top of page

Krakatindur og Augað um Rauðufossa í skærum síðasumarslitum, logni og sól... töfrar !

Tindferð nr. 250 laugardaginn 27. ágúst 2022.


Einn sætasti fjallstindasigur þjálfara og klúbbsins í sögunni er Krakatindur... en þjálfarar fóru fyrst á hann árið 2016 í könnunarleiðangri og voru steinhissa á að finna góða leið upp þennan hvassa tind... sem stelur oft senunni þegar keyrt er um Fjallabakið þar sem hann stingst beittur upp í himininn ólíkt ávölu landslaginu allt í kringum hann milli Heklu og Rauðufossa og annarra fjalla í Friðlandinu og kringum það...


Krakatindur blasir við "þarna niðri" þegar gengið er á Heklu í góðu skyggni... hann er staðsettur á sjaldfarinni jeppaslóð frá Landmannahelli að Dalakofanum en að honum er hægt að keyra svokallaða Krakatindsleið frá Dómadalsleið norðvestan við Heklu upp á norðuröxl hennar, gegnum Mundahraun og koma sunnan hans og keyra svo áfram bratta ása að Landmannahelli aftur inn á Dómadalsleið austar en farið var út af henni... mjög flott jeppaleið sem reynir ágætlega á við akstur en gleymist ekki þeim sem upplifa...


Sumarið var frekar kalt þetta árið og sögur af sköflum sem töfðu för jeppa á stærri dekkjum tóku kjarkinn úr þjálfurum með að fara þessa Krakatindsleið... svo afráðið var að fara Landmannahellisleiðina og hreinlega geyma bílana ofan við bröttustu ásana og ganga þann hluta að fjallinu... en þegar á hólminn var komið voru brekkurnar færar venjulegum jeppum (ekki jepplingum) og menn skemmtu sér konunglega við að kljást við þær á niðurleið að fjallsrótum... og ekki síður til baka... þar sem fara þurfti varaleið til að komast...


Leiðangursmenn dagsins með fjall dagsins í baksýn... "bak við" Heklu... Krakatind...


Jaana, Kristín Leifs., Þórkatla, Kristbjörg, Kolbeinn, Silla, María Elísabet gestur, Njóla, Bjarni, Gunnar Már, Súsanna, Arna, Njáll, Eyjólfur gestur, Elfa Hrönn gestur og Gulla en Örn tók mynd og Batman var eini hundurinn...



Örn lagði bílunum eftir bröttu brekkurnar á jeppunum... í stað þess að fara á sama

uppgöngustað og árið 2017... sem þýddi aðra leið að og á fjallið til að byrja með... upp grýtta mosann þarna vinstra megin...


Lagt var af stað úr bænum kl. 8 í algerri afslöppun... þó verið væri að þvælast alla leið upp á hálendið... af því báðar göngur dagsins voru stuttar og léttar... og synd að fleiri skyldu ekki vera grípa þetta tækifæri í stað allra löngu gangnanna sem vanalega eru á laugardögum...


Rauðufossafjöll varða leiðina á Krakatind að austan... fjórir stórir stapar og heilmikil ganga að fara á þá alla fjóra... en í fyrri ferð Toppfara á Krakatind þá gengum við í kjölfarið á hæsta stapann af öllum fjórum... og hétum okkur þá að ganga á þá alla við tækifæri... það hefur ekki ennþá ræst en er á vinnulistanum...



Klettarnir ofan okkar á hægri hönd... ókleift að norðan... en kleift að sunnan...


Mjög gaman að fara svolítið öðruvísi leið... sjá jeppaslóðann í brekkunni þarna... bílunum var lagt við jaðarinn á Nýjahrauni Heklu...


Magnað landslag... sorfið af veðri og vindum... hrátt í þessari miklu hæð... lítið um vatn og gróður... og því naut mosinn sín vel þar sem hann var...


Sneitt undir klettabeltinu sem er að norðan og stefnt á grasi gróinn dalinn í suðri...


