni lautu...


Nú var stefnan tekin á Kúpuhrygginn... sem leynir á sér og fyrst þegar þjálfari fór þessa leið þá hélt hún að fyrri hryggurinnn væri Kúpuhryggur en sá sér til mikilla vonbrigða að svo var ekki þegar gps-slóðin var hlaðin niður í base camp forritið og fór hún því aftur og uppgötvaði þá töfra Kúpuhryggjar...


Sjá hér gönguslóðann upp með Kollafjarðará á Nípu og að Gunnlaugsskarði... þarna gengu Útiverur á vegum Jóns Gauta Jónssonar, fjallaleiðsögumanns en hann á sérstakan stað í hjarta okkar eftir tvö fyrstu ár Toppfara með honum og Guðjóni Marteinssyni sem þá leiðsögðu okkur í flestum fyrstu tindferðunum áður en þjálfarar héldu svo áfram einir á ferð árin á eftir...



Kúpuhryggur hér margbreytilegur og skemmtilegur... komið niður að fossinum neðar...


Gaman að stikla yfir þessar sprænur og æfa einmitt það fyrir sumarferðirnar sem eru framundan... Hornstrandir... Gönguvikan í Fjarðabyggð... Strútsstígur... skyldi okkur takast að fara fimmtu Ofurgönguna í ár ef veður og akstursfæri leyfir ? ... bíðum við... gleymum ekki Monte Rosa og Matterhorn sem eru tvö af mjög spennandi sumarævintýrum Toppfara framundan... já, og Lónsöræfi með Ásu og Jóni Braga... þetta verður rosalegt sumar ! Njótum... og verum þakklát númer eitt... þá er allt bjartara og léttara...

Í stað þess að fara hér upp á stíginn fórum við yfir hálsinn og klöngruðumt niður að Kollafjarðarárfossinum...


Og svo tók við ljúf ganga niður eftir ánni aftur í bílana utan alfararleiðar...


Alls 3,5 km á 1:49 klst. upp í 444 m hæð með alls 387 m hækkun úr 55 m upphafshæð. Stutt en skemmtilegt og ágætis hvíld eftir svakalegar þriðjudagsgöngur síðustu vikur fyrir utan reyndar Úlfarsfellið sem var líka stutt í síðustu viku vegna veðurs... en við ætlum að fara að hafa þennan háttinn á frá... að hafa styttri göngur annan hvern þriðjudag svo allir komist með... og sjáum hvort það skilar sér í fjölbreyttari mætingu... en ekki því að þeir sem vilja lengri göngur séu áfram þeir einu sem mæta... vonum með þessu að fleiri komi og sérstaklega heiðursfélagar Toppfara :-)


Það vantar öðlinginn hann Birgi á þessa mynd því miður... en annars eru þetta Ragnheiður, Kolbeinn, Örn, Olli, Sighvatur, Sjöfn Kr., Björg, Silla, Inga og Sigrún Bjarna...


Þjálfarar kveðja samt ekki hópinn alveg strax... ekki fyrr en í byrjun júlí... af því við ætlum Strútsstíg... og helst á Prestahnúk eða Jarlhettur líka... eða einn þverunarlegg upp með Þjórsá ef veður, akstur og áhugi leyfir... en þó það verði eingöngu Strútsstígur... þá verður það geggjað !


Fyrsta æfingin í sumarfríi þjálfara verður á Fálkaklett með Fjallafélaginu þriðjudaginn 1. júlí kl. 17 - sjá skráningu með greiðslu á vefsíðu Fálkakletts með afsláttarkóða sem er birtur á lokaða fb-hópi Toppfara ! Svo taka klúbbmeðlimir við og bjóða upp á þriðjudagsgöngur 8/7, 15/7, 22/7 og 29/7 og þjálfarar koma aftur til leiks þriðjudaginn eftir verslunarmannahelgi þann 5. ágúst og þá... vá... taka sko við síðsumarferðirnar og haustferðirnar sem toppa yfirleitt allt annað á árinu og verður sú fyrsta í Landmannalaugum á fjallgarðinn Kamb... sem við vitum ekki ennþá hvort er göngufær eður ei... þjálfara kanna það í sumarfríinu sínu eins og vaninn er !

Comments


bottom of page