top of page

Krossfjöll, Stangarháls, steinboginn og Ölfusvatnsskyggnir við Nesjavelli

Æfing nr. 707 þriðjudaginn 7. júní 2022.

Við ákváðum að skoða steinbogann sem við fundum fyrir algera tilviljun þann 12. desember árið 2020 þegar við gengum fimm tinda leið á Hrómundartind og félaga og lentum í myrkri í bakaleiðinni en gangan sú var mjög krefjandi og vermdi sigurhjartað í okkur lengi á eftir...


Lagt var af stað við Adrenalíngarðinn hjá Nesjavöllum og farin svipuð leið og síðast...


Hengillinn hér með Vörðuskeggja í skýjunum...


Gönguslóði til að byrja með... en fljótlega vorum við komin út af honum og inn á okkar gömlu slóðir...


Dásamlegt að vera hér að í gróðri og góðu veðri...


Lækjarsprænur renna niður milli Stangarhálss og Krossfjalla... við nutum þess að stikla yfir og finna ilminn af kjarrinu og lynginu...


Heilmikið landslag er á þessari leið og mikið brölt upp og niður...


Þrjár Toppfarakonur, Bjarnþóra, Jórunn Atla og Sigga Lár syntu yfir Ermasundið þriðjudaginn 6. júní... og komu í mark í beinni útsendingu í gegnum símana okkar... við vorum öll búin að fylgjast með allan daginn... og skyndilega tilkynnti Þórkatla að þær væru komnar yfir... það var tvísýnt á kafla fyrr í dag þar sem veðrið var ekki fýsilegt Frakklandsmegin... mikill léttir... þær áttu þetta svo sannarlega skilið... mikil vinna að baki og undirbúningu... við sendum þeim kveðju og myndband af okkur... #Bárurnar2022 - sjá fb-síðu þeirra: Bárurnar yfir Ermasundið.


Upp grýttan ásinn á Krossfjöllum... talandi um hvernig í ósköpunum þær gátu þetta... kuldinn... tíminn... sjóveikin... aðdáunarvert með meiru !


Krossfjöll eru lágir fjallsásar sem liggja niður í átt að Þingvallavatni...


Klettadrangar á stangli...


Við könnuðumst við okkur frá því í desember 2020... Tjarnarhnúkur hér í fjarska...


Hengillinn gnæfði yfir okkur í vestri... og Hrómundartindur í austri...


Móbergsklappir á köflum...


Hæsti tindur Krossfjalla er svo grasigróinn og ávalur... ekkert í líkingu við klettana og bergið allt í kring...


Litið til baka með Mælifell og félaga við Þingvallavatn í norðri...


Mjög friðsælt og fallegt veður... smávegis sól á köflum... og engin rigning eins og hefði vel getað orðið...


Hrómundartindur hér með vesturhlíðar sínar útbreiddar fyrir okkur að skoða í rólegheitunum...


Lakahnúkur og Tjarnarhnúkur vinstra megin... Þverárdalur grænn og fallegur þarna niðri... það styttist í steinbogann...


Þarna var hann... falleg náttúrusmíð...


Brött og grýtt brekkan hér niður...


Menn klöngruðust hér yfir þeir sem vildu...


Ekki fyrir alla að fara yfir brúna alla leið... versti kaflinn er þar sem Maggi er... árið 2020 þá fór um helmingur hópsins líklega hér yfir... hinir óðu ána...


Einmitt þegar við vorum að njóta steinbogans skein sólin... við vorum ansi heppin með þessa birtu...


Alls 17 manns mættir... Þorleifur, Sveinbjörn, Súsanna, Svala, Jóhanna T. gestur, Katrín Kj., Siggi, Þórkatla, Bjarni, Guðmundur Jón, Linda, Gerður Jens., Kolbeinn, Maggi, Birgir og Örn... en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn...


Önnur hér... til að reyna að fanga þessa fegurð... en hún næst bara á staðnum...


Hinum megin... í beygjunni á ánni er djúpur hylur... áin kristaltær... og svo girnileg... við dauðsáum eftir því að vera ekki með sundfötin svo við hefðum getað skellt okkur út í og heiðrað þannig Bárurnar okkar í Ermasundinu...


Við höfum ekkert fundið um þessa steinbrú á veraldarvefnum né á kortum... en hún er eflaust á vitorði þeirra sem hér hafa farið um...