Rauðufossafjöll í baksýn.. jeppaslóðinn framhjá hér og annað hvort til vesturs að Heklu eða áfram suður í átt að Dalakofanum...


Hundurinn Batman að þreifa fyrir sér undir klettunum...


Suðurhlíðarnar... með Mundafellshraun Heklu í baksýn... þarna yfir liggur jeppaslóðinn sem ætlunin var að keyra þennan dag... og hefði verið fær ef við bara hefðum ekki hlustað á úrtöluraddirnar...



Litið til baka... niður suðurbrekkurnar... nær eru Sléttafell, Mundafell og Hraukar en fjær eru Vatnafjöll... sem við eigum eftir að ganga á...


Dásamlegt veður þó hæðin færi yfir þúsund metra... stuttermabolir og jafnvel hlírabolir... líkega besti eða allavega með bestu dögum sumarsins að Fjallabaki árið 2022...


Komin að klettabeltinu þar sem klöngrið beið okkar...


Þurrt og lausgrýtt en vel fært í rólegheitunum og alls staðar gott hald... ekkert mál hér upp í krafai hópsins í rólegheitunum...


Rauðufossafjöll í baksýn... Eyjafjallajökull lengst hægra megin... sjá jeppaslóðann sem liggur alveg að fjallinu... þarna eru tvær leiðir frá suðurslóðanum að fjallinu...


Klöngrið hafið hér...


Þjálfarar hafa farið hér upp í fjölskylduferð þar sem stálpaðir krakkar voru með... þetta er ekta slíkt fjall... stutt en mjög ævintýralegt allan tímann...


Örn kominn upp og tekur mynd til baka... sjá göngumenn neðst á mynd... og hæsta klettinn á Krakatindi hér... jú, bratt og illkleift en við förum á hinn klettinn sem er lítið eitt lægri...


Komin upp og sælan leyndi sér ekki... hvílíkur útsýnisstaður... magnaður sigur að koma hér upp...


Súsanna og Njóla sem hafa verið með okkur árum saman og farið í ótal margar sögulegar ferðir og sumar mjög erfiðar... sagan er ómetanleg...


Kristbjörg lét sé nægja að vara á brúninni og sleppti klöngrinu upp á sjálfan klettatindinn...


Gunnar Már að fagna... það var ekki annað hægt en vera þakklátur og glaður... magnaður staður að vera á !


Fjórir gestir voru með í þessari ferð... tvö þeirra slepptu Krakatindi en gengu að Rauðufossum... Guðrún gestur hér með Björgólfi... að njóta í botn eins og hinir...


KLlngrið upp á tindinn...


Geggjuð ganga... sætur sigur... frábær hópur... fullkominn dagur ! Hekla þarna í baksýn í hvarfi að hluta til... Örn þurfti að nota fjarlinsuna til að ná hópnum þar sem plássið er ansi lítið á tindinum...


Lítið pláss á tindinum og því fóru menn niður af honum á brúnirnar til að borða nestið...


Hópmyndin tekin þar með Nýjahraun í baksýn... Dómadalsleið enn lengra og miðhluta Hellismannaleiðar þarna útbreidda að stórum hluta...


Nýjahraun... Valafell ofan við skálann Áfangagil þarna ofarlega á mynd... sjá breytilegt hraunið og gíga, hrauntraðir og gjár um allt...


Jæja... eftir nesti var niðurleiðin eftir... smá kvíði hjá einhverjum... en niðurgangan gekk framar vonum... eins og alltaf.. hættum að kvíða niðurgöngunni á svona leiðum... reynslan er búin að kenna okkur að það er alger óþarfi ! :-)


Hinn tindurinn... sko, hann er eiginlega jafn hár og okkar... :-)


Erfitt að ná afstöðunni og brattanum á mynd á þessum stað... helst að þessi mynd sýni hana...


