top of page

Lágafell og Lágafellshamrar í Úlfarsfelli niður snarbröttu brekkuna okkar árlegu

Þriðjudagsæfing 28. desember 2021

Okkar hefðbundna þriðjudagsæfing milli jóla og nýárs hefur verið á Lágafellið og svo yfir á Lágafellhamra í Úlfarsfelli niður snarbratta brekku sem blasir við hringtorginu í Mosó (ekki bratta hefðbundna leiðin í Úlfarsfelli vestan megin við skógræktina) og þetta er orðinn svo fastur liður að margir eru farnir að spyrja hvort við förum ekki örugglega þessa leið í desember... þrátt fyrir að brekkan atarna er frekar erfið og rífur vel í hjá þeim sem eru lofthræddir... en fyrstu árin fórum við frá Lágafellslaug og beint í pottinn á eftir en það hefur breyst með árunum sem má spyrja sig hvers vegna...


Þetta kvöld var auð jörð og því mjög dimmt... en um leið og við lögðum af stað gangandi fór að snjóa... ótrúlegt alveg... og allt birti upp með hvítum snjónum í myrkrinu...


Töfrar í boði nátttúrunnar sem við gætum aldrei leikið eftir... þetta var dásamlegt...


Mjög notaleg stemning milli hátíða og allir fegnir að komast út að ganga í góðra vina hópi...


Mjög vel mætt... 23 manns... Ásta Sig., Bára, Björgólfur, Elísa, Gerður Jens., Gréta, Gunnar, Inga Guðrún, Jóhanna D., Kolbeinn, Linda, Ragnheiður, Sigríður Lísabet, Sigurbjörg, Siggi, Sjöfn Kr., Súsanna, Svala, Tómas, Vilhjálmur, Þorleifur, Þórkatla og Örn og svo skoppuðust Batman og Tinni með...


Allir í keðjubrodda hér... þó snjófölin væri glæný, þá var frost í jörðu og gott að geta stungið broddunum í frosna jörðina...Á hverju ári hafa þjálfarar áhyggjur af því að brekkan verði erfið eða ófær vegna færis... það sé of mikið frost... of mikill snjór... en hún er alltaf fær... og flestir njóta þess að fara hér niður og finnst það lítið mál... en þetta er krefjandi leið fyrir þá sem glíma við lofthræðslu... og þá er um að gera að mæta og æfa sig með styrk hópsins í kringum sig... en það er samt lykilatriði að takast á við brekkuna sjálfur... ekki láta aðra segja sér hvar á að stíga og hvar skal fara... heldur vera hluti af hópnum... elta næsta mann og stíga rólega og yfirvegað til jarðar... sjá hvernig hinir fara þetta örugglega... og gera eins... ekki mikla þetta fyrir sér og ekki festast í því að fá alltaf marga í kringum sig til að segja sér hvar nákvæmlega á að stíga eða hvar á að fara... því þá festast menn í þeirri aðferð og komast aldrei út úr henni...


Maður lærir þetta eingöngu með því að gera þetta sjálfur... að glíma við lofthræðslu er eins og að læra að hjóla... ef það heldur einhver alltaf í stýrið hjá manni þegar maður er að hjóla... þá lærir maður aldrei að finna jafnvægið sjálfur og nær aldrei valdi yfir hjólinu... þannig að okkar ráð er þetta: fylgja hópnum og fara sömu leið og hinir fóru á undan... ekki reyna að finna aðra leið... hún er sjaldnast betri... heldur feta í fótspor hinna, sjá hversu öruggir þeir eru... stíga varlega og yfirvegað til jarðar og uppgötva í hverju skrefi að þetta er vel hægt... að maður getur þetta eins og hinir og þjálfa þannig öryggið smám saman í hverri ferð...


Mögnuð leið með frábæru útsýni yfir Mosfellsbæinn í ljósadýrðinni...


Efri hluti brekkunnar er brattur á möl með lausagrjóti ofan á og þar sem jörðin var frosin þá var færið sérlega krefjandi og lítið hald í jarðveginum... broddarnir héldu hins vegar vel og brekkan er slík að maður dettur eingöngu á bossann ef maður dettur yfirleitt... og því var ráð að halda yfirvegun og fara þetta í rólegheitunum niður í krafti hópsins... neðar er svo skaplegra færi og kominn meiri stígur sem gott hald er í og þá er eftirleikurinn auðveldur...


Þegar við fórum hér niður fyrst í desember 2008... voru trjágræðlingar neðst í hlíðunum og við gættum þess að kremja þá ekki... árin á eftir uxu þessir græðlingar og voru skyndilega farin að vera tré sem við þurftum að fara á milli... síðustu ár höfum við svo ekki getað farið milli trjánna heldur þurft að fara framhjá skógarlundinum öllum... það er aldeilis magnað... þessi tré vaxa sem sé á 13 árum svona mikið... úr græðlingum í skógarlund frá 2008 til 2021 !


Pílan á mynd bendir á brekkuna sem við fórum niður um... gerði þetta í símanum og náði ekki að gera píluna minni :-) :-) :-)


Fallegt kvöld sem rættist aldeilis úr með friðsælli snjókomu sem lýsti allt upp fyrir okkur á töfrandi máta...


Lágafellskirkjugarður er með eindæmum fallegur... krossarnir á leiðunum mun fallegri en í Reykjavík...Alls 5,4 km á 1:54 klst. upp í 267 m hæð með alls 346 m hækkun úr 55 m upphafshæð...


Förum sem oftast brattar brekkur... klöngrumst sem oftast... förum alltaf erfiðari leiðina frekar en þá léttustu... einmitt til að æfa öryggi í bratta... og þjálfar þannig fjallamennskuna okkar betur en ella...


Vinafjallsganga á Úlfarsfellið á Gamlársdag þar sem við fögnum #vinafjalliðmittx52 þar sem menn fóru 52 - 100 ferðir á vinafjallið sitt á árinu... það er alveg magnað !

31 views0 comments

Comentarios


bottom of page