Þarna fengum við okkur nesti...


... eftir smá leik á brúnni eftir smekk hvers og eins...


Mjög gaman að koma hingað og sjá þennan stað í sumarbúningnum...


Bára þjálfari með Tjarnarhnúkinn í baksýn... lagði ekki yfir alla brúna núna... en fór hana alla 2020... einhvern veginn auðveldara að fara hina leiðin yfir... skrítið...


Til baka var farið upp grýtt en fallegt gilið...


Stundum dimmdi vel yfir... en aldrei kom rigningin... bara sólin þegar birti aftur til...


Þingvallavatnið lygnt og friðsælt í fjarska...


Landslagið í rótum Hengilsins er freistandi... skoðum þessar brúnir, tinda og gljúfur á næsta ári...


Ölfusvatnsskyggnir framundan... hnúkurinn þarna fyrir miðri mynd...


Grasi grónir dalir milli malarása...


Botnlausir möguleikar hér að skoða og búa til leiðir...


Lögð af stað upp Ölfusvatnsskyggni...


Það gerist eitthvað heilandi við það að koma skyndilega að grasigrónum lækjarfarvegi á miðri leið um sanda og kletta... það gerist eitthvað innra með manni... innigróin og gömul tilfinning gangnamanna, útilegumanna eða farandmanna á löngum leiðum í auðninni þar sem lækurinn gefur lífsbjörg fyrir dýr og mann ? ... það má spyrja sig...


Við ætlum að skoða þetta gil betur á næsta ári...


... rekja okkur upp eftir því...


Tindurinn á Ölfusvatnsskyggni...


Ekkert mál hér upp...


Litið til baka með Hrómundartind í baksýn...


Mælifell og Sandfell og félagar þarna niður frá... Krossfjöllin í sólinni..


Skemmtileg leið... allir orðnir lúnir eftir langa kvöldgöngu...


Flottur tindur...


Súsanna og Svala hafa verið með okkur árum saman og upplifað hverja dýrindisgönguna á fætur annarri... lagt mikið til klúbbsins og gefið okkur svo mikið í gegnum árin... dásamlegir félagar sem við vonum að verða með okkur áfram allt til enda...


Hæsti tindur kvöldsins í 376 m hæð... Bára þjálfari minnti að þetta héti Ölkelduhálsskyggnir... en þetta var auðvitað Ölfusvatnsskyggnir... næsti bær við sko :-) :-) :-)


Sýnin upp á Ölkelduháls... sjá Tjarnarhnúk, Ölkelduhnúk og Molddalahnúka... þar sem við vorum á þriðjudegi í apríl í svipuðu sumarveðri...


Frá tindinum sáum við til Nesjavalla og bílanna okkar... stutt til baka úr þessu...


Hagavatnslaugar hér stuttu frá...


Við gengum fram á brúnirnar og svo niður eftir...


Gamlar tröppur en engin girðing... alltaf eitthvað nýtt í þessu lífi...


Stafurinn sem Birgir missti í Þverá.. og broddstafurinn sem Kolbeinn fann þetta kvöld og notaði til að skutlast eftir stafnum hans Birgis.... gott að eiga Kolbein að... meiri öðlingurinn...


Við rúlluðum til baka...


... nenntum auðvitað ekki að elta stíginn og fórum okkar leið...


... sem þýddi að við lentum hér ofan við námurnar...


... en fundum góða leið niður...


Ruslasvæðið við Nesjavallavirkjun hér niðri... allt samt snyrtilegt...


Dásamlegt landslag þrátt fyrir úrganginn...


Litið til baka...


Og svo var straujað alla leið í bílana...


... á stíg í lokin...


Alls 11,7 km á 4:05 klst. upp í 268 m á Stangarhálsi, 332 m á Krossfjöllum og 376 m á Ölfusvatnsskyggni... með alls 693 m hækkun úr 161 m upphafshæð...


Yndiskvöld með meiru... og síðasta þriðjudagsæfingin með þjálfurum þar til um miðjan júlí... Þorleifur, Jóhanna Fríða og Ása bjóða upp á mjög spennandi göngur næstu fimm þriðjudaga... það verður eflaust veisla eins og áður úr þeirra smiðju :-)

63 views0 comments

Comments


bottom of page