Niður var farið sömu leið í góðu brölti... stundum betra að snúa aftur á bak og feta sig niður eitt haftið allavega...


Ekkert mál... á svona stöðum kemur sér vel að hafa mætt á þriðjudögum og æft klöngrið... sem er viljandi og meðvitað sem oftast á dagskrá... þriðjudagarnir eru jú "æfingar"...


Frábær hópur... gleði og stuðningur og bara gaman...


Hláturinn og gleðilegar samræður eru meðvitað hluti af því að dreifa huganum niður eða í gegnum erfiða kafla... sumir leiðsögumenn okkar erlendis hafa ekki skilið þetta og jafnvel sussað á okkur... þegar verið er að fara erfiðar leiðir... en þjálfarar eru fyrir löngu búnir að sjá að ef maður er smeykur... en félagarnir eru glaðir og verið er að segja skemmtilega sögu... þá gleymir maður sér... tekur síður eftir brattanum eða erfiðleikastiginu og er allt í einu kominn niður þennan varasama kafla...


Litið til baka... leiðin upp og niður sést ágætlega hér...


Andlitið í tindinum...


... beggja vegna ef vel var að gáð...


Komin niður í mölina eftir klettana...


Sjá göngumennina fyrir miðri mynd...


Mjög skemmtileg leið þó stutt sé... þessi tindur er þess virði að keyra þrjá tíma úr bænum fyrir... og til baka... ef hann væri nær Reykjavík... þá væri hann reglulega á dagskrá á þriðjudagskveldi...


Komin aftur í bílana eftir 3,5 km á 2:23 klst. upp í 1.033 m hæð með alls 339 m hækkun úr 721 m hæð... jebb... við vorum í rúmlega 700 m hæð þegar lagt var af stað gangandi...


Kolbeinn átti afmæli þennan laugardag... og bauð hópnum upp á freyðivín eftir Krakatind...


Skál ! ... fyrir Kolbeini og tindi dagsins ! Dásamlegur endir á þessari göngu !



TAKK ! fyrir okkur Kolbeinn... dásamlegur endir á þessari fjallgöngu... en hann átti eftir að koma félögum sínum aftur á óvart í lok göngunnar að Rauðufossum...


Nú beið okkar að keyra upp löngu brekkurnar frá Krakatindi aftur inn að Landmannaleið að malarstæðinu við Rauðufossa... komin upp fyrri brekkuna hér...


Varaleið er upp brattari brekkuna fryir þá sem komast hana ekki... Kolbeinn þurfti að snúa við frá bröttu brekkunni þar sem bílinn gíraðist ekki nægilega niður... og fara varaleiðina... skaflarnir sem búið var að tala um á þessari leið... voru greinlega hvergi þarna... heldur ofar og nær Dalakofanum...


Seinni ganga dagsins var um Rauðufossa að upptökum Rauðufossakvíslar að fyrirbærinu "Augað" þar sem vatnið gúlpast upp úr jörðinni.. sláandi fögur uppspretta sem snertir alla sem að koma...


Rauðufossarnir sjálfir hér... þeir sem blasa við frá Landmannaleið...


Nærlinsan hér... mjög fallegt á öllum árstímum... en við vorum hér síðast í október með snjóföl yfir öllu... mjög flott ferð í einstökum litum og birtu sem gleymist aldrei...



Allt önnur ásýnd núna en árið 2019... þjálfarar töldu þessa samsetningu á Krakatindi og Rauðufossum agalega sniðuga en þó nokkuð margir sögðust vera búnir að sjá Rauðufossana og sögðu því pass við þessari ferð... svo við spáðum í að ganga frekar á Heklu en að Rauðufossum... en sem betur fer tóku menn misvel í þá tillögu... því þessi tvenna... Krakatindur og Rauðufossar var alger snilld á þessum fallega degi í þessari einstöku birtu sem þarna var síðsumars með síðdegissólina við Augað...


Hráslaginn í gróðrinum í þessari miklu hæð á hálendinu er áþreifanlegur... en þeim mun áhrifameiri mitt í öllum sandinum...


