Kveðja, Finnur bóndi að Rauðafelli 3 undir Eyjafjöllum
- Bára Agnes Ketilsdóttir

- Dec 21, 2025
- 2 min read
F. 22. mars 2039. D. 7. desember 2025.

Við kveðjum með virktum, Þórð Finn Tryggvason sem lést fyrr í desember á þessu ári.
Finnur veitti okkur góðfúslega leyfi til að geyma bílana á landi sínu þegar við tókum könnunarleiðangur upp með Kaldaklifsá á Skjannanípu og Raufarfell og niður með Seljavöllum í maí á þessu ári. Hann veitti okkur mjög góðar upplýsingar fyrir gönguna og vildi ólmur koma með og sýna okkur fjallið sitt, en heilsan leyfði það ekki að sinni.
Greinargóðar lýsingar hans, djúpstæð þekkingin, leiftrandi ástríðan og augljós væntumþykjan gagnvart stórkostlegri fegurð sveitarinnar hans skein í gegnum símtalið við hann og í spjalli fyrir gönguna. Hann vildi ólmur að við bönkuðum upp á áður en við lögðum í hann um morguninn sem og við gerðum og hefðum við þar viljað gefa okkur meiri tíma til að skrafa við hann en raunin varð, enda löng og stórfengleg ganga framundan þennan ógleymanlega dag, sjá ljósmynd.
Finnur er einn af mjög mörgum bændum sem við höfum haft samband við í gegnum öll þessi ár og hafa gefið okkur haldgóðar upplýsingar, góðfúslegt leyfi til að leggja bílunum við bæjarstæðið eða þar í kring og síðast en ekki síst gefið okkur góð ráð, áður en lagt hefur verið í hann, þar sem væntumþykjan og virðingin gagnvart náttúrunni hefur einkennt svörin og tilsögnina.

Haf þökk kæri Finnur sem og allir íslenskir bændur fyrir sérlega góð kynni og einstaka vinsemd og hjálpsemi í kringum þennan magnaða göngudag sem og aðra sem við höfum verið svo lánsöm að fá að njóta í íslenskum sveitum um land allt síðastliðin tæp 19 ár. Með vinsemd og virðingu.








Comments