Tindferð nr. 261 laugardaginn 11. mars 2023.
Já... það var mínus fimmtán gráður í þjálfarabílnum í Grafarvogi kl. 7:30 og þegar lent var við norðurenda Kleifarvatns á nöprum laugardagsmorgninum 11. mars kl. 8:14... og bíll Jöönu sýndi mínus 18 gráður þennan sama morgun í Breiðholtinu... ískaldur vindur en heiðskírt og autt færi...
Vindurinn var svo sem ekki mjög mikill... og hann var í bakið... það var ekki hægt annað en vera glaður og njóta þrátt fyrir þennan nístandi kulda... nú, ef þessi rándýri útivistarfatnaður virkar ekki í svona kulda... þá er ekki mikið í hann varið... en sannarlega var það ullin sem gerði mest... eins og alltaf...
Ellefu manns... sami fjöldi og á þorgeirsfellinu helgina á undan og á Vikrafellinu mánuði á undan... tíu manns á Fagrafelli... við hefðum verið 14 manns ef allir hefði komist sem ætluðu...
Lambhagi var fyrsti tindur dagsins af sex... sami og við gengum á á þriðjudagsæfingu fyrr í vetur... mældist 195 m hár... og gefur mjög flott útsýni til suðurs... höfðar / tangar / stapar dagsins voru sex... einn við norðurendann, tveir við austurendann, einn við suðurendann og tveir við vesturendann... geggjað flott leið !
Það var stuð... og Siggi reyndi að framleiða smá jarðskjálfta til að rugla mælinn aðeins í ríminu... það verður að gera eitthvað til að halda sér heitum sko :-)
Fjörur Kleifarvatns voru kyngimagnaðar þennan dag... eins og þær eru nefnilega alltaf... það er eitthvað alveg einstakt við þetta vatn... það lumar á orku sem er óáþreifanleg en vel finnanleg á sál og líkama þeirra sem ganga meðfram þessu vatni...
Klaki í alls konar myndum... hamskipti Kleifarvatns eru kyngimögnuð...
... og fjörur þess allan hringinn töfrandi...
Frosnar öldur...
Litið til baka... Vatnshlíðin hægra megin en hringleiðin að þessu sinni innihélt ekki uppgöngu á hana eins og eitt sinnið...
Þetta var í fjórða sinnið sem við gengum kringum Kleifarvatnið... aldrei alveg sömu leiðina og alltaf réttsælis nema fyrsta sinnið... í desember 2010 þegar við byrjuðum á Sveifluhálsinum öllum og tókum svo vatnið og fengum þá fjöruna alla leiðina þar sem óvenju lítið vatnsmagn var í Kleifarvatni það misserið... engin þessar hringleiða eins... og aldrei eins veður...
Í desember 2010: http://www.toppfarar.is/tindur47_7tindar_sveifluhalsi_041210.htm
Í janúar 2016: http://www.toppfarar.is/tindur137_kleifarvatn_210117.htm
Á þessum kafla þurfti að hækka sig meðfram vatninu...
Það var nístingskuldi... vindur í bakið og frost... skeggið á Johanni fraus...
Upp brekkurnar hér... nafnlausar brekkur...
Og aftur niður í átt að nafnlausum höfða sem við nefndum Kleifarhöfða á sínum tíma til aðgreiningar frá Geithöfða sem er sunnar...
Kleifarhöfði hér framundan...
Komin áleiðis á Kleifarhöfða og hér náði sólin í skottið á okkur... til baka eru nafnlausar hlíðarnar sem eru þá hluti af Vatnshlíðinni...
Kleifarhöfði mældist 217 m hár...
Ofan af honum var haldið að Geithöfða sem sést hér... mosinn frosinn og gott göngufæri...
Litið til baka...
Mjúkt og hart í senn...
Geithöfði mældis 225 m hár og var hæsti höfði dagsins...
Skaflar undir sandinum...
Uppi á Geithöfða var vatnið fagurt á að líta...
Mættir 11 manns... 10 - 11 manns hafa mætt í tindferðirnar það sem af er ári... þetta er búinn að vera krefjandi vetur veðurfarslega séð...
Dina, Silla, Birgir, Siggi, Jaana, Sjöfn Kr., Gustav, Johan, Þórkatla og Kolbeinn en Örn tók mynd og Batman var eini hundurinn og Bára þjálfari var heima vegna hnémeiðsla og flensu...