Mjög gaman að ganga þessa leið í sumarfæri eftir vetrarævintýrið árið 2019...


Skaflarnir ennþá í gljúfrinu neðan við Rauðufossana... ótrúlegt... en segir allt um þetta sumar...


Litið til baka... Sauðleysurnar í baksýn... við ætluðum á þær árið fyrir nokkrum árum en aflýstum vegna veðurs... þær þurfa að komast aftur á dagskrá... kannski bara 2023 !


Ægifegurð þegar nær er komið... hér vorum við í klakaböndum... og fórum alveg að fossinum... sem er nú lokað svæði... við rétt sluppum áður en þessari leið var lokað...


Lengra má ekki fara en þetta... áðum hér stutta stund og nutum fossadýrðarinnar...


Hópmynd með Rauðufossa í baksýn... 19 manns hér eftir 17 manna göngu á Krakatindi...


Gígar... dalir... heiði... sprænur... mosaþembur... rauðgrýti...


Slóðinn fer upp með Rauðufossum að vestan...


Komin ofan við fossinn...


Fossbrúnin... magnað !


Hópurinn ofar...


Dýjamosaþembur á leiðinni upp með Rauðufossakvísl...


Ofan við fossinn tekur við gönguslóði upp með ánni...


... upp og niður ása og gil...


... í fallegum litum þar sem síðdegissólin vermdi og gaf meiri dýpt í liti landsins...


Stiklað yfir sprænur... þetta var allt öðruvísi upplifun en þarna í október árið 2019...


Þrír menn voru í stígagerð á leiðinni... verkfæri og áhöld dreifð eftir stígnum... mikil vinna er á bak við svona slóða... greiða þarf leið vatns allt árið um kring og huga að leysingum á vorin meðal annars...


Hópurinn þéttur... og heilsað upp á vinnumennina...


Stígsmenn að störfum...


Þeir biðu meðan hópurinn fór í gegn...


Hundurinn Batman stóðst ekki freistinguna og gekk upp Rauðufossakvíslina... en hann eins og fleiri dýr er langtum meira í takt við náttúruna en mannskepnan... á ef eitthvað er meiri rétt á að vera hér en við... sem setur hundabann og ólar í mannheimum í svolítið annað samhengi... hundar eru bannaðir lausir á Esjunni... en Guð minn góður hversu miklu meiri skaði er þar eftir okkur mennina en hundana... sem gefa áburð eftir allri leiðinni... og feta mun mýkri spor en við... sjálflægni mannsins mun enda verða honum á endanum að falli hér á jörð...


Sjá skaflana í´árfarveginum... stundum hvarf áin alveg undir skafla... mun meiri snjór hér en oft áður...


Ótrúlegt !


Appelsínugular lækjarsprænur... skærgrænn mosi... þessi náttúra skákar okkur margfalt... samt skortir okkur alltaf auðmýkt og virðingu...


Stutt eftir að uppsprettunni...


Beygjan að upptökunum...


Mjög skemmtilegur kaflinn við beygjuna...


Fossarnir ofar... þeir eru þess virði að gefa einnig gaum... ekki bara þessum neðsta...


Rauðufossafjöll gnæfa yfir... við vorum sem sé hinum megin við þau fjöll í samanburði við Krakatind... mjög skemmtilegt !


Litið til baka... slóðinn liggur meðfram ánni...


Komin að Auganu...


Mann setur hljóðan... hversu langt nær þessi hylur... þaðan sem vatnið gúlpast upp á hverri sekúndi allt árið um kring... í talsverðu magni...


Töfrandi staður sem erfitt er að fanga á mynd...


Hér gáfum við okkur góðan tíma... og önduðum að okkur göldrunum...


Hér er orka sem ekki er hægt að lýsa...


Hvílíkir litir !


Smávegis gola en annars logn... og vatnsyfirborðið því friðsælt...


