top of page

Keilir í Kaldársel um Lambafellsgjá, Mávahlíðar, Mávahlíðahnúk og Hrútagjá legg 3 #ÞvertyfirÍsland

Updated: Apr 28, 2022

Tindferð 242 mánudaginn annan í páskum 18. apríl 2022.

Þriðju leggurinn á leið okkar yfir Ísland var mánudaginn 18. apríl á öðrum degi páska... en við þurftum að fresta þeim legg í vetur vegna ófærðar og fórum þá frá Bláfjöllum í Sleggjubeinsskarð... en með þessari göngu erum við nú komin alla leið að Hellisheiði á þessari rúmlega 800 km löngu leið líklega... en hún gæti vel lengst upp í 1.000 km ef við höldum áfram að fara svona mikla útúrdúra eins og við höfum gert hingað til...


Guðmundur bílstjóri Rútubíla hér að skutla okkur að upphafsstað göngu úr Kaldárseli þar sem við skildum bílana eftir klukkan átta um morguninn...


Alls mættir 14 manns... flestir í þessu þverunarverkefni en líka einhverjir sem mættu bara til að njóta og æfa sig...


Tinna, Ólafur Vignir, Kolbeinn, Elísa, Sigrún Bjarna., Örn, Fanney, Sigrún Eðvalds., Ása, Þórkatla, Sjöfn Kr., Jaana og Svala en Bára tók mynd og perluvinirnir Batman og Myrra gæddu þessa ferð mikilli gleði...


Við gengum frá bílastæðinu við Keili og veginn inn að bílastæðinu við Lambafellsgjá... kunnuglegar slóðir fyrir göngur á fjöllin þarna í kring...


Brakandi blíða og menn fækkuðu smám saman fötum...


Laugavegurinn á einum degi... sællar minningar... eigum við ekki að búa til 40+ km göngu í þveruninni í maí á þessu ári ha ?


Batman elskar Kolbein og Fanneyju og fleiri í klúbbnum sem dekra svoleiðis við hann...


Lambafellið ofan gjárinnar framundan...


Báru fannst brekkan hér upp kunnugleg... og við héldum hér upp en hefðum getað farið upp á nyrðri bunguna eins og Örn ætlaði að gera... en héðan var auðvitað miklu meira útsýni en niðri á stígnum...


Litið til baka... Grænadyngja og Trölladyngja í baksýn...


Hvílíkt veður ! Sól, logn og hiti... þetta var algert yndi !


Nyrðra Lambafellið framundan þar sem sjá má gjánna opnast efst...


Smá riddarapeysustemning... alltaf jafn fallegar þessar peysur...


Ása, Þórkatla, Ólafur Vignir, Örn, Svala, Sjöfn Kr., Jaana, Fanney og Bára...


Komin að efra opi gjárinnar...


Hvílíkt náttúrufyrirbæri... full af snjó neðst... þetta var ekkert smá spennandi að fara hana núna...


Einhverjir að upplifa hana í fyrsta sinn... en aðrir komið hér margoft...


Bratt efst en svo lagast leiðin...


Við höfum aldrei verið í svona miklum snjó hér... einstaka skaflar jú... en þetta var yfir metri á þykkt...


Mergjað að fara þetta...


Litið til baka...


Snjórinn farinn að losna frá klettaveggjunum en hnausþykkur í miðjunni...


Hér var snjótæpistiga úr snjó... og okkur tókst að finna til loftshræðslu þó við værum stödd ofan í gjá... það var nú upplifun í lífinu !


Himininn ofan okkar úr gjánni...


Jaana að leggja af stað með smá skrekk... þetta reyndi alveg á... en við náðum þessu öll...


Magnað !


Afgangurinn eftir gjánni var saklaus...Litið til baka...


Frá gjánni héldum við slóðina að Hörðuvallaklofi... mikið var gaman að vera hér í þessu veðri...


Það var svo mikið sumar í loftinu... þetta var alveg yndislegt...


Litið til baka að Lambafelli og Keili...


Og upp með Hörðuvallaklofi...


Greið og mjúk leið um svo fallega grænan mosann...


Leiðin var mun grónari og greiðfærari en við áttum von á...


Hörðuvallaklof og dyngjurnar...


Mávahlíðar komnar í ljós hér... þær voru næstu viðkomustaður...


Mjög gaman að koma að þeim úr þessari átt... ný hlið á þeim og allt annað útlit...Komin upp í skarðið við Mávahlíðar...


Mávahlíðahnúkur vinstra megin nær... Helgafell í Hafnarfirði fjærst blátt að lit... Fjallið eina ljósari hnúkurinn vinstra megin við Helgafellið og Sandfellið þetta stóra dökka hægra megin við Helgafellið... og svo Vatnshlíðin í snjó og Bláfjallahnúkarnir líka hægra megin fjærst...


Viðkomustaður tvö á þessari leið... Mávahlíðar... þjálfari ráðlagði Ásu að sleppa þeim þar sem hún var úlnliðsbrotin og í gipsspelku... en hún er búin að vera dugleg að ganga og freistaðist til að fara hér upp...


Fíflavallafjall, Grænadyngja og Trölladyngja í baksýn og svo Keilir lengst til hægri...


Ekkert mál hér upp... smá brölt efst í móbergi og lausagrjóti en alltaf eitthvurt hald í mosa eða mold...


Heilmikið útsýni af Mávahlíðum og mjög gaman að vera hér á hádegi en ekki eingöngu að kveldi þar sem þetta hefur verið þriðjudagsæfing hjá okkur hingað til...


Þjálfara minnti að leiðin eftir hrygg Mávahlíða væri saklaust brölt... sem það jú er... og hughreysti Ásu... þetta yrði ekkert mál úr því henni tókst að komast hér upp... en leiðin var aaaaaðeins flóknari þegar maður er eingöngu með eina hendi... en hún rúllaði þessu upp með styrkri hjálparhendi frá Kolbeini... í raun ótrúlegt hjá henni að gera þetta og ekki margir sem myndu leika það eftir...


Þessar konur í klúbbnum eru náttúrulega ofur... en á Mávahlíðar gekk Lilja Sesselja á sínum tíma komin sjö mánuði á leið... geri aðrir betur !


Mjög skemmtileg leið... já, kominn tími á að fara hér á þriðjudagsæfingu...