Niður af Geithöfða.. lausgrýtt ofan á móberginu...
Suðurstrendur Kleifarvatns... svo fagurt á að líta... klakabundnar fjörurnar... framundan var Lambatangi... nú vorum við komin á slóðir þriðjudagsæfinga á þessu svæði...
Magnað að sjá klakann í fjöruborðinu...
Geithöfði og Gullbringa aftar hægra megin...
Ótrúleg fegurð... enn einu sinni á þessu vatni... Sveifluhálsinn í allri sinni dýrð í fjarska..
Klakinn náði yfir heilmikið svæði sunnan megin í víkum þar sem öldugangurinn er rólegri og vatnið nær að frjósa í þessum kulda...
Fínasta klöngur á þessari leið...
Bræðurnir Johan og Gustav... þeir skráðu sig á Eystri Hnapp í byrjun maí... Davíð tók næst síðasta plássið... eitt laust pláss í þeirri ferð og við erum þá 12 manns sem er hámarksfjöldi... það verður sögulegt að ná þeim tindi...
Hvílíkt sjónarspil...
Skuggi göngumanna á klakanum... Lambhagi sem var fyrsti höfði dagsins þarna handan vatnsins í norðri...
Leiðin framundan... svo fallegt...
Lambatangi var fjórði höfði dagsins... hann mældist 189 m hár... og er ægifagur uppgöngu...
Hér höfum við tekið marga hópmyndina...
Og auðvitað var tekin ein hér... með Sveifluhálsinn í baksýn...
Frá Lambatanga er leiðin greið meðfram suðurströndinni í átt að Sveifluhálsi... en maður kemst ekki upp með að sleppa veginum... litlu lækirnir um allt stöðva för...
Á vesturströnd vatnsins var nestispása tvö... í góðu skjóli við móbergsklettana sem skreyta þeim megin...
Fjórða og síðasta hlið vatnsins eftir... vesturströndin... upp og niður móbergskletta og stapa...
Kuldinn beit sem aldrei fyrr... og minnti á mestu kuldana að vetri til uppi í fjöllum en ekki niðri á láglendi... óvenjulegt veður...
Hér var klakinn í fjörunni eins og gígaröð...
Syðri stapi var næst síðasti höfði dagsins og mældist 181 m hár...
Heilmikið klöngur og mjög skemmtileg leið...
Siggi skrifaði þetta í sandinn...
Frábær hópmynd sem fangaði vel gleðina sem einkenndi daginn í gegnum allan þennan kulda og vind... þetta var nefnilega geggjað gaman þrátt fyrir allt !
Þórkatla, jaana, Kolbeinn, Sjöfn Kr., Siggi, Silla, Birgir, Dina, Johan, Gustav og Örn tók mynd og Batman er þarna fyrir aftan...
Síðasti höfði dagsins var Stefánshöfði... vaxinn grasi, mosa og lyngi... hann mældist 184 m hár...
Klakaðar perlur í honum...
Síðasti kaflinn var tekinn á straujinu meðfram veginum og fjörunni að bílunum...
Komin út í enda við bílana... sólin ennþá hátt á lofti... klukkan var bara 14:30... skrítið... þarna hinum megin vorum við stuttu áður... þetta gekk ótrúlega vel og var afslappað þrátt fyrir langa vegalengd á frekar stuttum tíma... það munaði svo miklu að hafa stuttan akstur...
Alls 18,5 km á 5:41 klst. upp í 225 m hæð með alls 825 m hækkun úr 149 m upphafshæð...
Mergjaður dagur... enn ein upplifunin af þessari hringleið kringum þetta dularfulla vatn... og mikill sigur í þessu kalda en gullfallega veðri.
Þórkatla og Jaana skelltu sér á Ásfjallið á heimleið gegnum Hafnarfjörðinn... það er vinafjallið í mars-mánuði og þeim fannst klukkan svo lítið að það var alveg eins gott að ná því bara úr því þær voru staddar við Ásvallalaug... þó að baki væru 18,5 kílómetrar... sem segir allt um frábært líkamlegt gönguform þeirra sem mæta reglulega allt árið og víla ekki fyrir sér eitt stykki aukagöngu á lágt fell eftir svona langa dagsgöngu, vel gert !
Takk öll fyrir daginn... frábær frammistaða og dýrmætt að ná þessari ferð !
Gps-slóðir af fyrri ferðum má finna á wikiloc reikningi Toppfara.
Comentários