Kúpt eins og auga...


Hópmynd sem speglast í Auganu...


Hópmyndin árið 2019 í vetrarfæri... þá vorum við algerlega hugfangin... en þetta var enn fegurra í síðdegis-síðsumars-sólinni...


Erfitt að yfirgefa þennan fallega stað... en degi var tekið að halla og langur akstur framundan aftur heim...


Appelsínugulur árfarvegur... litirnir svo sterkir...


Við vorum algerlega hugfangin...


Batman ekki að koma hér í fyrsta sinn... þekkti staðinn og naut þess að ganga í ánni...


Fossinn og flúðirnar... allt þetta vatnsmagn stöðugt að koma upp úr Auganu... einstakur staður sem vert er að varðveita vel...


Slóðinn nær meðfram læknum enda rennur dýrðin niður eftir frá Auganum og áfram alla leið að Rauðufossunum neðar...


Smávegis klöngur... bara gaman...


Rauðufossafjöll í baksýn...


Litirnir voru séstaklega sterkir þetta síðdegi...


Ekki annað hægt en ganga aðeins út í ána... og gæta þess vel að skilja ekki eftir nein spor...


Ölvuð af allri þessari fegurð var gengið til baka meðfram ánni...


Hópurinn speglast í lækkandi sól í Rauðufossakvísl... náttúra landsins er einstök... gleymum því ekki hversu mikil forréttindi þetta eru... að upplifa svona dag... og það nánast ein í heiminum... því enginn var við Augað nema við... og 3ja manna fjölskylda... fyrrum skólastjóri Rimaskóla sem fylgt hefur tveimur drengjum þjálfara gegnum þeirra skólagöngu... og á meðan annars heiðurinnaf því að kenna okkar yngsta syni skák og fara með hann á ótal skákmót... þar til körfuboltinn tók allt yfir...


Aftur yfir lækinn...


Rauði gígurinn...


Rauðufossar efst á mynd og slóðinn fyrir framan... mjög falleg leið...


Alls 9,8 km á 3:06 klst. upp í 812 m hæð með alls 449 m hækkun úr 600 m upphafshæð...


Kolbeinn bauð aftur í afmælisveislu...



... og nú voru það ostar, salat, vínber, kex og kaldir drykkir... og kók handa Erni þjálfara... hugsað fyrir öllu...


Dásamlegt að enda seinni göngu dagsins á þessum veitingum...


Hvílíkur heiðursmaður hann Kolbeinn ! Enda dýrkaður og dáður af öllum í klúbbnum... einn af mörgum sem gefur alltaf svo mikið í hópinn... og gerir allar ferðir betri með nærveru sinni, brosi og jákvæðni...


TAKK innilega elsku Kolbeinn fyrir okkur þennan dag og alltaf !


Helgi Árnason, mjög farsæll skólastjóri Rimaskóla til fjölda árra... og frumkvöðull á Íslandi í útbreiðslu skáklistarinnar meðan grunnskólabarna... þar sem Ísland eignaðist einn stórmeistara þökk sé honum... Hjörvar Steinn Grétarsson heitir hann... en fyrir óeigingjarnt og þrotlaust starf Helga hefur Ísland alið upp heilu kynslóðirnar af góðum skákmönnum og án efa gefið öllum þessum börnum ómetanlega reynslu og minningar, þroska og innsýn í lífið í gegnum skákheiminn sem þau hefðu annars farið á mis við... takk elsku Helgi ! ... sem hér kemur skokkandi niður... enda á leið í bæinn á landsleik íslenska körfuboltalandsliðsins gegn Úkraínu í forkeppni fyrir HM... en þess skal getið að Island sigraði í æsispennandi leik... Íslensku stórmeistararnir | Skákkennsla (skak.is)


TAKK öll elsurnar fyrir kyngimagnaðan dag... algerlega fullkominn í alla staði !


GPS-slóðir hér: Myndbönd hér:





636 views0 comments
bottom of page